Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru samskipti á textaformi og hvernig okkur hættir við að lesa rangt í “tón” samskiptanna.
Nú orðið fer umtalsverður hluti samskipta margra okkar fram á textaformi, annað hvort í tölvupósti eða í skilaboðaforritum á borð við MSN Messenger. Í þess háttar samskiptum vantar allskyns vísbendingar sem við höfum í töluðu máli eða þegar við erum augliti til auglitis við fólk. Handahreyfingar, líkamsstaða og tónninn í röddinni segja býsna mikið um það hvernig túlka beri það sem sagt er.
Einhverntíman heyrði ég sagt að 50% af merkingu þess sem sagt er fælist í orðunum, 30% í raddblænum og 20% í líkamstjáningunni, án þess að það fylgdi sögunni endilega hvernig þetta hefði verið mælt.
Þetta undirstrikar í öllu falli þá staðreynd að orðin segja bara hálfa söguna. Það getur þess vegna verið mjög varasamt að lesa einhvern tón í textasamskipti. Sjálfur hef ég oftar en einu sinni lent í svona “oftúlkun” á MSN. Hér eru tvö dæmi eftir minni:
Viðmælandi: [einhver fyndinn brandari sem ég man ekki]
Ég: haha
Viðmælandi: Voðalega ertu eitthvað daufur – er ekki allt í lagi?
Viðmælandi 2: Fyrirgefðu, ég er búinn að vera mjög upptekinn og hef ekki getað sinnt þessu
Ég: Ég hef tekið eftir því
Viðmælandi 2: Hvað áttu við með því? Heldurðu að ég sé ekki að vinna vinnuna mína?
Í bæði skiptin tók dágóðan tíma að settla málið. Nei, ég var ekki daufur í dálkinn og nei, ég var ekki að ásaka neinn um að vinna ekki vinnuna sína. Í seinna tilfellinu varð meira að segja fljótt ljóst að MSN myndi ekki duga til og ég hringdi í viðkomandi til að settla málið og útskýra að þetta væri alger misskilningur.
Á MSN koma líka inn tveir faktorar í viðbót sem tölvupósturinn þarf ekki að glíma við. Viðmælendur geta farið að lesa í þagnir (sem geta stafað af öllu frá klósettferðum til viðskiptafunda) og þar sem forritið sýnir hvort notandi á hinum endanum er að slá inn texta eða ekki, vekur það spurningar um öll hik, svo ekki sé talað um ef viðmælandinn sló eitthvað inn en sendi svo aldrei neitt.
Broskallarnir og öll hin “emoticonin” (getum við kallað þetta “skaptákn”?) í MSN eru ekki bara upp á punt, þau hjálpa til við að koma einhverskonar skapi eða tón á framfæri og gera það iðulega 😉
Þegar við skrifum texta, þá “heyrum” við það sem við skrifum. Tónninn fer því ekki á milli mála í okkar huga. Þegar viðmælandinn les textann kemur hann að málinu með allt öðrum huga og getur túlkað hann algerlega útfrá eigin hugarástandi. Ef viðkomandi hefur farið öfugu megin fram úr rúminu geta jafnvel einföldustu setningar orðið gildishlaðnar og fullar af duldri merkingu eins og hann eða hún “heyrir” það við lesturinn.
Nýlega birtist grein um rannsókn á þessháttar túlkun tölvupóstsamskipta í hinnu bandaríska Journal of Personality and Social Psychology*. Í ljós kom að lesendur mistúlkuðu tón tölvuskeyta í 50% tilfella, meðan þeir sem skrifuðu póstinn töldu yfirleitt ómögulegt að mistúlka þennan tón. Það sem meira er fólk taldi sig hafa túlkað tóninn rétt í 90% tilfella. Þarna er 40% bil sem er fullt af misskilningi og getur hæglega leitt til allskyns leiðinda.
Lausnin er auðvitað ekki að hætta að nota textasamskipti. Til þess eru þau of skilvirk og þægileg. En það er gott að vita af þessu og bæði skrifa og lesa tölvupóst og annan texta með þetta í huga. Skrifa skýrt, lesa ekki of mikið á milli línanna og taka strax á því ef grunur er um einhvern misskilning. Þá er síminn eða samtal augliti til auglitis yfirleitt betra. Misskilningur á misskilning ofan getur hæglega gert illt verra.
– – –
* Greinina er hægt að kaupa. Hún heitir “Egocentrism over e-mail: Can we communicate as well as we think?” og er númer 7 á þessari síðu.
Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.
2 comments