Þriðjudagstæknin: Símakurteisi

Efni þriðjudagstækninnar í dag er farsíminn og hvernig á því stendur að þegar síminn hringir þarf allt annað að víkja.

Hérna einu sinni voru símtöl fágæt. Það að fá símtal, var jafnvel merkilegara en að fá símskeyti eða sendibréf. Þetta var viðburður og var tekið alvarlega – þeim mun alvarlegar sem símtalið kom lengra að. Í þeim tilfellum átti fólk yfirleitt von á símtalinu og beið í ofvæni eftir því.

Þetta er auðvitað algerlega liðin tíð, en einhverra hluta vegna berum við enn ómælda virðingu fyrir símtalinu. Hver kannast ekki við það að vera í miðjum samræðum við einhvern augliti til auglitis – jafnvel á formlegum fundi – þegar síminn hjá einum fundarmanna hringir og hann eða hún svarar óhikað í símann?

Fólkið á fundinum er búið að taka frá tíma af deginum til að setjast niður með þér og ræða einhver mál – að svara óundirbúnu erindi annarsstaðar frá, er óvirðing við þá og þeirra tíma. Jafnvel þó þú sért bara í óformlegu spjalli við vinnufélaga þegar síminn hringir, þá fer það betur með þinn tíma og hans að ljúka erindinu – þagga niður í símakvikindinu og afgreiða það síðar.

Óundirbúin símtöl eru satt best að segja afar óhentugur samskiptamáti. Líkurnar á því að sá sem þú ert að hringja í, sé ekkert að gera og að þitt erindi sé akkúrat það sem hann vill helst afgreiða á þeim tímapunkti eru hverfandi.

Ekki misskilja mig, ég nota símann mikið. Eins og ég hef áður imprað á eiga sum erindi mun betur heima í símtali en t.d. í textasamskiptum – og eins er fólk bara misduglegt að nýta sér aðrar leiðir. Þetta spilar maður dálítið eftir eyranu.

Langoftast tek ég samt það sem ég kalla “hentisamskipti” fram yfir símtöl – allavegana í vinnunni. Með hentisamskiptum á ég við það að ég ber upp erindið þegar mér hentar og viðmælandinn svarar þegar honum hentar. Tölvupóstur og skilaboðaforrit á borð við MSN eru (a.m.k. þegar fólk hefur vanist þeim) góð dæmi um hentisamskipti. Ef fólk kemur sér upp þokkalegu vinnulagi með það hvernig það afgreiðir tölvupósta og önnur slík erindi, eru þessi samskipti miklu skilvirkari en símtölin og nýta tíma beggja aðila betur.

Það er líka alveg sjálfsagt að umgangast símann á sama hátt. Þú þarft ekkert að svara þó að síminn hringi – í alvöru – það eru engin lög sem kveða á um refsingu fyrir ósvöruð símtöl! Ef þú ert í miðjum samræðum við einhvern, eða jafnvel bara niðursokkinn í það sem þú ert að gera, þá má vel þagga niður í símanum, afgreiða erindið og hringja svo til baka seinna. Til þess er “atburðalistinn” í símanum.

Ef þú ert á mikilvægum fundi og átt ekki von á enn mikilvægara símtali, þá er sjálfsagt að taka hljóðið af símanum og afgreiða símtölin að fundinum loknum. Ef þú átt von á mikilvægu símtali, þá er kurteisi að láta fundarmenn einfaldlega vita af því. Það skilja það allir og hafa flestir verið í sömu aðstöðu.

Ef þú samviskusamlega hringir til baka og afgreiðir erindið, þá venst fólk því líka að svona notir þú símann, virðir það við þig og hringir ekki aftur, heldur bíður þar til þú hefur tök á að hringja til baka. Það er hins vegar að sama skapi dónalegt að hringja ekki til baka – rétt eins og það er dónalegt að svara ekki tölvupósti þar sem búist er við svari.

Síminn þarf ekki að hafa forgang á allt. Það eru jú ekki nema kannski 6-8 ár síðan fólk fór að venjast því að hafa símann alltaf við höndina, og það hafa hreinlega ekki enn skapast almennilegar hefðir í kringum það hvernig “eigi” að umgangast símana. Ég er þess fullviss að þróunin verður í þessa átt, einfaldlega vegna þess að á þennan hátt nýtir fólk sinn tíma betur og fækkar stressfaktorunum um einn – ekki veitir af.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á sjónvarpsstöðinni NFS – á þriðjudögum kl. 11:10.

One comment

  1. Ég mun dreifa þessum skrifum – óhikað, bæði til ættingja og samstarfsmanna
    Eigðu góðan dag og MUNDU – þegar MAMMA hringir…

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s