Þriðjudagstæknin: Sniglapósturinn lifir

Efni Þriðjudagstækninnar í dag er framtíð póstþjónustu – ekki tölvupóstþjónustu heldur hins – sniglapóstsins

Það þótti voða fyndið svona í árdaga Netsins að vísa til bréfasendinga sem “sniglapósts” eða “snail mail”. Svoleiðis póstur var gamaldags, tók langan tíma, kostaði – með öðrum orðum tilheyrði gamla tímanum.

Enginn gekk þó auðvitað svo langt að spá aldauða póstsendinga. Það verður alltaf þörf fyrir að flytja atóm á milli staða. Það er lítið gagn af tölvupósti til að senda bók, bangsa eða brjóstsykur sem gjöf til fjarstaddra ættingja. Hann dugar varla einu sinni til að framkalla öfundartilfinninguna sem póstkort gera. Það er eitthvað raunverulegara við það að fá handskrifað kort með frímerki og mynd af kokteilglasi á sundlaugarbakkanum en að fá tölvupóst sama efnis. Að við tölum nú ekki um alla hlutina sem tilheyra kannski ekki hefbundnum póstsendingum, en þarf að flytja á milli landa: mat, húsgögn, bíla, súrál, síld og sjálf okkur.

En engu að síður hefur Netið breytt starfsemi póst og flutningafyrirtækja verulega og reyndar eru þær breytingar rétt að byrja.

Hefðbundin “sendibréf” eru svo að segja horfin úr umferð. Fyrir 100 árum, jafnvel bara 50 árum, var þetta eini raunverulegi valkosturinn fyrir venjulegt fólk til að eiga í samskiptum milli landa. Maður settist niður og handskrifaði nokkurra síðna bréf, sem síðan var flutt með bílum, skipum og jafnvel hestvögnum á áfangastað. Þó svarið væri sent um hæl gat hæglega liðið meira en mánuður milli sendingar og svars, þó ekki væri lengra að fara en til Danmerkur. Í dag skiptast kunningjar jafnvel á mörgum bréfum á dag milli Nýja Sjálands og Íslands. Engin furða að þessi samskiptamáti hafi orðið undir.

Á hinn bóginn hefur verslun á Netinu stóraukið bögglasendingar í hinum vestræna heimi. Margt af því sem áður var keypt í “heimabyggð”, er nú keypt á Netinu og flutt langar leiðir með pósti. Íslendingar eru reyndar slappir í netverslun samanborið við aðra net- og upplýsingatækninotkun. Árið 2005 verslaði einungis tæplega þriðjungur íslenskra netnotenda á netinu, sem er undir meðallagi í Evrópusambandinu (sjá skýrslu Hagstofunnar: Ísland í evrópsku upplýsingatæknisamfélagi). Netverslun innanlands er svo að segja óþekkt, þrátt fyrir nokkrar heiðarlegar tilraunir til að setja upp netverslanir hér á landi. Meira er um að verslað sé um netið frá útlöndum, en óskýrt kerfi tolla og aðflutningsgjalda hef ég grunað um talsverð fælingaráhrif þar. Sem betur fer heyrir nánast sögunni til að maður þurfi að fara upp í aðalmiðstöð póstsins uppi á Höfða til að leysa út Amazon sendingar, en það er ekki langt síðan það var reglan frekar en undantekningin.

Meiri stafrænn póstur
Í dag er stór hluti greiðsluseðla á Íslandi orðinn stafrænn. Greiðsluseðillinn birtist í heimabanka greiðandans og er greiddur þar, án þess að pappír komi þar nokkru sinni nálægt. Að vísu eru pappírsseðlarnir gefnir út og sendir samhliða, einkum vegna þess að pappír leikur mikilvægt hlutverk í bókhaldi, en þessi pappírsárátta mun hverfa.

Rafræn útgáfa af þessu tagi er afar þægileg fyrir alla aðila málsins. Fyrir fólk eins og mig, sem sitja við tölvu mestallan daginn, vil ég helst sjá sem mest af mínum samskiptum fara sömu leið og þar býð ég eftir næstu skrefum í póstþjónustu.

Ég vil helst bara fá allan póstinn minn sem tölvupóst. Ég vil geta stofnað pósthólf (svona físískt, úr málmi) og látið allan pappírspóstinn minn berast þangað. Þar tekur einhver við honum, skannar hann inn, gerir hann aðgengilegan í mínu rafræna pósthólfi á netinu og sendir afrit eða tilkynningu sem tölvupóst.

Til að byrja með gætu þetta bara verið á myndaformi, en seinna meir væri sjálfsagt að beita OCR-tækni (eða “ljóslestri” eins og það heitir á íslensku) á bréfin, þannig að textinn yrði stafrænn og þar með hægt að fara að leita (eins og í “gú…” ég meina “embla“) í pappírspóstinum sínum. Og þar með er ekki öll sagan sögð. Á hvert bréf væri hengt heimilsfang viðtakandans. Ég gæti þessvegna ýtt á “Reply” í póstforritinu mínu og svarað póstinum. Það svar yrði svo prentað út og sent í sniglapósti til baka. Að sjálfsögðu gæti ég líka sent slíkan póst á hvaða heimilsfang sem er að mínu eigin frumkvæði. Minn endi á póstsamskiptum er þar með orðinn stafrænn.

Langstærsti hluti bréfasendinga eru nefnilega í kjarnann “bara upplýsingar” og pappírinn bara miðill til að flytja þær. Upplýsingum líður svo miklu betur á stafrænu formi.

Það sem meira er – ef viðtakandinn er líka skráður í þessa stórgóðu þjónustu, þá þarf aldrei að prenta bréfið út. Smám saman flyst meira og meira af póstsamskiptum á Netið, en ég – sem notandi – þarf aldrei að velta því fyrir mér hvort viðkomandi sé þátttakandi í þjónustunni eða ekki.

Og þetta allt myndi ég borga fyrir, rétt eins og ég geri fyrir venjulegan pappírspóst í dag. Kannski Bill Gates hafi haft rétt fyrir sér eftir allt saman að við myndum kaupa frímerki á tölvupóstinn okkar í framtíðinni.

Póstfyrirtækin eru auðvitað í góðri aðstöðu til að setja upp svona þjónustu, en það er ekkert sem kemur í veg fyrir að einhver óháður aðili úti í bæ komi þessu á fót. Sá sem grípur tækifærið er svo í lykilaðstöðu þegar kemur að útgáfu rafrænna auðkenna og til að bjóða upp á allskyns viðbótarþjónustu – væri til dæmis ekki ljúft strákar – svona á Valentínusardaginn að geta sent frúnni blóm og skrautskrifað kort með einum einföldum tölvupósti? 😉


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

One comment

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s