Þegar ég var lítill í sveitinni hjá afa og ömmu, þurfti að fella gamlan hest. Ef ég man rétt var þetta sorglegt, en nauðsynlegt – það er skilningurinn sem ég legg í orðið að “fella”.
Nýlega fannst mér ég svo taka eftir ákveðnu mynstri í umfjöllun íslenskra fjölmiðla. Getur verið að Írakar og Palestínumenn séu felldir, en Bandaríkjamenn og Ísraelar frekar drepnir, myrtir eða falli (að “falla” er mildur dauðdagi, og mun manneskjulegara en að “vera felldur”)?
Ef þetta eru ekki bara hugarórar í mér, hvaðan er þá þessi munur kominn og hvað veldur?
Ég komst svo auðvitað að því þegar ég fór að leita á Emblunni að fleiri hafa velt þessu fyrir sér:
- Fyrirhyggju við gerð fyrirsagna: Ef við drögum þetta saman til einföldunar getum við sagt að Palestínumenn séu felldir og drepnir til jafns en Ísraelsmenn eru drepnir í eingöngu þriðjungi tilfella en falla í hinum tveim þriðju.
- Fjöldamorðin í Palestínu og hneykslanleg umfjöllun fjölmiðla: Ein sorglegasta þumalputtaregla sem íslenskir fjölmiðlar nota þegar sagt er frá atburðum dagsins er sú að Palestínumenn eru sagðir “skotnir til bana”, “felldir” eða “hafa orðið fyrir” kúlum ísraelskra “öryggissveita”. Á meðan eru Ísraelsmenn “myrtir” af Palestínumönnum, í sumum tilfellum á “hrottalegan hátt af æstum múg”.
Það að falla hefur ekki bara mildað yfirbragð heldur jafnvel hetjulegt – hetjur falla í bardaga.