Ókeypis hagfræði

Þessar hugleiðingar mínar birtust í Viðskiptablaðinu fyrir skemmstu. Ákvað að smella þeim hér inn líka.


Skortur er lykilhugtak í hagfræðinni. Skortur er þegar eftirspurn eftir vöru er meiri en framboðið. Áhrifin eru yfirleitt þau að verð vörunnar hækkar. Þar með minnkar eftirspurnin og jafnvægi kemst á milli framboðs og eftirspurnar. Verði breytingar á öðru hvoru leiðir það af sér verðbreytingar og þannig leitast markaðurinn leitast við halda jafnvæginu.

En hvað gerist þegar framboð á vöru er ótakmarkað? Þegar kostnaðurinn við að framleiða viðbótareintak af vörunni er enginn, eða því sem næst?

Þetta er raunin með nær allar vörur sem hægt er að afhenda á stafrænu formi: hugbúnað, bíómyndir, tónlist, bókatexta og dagblöð svo dæmi séu tekin. Þegar frumeintakið er einu sinni orðið til kostar svo til ekkert að afrita það.

Þetta þekkir afþreyingariðnaðurinn vel. Ólögleg afrit af tónlist og bíómyndum fljóta um Netið og dreifast manna á milli með ýmsum hætti. Kostnaðurinn fyrir þann sem hefur eitt afrit undir höndum við að búa til nýtt eintak og afhenda öðrum er enginn.

Til að mæta þessu hefur verið reynt að búa til allskyns hindranir – draga úr framboðinu með einhverjum hætti og búa þannig til skort til að halda uppi verðinu. Fyrirtæki hafa gengið langt í því að búa til afritunarvarnir sem fæstar hafa haldið lengi og sennilega frekar orðið til að skapa gremju meðal þeirra sem keyptu eintök löglega, en að hindra dreifingu ólöglegra eintaka. Í öllu falli er enginn skortur á framboði á slíku efni á Netinu og útgefendur og dreifingaraðilar kvarta sáran.

Það er hins vegar athyglisvert að sjá hvernig ungar og upprennandi hljómsveitir eru að fóta sig í þessum heimi. Um daginn heyrði ég sögu af tónleikum sem ein slík sveit hélt. Hljómsveitin hafði bannað sölu á geisladiskum sinum á tónleikunum, en seldi aftur á móti boli í anddyrinu. Ástæðan var einföld: Ef aðdáandi var tilbúinn að draga fram veskið og greiða 2.000 krónur, er miklu hagstæðara fyrir hljómsveitina að hann kaupi 2.000 króna bol, sem hljómsveitin fær 1.500 krónur af, en 2.000 króna geisladisk sem þeir fá 200-300 krónur af. Hann má svo sækja tónlistina frítt á vefsíðunni þeirra!

Fyrir þessum hljómsveitum er dreifing á Netinu staðreynd og í staðinn fyrir að reyna að hindra hana, sjá þær hana sem það sem hún er: ókeypis dreifileið og kynningu. Margar efnilegar hljómsveitir gefa nú orðið aðdáendum tónlistina sína á Vefnum, hvetja þá til að sækja lögin og dreifa þeim sem víðast. Orðsporið berst hraðar en nokkru sinni fyrr og lítil hljómsveit á Íslandi getur orðið heimsfræg á einni nóttu fyrir lag sem hún gefur ókeypis á MySpace síðunni sinni.

Í staðinn selur hún allt mögulegt annað: Miða á tónleika, boli, myndir og árituð plaköt, fá styrktaraðila sem nýtur þess í auglýsingum á síðunni þeirra og á tónleikum og fá borgað fyrir að semja stef í auglýsingar, sjónvarpsþáttaraðir eða kvikmyndir.

Mike nokkur Masnik skrifaði mjög áhugaverða grein um þetta fyrirbæri á vefnum TechDirt nú í vor. Þar heldur hann því fram að nær allir geirar atvinnulífsins geti lært af þessum breytta hugsanahætti sem er að ryðja sér til rúms í tónlistargeiranum.

Hann leggur til að hvert og eitt fyrirtæki setjist yfir sitt viðskiptamódel og greini takmarkaðar og ótakmarkaðar auðlindir sem fyrirtækið hefur yfir að ráða. Að því loknu setji það saman áætlun um það hvernig hægt sé að nota ótakmörkuðu auðlindirnar til að hvetja sölu á þeim takmörkuðu.

Í tilfelli tónlistargeirans eru það afrit af lögum sem eru ótakmörkuð auðlind, en takmörkuðu auðlindirnar eru fjöldamargar: Aðgangur að tónlistarmönnunum sjálfum, tónleikamiðar, ný lög, athygli aðdáenda, einkatónleikar, baksviðspassar, varningur tengdur hljómsveitinni og svo framvegis. Með því að gefa lögin er hægt að hvetja sölu á öllu hinu.

Með öðrum orðum: Ekki gefa hluti bara til að gefa þá, gefðu þá til að græða á því! Velkomin í heim ókeypis hagfræðinnar.

One comment

  1. Það sem Radiohead eru að gera er líklegast það merkilegasta sem hefur gerst í þessum málum í langan tíma. Þeir ætla að gefa frí download af nýjasta disknum sínum – og þó það hafi margir aðrir gert slíkt áður þá mun það gjörsamlega falla í skuggann af þessari dreyfingu.
    http://www.radiohead.com/

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s