Þriðjudagstæknin: Gamlar skruddur

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru gamlar tölvubækur og skemmtilegar tilvitnanir úr þeim

Nokkur undanfarin ár hef ég verið að sanka að mér gömlum íslenskum tölvubókum. Þetta átti nú ekki að verða alvarleg söfnun en hefur þó ágerst.

Það var merkilega mikið skrifað um tölvur strax fyrir 20-30 árum síðan og margir sem virðast hafa ráðist í að skrifa frekar eigin bækur en að þýða erlend rit. Eins er athyglisvert hversu snemma hefur verið ráðist í að finna og koma í umferð íslenskum orðum yfir allskyns tölvutengda hluti. Þeir sem segja að við tölum ekki um tölvur á íslensku hafa einfaldlega ekki rétt fyrir sér.

Við tölum um tölvur, skjái, lyklaborð og mýs; vistum og opnum skrár á harða diskinum, vöfrum um Netið, lesum tölvupóst, færum okkur í nyt ritvinnsluforrit og töflureikna, leikum okkur í tölvuleikjum og kippum okkur ekkert upp við það. Í samanburði við t.d. hin Norðurlandamálin er þetta alger hátíð.

Auðvitað ganga orðin misvel í fólk og ná ekki öll góðri útbreiðslu. Þannig tala flestir um að skrolla, pana og súmma í stað þess að skruna, skotra og þysja. Víðómurinn hefur ekki náð að ryðja steríóinu úr vegi og sniðmátið hefur mátt sín lítils gegn templeitinu.

Þessum samt sem áður góða árangri er held ég – a.m.k. óbeint – ekki síst að þakka framtaki Orðanefndar Skýrslutæknifélagsins sem strax árið 1983 gaf út fyrstu útgáfu Tölvuorðasafns – rit sem hefur verið endurnýjað reglulega síðan, nú síðast í fyrra. Á þeim tíma sem þessi bók kemur út hafa þeir sem unnu við og léku sér með tölvur ekki talið mörg þúsund og merkilegt að ráðast í þessa vinnu.

Það er athyglisvert að að samantekt orðasafnsins komu margir sem seinna áttu eftir að láta mikið að sér kveða í upplýsingatækni hér heima, þar á meðal þeir Jóhann Malmquist og Snorri Agnarsson sem stofnuðu Softis (sem í dag heitir OpenHand), Ólafur Daðason, stofnandi Hugvits / GoPro og auðvitað Oddur Benediktsson guðfaðir tölvubyltingarinnar á Íslandi.

Gömlu tölvubækurnar sýna annars glöggt stöðu tölvutækninnar á þessum tíma og þær breytingar sem hún hefur haft í för með sér. Á hverjum einasta degi notum við t.d. ritvinnsluforrit sem jafna texta, skipta milli síða og leyfa okkur að breyta textanum að vild fram og til baka. Hér er stutt lýsing á vinnu “setjara” sem var stór stétt manna í prentsmiðjum fyrir tíð umbrotsforrita:

Þegar til setningar kemur, þarf setjarinn að taka tillit til markvíslegra þátta vegna uppsetningar efnisins. Oftast er textinn í föstum dálkum og verður setjarinn að gæta þess að orðin fylli sérhverja línu þannig að það bil sem ófyllt er í lok línunnar og er of lítið fyrir næsta orð sé jafnað út með því að breikka bilið milli orðanna. Þetta nefnist útjöfnun. Ef línan verður of löng í fyrstu lotu verður setjarinn að flytja síðasta orðið yfir í næstu línu eða að skipta því milli lína. Þó er ekki mögulegt að skipta öllum orðum milli lína, t.d. ekki orðinu “steinn”. Við útjöfnunina verður setjarinn jafnframt að gæta þess að bil milli orða í mörgum samliggjandi línum tengist ekki saman í hvítan taum sem liggur niður eftir dálkinum.

Þurfi að breyta texta, eftir að hann hefur verið settur, jafnvel þótt ekki þurfi nema að skjóta inn einu orði eða fella niður, þarf oft að setja alla málsgreinina að nýju.

Þessi tilvitnun er úr bókinni Tölvur að starfi sem var skrifuð 1969, en Almenna Bókafélagið gaf út 1979 – ekki víst að útgáfa 10 ára gamalla tölvubóka þætti fínt í dag. Í framhaldinu er svo jöfnun og annarri setningu texta fyrir prent lýst, eins og hún fer fram með hinni byltingakenndu umbrotstækni og klikkir þýðandinn út með:

Sú aðferð við rafeindastýrða setningu texta sem hér hefur verið lýst er farin að ryðja sér nokkuð til rúms hérlendis og var til dæmis notuð við setningu þessarar bókar.

Um tölvur og flugbókanir segir:

Fyrir þann sem afgreiðir slíkar pantanir sparar þetta mikinn tíma því nú þarf ekki að fletta upp í flóknum töflum til að finna hvenær flogið er milli einhverra borga, því tölvan getur á svipstund veitt slíkar upplýsingar, og nú er unnt að ganga frá hverri umsókn strax án þess að senda þurfi skeyti eða skrifa bréf og bíða síðan svars.

…og ekki að spyrja að hraðanum í gagnasendingum:

Með boðum eftir venjulegri símalínu má fá texta sem fyllir heila blaðsíðu á aðeins 10 sekúndum.

Í lok bókarinnar má svo finna þessa vægast sagt framsýnu klausu sem segja má að hafi gengið fullkomlega eftir:

Enn er þó ekkert lát á framförum í rafeindatækni og tölvusmíði. Á sama hátt og vasatölvur eru nú algengar á heimilum, má gera ráð fyrir að útstöðvar, með umtalsverðri eigin reiknigetu, verði algengar á heimilum eftir 1-2 áratugi og að unnt verði að nota þessar útstöðvar til að komast í samband við öflugar tölvur í gegnum símalínu, við fréttamiðstöðvar, við upplýsingabanka (þar verði t.d. hægt að fá upplýsingar úr alfræðibók eða fletta upp í venjulegri orðabók), senda greiðslur af bankareikningi inn á gírónúmer og svo mætti lengi telja.

Í allnokkrum bókum ber á ótta manna við tölvutæknina, annað hvort að tölvurnar taki yfir, eða að fólk missi vinnuna unnvörpum vegna þeirra. Höfundur “Tölvur að störfum” slær á óttann með þessum orðum:

Sumir óttast áhrif tölvanna, telja að þær geti farið að stjórna manninum. En það er ávallt maðurinn sem hefur stjórnina. Ekki þarf nema að þrýsta á hnapp til að slökkva á tölvunni.

Annað er hins vegar uppi á teningnum í bókinni Tölva og vinna sem Menningar- og fræðslusamband alþýðu gaf út 1983. Bókin er nánast áskorun til yfirvalda að fara sér hægt í tölvuvæðingu þar sem hún muni valda svo miklu atvinnuleysi. Ásmundur Stefánsson skrifar t.d. í formála:

Víða einangrast fólk við tækjaborð, verkefnin verða skýrar og ófrávíkjanlegar afmörkuð og verkfyrirkomulagið ákveðið að ofan án þess að starfsmaðurinn komi sínum sjónarmiðum og reynslu að. Presónuleg samskipti á vinnustaðnum verða oft minni. Tækniþróunin getur valdið því að maðurinn verði viðhengi véla í flóknu framleiðslukerfi og þá framleiðslukerfi sem er stýrt úr stjórnstöð forstjóravaldsins í hinu smæsta. Hjá slíkri þróun þurfum við að komast. Og við verðum einnig að sjá til þess að ekki komi til atvinnuleysis.

– – –

Í samningunum 1982 gerði ASÍ sérstakt samkomulag við Vinnumálasamband samvinnufélaganna þar sem m.a. stjórnendum fyrirtækjanna, sem hyggjast taka upp tölvutækni er skylt að gera starfsfólki grein fyrir ástæðum og afleiðingum.

…og kannski var þetta ekki alrangt:

Það skiptir okkur öllu að sjá fyrir í tíma hvert tækniþróun stefnir og á hvaða sviðum er líklegast að ný tækni muni valda straumhvörfum á næstu árum. Ef vélmenni leysa mannshöndina af hólmi í fiskvinnslu á næstu árum, gæti orðið alvarlegt ástand í stórum landshlutum.

Í lokaorðum bókarinnar kveður aðeins við jákvæðan tón:

Umföllunin um vinnutilhögun hér að framan hefur vonandi nægt til að gera grein fyrir því, að mögulegt er að nota örtölvutæknina til góðs. Ef vel tekst til – það er m.a. undir launafólki og samtökum þess komið – má búast við bjartri framtíð; framtíð án andlegra og líkamlega slítandi vinnu. Kjósi menn einnig að skipuleggja örtölvutæknina með þeim hætti að sem flestir fái hlutdeild í henni, er líklegt að mannkyninu auðnist að fullnægja þörfum sínum betur en nú, og geti þannig dregið úr hugri, sjúkdómum og atvinnuleysi.

…en þó klikkt út með þessum orðum:

Fái atvinnurekendur hins vegar einir að ráða ferðinni og verði tölvuvæðingin eingöngu notuð til þess að þjóna atvinnurekendum munu afleiðingarnar verða m.a. stórfellt atvinnuleysi í nær öllum stéttum, störf verða í auknum mæli einhæf og niðurdrepandi og atvinnuöryggi verður enn minna en það er í dag.

Svo mörg voru þau orð!

– – –

Auðvitað er auðvelt að sitja hérna, tuttugu og eitthvað árum seinna og hlæja að þessum skrifum og líklega segja þau meira um tíðarandann í stóru samhengi hlutanna en viðhorfið til tölvutækninnar einnar og sér. Þetta er samt voða skemmtilegt 🙂

Ég á talsvert meira af góðum gullkornum úr þessum bókum og kem kannski með eitthvað af þeim síðar. Ef þið eigið óborganlegar tilvitnanir úr gömlum tölvuskrifum, endilega sendið mér þau í tölvupósti á hjalli@hjalli.com eða í komment hér að neðan.

…og ekki henda gömlum tölvubókum – ég er meira en til í að taka við þeim 😉


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s