Þriðjudagstæknin: Með marga bolta á lofti

Efni Þriðjudagstækninnar í dag er “multitasking”. Þ.e. hvernig við og ekki síst krakkarnir tökumst á við ótal hluti í einu – og hvort við ráðum í raun og veru við það.

Þegar ég var lítill heyrði ég um mann sem gat talað í símann, skrifað bréf og hlustað á útvarpsfréttirnar, allt í einu. Þetta þótti aðdáunarverður hæfileiki. Í dag er þetta fastur hluti af daglegu lífi okkar margra og unglingarnir spjalla á MSN, hlusta á tónlist og leita á Vefnum á meðan þau vinna heimavinnuna fyrir skólann – foreldrunum oft til mikils ama og reyndar vantrúuð á að það sé virkilega hægt að sinna svo mörgum hlutum í einu með einhverri athygli.

Um þetta fjallar stórfróðleg forsíðugrein Time þessa vikuna (þeir sem ekki eru áskrifendur geta komist í greinina með því að horfa fyrst á eina stutta auglýsingu).

Sjálfur er ég dálítill “multi-tasker”, en þó nógu einhverfur til að geta sökkt mér í hluti og útilokað allt annað tímunum saman þegar svo ber undir. Ég heyrði einhverntíman þá kenningu að sá eiginleiki að glíma við marga hluti samtímis sé sérstaklega ríkur í konum, sem í gegnum aldirnar hafi þurft að sinna börnum, annast matargerð og sauma föt, allt á sama tíma. Karlmenn hafi hins vegar frekar einbeitingargenið, enda hafi ekki veitt af þegar fylgja þurfti eftir bráð í marga daga, halda kyrru fyrir og gæta þess að gefa ekki í óvarkárni frá sér hljóð sem gæti fælt mammútinn 😉

Hvað sem því líður er gaman að “multi-taska” þegar vel gengur. Maður er kannski með marga bolta á lofti í vinnunni, fer úr einu máli í annað, kemur mörgum hlutum örlítið í átt að settu marki. Ég ímynda mér að þetta sé – bókstaflega – ekki ósvipað því að læra að “juggle”-a (sem ég get nota bene ekki) – að maður verði steinhissa þegar manni tekst að halda öllum boltunum á lofti í nokkur skipti. Rétt eins og í “juggle”-inu er síðan verulega pirrandi þegar verkefni, jafnvel fleiri en eitt, lenda í vandræðum á sama tíma og maður á fullt í fangi með það bara að sópa upp – brotnum vasa eða verkefni sem er komið fram yfir skiladag.

Í áðurnefndri grein, kemur fram að samkvæmt bestu vitund vísindamanna er í raun ekki rétt að segja að heilinn fáist við mörg verkefni samtímis. Tímanum er frekar eins og skipt upp í sneiðar og þegar við eigum við margt í einu færist áherslan einfaldlega frá einu verkefni á annað, í sumum tilfellum með einhverra mínútna millibili, en allt niður í nokkrum sinnum á sekúntu ef t.d. um rauntímasamskipti er að ræða við marga í einu. Við höfum sem sagt ekki “meiri” athygli, heldur deilum við henni niður á fleiri hluti.

Vitnað er í könnun þar sem fram kemur að þrátt fyrir að bandarískir krakkar hafi ekki meiri tíma í “neyslu” á rafrænum miðlum (sjónvarpi, vef, MSN-samskiptum, DVD, tölvuleikjum, o.s.frv.), en neyti aftur á móti meira efnis en rauntíminn segir til um, eða 8,5 klukkustunda af efni á sólahring á 6,5 tímum. Með öðrum orðum er nærri þriðjungi tímans sem fer í þessa neyslu eytt í að neyta tveggja miðla samtímis (lesa vefsíðu og horfa á sjónvarpsþátt t.d.).

Það er auðvitað ekkert nýtt að eldra fólkið hafi áhyggjur af því hvernig yngra fólkið beitir nýrri tækni. Plató gamli hafði áhyggjur af því að ritmálið myndi eyðileggja sagnahefðina og hæfileika okkar til að muna. Það er reyndar rétt, en við erum samt betur stödd eftir en áður. Sömu sögu er að segja af rokktónlistinni, tölvuleikjunum og núna Netinu. Það er ekki nokkur vafi að hæfileikinn til að “multitaska” mun nýtast þeirri kynslóð sem nú vex úr grasi á vinnustöðum framtíðarinnar.

Vandinn er bara sá að þetta stöðuga áreiti veldur álagi á hugann (m.ö.o. stressi) sem getur ágerst og verður þess valdandi að sumir geta ekki eytt einum frímínútum án þess að senda SMS eða vakna jafnvel á nóttinni til að gá að tölvupósti eða SMS skilaboðum. Ekki ósvipað og spilafíkn. Ef einn leikur í kassanum stendur ekki undir væntingum setjum við annan pening í og svo koll af kolli.

Það er óumdeilt að heilinn þarf hvíld til að vinna úr þeim upplýsingum sem hann hefur meðtekið. Það er líklega þessvegna sem það er óbrigðult að í bókum þar sem menn lýsa velgengni sinni í viðskiptalífi, íþróttum eða nánast hverju sem er, að þar er heilræði um að taka sér tíma á hverjum degi í það bara að hugsa málin. Tæma hugann, t.d. í líkamsrækt, eða einrúmi einhversstaðar að minnsta kosti einu sinni á dag og leggja stöðuna fyrir sig. “Defragga” harða diskinn svo maður noti líkingamál sem þið nördarnir skiljið 🙂

Þannig að heilræði dagsins er: Multi-tasking er gott – næstum nauðsynlegt í nútíma skrifstofuumhverfi, en það þarf líka að gefa sér tíma í að einbeita sér að erfiðu hlutunum.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall á NFS á þriðjudögum kl 11:10.

One comment

  1. Skemmtileg samantekt Hjalli.

    Tók mér tíma frá vinnunni til að “defragga” og lesa eitthvað áhugavert. Sjáum hvort ég verð skýrari á eftir! 🙂

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s