Tæknispá 2008

Fyrir tveimur árum, þegar ég var með vikulega pistla á NFS um tölvur og tækni skrifaði ég Tæknispá fyrir árið 2006 – um átta hluti sem myndu gerast það ár. Árangurinn verður hver að meta fyrir sig, en hér er a.m.k. samskonar spá fyrir komandi ár.

7 hlutir sem munu gerast 2008:

 • Hægir á ráðningum í tölvugeiranum: Bankarnir hafa sogað til sín mikið af tölvutalent undanfarin 3-4 ár. Önnur fyrirtæki hafa átt fullt í fangi við að ná í og halda fólki. Fæstir hafa getað yfirboðið þau launakjör sem bankarnir hafa boðið, helst að aðrir hafi kannski getað boðið áhugaverðari verkefni og náð til sín fólki þannig.
  Með “kólnandi hagkerfi” er þetta að breytast hratt og sumar af tölvudeildum bankanna hafa þegar ákveðið að standa ekki í frekari nýráðningum að sinni. Reyndar hlýtur í sjálfu sér talsvert starf að vera óunnið ennþá í að byggja upp skilvirkar einingar úr þessum mikla fjölda nýrra starfsmanna þannig að kannski kemur þetta sér bara vel fyrir þá. Ég ætla ekki að ganga svo langt að spá því að bankarnir muni fara í uppsagnir í tölvudeildunum, en gæti þó trúað því að eitthvað af verktökum og lausafólki í verkefnum – sem þeir hafa nýtt sér umtalsvert – muni verða fækkað. Til þess er jú leikurinn að hluta til gerður að verktökum er hægt að fækka mun hraðar og einfaldar en venjulegu launafólki. Eins er líklegt að bankarnir muni prófa sig í frekara mæli áfram með úthýsingu verkefna – einkum til Austur-Evrópu.

 • Ár “Netsins í símanum”: Gagnaumferð og notkun á netinu í farsíma mun springa út hér á landi á komandi ári. Tilkoma þriðju kynslóðarneta hjá öllum símafyrirtækjunum, aukið efnis- og þjónustuframboð og eðlilegri gjaldheimta fyrir þessa notkun mun ýta undir þetta. Flöt mánaðargjöld fyrir ótakmarkaða gagnanotkun verða í boði fyrir lok ársins, en einstakir þjónustuþættir (t.d. aðgangur að tónlistarsöfnum, íþróttum eða öðru sérefni) verða gjaldfærðir á einfaldan og sýnilegan hátt.
  Öflugari handtæki munu enn auka á þessa notkun og iPhone mun sem dæmi ná verulegri útbreiðslu hvort sem hann verður formlega seldur hér á landi á árinu eða ekki. Ég spái því reyndar að ólæstir 3G iPhone símar verði fáanlegir í verslunum hér í haust. Aðrir framleiðendur munu líka koma með mjög frambærileg tæki á árinu.

 • Nova og farsímamarkaðurinn: Nýja farsímafyrirtækið Nova mun skipta um markaðsnálgun snemma á árinu og slagorðið “Stærsti skemmtistaður í heimi” verður lagt niður. Fyrirtækið mun þó halda áherslunni á afþreyingu og gagnalausnir (sbr. liðinn hér að ofan). Eftir því sem líður á árið (og reikisamningum þeirra fjölgar) mun Nova einbeita sér meira að fyrirtækjamarkaði og ná allt í allt á bilinu 3-5% markaðshlutdeild á árinu. Þreifingar munu verða uppi um samruna Nova og Vodafone, en ólíklegt að það gangi í gegn á árinu 2008.
 • Bankaútrás á Netinu: Tiltölulega óþekktur armur íslensku bankaútrásarinnar er alþjóðleg starfsemi þeirra á Netinu. Kaupþing rekur sem dæmi nokkuð vinsælan innlánabanka á netinu í Svíþjóð og Finnlandi undir nafninu Kaupthing Edge og Landsbankinn rekur sambærilega þjónustu í Bretlandi undir heitinu Icesave. Búast má við að þessi starfsemi verði útvíkkuð til fleiri landa og heilt á litið eiga íslensku bankarnir mjög mikil sóknarfæri í því að nýta sér þá reynslu og tækni sem þeir hafa aflað sér við þróun íslensku netbankanna í alþjóðlegu samhengi, enda finnst óvíða jafngóð netbankaþjónusta.
 • Vélabú mun rísa:Lagning a.m.k. tveggja nýrra sæstrengja til landsins, annars vegar DanIce strengsins og hins vegar Greenland Connect strengsins sem liggja mun frá Íslandi til Grænlands og þaðan áfram til Nova Scotia (mögulega með séríslenskri hjáleið til að sleppa við krókinn upp til Nuuk sem er á annað þúsund kílómetrar). Þannig verður Ísland á næstu 2 árum orðið vel tengt til bæði Ameríku og Evrópu. Það er jafnvel ekki útséð um lagningu Hibernia á streng til Skotlands Írlands. Að því sögðu er ljóst að á árinu verður hafið að reisa að minnsta kosti eitt stórt vélabú hér á landi á árinu og mögulega tekið í notkun þegar árið 2009.
  Áhugi á ferkari uppbyggingu vélabúa hér mun vaxa ef eitthvað er. Leggst þar á eitt skortur á grænni og hagkvæmri orku og sú þróun að hugbúnaður keyrir í síauknum mæli á Netinu, jafnvel í sveigjanlegu keyrsluumhverfi eins og gagnagrunns-, reikni- og geymsluþjónustum Amazon og Force.com. Möguleikinn á, og hagkvæmnin við slíkar lausnir fæst einmitt af því að þau eru rekin í gríðarstórum vélabúum sem þjóna meira eða minna öllum heiminum frá einum stað.

 • Decodeme og 23andme: Decode mun fara í samstarf með fyrirtækinu 23andme á sviði persónulegra erfðaprófa. Eftirspurn er þegar eftir slíkum prófum og hún mun fara vaxandi. 23andme er stofnað af Anne Wojcicki, eiginkonu Sergey Brin sem er annar af stofnendum Google, og fær sitt fjármagn að mestu þaðan. Athyglin sem það hefur vakið hefur gefið 23andme verulegt forskot á Decodeme í þessari glænýju grein (sjá gróflega bloggathygli og umferðartölur). Decode er aftur á móti í frumrannsóknum og hefur að líkindum mun sterkari vísindalegan bakgrunn en 23andme. Með peninga og markaðsafl Google á bakvið 23andme og vísindalega getu og þekkingu Decode er þetta gríðarlegt tækifæri fyrir báða aðila.
 • CCP ungar út: Nú þegar leikjaframleiðandinn CCP er orðið stórt og öflugt fyrirtæki eftir aðdáunarverða þrautseigju í hartnær áratug er ljóst að fleiri horfa til leikjamarkaðarins. Þetta er markaður í örum vexti, íslenskir fjárfestar hafa orðið skilning á tækifærunum sem í honum felast og góð þekking er orðin til í þessum hópi á þeirri tækni, nálgun og aðferðafræði sem gerir góðan fjölspilunarleik. Fyrirtæki með svipaðar hugmyndir munu spretta upp og byggja á þessari reynslu og aðstæðum – og ekkert nema gott um það að segja. Við megum búast við að sjá allar stærðir og gerðir af slíkum pælingum – allt frá veflægum “kaffipásu”-útgáfum sem notast etv. við Flash yfir í stóra og flókna þrívíddarleiki sem ganga lengra en EVE Online í stærð, umfangi og flækjustigi.

Er ég að gleyma einhverju? 😉

5 comments

 1. Takk fyrir þetta. Mjög fróðlegur og skemmtilegur pistill. Þar sem maður flokkast víst til nerda getur maður lítið annað gert en að fylgjast vel með hversu sannspár þú reynist.

  Ég vil þó aðeins spreyta mig líka og spá aðeins. Ég hygg að þetta verði “árið þitt” er varðar spádómsgáfur og að þú verðir kynntur til sögunnar sem “ný völva vikunnar” í árslok 2008. Munt þá sjást á forsíðu desember heftis þess blaðs með svarta silki slæðu fyrir vitum og glimmer á höfðinu. sjáum til.

  J#

 2. Hahaha Hlakka til að sjá þig með slæðuna og glimmerskallann ;D við gætum amk reddað mynd af þér í svoleiðis múnderingu og þú gætir skellt henni inn með spádómunum þínum á næsta ári ;D

  Lotta 🙂

 3. * Almennileg raddgreining mun loksins verða möguleg (greinir talað mál og ekki bara stök orð ásamt því að hún mun ekki þarfnast verulegrar þjálfun eins og hingað til hefur þurft) – Við munum ekki sjá þetta innbyggt í smátölvum, á borð við síma, strax en fyrirtæki munu í auknum mæli nota sér miðlæga þjónustu í gegn um síma (símnn verður taltækið)

  * Seint á árinu munum við sjá afþreyingartækið (ákveðni greinirinn er mjög mikilvægur) þetta er eitt tæki (jafnvel innbyggt í sjónvarp) sem sér um spilun á öllu efni óháð geymslustað, öryggisdulkóðun að dreifingarleiðum – ein fjarstýring, ekkert sull!

  * Blindrabókasafnið mun gera stórt og gott safn af bókaupplestri aðgengilegt fyrir almennig – gegn vægu gjaldi. Þetta mun slá í gegn og verða mun vinsælla en margur hefði talið.

  * Háskerpu-kvikmyndaupptökuvélar verða jólagjöfin í árslok hjá þeim sem hafa jafnað sig á kreppunni

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s