Þriðjudagstæknin: Kaup og sala þekkingariðnaðarmanna

Efni Þriðjudagstækninnar í dag eru samningar þekkingarfyrirtækja við starfsmenn og af hverju þeir eru ekki meira eins og samningar íþróttamanna

“Það verðmætasta sem þekkingarfyrirtæki eiga eru starfsmennirnir.” Þessu heyrir maður oft fleygt og þetta er auðvitað í flestum tilfellum dagsatt. En hversu mikils virði eru þeir nákvæmlega? Hvers virði eru starfsmenn Decode? Eða CCP? Hvað kostar efnilegur forritari beint út úr háskóla? Eða verkefnastjóri með 10 ára reynslu af hugbúnaðargerð? Eða hugmyndamaður sem sér öll nýju tækifærin og hvernig er hægt að spila úr þeim?

Akkúrat. Þið hafið ekki hugmynd. Enda ganga slíkir menn ekki kaupum og sölum – það væri fáránlegt – ekki satt? En af hverju?

Það verðmætasta sem knattspyrnulið á eru án efa starfsmennirnir – að vísu er hetjulegra að vera “leikmaður”, en það er bara annað nafn á sama hlut. Í knattspyrnunni og reyndar íþróttaheiminum öllum ganga leikmenn kaupum og sölum og ekkert þykir sjálfsagðara.

Skoðum aðeins nánar hvernig þetta gengur fyrir sig, t.d. í knattspyrnuheiminum. Efnilegir leikmenn eru uppgötvaðir af “scout”-um frá öðrum liðum. Þeir fá sér umboðsmann sem semur um kaup og kjör fyrir þeirra hönd, enda eru þetta oft ungir menn (og reyndar líka konur) og þeirra sterka hlið er að leika knattspyrnu, ekki að semja við harðsvíraða bisness-menn um kaup og kjör.

Strangar reglur gilda um slíka samninga. Samning skal gera að minnsta kosti út yfirstandandi keppnistímabil og ekki lengur en til fimm ára. Styttra ef um ungan leikmann er að ræða. Þegar samningar eru lausir er leikmanni frjálst að semja við annað lið, nú eða semja aftur við sama félag. Vilji hann skipta um lið fyrr, þarf nýja liðið að komast að samkomulagi við það gamla um greiðslu fyrir hann. Slíkar viðræður skulu fara fram að öllum málsaðilum vitandi.

Það er meira að segja þannig að þegar lið skráir leikmann sem atvinnumann í fyrsta skipti, ber því að borga því liði (eða þeim liðum) sem leikmaðurinn æfði með í yngri flokkum (frá 12-23 ára) fyrir þjálfun leikmannsins. Og reyndar ekki bara hans eins heldur einnig þess fjölda leikmanna sem þarf að þjálfa til að úr verði einn atvinnumaður. Sá fjöldi hlýtur að hlaupa á tugum, enda geta þessar greiðslur auðveldlega hlaupið á allnokkrum milljónum króna.

Kostirnir við þetta fyrirkomulag eru margir, t.d.:

  • Heiðarleiki: Kerfið hvetur alla til að starfa að heilindum, stunda ekki baktjaldamakk og láta t.d. í ljósi óánægju sé hún til staðar.
  • Umboðsmaður: Leikmaðurinn fær atvinnusamningamann til að semja um sín kaup og kjör, sjá til þess að í smáa letrinu reynist sál leikmannsins ekki með í kaupunum og veita hinum unga starfsmanni önnur ráð varðandi samningagerðina. Sá hefur svo hvata af því að gera vel, þar sem hann fær hlutfall af samningsupphæðinni.
  • Þjálfunargreiðsla: Lið sem hafa öflugt yngriflokkastarf fá greiðslu þegar vel tekst til og geta notað hana til að efla starfið enn frekar.
  • Kaup og sala: Leikmaðurinn hefur verðmat. Auðvitað geta orðið mistök. Leikmaðurinn stendur ef til vill ekki undir væntingum, en það getur líka verið stórgróðabisness að kaupa ungan og efnilegan leikmann, þjálfa hann frekar, gefa honum tækifæri með liðinu og selja hann svo aftur síðar. Tryggingar dekka meiðsli og önnur slík tilvik.

Af hverju ætti þetta ekki að vera eins í hugbúnaðarbransanum eða þekkingariðnaðnum í heild sinni? “Scout”-ar eða tilvonandi umboðsmenn fylgjast með efnilegu fólki útúr háskólunum, koma þeim að hjá góðum fyrirtækjum, hafa milliöngu um samninga og fá umbun fyrir. Háskólarnir fengju greiddar “þjálfunargreiðslur” og þannig væri hægt að halda niðri (eða líklega afnema) skólagjöld eða ríkisstyrki. Að sama skapi þyrftu þeir þá að velja nemendur af kostgæfni og nemendur að leggja sig fram til að sanna getu sína og geta búist við góðum samningum þegar þeir koma út á markaðinn.

Endur- og símenntun starfsmanna verður sjálfsagður hlutur, enda eykur það sannanlega verðmæti starfsmannsins og það verður fyrirtækinu alveg jafn mikill akkur eins og starfsmanninum sjálfum að ferilsskrá starfsmannsins sé sem best.

“Head-hunting” yrði ekki lengur óheiðarlegt baktjaldamakk, eins og oft vill verða, heldur samningur á milli þriggja aðila: nýja fyrirtækisins og starfsmannsins um kaup og kjör og gamla fyrirtækisins og þess nýja um kaupverð, þ.e. svo fremi sem starfsmaðurinn sé ekki með lausa samninga. Þá er líka eins gott fyrir gamla fyrirtækið að gera vel til að missa ekki sérþekkingu úr húsi.

Það athyglisverðasta af þessu öllu er að þarna er loksins komið verðmat á það verðmætasta sem þekkingariðnfyrirtækin eiga. Meðalstarfsmaður með fárra ára reynslu eftir skóla væri hæglega 10 milljón króna virði. “Stórstjörnurnar” gætu farið á tugi, jafnvel hudruð milljóna. Með eitthvað slíkt verðmat og hefð fyrir slíkum samningum gæti þekkingarfyrirtækjum jafnvel staðið til boða að fjármagna sig – a.m.k. að einhverju leiti – með lánum í stað áhættufjármagns. Þar með myndi losna um verðmæti sem vissulega eru til, en engum hefur tekist að meta fram til þessa.

Hver veit, kannski eiga fyrirsagnir á borð við þessar eftir að vera daglegt brauð í fréttum morgundagsins “CCP hafnar 400 milljón króna tilboði í Kjartan Pierre”, “Háskólinn í Reykjavík fær 50 milljónir fyrir lokaverkefnishóp” eða “Microsoft lánar Gísla til Tékklands í 4 mánuði” 😉

Ég held meira að segja að það sé alveg hægt að koma svona kerfi á, en við verðum að ræða það í næsta þætti.


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall um tölvur og tækni á NFS á þriðjudögum kl 11:10

One comment

  1. hehe jáh:)takk fyrir síðast=* skohh þarna fékk ég að vita nokkuð mikið um hvað þú ert að gera í þessari vinnu:D:D sem er bara rétt byrjuð:) en jáhh hlakka ótttttla mikið til að skoða allar myndirnar frá Afríkunni:D það verður rosa gaman:) sjámst:):* bæjó:D

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s