Þriðjudagstæknin: Spáð í framtíðina

Efni Þriðjudagstækninnar að þessu sinni eru framtíðarspár, gagnsemi þeirra og tilgangur.

Í tækniheiminum er umtalsverður fjöldi fólks sem vinnur við það að spá fyrir um framtíðina. Þetta eru ráðgjafar stjórnvalda, stórfyrirtækja og stofnanna sem ætlað er að spá í spilin svo hægt sé að móta stefnu, skapa lagaramma, mæta ógnum og koma auga á ný viðskiptatækifæri.

Þetta er ekki einfalt starf. Allir þekkja fræga framtíðarspádóma sem ekki hafa ræst. Flugbíllinn hefur verið á næstu grösum allt frá 1920 og enn hefur (augljóslega) enginn spáð réttilega fyrir um heimsendi, þó margir hafi reynt.

Af óheppilegum dæmum úr tölvuheiminum má nefna tvö frábær dæmi:

  • 1943 spáði Thomas Watson, stjórnarformaður IBM, því að það væri markaður fyrir 5 tölvur í heiminum – nokkurntíman. Í byrjun 6. áratugarins hafði hann uppfært spána í 25.
  • Í kringum 1980 var settur upp vinnuhópur hjá sænska fjarskiptafyrirtækinu Ericsson, sem átti að kanna framtíðarmöguleika nýrrar tækni – svokallaðra farsíma. Niðurstaða hópsins var sú að – jú, líklega væri markaður fyrir ein 20þús tæki í heiminum. Líklegustu kaupendurnir væru trukkabílstjórar, en samkeppnin við símasjálfsala á bensínstöðum væri líklega of hörð. Í dag eru um 1.3 milljarðar farsíma í heiminum. Trukkabílstjórar ku vera meðal kaupenda.

En framtíðarspár eru alvarleg starfsgrein og er engan veginn rétt lýst með dæmum um misheppnaða spádóma eins og þessa hér að ofan – og kannski voru þessir spádómar ekki svo slæmir. Takið t.d. eftir því að Ericsson hafði þó framsýnina til að skoða málið, nærri 20 árum áður en farsímarnir slógu í gegn. Framtíðarspár af þessu tagi eru sambland af vísindum, ofvirkni í því að fylgjast með nýjustu straumum og stefnum og hugmyndaauðgi.

Hjá British Telecom vinnur maður að nafni Ian Pearson. Á vefsíðunni hans má finna pistla um það hvernig hann sér framtíðina fyrir sér, allt frá klósettinu til auglýsinga og frá heilsugæslu til heimsvæðingar. Fullt af áhugaverðum pælingum.

Pearson leiddi líka verkefni hjá BT sem hét BT Exact og átti að spá fyrir um framtíðina allt að 100 ár fram í tímann. Útkoman úr því var BT Technology Timeline (það er líka til voða fansí flash útgáfa), spá um framtíðarþróun á einum 20 sviðum tækni og mannlífs – hugmyndarík úttekt þó svo að það verði ekki sagt að hugmyndaauðgina vanti þegar frá líður.

Annar góður framtíðarspámaður sem reyndar vann líka hjá BT um tímar er Peter Cochrane og á vefnum Edge – the third culture er samfélag á annað hundrað hugsuða sem skiptast á skoðunum og birta reglulega áhugaverðar greinar. Virklega skemmtilegt efni, þegar maður loksins hefur áttað sig á því hvernig vefsíðan virkar, sem er á mörkunum að sé fyrir fólk með greindarvístölu á við okkur, venjulega fólkið.

Sumir tæknisnillingar hafa varað við framtíðinni, jafnvel þótt þeir hafi átt dágóðan hlut í að skapa nútímann. Þar fara einna fremst menn eins og Bill Joy, annar af stofnendum Sun tölvufyrirtækisins og aðalheilinn á bakvið smávægilega hluti eins og UNIX stýrikerfið og Java forritunarmálið. Hann varaði við nanótækni í frægri grein sem birtist í Wired árið 2001 og ber titilinn “Why the future doesn’t need us“. Það er kannski samt rétt að afskrifa spádóma Joy ekki alveg. Þann 11. september 2001 sat hann á hótelherbergi á Manhattan og var að skrifa bók um það hvernig stefna Bandaríkjanna í miðausturlöndum myndi á endanum leiða til alvarlegrar hryðjuverkaárásar á Bandaríkin!

Annað tæknigúrú sem hefur varað við óheillavænlegri þróun í tæknimálum er Raymond Kurzweil. Hann á aragrúa merkilegra uppfinninga á borð við fyrstu lesvélina fyrir blinda, hljómborð og hljóðgervla ýmiskonar og hugbúnað til greiningar á þróun á gengi hluta- og verðbréfa. Hann hefur skrifað tvær bækur – The Age of Intelligent Machines og The Age of Spiritual Machines – um það hvernig gervigreindar tölvur muni taka yfir heiminn – jafnvel á næstu 20 árum eða svo. Hann brást jafnframt ókvæða við þegar “uppskriftin” að spænsku veikinni var birt í vísindatímaritum, vegna þess að það gæfi hryðjuverkamönnum tækifæri til að fjöldaframleiða veiruna.

    Hliðarskref: Í þessari sífelldu hryðjuverkaumræðu minnist ég þess alltaf að það deyja fleiri í bílslysum á hverjum degi eins og hafa látist í hryðjuverkaárásum í heiminum öllum síðastliðin 10 ár, að ótöldum náttúruhamförum, hungursneiðum og sjúkdómum. Halló – fókus!

Bill Gates hefur ítrekað farið flatt á framtíðarspám. Á níunda áratugnum sagði hann að enginn tölva þyrfti meira en 640Kb minni. Í dag er meðal heimilistölva með 1.000-2.000 sinnum meira minni en svo. Hann gaf líka út bók árið 1995 um framtíð tölvutækninnar – en minntist ekki einu orði á Internetið. Gleymið því samt ekki að hann hefur svo oft veðjað á réttan hest að hann er ríkasti maður veraldarinnar (svo ríkur reyndar að það er vandkvæðum bundið að reikna út skattinn hans).

En í raun skiptir minnstu þó framtíðarspámenn hafi sjaldnast rétt fyrir sér. Einn tilgangur framtíðarspádóma er einfaldlega að koma nýjum hugmyndum í umferð og láta þær þróast í meðförum annarra.

Eða eins og tölvunarfræðingurinn og framtíðarspámaðurinn Alan Kay sagði svo snilldarlega: “Besta leiðin til að spá fyrir um framtíðina er að finna hana upp”!


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s