Tækni og vit: Þriðja kynslóðin kemur

Greinin sem fylgir er sú síðari af tveimur greinum sem ég skrifaði fyrir Tækni og vit blaðið sem dreift var með Viðskiptablaðinu á föstudaginn. Sýningin Tækni og vit hefst á fimmtudaginn og lofar góðu.


Um þessar mundir er umsóknarfrestur rekstrarleyfa fyrir þriðju kynslóðar farsímanet – eða 3G – hérlendis að renna út. Allt að fjórum aðilum verður úthlutað leyfum og útlit er fyrir að a.m.k. þrjú fyrirtæki muni sækja um slík leyfi: Síminn, Vodafone og nýtt félag á vegum Björgólfs Thors Björgólfssonar sem gengur undir vinnuheitinu Nova (sjá vef Novators).

Þriðja kynslóðin er á flestan hátt eðlilegt framhald á þróun fjarskiptaneta undanfarin ár. Þriðju kynslóðar farsímanet taka umfram allt við því hlutverki sem núverandi farsímanet (sem oft er vísað til sem annarar eða 2,5 kynslóðar neta) hafa, þ.e. að flytja tal og SMS skilaboð. Líklega munu fæstir notendur verða varir við nokkurn mun á þessum þjónustuþáttum. Helsta breytingin með tilkomu þriðju kynslóðarinnar felst í auknum gagnaflutningshraða. Fræðilega eiga nýjustu þriðju kynslóðar kerfi að geta flutt álíka mikið gagnamagn og bestu ADSL tengingar sem í boði eru í dag, en ýmsir umhverfisþættir, auk þeirrar staðreyndar að þessi bandvídd skiptist á milli allra notenda í sama sendireit (þeirra sem tengjast sama farsímasendi), gerir það að verkum að raunhæft er að tala um að notandi nái etv. 1 mbit/s tengingu – sem verður þó að teljast algott. Algengar heimatengingar fyrir 2-3 árum náðu varla þessum hraða.

Samhliða þessum aukna hraða má búast við að farsímafyrirtækin leggi aukna áherslu á hverskyns gagnaþjónustu. Margir vita reyndar varla af þeim möguleikum sem í boði eru í dag. Í farsímanum er nefnilega hægt að lesa fréttir, nálgast hvers kyns upplýsingar og afþreyingu með tiltölulega einföldum hætti og hefur reyndar verið hægt um árabil. Hafiði ekki þegar prófað þetta, skora ég á ykkur að finna það sem heitir “Síminn WAP” eða “Vodafone Live” í símunum ykkar (eftir því hjá hvoru símafyrirtækinu þið eruð). Á mörgum símum er sérstakur hnappur með mynd af hnetti eða stafnum “i” sem opnar beint netgátt viðkomandi farsímafyrirtækis. Í öðrum símum gætuð þið þurft að leita undir einhverju sem heitir t.d. “Internet services”. Þegar þið einu sinni hafið fundið þetta verðið þið sjálfsagt mörg hissa hversu margt er í boði þarna: Fréttir af mbl.is, símaskráruppflettingar frá Já, Google leit, einfaldir leikir, upplýsingar um dagskrá kvikmyndahúsa og sjónvarpsstöðva, brandarar, teiknimyndasögur og margt fleira.

Þetta gefur smjörþefinn af sumu því sem ætla má að verði í boði með tilkomu þriðju kynslóðarinnar, upplifunin mun bara færast nær því sem við þekkjum á Vefnum í tölvunum okkar. Betri skjáir og meiri gagnaflutningshraði gerir upplifunina betri og líflegri með meiri grafík, styttri svartíma og nýjum möguleikum, t.d. aukinni áherslu á myndefni og vídeóklippur. Efnið sem þið nálgist úr símanum er í rauninni allt á Vefnum, í mörgum tilfellum bara aðlagað að litlum skjám og öðrum takmörkunum og í sumum tilfellum möguleikum sem farsíminn býður upp á. Úr nettengum farsíma er hægt að sækja hvaða vefsíðu sem vera skal – spurningin er bara hversu vel hún kemur út í farsímanum – nokkuð sem vefhönnuðir gefa sífellt meiri gaum.

En þriðja kynslóðin opnar líka aðra möguleika. Má þar nefna niðurhal á tónlist, útsendingar á sjónvarpsefni og myndsímtöl.

Myndsímtölin hafa verið eins konar tákngerving þriðju kynslóðarinnar – og já – með tilkomu þriðju kynslóðar þjónustu verða myndsímtöl sjálfkrafa möguleg. Notendur munu þá ekki bara geta heyrt í viðmælandanum heldur líka séð hann, eða öllu heldur “frá honum”. Reynslan erlendis hefur sýnt að myndsímtöl eru lítið notuð til beinna samtala eða myndfunda, en meira til að sýna viðmælandanum það sem fram fer í kringum mann – t.d. flotta kjólinn í búðinni eða stemmninguna á tónleikunum. Þetta er einn af þessum möguleikum sem erfitt er að spá fyrir um notkunina á og það sem notendur munu gera með myndsímtölum á vafalaust eftir að koma mönnum á óvart.

Tónlistin er annar áhugaverður möguleiki. Farsímaframleiðendur sjá fyrir sér að síminn taki smám saman yfir hlutverk sérhæfðra MP3 spilara – að fólk muni henda iPoddinum og nota símann sinn í staðinn. Apple deilir reyndar þessari framtíðarsýn eins og sjá má á iPhone símanum sem væntanlegur er síðar á þessu ári (rétt samt að taka fram að fyrstu gerðir hans munu ekki búa yfir 3G tengingum). Með þriðju kynslóðinni verður streymandi tónlist og niðurhal á lögum í síma mjög þægilegt. Þarna gætum við séð símafyrirtækin bjóða upp á hluti eins og aðgang að tónlistarsafni í áskrift, eða kaup á stökum lögum til niðurhals í símann.

Flutningsgetan í þriðju kynslóðar kerfunum er líka meiri en nóg til að dreifa streymandi myndefni. Skjáirnir eru vissulega ekki stórir, en duga í mörgum tilfellum til. Sumt efni þarf ekki stóra skjái og í öðrum tilfellum hefur fólk ekki tök á að komast í “hefðbundið” sjónvarp og þá getur bjargað deginum að ná útsendingunni í farsímanum – við getum notað íþróttaútsendingar sem handahófskennt dæmi. Notkun á farsímasjónvarpi hefur komið nokkuð á óvart þar sem slíkt hefur verið sett í gagnið erlendis og er eðlilega mjög frábrugðið notkun á hefðbundnu sjónvarpi bæði í efnisvali notenda og notkunarmynstri.

Hvað af ofantöldu íslensku farsímafélögin munu bjóða upp á verður tíminn að leiða í ljós og vel má vera að þau lumi á einhverju í pokahorninu sem ekki hefur verið talið upp hér. Við búum að því að þriðju kynslóðar þjónusta hefur nú verið rekin um nokkura ára skeið erlendis og þar hefur orðið til reynsla sem nýtast mun hér. Fæst þeirra erlendu fyrirtækja sem óðu af stað í þriðju kynslóðina í “bólunni” munu nokkurntíman ná að greiða niður fjárfestingar í tækni, þróun og leyfum með þriðju kynslóðar þjónustu einni saman og verða því að sækja þá peninga í aðra vasa. Hér búum við að því að leyfisgjöldin verða hófsöm og tæknin er orðin allvel þroskuð nú þegar farið er af stað. Það verður því spennandi að sjá hvaða nýju þjónustuþættir munu standa okkur til boða hér á næstu misserum.

Þriðja kynslóðin er skref í áttina að heimi þar sem tölvurnar okkar og tækin eru alltaf tengd netinu, alls staðar. Þetta er samt bara þróun, en engin bylting – á margan hátt það sama og GSM var fyrir NMT. Síminn verður áfram umfram allt tæki til að tala í, en tækin taka á sig aðra mynd, nýjir möguleikar opnast og verða smám saman meira notaðir. Svo heldur þróunin áfram – fjórða kynslóðin er þegar komin af teikniborðinu og sú fimmta á það.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s