Við Spurl-menn erum búnir að vera að kenna leitarvélinni okkar, sem meðal annars knýr Emblu hjá mbl.is, nokkur ný og sniðug trikk síðustu vikurnar og kannski ekki vitlaust að vekja smá athygli á þeim.
Hugmyndin er sem sagt sú að reyna að veita notendum meiri þjónustu en bara hráa textaleit í þeim tilfellum þegar hægt er að þekkja leitarstrenginn sem eitthvað ákveðið eins og nöfn á fólki, símanúmer eða bókaheiti, svo dæmi séu tekin.
Meðal þess sem er komið inn er eftirfarandi. Endilega smellið á tenglana með hverju dæmi til að sjá hvernig hvert dæmi fyrir sif er afgreitt:
- Mannanöfn: t.d. Jón Jónsson. Ef leitarstrengurinn þekkist sem nafn, birtum við tengla á uppflettingu í símaskrám Já.is og Og Vodafone eftir sama nafni. Nú þarf bara að slá nafnið á nýjasta skotinu inn á einum stað þegar verið er að leita að upplýsingum um viðkomandi 🙂
- Símanúmer: t.d. 4404000. Hver var að hringja? Embla birtir tengla á símaskráruppflettingu.
- Heimilisföng: t.d. Efstaleiti 1. Enn og aftur símaskrár-uppfletting, en líka tengill í uppflettingu á bestu leið þangað með strætó.
- Nöfn rithöfunda: t.d. Arnaldur Indriðason. Smá upplýsingar um höfundinn og tengill yfir á nánari upplýsingar hjá útgefanda (enn sem komið er bara fyrir Eddu-útgáfu – u.þ.b. 200 höfundar)
- Bókartitlar: t.d. Íslandsatlas. Smá upplýsingar um bókina og tengill á nánari upplýsingar hjá bóksöluvefjum (enn sem komið er Edda og Bækur.is – u.þ.b. 1800 bókatitlar)
- Netföng: t.d. hjalli@hjalli.com. Uppfletting í símaskrá og tengill til að senda póst á viðkomandi addressu.
Við erum með langan lista af svipuðum tilfellum sem við ætlum að þekkja og veita viðbótarupplýsingar um. Eins og sjá má af sumum dæmanna að ofan, þá eru þau gerð í samvinnu við fyrirtæki, þ.e. eins konar auglýsingar. Hugmyndafræðin á bak við þetta er engu að síður sú að gagnsemin fyrir notandann sé alltaf í fyrsta sæti. Þessar “sérstöku leitarniðurstöður” eiga alltaf að vera upplýsingar og tenglar sem eru líklegar til að koma notandanum til góða miðað við þau leitarorð sem hann eða hún sló inn. Ef hægt er að samtvinna það við einhverjar tekjuleiðir fyrir okkur eða samstarfsaðila okkar, þá er það svo bara kostur.
Notandinn fær gagnlegar upplýsingar, samstarfsaðilinn góða augýsingu og við nýja tekjustrauma. Allir vinna 🙂
Ég verð að monta mig pínulítið af beygingartækninni okkar sem nýtur sín vel þegar leitað er að nöfnum (t.d. leit að Hjálmar Gíslason) og sýnir nöfnin í réttri beygingu. Þetta er þjónusta frá okkur, byggð á gögnum frá Orðabók Háskólans. Ef einhver hefur áhuga þá er hægt að fá aðgang að þessum möguleikum sem einfaldri vefþjónustu gegn vægu gjaldi.
Ef þið eruð með hugmyndir að fleiri tegundum “sérstakra leitarniðurstaðna” hvort sem er frá sjónarhóli notanda eða samstarfsaðila, þá endilega setjiði ykkur í samband við mig (hjalli@spurl.net) eða skiljið eftir komment hér að neðan.
P.S. Hér er nýrri færsla um fleiri Emblu-trikk…
Ég er mikill áhugamaður um samstarf leitar og korta. Ég hef ekki ennþá séð góða lausn á netinu til þess að finna götur og staðsetningar á Íslandi. Kortið sem maður getur fengið upp á Já.is er “þumalputtakort”, alls ekki vel útfært. Borgarvefsjáin er ágæt en maður nennir hreinlega ekki að fara inn á hana þegar maður vill flýta sér að finna einhverja gotu því hún er frekar stór og þung. Maður endar alltaf á sínum stað, í símaskránni, the hard copy.
Ég treysti því að þið Spurlmenn leysið þetta á góðan hátt (getið fengið Stebba Má með ykkur sem kortameistara) 😉
Ég hef heyrt því fleygt að nokkrir aðilar séu að skoða svona “Google maps”-lega útfærslu fyrir Ísland, þ.e. ef Google verða ekki hreinlega fyrri til.
Að vísu gera Landmælingar þetta ekki einfalt með tiltölulega gamaldags hugsanahætti og erfiðum leyfismálum. Góður maður orðaði það reyndar sem svo að við værum búin að borga fyrir þessi kort með skattpeningum (til að reka Landmælingar í gegnum áratugina) og ættum þessvegna heimtingu á að fá aðgang að þeim á kostnaðarverði (þ.e. prent-, brennslu eða sendingarkostnaður). Ekki að maður sjái það alveg fyrir sér gerast.
Og já – við munum að sjálfsögðu samtvinna okkar leit við slíka lausn þegar hún kemur fram.
Hello nicee post