Þriðjudagstæknin: Er Internetið að hrynja?

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru endalok Internetsins.

Grein í nýjasta hefti tækniblaðsins Technology Review hefur vakið nokkra athygli í tækniheiminum síðustu daga. Greinin fjallar um galla og takmarkanir Internetsins sem viðmælendur rekja til skorts á skipulagningu og hönnun við uppbyggingu netsins og þeirra staðla sem það byggir á.

Einn þeirra, David D. Clark segir m.a.s. að Netið sé á vatnaskilum – ef ekkert verði að gert muni allt heila klabbið bara hrynja. Einhverra hluta vegna varð mér hugsað til Unga Litla í þessu samhengi.

Gamlir nethundar muna kannski eftir svipuðum fullyrðingum Bob Metcalfe (mannsins sem stofnaði 3Com og fann upp Ethernetið – hvort tveggja stórir þættir í því að gera Netið að því sem það er) árið 1995 þegar hann skrifaði að hann myndi borða dálkinn sinn í Info World ef Internetið myndi ekki hrynja árið 1996 – sem hann og gerði á ráðstefnu ári síðar fyrir framan þúsundir áhorfenda – með stórri skeið 🙂

Nú er ég ekki að segja að Netið sé gallalaust. Langt því frá. Og hún er ekki falleg myndin sem dregin er upp í greinni. Nokkrir punktar:

  • Tölvur 43% Bandaríkjamanna hafa sýkst af njósnahugbúnaði
  • Tilraunum til tölvuglæpa fjölda vírusskeyta í tölvupósti fjölgaði um 50% á fyrri helmingi ársins 2005
  • 60% af öllum tölvupósti í heiminum er kæfa og sem dæmi jókst kæfumagn þeirra fyrirtækja sem Symantec þjónustar um 77% frá 1. júlí til 31. desember á síðasta ári
  • Að auki er netsamband víða ótryggt eins og við þekkjum mætavel

Til að mæta þessum ósköpum öllum vilja ýmsir byrja upp á nýtt. Hanna nýtt Internet með innbyggðum öryggisstöðlum, forgangsmöguleikum, dulkóðun og vörnum gegn ýmiskonar óværu.

Það hljómar alltaf voða vel að hanna eitthvað frá grunni og byrja upp á nýtt. En það vill gleymast að hlutir sem hafa fengið að þróast í langan tíma – hafa byggt inn ýmiskonar þekkingu og lausnir á vandamálum sem nær ógerlegt er að sjá fyrir á hönnunarstiginu. Sveigjanleika og fjölbreytni Internetsins má að stórum hluta rekja til þess að það var voða lítið hannað og planað fyrirfram. Fyrir hendi var einfaldur grunnur og hugmyndaríkir menn og konur fundu leiðir til að nýta það til hins ýtrasta.

Ef reynt er að hugsa fyrir of miklu í upphafi er líklegt að óafvitandi yrði lokað á ýmsa stórsnjalla möguleika sem ómögulegt var að sjá fyrir.

Öryggismál, vírusar og áreiðanleiki eru vissulega vandamál, en þau verða leyst og er verið að leysa með þróun – þau verða ekki leyst með byltingu.

Enn sem komið er hefur engum tekist að spá réttilega fyrir um heimsenda og ég leyfi mér að fullyrða að það sama gildi um spádóma um endilok Internetsins. Hins vegar geta slíkar hrakspár verið gagnlegar til að hrista upp í fólki og vekja það til umhugsunar – og líklega er það nú bara það sem vakir fyrir David Clark og félögum.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

One comment

  1. Það vill líka oft gleymast finnst mér að netið er ekki nema rétt rúmlega 15 ára eða svo. Það tekur auðvitað langan tíma fyrir svona tækni að þróast.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s