Listin að þekkja Íslendinga

Ég vil endilega leysa ráðgátuna um það hvernig í ósköpunum maður fer að því að þekkja Íslendinga erlendis.

Þetta er skemmtilegur samkvæmisleikur sem ég veit að margir stunda, t.d. á flugvöllum og við erum flest alveg ótrúlega góð í þessu. Ég er sem sagt að tala um þessa vissu sem stingur sér í kollinn á manni þegar augað dregst að einstaklingi eða hópi í mannhafi og hugsar með sér: “ÞETTA eru Íslendingar”. Hvernig fer maður að því að þekkja landa sína frá t.d. Dönum og Svíum í Kaupmannahöfn? Eða Bretum í London? Ég er ekki að segja að það fari ekki einhverjir Íslendingar framhjá manni, en þegar þessi sterka tilfinning kviknar þá hefur maður nær undantekningarlaust rétt fyrir sér.

Ég hef heyrt margar kenningar um það hver ástæðan sé: undanrennugrái hörundsliturinn, háleitni sveitamannsins sem horfir yfir mannhafið í staðinn fyrir að horfa á tærnar á sér eins og þeir gera sem aldir eru upp í meira þéttbýli, magn innkaupapoka, að við séum öll svo lík af því að við séum jú öll tiltölulega skyld – nú eða einhverskonar sambland af öllu þessu.

Ég er samt með eina kenningu í viðbót. Við búum jú í ótrúlega litlu samfélagi – 312.000 eða þar um bil. Miðað við það hvað maður umgengst, hittir og sér marga dags daglega í vinnunni, þegar maður verslar í matinn, tekur strætó, horfir á fréttirnar, fer á kaffihús eða hvað annað sem maður tekur sér fyrir hendur yfir daginn – þá er ekki ólíklegt að maður hafi einhverntímann hitt eða séð stóran hluta Íslendinga – flesta satt að segja oft.

Ég vil meina að það sem sé aðallega að gerast þegar “Íslendingaheilkennið” gerir vart við sig sé að litla einingin í heilanum sem vinnur við það að þekkja fólk og andlit (sjá fyrri umræðu hér) sé að senda frá sér veik boð – veikari en “ég þekki þennan”, jafnvel veikari en “þetta er einhver sem ég hef séð” – meira svona lágt suð, sem við þekkjum í útlöndum sem tilfinninguna “ÞETTA er Íslendingur”. Öll hin atriðin hjálpa auðvitað til, en þau eru – rétt eins og allt annað í útliti og fari fólks í kringum okkur – túlkuð af þessari forvitnilegu einingu.

Einhver þarna úti með aðrar kenningar? Er mögulega einhver sem kannast ekki við að leika þennan samkvæmisleik á ferðalögum erlendis?

3 comments

  1. Ég leik þennan leik alltaf þegar ég ferðast (og ég ferðast mikið). Það er satt að oftast hefur maður rétt fyrir sér þegar þessi tilfinning kviknar.

    Hinnsvegar er ég ekki viss um sub-teoríuna hjá þér. Ég hef nefnilega ekki búið nema tæp 4 ár á Íslandi frá því að ég varð 11 ára og þekki fáa – hef þó yfirleitt rétt fyrir mér.

    Einhver subliminal vibe í gangi – “this is one of my tribe” – “takes one to know one” etc etc

  2. Ha? Ég hélt þetta væri bara einfalt, leita bara að svona hrafnaþingi, allir í svörtum fötum og hljómar eins og einn, tveir bjórar hafi runnið niður ljúflega, og þá er ég pottþétt búinn að finna rétt gate út á flugvelli 🙂

    Annars eru Íslendingar almennt stærri en flestar aðrar þjóðir, andlitsfallið dálítið öðruvísi en Norðurlandaþjóðirnar, alltaf hægt að þekkja frá Hollendingum og Þjóðverjum á fatnaði, osfrv…?

  3. Það er einhver sauðasvipur sem er sameiginlegur íslendingum. Svo hafa íslendingar einn greinilegan ávana: þeir horfa alltaf framan í alla sem þeir mæta, enda vanir að rekast alltaf á einhverja kunningja hvert sem þeir fara.

Leave a Reply to Stebbi Cancel reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s