Þriðjudagstæknin: Rock Star – afþreying framtíðarinnar

Hvort sem fólki finnst Rock Star: Supernova það besta sem sjónvarpið hefur alið síðan Prúðuleikararnir voru og hétu eða uppblásin og oflofuð karíókíkeppni, leyfi ég mér að fullyrða að hér er um tímamótasjónvarpsefni að ræða. Þá er ég ekki að tala um þættina sjálfa eða efnistök þeirra, heldur hvernig að þeim er staðið og umgjörðina alla.

Áður en þið haldið að ég hafi misst glóruna, leyfiði mér kannski að færa lauslega rök fyrir máli mínu.

Framleiðandi þáttanna, Mark Burnett, er konungur raunveruleikasjónvarpsins. Hann framleiðir auk Rock Star, hina geysivinsælu þætti Survivor og The Apprentice, auk minni þátta á borð við The Contender og The Restaurant. Allir þættirnir byggja meira og minna á sömu formúlunni – enda er Burnett orðinn býsna sjóaður í þessu – og í Rock Star: Supernova tjaldar hann til öllu sem hann hefur lært:

  • Vefsíðan: Það fyrsta sem rétt er að veita athygli er snilldarleg Vefsíða þáttarins. Vefsíðan er nánast órjúfanlegur hluti af sjónvarpsættinum. Þar er hægt að sjá hluta af raunveruleikaþættinum áður en hann er sýndur í sjónvarpinu, þar er hægt að sjá efni sem er aldrei sýnt í sjónvarpsþáttunum. Þar er ítarefni og – síðast en ekki síst – þar er hægt að kjósa. Síðan er líka uppfærð nánast í rauntíma og þróast samhliða því sem framvindan í þáttunum gefur tilefni til. Síðan er líka gríðarlega flott – en fellur þó í pyttinn sem ég hélt að menn hefðu brennt sig nógu illa á í árdaga vefsins – flottheitin koma verulega niður á því hve einfalt er að nota síðuna. Burnett getur þá a.m.k. enn lært eitthvað 😉
  • Þátttaka áhorfenda: Annað, sem auðvitað kemur sterkt inn á Vefinn líka, er það hvernig Rock Star, í samvinnu við MSN og blogg-/kunningjanets-þjónustuna þeirra – Spaces – leyfir áhorfendum að taka þátt í herlegheitunum. Eða að minnsta kosti leyfir þeim að finnast þeir taka þátt. Í einum þættinum völdu Spaces notendur lög ofan í söngvarana með kosningu á netinu. Í hverjum þætti eru lesin valin (eða skálduð) komment frá aðdáendum. Þetta hvetur fólk til að kommenta á Spaces, hafa samband, senda inn póst – þeirra athugasemd gæti verið lesin upp í þættinum. Á Spaces-síðu Magna eru, þegar þetta er skrifað, 907 athugasemdir við nýjustu færsluna! Við margar aðrar færslur hjá honum eru meira en 500 athugasemdir. Sá sem býr til flottasta MSN Space-ið um Rock Star fær að vera viðstaddur sjálfan lokaþáttinn. MSN hefur fengið að punga laglega út fyrir þessu – og er sennilega að fá virði hverrar krónu til baka. Spaces var eiginlega hálf hallærislegt, nú keppast unglingarnir við að búa til slík. Minnir mann kannski á að gæfa MySpace gæti verið fallvölt – vinsældir svona þjónustna koma og fara á einni nóttu.
  • Meiri vörusýnd*: Annar aðili sem er líka að borga stórar summur fyrir Rock Star er farsímafyrirtækið Verizon Wireless. Tvisvar í hverjum þætti (jamm nákvæmlega tvisvar, það er líklega í samningnum) er einhver sem tekur upp Verizon Wireless símann sinn og sækir lagið sem hann á að flytja og hlustar á í símanum – eða horfir á myndbandsupptöku af síðasta giggi. “Then I looked at my performance on my Verizon Wireless Chocolate handset…” Heppin þú að vera með tilviljun með svona flottan síma – en hérna, afhverju horfðirðu ekki á þetta á Vefnum? Eða í 44 tommu flatskjánum sem þið notið þess á milli? Tíhí. Product placement eins og það gerist best. Satt best að segja hefur Choclate síminn einmitt verið að fá heldur ömurlega dóma og þykir ekki vel heppnaður, en það er ekki Rock Star að kenna.
  • Heimurinn undir: Svo má ekki gleyma því að þetta er alþjóðlegt fyrirbæri. Upphaflegu keppendurnir voru dregnir héðan og þaðan úr heiminum til að ná inn áhorfi víðar en úr Bandaríkjunum. Kanada á sinn mann, Ástralir sinn, þarna var líka Breti og eitthvað fleira. Og svo er þátturinn líka sýndur samtímis víðsvegar um heiminn. Kosningin fer fram samtímis víðsvegar um heiminn og allir geta tekið þátt. Þetta er alveg nýtt. Eiginlega algert stílbrot komandi frá Hollywood, þar sem við erum vön því að láta mata okkur svæði fyrir svæði: Fyrst Bandaríkin, svo Evrópa, svo Asía, þá Afríka og Mið-Austurlönd, o.s.frv. Burnett veit að heimurinn er orðinn eitt markaðssvæði. Það er orðið ódýrara að byggja upp eftirvæntinguna samtímis og sýna hlutina samtímis. Ef þú gerir það ekki er fólk bara búið að hlaða þessu niður á Netinu og rétthafarnir missa af auglýsingatekjum.

Það væri hægt að týna til fleira sem gerir Rock Star sérstakt sjónvarpsefni (ef það er þá lengur hægt að kalla þetta “sjónvarps”-efni). Það þarf enginn að segja mér að “óháða” áhangandasíðan supernovafans.com sé ekki afsprengi Mark Burnett og félaga líka. Síðan er búin að vera til frá því fyrir fyrsta þáttinn, hún er virkilega fagmannlega unnin og notast reyndar við grafík sem er skuggalega keimlík þeirri sem er á alvöru síðunni. Samtvinnunin við farsímamiðilinn er verulega vel útfærð með kosningum, hringitóna- og skjámyndaútgáfu, og svona mætti lengi telja.

Allir þessir hlutir eru dæmi um það hvernig afþreyingarefni framtíðarinnar verður framreitt. Að hluta til er verið að búa sig undir dauða hefðbundinna auglýsingahléa. MSN og Verizon eru sennilega að borga framleiðendunum jafn mikið eða meira en hefði náðst inn á hefðbundnum auglýsingum og leyfisgjöldum – þau eru bara bónus, hreinn gróði. Að hluta til er verið að miðla til kynslóðarinnar sem getur neytt margra miðla í einu, er óþolinmóð og vill sjá hlutina klippta og skorna – “on demand”. Og að hluta til er verið að matreiða samtímis og á sama hátt ofan í heiminn allan. Nokkuð sem hefði verið ómögulegt, bæði tæknilega og markaðslega fyrir örfáum árum síðan.

Við eigum bara eftir að sjá meira af afþreyingu sem þessari á komandi misserum. Já og EKKI GLEYMA AÐ KJÓSA Í NÓTT!

* Úff – getur ekki einhver fundið skárri þýðingu á “product placement”. Vörusýnd!


Þriðjudagstæknin er vikulegt spjall um tölvur og tækni á NFS á þriðjudögum kl 11:10

One comment

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s