Þriðjudagstæknin: Tæknispá – átta hlutir sem gerast árið 2006

Í Þriðjudagstækninni í dag ætlum við að kíkja í kristalskúluna og velta fyrir okkur hvað árið 2006 muni hafa í för með sér í tölvu- og tæknigeiranum.

“Það er erfitt að spá, einkum um framtíðina” er haft eftir danska eðlisfræðingnum Niels Bohr. Engu að síður keppast menn um hver áramót við að reyna að spá fyrir um það hvað komandi ár muni hafa í för með sér og ég get auðvitað ekki verið minni maður.

Hér eru átta hlutir sem ég spái að muni gerast á árinu 2006 í heimi tækni, tölva og internetsins:

 • Íslenskt sprotafyrirtæki verður keypt af erlendu stórfyrirtæki. Það eru nokkur lítil fyrirtæki að gera virkilega flotta hluti þessa dagana. Félagar mínir í Hex og dohop, eru þar á meðal. 3-plus (sem framleiðir DVD-kids) kemur vel til greina líka. CCP, Industria og Friðrik Skúlason geta nú líklega ekki talist sprotafyrirtæki lengur en eru öll að gera hluti sem gætu hæglega lent þeim á innkaupalista einhvers risanna sem eru margir í innkaupaleiðöngrum þessa dagana, eiga gríðarlega fjármuni og standa frammi fyrir aukinni samkeppni.

 • Tölvudeild a.m.k. eins af bönkunum verður spunnið frá og gert að sér fyrirtæki sem mun herja á alþjóðamarkað. Það sem bankarnir eru að bjóða upp á hér á landi, t.d. heimabankarnir okkar eru líklega þeir bestu í heiminum. Eins gæti vel verið að einhver finni áhugaverðan flöt á að nýta einstaka möguleika Reiknistofu Bankanna í stærra samhengi, en það er staðreynd að víðast hvar í heiminum tekur 2-3 daga að millifæra peninga á milli bankastofnanna og jafnvel á milli reikninga hjá sama banka, sem hlýtur að þýða að það séu tækifæri í bættri þjónustu.

  …og ekki spillir fyrir að slíkt “spin-of” ætti að hafa tiltölulega góðan aðgang að fjármagni.

 • Leitarvélar halda áfram að breyta heiminum. Vefsíður fyrirtækja munu í auknum mæli leggja áherslu á leit, frekar en flokkuð veftré og leitarboxin fá aukið vægi á síðunum (hér ætti ég náttúrulega skammlaust að vera með auglýsingu enda er Spurl ehf. mér vitanlega eina fyrirtækið á landinu sem sérhæfir sig í hverskonar leit).

  Leit á hörðum diskum og í tölvupósti verður líka gerð öflugari og einfaldari, en innbyggða leitarvélin í Windows Vista sem kemur út í haust mun valda vonbrigðum – ekki síst vegna þess að Microsoft þarf að passa sig á samkeppnisyfirvöldum eftir rimmur síðustu ára.

 • Vöxtur í tölvugeiranum heldur áfram, en þó hægar og með meira á bakvið sig en fyrir 5-6 árum síðan. Þetta mun valda tilfinnanlegum skorti á góðu fólki í tölvugeiranum hér heima. Fyrirtæki munu mæta þessu með úthýsingu að einhverju leiti, en einnig verður ýtt á að boðið verði upp á stuttar, praktískar námsbrautir þar sem efnilegum tölvunörðum og fikturum er breytt í hæft starfsfólk á skemmri tíma en hefðbundið háskólanám, t.d. 12 mánaða nám án sumarfrís.

 • Græjur verða í auknum mæli nettengdar. Uppfærslur á PlaystationPortable (sjá pistil síðustu viku) munu gera mun meira úr nettengunum, notkun á neti í gegnum síma mun byrja að ná sér á flug samhliða auknu framboði á slíkum þjónustum. Mac Mini frá Apple og Playstation 3 munu keppa um að vera “stofutölvan”, þ.e. nettengda boxið sem við notum til að stýra tónlist, sjónvarpsefni og annarri afþreyingu inni í stofu.

 • Google, Yahoo!, TiVo, Netflix, MSN og Apple munu öll stórbæta eða koma fram með nýjar myndveitur og “sjónvarps”-þjónustur. Jafnframt munu koma fram nýjar og áhugaverðar myndveitur sem byggja á peer-to-peer lausnum – löglega.

 • “End-user generated content”, sem e.t.v. má kalla “Efni frá alþýðunni” 🙂 upp á íslensku, þ.e. blogg, tónlist án hefðbundinna útgáfenda, heimagerð myndbönd og slíkt mun skipa sífellt stærri sess og fram koma módel sem gera þessu skapandi fólki færi á að hafa einhverjar tekjur af því sem það er að gera.

 • Síminn mun fara í útrás, enda erfitt að sjá hvernig Íslandsmarkaður einn getur staðið undir verðmati fyrirtækisins og þeim skuldbindingum sem fjárfestarnir hafa gert til að kaupa það. Fyrirtækið er tæknilega fullkomið fjarskiptafyrirtæki og hefur á að skipa þekkingu sem getur hæglega nýst annarsstaðar, ekki síst á ört vaxandi mörkuðum t.d. í Austur-Evrópu og í Bandaríkjunum (já þetta er ekki ásláttarvilla, það eru ýmis sóknarfæri í Bandaríkjunum), en það eru vissulega fleiri um hituna.

Spennandi ár framundan. Kannski verð ég fenginn til að skrifa Tölvuspá Vikunnar fyrir 2007 😉


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

5 comments

 1. Þú getur farið á VefTíVí og skoðað “Fréttavaktin fyrir hádegi” á þriðjudegi og spólað svo svona sirka 2/3 áfram í fælnum! Og það virkar ekki í Firefox.

  M.ö.o. það er hægt, en brotaviljinn þarf að vera afar einbeittur.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s