Var að upplifa eitt af þessum “þetta er ótrúlegt” nörda-mómentum rétt í þessu.
Delicious Library heitir forrit sem hjálpar fólki að halda utan um bókasafnið sitt (og reyndar kvikmyndir, geisladiska og tölvuleiki líka).
Ég heyrði fyrst um þetta kerfi fyrir örugglega bráðum 2 árum, en þar sem þetta er bara fyrir Makka gat ég ekki prufuekið því. Mér hraus líka hálfpartinn hugur við að slá inn ISBN bókanúmerin á öllum 40 hillumetrunum okkar til að koma þeim inn í kerfið.
Ákvað svo að prófa græjuna loksins núna eftir að vinnufélagi minn benti mér á stórkostlegan fídus í græjunni – þeir nota vefmyndavél (sem í tilfelli Makkans er innbyggð) til að skanna strikamerkin á bókunum! Og þetta bara virkar. Kerfið flettir svo upp öllum upplýsingum um bókina á Amazon og skráir sjálfvirkt inn.
Ég tók nokkrar erlendar bækur af handahófi úr safninu og þær fundust allar. Því miður eru ekki upplýsingar um íslenskar bækur á Amazon, en ég slæ þá bara inn þá 10 hillumetrana 😉
Er ekki tæknin samt stórkostleg?
– – –
P.S. Smá tips til þeirra sem ætla að prófa þetta. Það þarf svolítið góða birtu til myndavélin grípi strikamerkið og það á að snúa þvert á rauðu rendurnar.