Þriðjudagstæknin: Samskipti við tölvur

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru boðleiðirnar sem við notum til að koma vitinu fyrir tölvurnar okkar – og þær fyrir okkur.

Samskipti okkar við tölvur eru í rauninni afar frumstæð. Við notum mús og lyklaborð til að skipa tölvunni fyrir og hún birtir okkur skilaboð á skjá. Einhver myndi vilja bæta við hljóði og jafnvel mynd, en sannleikurinn er sá að bæði hljóðnema og hátalara notum við nær eingöngu til afþreyingar, eða til að eiga í samskiptum við annað fólk í gegnum tölvuna, ekki við tölvuna sjálfa.

Skjáir
Skjáirnir sem við notum í dag eru í raun pínulitlir. 19 eða jafnvel 21 tommu skjár kann að virðast stór, en það er bara vegna samanburðar við enn minni skjái sem við höfum vanist í gegnum tíðina.

Skjárinn og skjáborðið er vinnusvæði okkar “þekkingariðnaðarmanna” – þetta er okkar skrifborð. Hver myndi láta bjóða sér 19 tommu skrifborð? Og hversu miklu kæmi maður í verk ef maður þyrfti sífellt að umraða til að koma öllum bókum og skjölum fyrir þar?

Nær allar fartölvur ráða við að birta skjámynd á viðbótarskjá og stækka þannig vinnusvæðið. Það sama er hægt að gera á borðtölvum en þá þarf reyndar tvö skjákort í vélina. Fyrir þá sem vinna með mikið af upplýsingum eða stór skjöl (t.d. forritara, verðbréfamiðlara og grafíkera) er ekki spurning að fjárfesting í öðrum skjá borgar sig.

Músin
Það er svolítið skondið að það tól sem við notum hvað mest til að koma tölvunni í skilning um hvað við viljum, er jafn frumstætt og við getum ímyndað okkur að hellisbúar hafi notast við áður en tungumálið var fundið upp. Við bendum í áttina að einhverju (færum músarbendilinn yfir það), rymjum (smellum) og bendum svo í áttina að einhverju öðru og rymjum aftur – stundum jafnvel tvisvar (tvísmellum). Ekki ósviparð og Þorsteinn Guðmundsson í “búddí-búddí” auglýsingunni frá KB banka (titillinn er “Tungumál”).

Auðvitað virkar þetta ágætlega, en það rúmast ekki miklar upplýsingar í hverri músaraðgerð.

Lyklaborðið
Öflugasta tækið sem við höfum til að tjá okkur við tölvur í dag er lyklaborðið. Það er ekki endilega vegna þess að það sé svo notendavænt, heldur vegna þess að þar erum við að nota þann tjáskiptamáta sem gefst best okkar á milli – tungumálið (eða allavegana svona eitthvað í áttina).

Þeir sem eru vanir að nota skipanalínu og flýtitakka í forritum eru mun fljótari að vinna flest verk en við hin sem þurfum að færa höndina á músina í hvert sinn sem þarf að gefa einhverja skipun.

Á margan hátt má segja að skipanalínan hafi fengið endurnýjun lífdaga með Google-leitarboxinu – sem er eins konar skipanalína okkar á Vefinn: Við sláum inn það sem við viljum gera eða finna og það birtist eins og hendi væri veifað.

Slík notkun á bara eftir að aukast og þessi aðferðafræði verður tekin lengra þegar leitarvélar fara að skilja betur hvað átt er við, t.d. með því að þekkja nöfn á hlutum svo sem fólki, stöðum og viðburðum og reyna að vinna meira með það. Ofurlítið dæmi um slíkt má m.a.s. finna í Emblunni okkar, sem þekkir m.a. heimilisföng, bókatitla, símanúmer og skammstafanir og reynir að veita viðbótarupplýsingar eða -þjónustu byggða á því.

Aðra athyglisverða (og mjög svo nördalega) tilraun til að endurvekja skipanalínuna má sjá í YubNub þjónustunni sem nota má til að gefa hinar og þessar skipanir á leitarvélar, reiknivélar og vefþjónustur með textaskipunum.

Talviðmót
Það er okkur mjög eðlilegt að tjá okkur með tali. Jafnvel þó það væri ekki samfellt tal, heldur stakorðar skipanir væri það stórt skref í áttina að bættum samskiptum manns og tölvu: “opnaðu ársskýrsluna”, “finndu símanúmer Jóns Jónssonar” o.s.frv. Slíkt er tæknilega mögulegt í dag (jafnvel á íslensku), en samt þyrfti býsna umfangsmikið kerfi til að skilja alla þá ótal vegu sem hægt er að segja sömu hlutina.

Talviðmót hafa líka ákveðna praktíska galla. Ímyndið ykkur til dæmis kliðinn sem myndi myndast ef allir vinnufélagar ykkar væru í sífellu að tala við tölvuna sína? Mér finnst nógu truflandi þegar menn í kringum mig grípa símann í eitt og eitt símtal. Að sama skapi myndi slíkt mal reyna talsvert á raddböndin, nokkuð sem t.d. fólk í kennarastétt kannast við – og þá ekki af góðu.

Talviðmót munu þó án efa verða notuð í auknum mæli eftir því sem talgreiningu fleygir fram og ekki spillir að sífellt fleiri eiga nú heyrnatól með hljóðnema, samhliða aukinni notkun Skype og annarra VoIP lausna.

Augn- og líkamshreyfingar
Bendingar, augnatillit og líkamstjáning er stór hluti af okkar náttúrulegu samskiptum. Stundum hafa menn reynt að kasta einhverri tölu á það hve stór hluti merkingarinnar sé tjáður á þennan hátt og man ég þar eftir að hafa heyrt tölur á bilinu 25-50% – hvernig í ósköpunum sem það er nú mælt.

Það eru þegar til tól sem geta fylgst mjög nákvæmlega með því hvert fólk er að horfa. Slík tól hafa m.a. verið notuð til að gera áhugaverðar rannsóknir á því hvernig fólk les vefsíður. Einnig mætti hugsa sér að á sama hátt mætti stýra bendli á skjá í stað músarkvikindisins.

Og jafnvel þó nútíma myndgreining kæmist sjálfsagt ekki langt í að lesa í líkamstjáningu okkar, gæti tölva lesið mikilvægar upplýsingar ef hún “sæi” umhverfi sitt. Það eitt hvort yfirhöfuð einhver hreyfing sé við tölvuna gæti hjálpað til við gáfulega hegðun tölvunnar, t.d. hvenær á að keyra vírusleit, eða hvenær á að starta skjásvæfunni.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s