Þriðjdagstæknin: CES sýningin

Efni Þriðjudagstækninnar í dag er CES raftækjasýningin í Las Vegas

Á hverju ári flykkjast tækjanördar í stórum hópum til Las Vegas í byrjun janúar til að vera viðstaddir CES (Consumer Electronics Show) raftækjasýninguna. Þarna keppast framleiðendur við að sýna það nýjasta í raftækjum fyrir neytendamarkað, allt frá risastórum flatskjám og vélmennum niður í sólgleraugu með innbyggðum skjám, tölvupenna og minniskort.

Það setur að vísu smá svip á samkomuna á hverju ári að Apple tekur ekki þátt í sýningunni, enda halda þeir sýna eigin pílagrímasamkomu – Macworld – í vikunni á eftir (þ.e. í þessari viku), en nóg er nú samt af flottum græjum á svæðinu:

Sony Reader
Rafbókum var ætlað stórt hlutverk í kringum aldamótin, en þær sem komu á markaðinn þá voru stórar og þungar, höfðu lélega skjái, rafhleðslan entist stutt og það sem verst var, það var ósköp lítið efni að fá í þær.

Sony kynnti á CES nýja rafbók, sem nefnist Sony Reader. Tæknilega felst helsta snilldin í Sony Reader-num í skjánum, sem er alveg nýrrar gerðar. Þetta er ekki kristals eða plasmaskjár eins og við þekkjum úr lófatölvum og flatskjám, heldur svokallað eInk, eða rafBlek – tækni sem hefur verið í þróun hjá samnefndu fyrirtæki síðan 1997 og kom upphaflega úr rannsóknaverkefni við MIT tækniháskólann í Boston.

Í stuttu máli samanstendur “skjárinn” af ótalmörgum litlum kúlum, sem hver um sig er á stærð við breidd mannshárs. Með því að hleypa rafstaumi á kúlurnar færast til örsmáar svartar og hvítar agnir inni í þessum kúlum – þær hvítu eru jákvætt hlaðnar og þær svörtu neikvætt með réttri spennu má þannig fá yfirborðið sem snýr að lesandanum til að sýna grátóna allt frá svörtum niður í hvítt (nánar hér).

Með þessu móti fæst háupplausnarskjár sem notar ákaflega lítið rafmagn (ekkert þegar ekki er verið að fletta). Það er ekkert innbyggt ljós og því þarf skjárinn utanaðkomandi birtu og þolir jafnvel vel sólarljós – rétt eins og venjuleg bók, en öfugt við alla skjái hingað til. Og rafhlaðan endist fyrir vikið í 7.500 flettingar.

Með öðrum orðum, þú gætir rennt í gegnum allar Harry Potter bækurnar, biblíuna, Íslendingasögurnar og Þúsund og eina nótt og átt samt eftir nóg eftir af batteríinu til að lesa Símaskrána í ár og í fyrra 🙂

Sony hefur líka komið sér í mjúkinn hjá allmörgum stórum bókaútgefendum sem munu selja bækur sínar í gegnum Sony Connect – vefverslun Sony – í þeirri von að rafbækur verði jafnvinsælar og rafræn tónlist og myndbönd – en það sem hefur helst staðið í vegi fyrir því eru yfirburðir bókaformsins.

Google selur myndefni
Google er strax farið að fylla upp eitthvað af spádómum mínum frá síðustu viku og kynnti til leiks endurbætta myndefnisveitu með því að útvíkka Google Video í Google VideoStore (sjá fréttatilkynningu hér).

Google menn virðast veðja á tvo megin efnisstrauma til að byrja með, efni frá CBS sjónvarpsstöðinni (svo sem Star Trek, CSI, Survivor og I love Lucy) og efni úr bandaríska NBA körfuboltanum.

Mér þykja Google menn fara full hratt yfir sviðið og gamla mottóið þeirra að “gera einn hlut og gera hann vel” er löngu farið fyrir bí. Google Video gæti alveg orðið “player” í þessum leik, en þeir munu seint ná samstarfi við nógu stóran hluta markaðarins til að verða eitthvað á borð við það sem t.d. iTunes er fyrir tónlist. Til þess eru þeir búnir að höggva of nærri aðilum eins og Sony, Microsoft og News Corp á öðrum vígstöðvum – sem síðan eiga ítök í stórum efnisframleiðendum sem munu seint veita sínu efni í gegnum Google.

Gáfaðir pennar
Ég hef í nokkur ár fylgst með og dáðst að sænsk-ættaða fyrirtækinu Anoto. Fyrirtækið framleiðir penna sem auk þess að skrifa – rétt eins og ætlast er til af slíkum gripum – taka líka upp það sem skrifað er og færa á stafrænt form, annað hvort sem teikningar eða texta.

Dæmi: Þú krotar hjá þér glósur á fundi eða í tíma í skólanum og í staðinn fyrir að þurfa að vélrita fundargerðina eða glósurnar inn í tölvu, hleðurðu textanum bara inn í tölvuna yfir þráðlausa tengingu (Bluetooth). Tóm snilld.

Á CES var annað fyrirtæki á ferðinni með sams konar hugmyndir og komst talsvert í pressuna fyrir vikið, en það var EPOS með sinn Digital Pen. EPOS pennarnir eiga að koma á markað seinna á árinu og kosta allt niður í 50$ eða um 3.000 krónur – spurning hvort BIC eigi svar við þessu? 😉

Með skjánn á nefinu
Að minnsta kosti tvö fyrirtæki kynntu sólgleraugu með aukabúnaði. Annars vegar EMagin með Eyebud-línuna sína, þar á meðal Eyebud 800, sem er með pínulítinn skjá innbyggðan í gleraugun þannig að hægt er að horfa á video, t.d. úr iPod video græjunni sem við skoðuðum í Þriðjudagstækninni um jólin. X800 módelið er hægt að tengja við fartölvuna í staðinn. Skyldi mega keyra með þennan “handfrjálsa” búnað? Z800 er svo stóri bróðirinn, en sú útfærsla er einkum hugsuð fyrir leikjafrík og getur skynjað hreyfingar höfuðsins og stýrt með því t.d. leikmanni í þrívíðum skotleikjum.

Hins vegar hefur hinn ofursvali sólgleraugnaframleiðandi Oakley tekið höndum saman með Motorola og framleitt ný sólgleraugu með þráðlausum (Bluetooth aftur) heyrnatólum sem tengjast ROKR símanum (þessum með iTunes í). Gripurinn heitir OROKR og spurning hvort að Ray-Ban fari ekki að verða svoldið gamaldags í kjölfarið.

– – –

Til að sjá meira af öllum þeim aragrúa af dóti sem kynntur var á CES, má t.d. kíkja á eftirfarandi greinar:


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s