Efni þriðjudagstækninnar í dag (já, á fimmtudegi) er innkoma netrisanna Google, Yahoo! og Microsoft á Kínverska netmarkaðinn.
Í Kína búa nærri 400 milljónir manna sem búa við svipuð kjör (efnahagslega) og Evrópubúar. Meðaltölur eru ósköp villandi því svo er heill milljarður kínverja í viðbót sem eiga ekkert.
400 milljónir viðskiptavina er ekki lítið og undanfarin ár hefur peningalyktin laðað að fjárfesta og fyrirtæki í öllum geirum.
Í Kína er sem sagt komið á viðskiptafrelsi, en ekki málfrelsi og þetta tvennt stangast hressilega á þegar netrisarnir koma inn á markaðinn. Leitarvélarnar fá ekki að starfa í Kína nema þær ritskoði niðurstöðurnar sínar. Upplýsingar um Falun Gong, sjálfstæði Tíbet eða atburðina á Torgi Hins Himneska Friðar eru óhollar fyrir Kínversku þjóðina – og þessvegna ófinnanlegar á leitarvélum í landinu. Rafræni Kínamúrinn – “The Great Firewall of China” – kemur svo í veg fyrir að hægt sé að nálgast þetta efni eftir öðrum leiðum.
Á þessari síðu má bera saman helstu frasa sem fram koma í leitarniðurstöðum í Bandaríkjunum annarsvegar og Kína hins vegar. Prófið t.d. að leita að Tibet þarna.
Enn alvarlegri er svo sú staðreynd að Yahoo! hefur ítrekað verið staðið að því að afhenda tölvupósta. Maður einn var dæmdur í 4 ára fangelsi fyrir að tala fyrir “lýðræði að vestrænni fyrirmynd” og meðal sönnanargagna voru tölvupóstar, sem sumir hverjir höfðu ekki sannanlega verið sendir – heldur lágu í “drafts”-möppunni á Yahoo! póstreikningnum hans!
Já, það er erfitt að vera “ekki vondur” (mottó Google) þegar 400 milljón viðskiptavinir bíða öðrum megin og yfirspenntir fjárfestar með miklar væntingar hinum megin.
Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall um tölvur og tækni á NFS á þriðjudögum kl 11:10