Þriðjudagstæknin: Svæðaskipt internet

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru tilraunir manna til að binda þjónustuþætti og dreifingu á efni á netinu við svæði og landamæri með misjöfnum árangri.

Vissir þú að Internetið er ekki alls staðar eins?

Ýmsar efnisveitur, þjónustur og vefir laga sig að því hvar notandinn er staddur í heiminum, ýmist til hins betra eða hins verra.

Ástæður þessa geta verið hinar og þessar. Í sumum tilfellum er um að ræða tilraunir til einhverskonar ritskoðunar, annað hvort að hálfu stjórnvalda, eða þess sem rekur síðuna. Í öðrum tilfellum er um að ræða leyfismál sem hafa ekki enn lagað sig að breyttum aðstæðum og stundum er verið að reyna að aðlaga þjónustuna að notandanum, t.d. með því að velja sjálfkrafa rétt tungumál, birta staðbundnar auglýsingar eða fela þjónustuþætti sem ekki eiga við á viðkomandi svæði.

Þegar farið er inn á vefsvæði Google í fyrsta skipti frá tölvu á Íslandi, birtist viðmót síðunnar á íslensku. Þessi eiginleiki, eins og flestir slíkir eiginleikar byggja á því að IP tölu tölvunnar (IP talan er eins konar auðkenni eða heimilisfang tölvunnar á netinu) er flett upp í töflum sem tengja ákveðnar IP tölur, eða öllu heldur raðir af IP tölum, við ákveðinn stað í heiminum. Oft er þetta bara ákveðið land, en stundum er þetta jafnvel enn þrengra og hægt að segja til um það í hvaða borg eða jafnvel borgarhluta notandinn er, hafi maður til þess nægilega góðar upplýsingar.

Ef þú hefur áhuga, getur þú séð þína eigin IP-tölu hér. Á þessum lista, má sjá IP-talnaraðir allra íslenskra tölvuneta. Hvert tölvunet tilheyrir einu fyrirtæki eða rekstraraðila, yfirleitt fjarskiptafyrirtæki. Með því að þekkja dreifisvæði viðkomandi fyrirtækis má nokkuð örugglega segja til um staðsetningu notanda með IP-tölu í viðkomandi runu. Meira að segja á Íslandi má þrengja hringinn nokkuð útfrá IP-tölu notandans.

Það má sækja svona lista allvíða á Vefnum og með slíkan lista við höndina getur í raun hver sem er á frekar einfaldan hátt sett upp staðbundna þjónustu á netinu. Sem dæmi má benda á vefsíðu GeoIP frá MaxMind, en þar er líka hægt að prófa að fletta upp IP tölum og sjá hvar þær eru staðsetta, skv. gögnum MaxMind. Á vefsíðunni IP-to-country er líka hægt að sækja stóran lista af slíkum upplýsingum frítt.

En nóg um tæknina. Hvernig er fólk að nota þetta?

Vondu notin

Allþekkt dæmi eru tilraunir nokkurra þjóða, s.s. Kína og Singapore til að takmarka aðgang þegna sinna að efni á Vefnum sem er stjórnvöldum þar miður þóknanlegt. Í báðum löndum voru stjórnvöld með fólk í vinnu við að ritskoða vefsíður og samþykkja eða hafna aðgangi að þeim fyrir íbúana.

Við skulum sleppa allri umræðu um réttmæti eða skynsemi þessarra aðgerða í bili, en þetta þýðir að venjulegun kínverskur netnotandi er mjög erfitt að komast í óritskoðaðar upplýsingar um það sem er að gerast í heiminum – enn erfiðara en okkur hinum, þ.e.a.s. 😉 Tæknilega er hins vegar mjög erfitt að koma fullkomlega í veg fyrir þennan aðgang. Nördarnir hafa svo sem fundið leiðir fram hjá þessu (með notkun proxy þjóna utan Kína), en slíkt er ólöglegt og aðstandendur slíkra tilrauna hafa verið fangelsaðir fyrir.

Nokkuð frægt er að vefsíða George Bush (ekki lengur til sem slík) var ósýnileg notendum utan Bandaríkjanna í aðdraganda kosninganna 2004. Þrátt fyrir allar samsæriskenningar var ástæða þess sú að óprúttnir aðilar einhvers staðar í heiminum stóðu fyrir árásum á vefsvæðið og tæknimenn Bush og félaga sáu þann möguleika einan í stöðunni að loka bara á allt utan US of A. Það er ekki svo margt þar fyrir utan hvort eð er, er það nokkuð?

Svo eru það blessuð leyfismálin. Það mun taka þau allnokkur ár til viðbótar að aðlaga sig að “heimsþorpinu” á Vefnum. Gott dæmi er iTunes verslunin sem er algerlega bundin við þau lönd þar sem Apple hefur náð samningum við eigendur flutningsréttar. Ísland er að sjálfsögðu ekki þar á meðal, enda áreiðanlega ekki ofarlega á lista Apple og STEF alveg áreiðanlega guðs lifandi fegnir. Og ekkert vera að reyna að svindla á þessu – jafnvel þó þú verðir þér úti um Bandarískt greiðslukort og borgir fyrir tónlistina sem þú halar niður af iTunes er hún alveg jafn stolin – þú ert ekki að greiða fyrir flutningsrétt á Íslandi. En sú hringavitleisa.

Nýja Google Video verslunin er enn eitt dæmið. Þar gefst Bandaríkjamönnum kostur á að horfa t.d. á NBA leiki fyrir 2$ stykkið, en ekki okkur hérna. 365 á nefnilega íslenska flutningsréttin og Google samdi bara um Ameríkumarkað.

Þetta er þó a.m.k. að einhverju leiti skiljanlegt. Lög eru jú lög og það tekur tíma að breyta þeim, ekki síst þegar hagsmunaaðilar telja það sér til góða að ekkert breytist. Prófið hins vegar að fara á vefsíðu SHO kvikmyndafyrirtækisins. Þetta er fyrirtækið sem framleiðir m.a. sjónvarpsþættina “The L Word” og “Dead like me” og kvikmyndir á borð við A Few Good Men, Farenheit 9/11 og Tombstone.

“We at Showtime Online express our apologies; however, these pages are intended for access only from within the United States.” – hvað meiniði eiginlega? Hver gæti mögulega verið ástæðan til að leyfa manni ekki að lesa um þætti sem maður sér í sjónvarpinu upp á hvern dag?

Ef þið viljið sjá hvað er á þessari stórhættulegu síðu (eða öðrum lokuðum síðum), þá getið þið notað síður á borð við SpySurfing og slegið þar inn veffang viðkomandi síðu.

Góðu notin

Á hinn bóginn er þessi sama tækni líka notuð í góðum tilgangi. Áður hefur verið nefnt dæmið um að velja tungumál eftir því hvaðan notandinn kemur. En það er bara lítið dæmi. MSN spjallforritið sem flestir tölvuvæddir Íslendingar kannast við lítur talsvert öðruvísi út fyrir notanda í Bandaríkjunum en hjá okkur hérna. Það eru þá aðallega allskyns viðbótarmöguleikar sem við missum af – tengingar MSN spjallforritsins við aðra hluta MSN þjónustunnar, s.s. fjármálaupplýsingar, sölu á hótelgistingu og ferðum og einkamálaþjónusta svo dæmi séu tekin. Þetta birtist sjálfgefið sem aukaflipar í MSN spjallforritum þar en er ekki aðgengilegt héðan – enda ágætt því að þjónustan á ekki við fyrir okkur. Lítið fútt í að finna deit, ef það er statt á Nýja-Sjálandi 🙂

Staðsetningin okkar er líka stundum notuð, án þess að við vitum, til að velja hvaðan í heiminum gögn eru send til okkar til að hraða gagnasamskiptum. Þar fer fyrirtækið Akamai einna fremst í flokki, en þjónustu þess fyrirtækis notum við sennilega mörg oft á dag án þess að hafa hugmynd um það. Gott dæmi er t.d. þegar við heimsækjum vefsvæði CNN eða Yahoo!

Stærstu möguleikarnir eru samt sennilega fólgnir í auglýsingamarkaðnum. Þeir sem lesa bloggsíður á erlendum vefjum, t.d. á Blogspot hafa sjálfsagt tekið eftir að þar birtast stundum íslenskar auglýsingar. Þetta gerist á sama hátt og annað sem hér hefur verið lýst. Bandarískar vefsíður birta sumar hverjar auglýsingar frá fyrirtækjum í heimaborg notandans og í MSN spjallforritinu mínu hefur verið auglýsing frá BT-tölvum, í fjórar vikur eins og ég vakti athygli á þegar hún dúkkaði upp.

Nærþjónusta af þessu tagi er af mörgum talinn einn af áhugaverðustu vaxtarmöguleikum í Netauglýsingum í dag, enda skiptir staðsetningin eðlilega miklu þegar fyrirtæki velja sér markhópa fyrir auglýsingaherferðir og slíkt. Og ekkert nema gott um það að segja – ef ég þarf að borga fyrir efnið sem ég les á Vefnum með því að horfa (framhj)á auglýsingar, þá er auðvitað bara betra að þær hafi sem mest notagildi fyrir mig sem notanda.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s