Tækni og vit: Framtíð Netsins

Greinin sem fylgir er önnur af tveimur greinum sem ég skrifaði fyrir Tækni og vit blaðið sem dreift var með Viðskiptablaðinu á föstudaginn. Sýningin Tækni og vit hefst á fimmtudaginn og lofar góðu.


Á 10 árum hefur Netið orðið svo órjúfanlegur þáttur af samfélaginu, að það liggur við að spádómar um framtíð þess séu spádómar um framtíðina í heild sinni. Einhverjum kann að finnast þetta djúpt í árinni tekið, en sjáiði bara hverju Netið hefur áorkað á sínum stutta líftíma. Það er Netið sem veldur því að bankarnir hafa lokað útibúum í gríð og erg á síðustu árum. Það er Netið sem – að minnsta kosti að hluta til – gerir þeim kleift að opna í álíka erg og gríð ýmiskonar þjónustu erlendis. Það er Netið sem veldur flestum afsögnum stjórmálamanna vegna spillingar og það er Netið sem hefur skýtur efnilegum tónlistarmönnum upp á stjörnuhimininn.

Og Netið hefur ekki bara áhrif á okkur vesturlandabúana sem notum það dags daglega, heldur í auknum mæli á heimsbyggðina alla. Heimurinn verður gegnsærri með hjálp Netsins. Það er erfiðara að leyna hörmungum stríða og hungursneyða, og auðveldara að komast í samband við fólk sem upplifir fréttirnar sjálft. Það er líka auðveldara fyrir hryðjuverkamenn að skipuleggja sig án þess að eftir því sé tekið sem og fyrir misheiðarleg stjórnvöld og félagasamtök að dreifa villandi upplýsingum til að breiða yfir vísindalegar staðreyndir.

Samt eru innan við tíu ár síðan flest okkar heyrðu fyrst talað um Netið. Ímyndið ykkur þau áhrif sem Netið mun hafa á næstu 10 ef þróunin verður viðlíka hröð.

Þær þjóðfélagsbreytingar sem Netið mun hafa í för með sér á komandi árum get ég ómögulega spáð um, en þykist hafa nokkra innsýn í þá tæknilegu þróun sem framundan er. Oft er reyndar talað um það að við nördarnir ofmetum það sem gerist á tveimur árum, en vanmetum það sem gerist á tíu – þannig að við skulum miða við tíu. Þá verða allir búnir að gleyma þessari grein hvort sem er 🙂

Eftir tíu ár verða öll gögnin þín geymd á Netinu. Það er auðvitað fásinna að stór hluti tölvunotenda í dag skuli treysta einum hörðum diski fyrir mestöllu lífi sínu – bæði einkalífi og vinnu. Allir harðir diskar bila á endanum – spurningin er bara hvenær. Að öllum líkindum verða það fjarskiptafyrirtæki sem munu bjóða mönnum ótakmarkað geymslupláss með netaðganginum sínum. Annar möguleiki er sá að vefrisarnir á borð við Google og Yahoo! geri það. Hin raunverulega geymsla á gögnunum verður dreifð bæði í tíma og rúmi þannig á þann hátt að möguleikinn á að þau muni nokkurn tíman týnast er fræðilegur í versta falli. Gögnin verða líka “þægari” en hingað til hefur verið. Hvern langar ekki að geyma alla tengiliðina sína á einum stað og svo séu þeir aðgengilegir í tölvupóstinum, í símanum og líka í nýja símanum þegar þeim gamla hafi verið stolið. Sama gildir um dagbókina, minnispunktana og tölvupóstinn. Allt aðgengilegt hvaðan sem er og hægt að leita í öllu heila klabbinu á örskotsstundu.

Ekki nóg með gögnin heldur verða flest forritin sem við notum keyrð á Vefnum. Vafrinn tekur að möru leyti við hlutverki stýrikerfisins. Í dag glíma menn við að skrifa hugbúnað fyrir ákveðin stýrikerfi þannig að sem flestir geti notað þau. En vandinn er sá að flóra stýrikerfanna fer vaxandi. Fyrir 5 árum mátti nokkurnvegin treysta því að “venjulegur” notandi keyrði Windows. Í dag eiga bæði Mac OS og m.a.s. smám saman Linux auknum vinsældum að fagna í þeirra hópi og það er þróun sem er bara rétt að byrja. Á sama tíma verða símar og lófatölvur sífellt öflugari og þannig bætist enn við stýrikerfaflóruna. Eina leiðin til að skrifa forrit sem ná til allra þessarra notenda er að skrifa þau fyrir Vefinn og styðjast þá eins og mögulegt er við vefstaðla sem allir Vafrarnir skilja og styðja. Ritvinnslan, töflureiknirinn og glærukynningarnar munu öll fara fram í gegnum vafra. Þessu fylgir að auki sá kostur að vefforrit vinna í eðli sínu með gögn sem vistuð eru á Netinu og þannig samræmist þetta spádómnum á undan.

Dæmi um vefútfærslur algengra forrita
Ritvinnsla: Google docs
Töflureiknir: Google docs
Einfaldur gagnagrunnur: DabbleDB
Teikniforrit: Pixenate

Ástæðan fyrir því að ég er svona sannfærður um þessa framtíðarsýn er að allt ofantalið er til í dag (sjá dæmi í kassa til hliðar). Viðfangsefni næstu 10 ára er að gera þetta nógu einfalt, skiljanlegt og aðgengilegt til að það gagnist venjulegu fólki – og það er ærið verk.

Einn af lyklunum að þessari framtíðarsýn er hröð og áreiðanleg nettenging, hvar og hvenær sem er. Líklega verða öll tæki undantekningarlaust þráðlaus eftir 10 ár. Ekki svo að skilja að nettenging heimilanna verður áfram um símalínur og þó í auknum mæli ljósleiðara, en innan veggja heimilisins verður svo þráðlaust net – þetta er nú svo algengt nú þegar að það tekur því varla að spá því. Úti á víðavangi verður líka hægt að fá stórgóða tengingu. Ég ætla að skjóta á að meira að segja í dreifbýli verði hægt að fá þráðlausa nettengingu sem jafnast á við bestu ADSL tengingar sem í boði eru í dag og í þéttbýlinu eitthvað miklu betra. Spurningin er bara hversu mikinn hraða höfum við þörf fyrir?

Fyrir tæpum 4 árum velti ég þessari spurningu fyrir mér í tengslum við nettengingar heimilanna. Þá reiknaði ég út að jafnvel þó allir fjölskyldumeðlimir væru að horfa á sitt eigið háskerpusjónvarp, hver í sínu horni og öll sú önnur notkun sem ég gat á þeim tíma ímyndað mér – væri erfitt að sjá fyrir að eitt heimili þyrfti meira en 50mbit/s hraða. Eða um það bil 4 sinnum meiri hraða en boðið er upp á í ADSL tengingum í dag. Það sem ég hafði ekki áttað mig á þá var sú framtíðarsýn sem sett er fram hér að ofan. Þó svo að það sé nokkuð gefið að allt það afþreyingarefni sem okkur mun standa til boða eftir 10 ár muni koma um Netið með einum eða öðrum hætti – þá er það ekki það sem setur kröfurnar um hraða. Það er ekki stanslaus straumur af háskerpu myndefni sem mun stjórna þörfinni, heldur það að geta unnið með gögn – og þá oft þung gögn – á örskotshraða yfir Netið. Notandi myndvinnsluforrits mun ekki sætta sig við að vefforritið hans vinni nokkuð hægar en forritið sem hann áður keyrði á vélinni sinni, hvað þá ef um hljóð- eða kvikmyndavinnslu er að ræða.

Netið eftir 10 ár þarf því að ráða við gríðarlegan hraða, en oft bara í mjög stutta stund, t.d. akkúrat á meðan mynd er opnuð. Þetta krefst þess líka að hraðinn verði mikill í báðar áttir, en staðreyndin er sú að á flestum nettengingum dagsins í dag er hraðinn inn á heimilið margfaldur á við það sem hann er frá því – enda þörfin á flutningum í þá áttina takmörkuð.

Öðru hverju skjóta upp kollinum fréttir um að Netið sé á vonarvöl, það muni hrynja og því þurfi að hefjast handa strax við að þróa “nýtt Internet”. Þetta hjálpar örugglega til við að fá rannsóknarstyrki, en er í sjálfu sér fjarstæða. Þó margt mætti auðvitað betur fara á Netinu, þá hefur það staðist allar raunir hingað til og mun halda áfram að þróast og yfirstíga nýjar hindranir. Auðvitað munu koma fram nýjungar og betrumbætur, en notendur munu ekki þurfa að tengjast “Netinu 2”. Úrbæturnar verða ósýnilegar notendum og gerast að mestu í kyrrþey rétt eins og breytingarnar sem hafa fært Netið frá því að vera áhugamál fárra þúsunda manna fyrir 15 árum yfir í það að sinna ótrúlegustu þörfum og óskum stórs hluta mannkyns í dag.

4 comments

 1. Gott stuff.
  Hvað með nettengt stuff eins og ryksugur, ljósaperur og ísskápa.
  Eins heyrði ég skemmtilega pælingu um daginn varðandi hvað við erum twisted í tækninotkun og nýjungum:
  Myndavélar í símum vs DSLR
  Youtube vs HD / Blue Ray
  Allt þetta er í örum vexti, sipaðar pælingar en ótrúlegur munur í væntingum varðandi gæði og notkun.

 2. Góðir punktar.

  Ég held að ég hafi ekki endilega náð að dekka ALLA framtíð Netsins í greininni. Ég hef t.a.m. alveg trú á að við munum sjá fleiri og fleiri tæki tengjast hverju öðru og Netinu með einum og öðrum hætti. Samt held ég að dæmið góða með klósettið sem talar við ísskápinn og samræmir innkaupin í takt við næringarviðmið manneldisráðs sé ekki alveg á næstu grösum.

 3. Finnur, myndavélasímar eru ódýrir og auðveldir í notkun og gæðin eru í sumum tilfellum nægileg til þess að þessi atriði trompi hugsanlega dýra myndavél fyrir venjulega notendur. Það má gera ráð fyrir því að sala á myndavélum dragist saman í framtíðinni með öflugri myndaválasímum. Þá sérstaklega á ódýrari myndavélum þar sem símarnir koma hugsanlega alveg í staðinn.

  Það er amk mín tilfining fyrir þessu að oft er það verðið, aðgengir og nytsemi sem trompa gæði.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s