Fordómar og frjáls viðskipti (lexía frá Afríku)

Landslag � RúandaEin af ástæðunum fyrir því að okkur þykir svo gaman að ferðast á óhefðbundnar slóðir er að það er alltaf eitthvað sem fær mann til að sjá lífið og tilveruna í aðeins öðru ljósi en áður. Ferðin okkar til Úganda og Rúanda núna í lok febrúar var síst undantekning.

Hugmyndir okkar flestra um svona framandi slóðir byggjast að miklu leyti á þeim myndum sem eru dregnar upp af þeim í fjölmiðlum. Sjaldan eru sagðar jákvæðar fréttir frá Afríku. Vissulega er nóg af hörmungum í þessari stóru heimsálfu, en eins og alltaf verðum við að muna að það sem við sjáum í fréttunum eru undantekningarnar frá því sem almennt gerist: það versta, það stórfenglegasta og það hrikalegasta.

Nærtækt dæmi lýsir þessu nokkuð vel. Þegar Suðurlandsskjálftarnir riðu yfir árið 2000 voru fréttamyndirnar ekki yfirlitsmyndir af Hvolsvelli eða Hellu að sýna að byggðin væri heil og í raun ákaflega lítill skaði. Þvert á móti er farið inn í þau fáu hús sem urðu fyrir alvarlegu tjóni og myndavélum er stillt upp þannig að skaðinn virðist sem mestur. Teknar voru myndir af hrikalegum sprungum í vegum og úti í móa á Skeiðunum. Af myndmálinu að dæma er tjónið gríðarlegt. Þegar búið er að vinna þetta niður í 45 sekúndna fréttainnslag í alþjóðapressunni á sá sem ekki þekkir þeim mun betur til aldrei möguleika á að átta sig á hinu rétta. Ég man að hér á landi var gert grín að einhverjum fjölmiðlum erlendis sem hefðu blásið málið upp – hvílík fáviska.

Raunin er auðvitað sú að það sama á við um þær fréttir sem við fáum af því sem er að gerast annarsstaðar í heiminum. Afríka er ekki “öll í steik” þó að við fáum oft fréttir af hræðilegum hlutum sem eiga sér stað einhversstaðar í álfunni. Löndin tvö sem við heimsóttum í þessari ferð – Úganda og Rúanda – hafa vissulega fengið ríflega sinn skammt af hörmungum heimsins síðustu 150 árin eða svo. Þekking flestra á hvoru landi fyrir sig takmarkast nær alfarið við tvö hugtök: “Idi Amin” og “þjóðarmorð”. Hvorugt er endilega eitthvað sem maður myndi nota í auglýsingaherferð – en staðreyndin er sú að í dag eru þetta tiltölulega friðsöm og örugg lönd sem hafa upp á ótrúlega hluti að bjóða fyrir gesti sína: ólýsanlega náttúrufegurð (myndirnar eru væntanlegar), fjölskrúðugt dýralíf, gott veður, framúrskarandi gististaði, góðan mat og lipra þjónustu. Þetta er auðvitað ekki algilt frekar en annarsstaðar í heiminum, en ég bendi bara á vefsíður staða sem við gistum á s.s. Mweya Lodge og Lake Mburo Mantana Camp sem dæmi um algerar perlur.

Í Úganda hefur ríkt tiltölulega stöðugt ástand síðan 1986; í Rúanda að mestu síðan 1997. Vissulega er þarna mikil fátækt. Algengasta gerð heimilis er lítill múrsteinakofi með dálítilli landspildu þar sem ræktað er til heimilisins og 3-5 geitur hafðar á beit. Í báðum löndunum er hins vegar mikil uppbygging í gangi og mjög fáir sem líða skort, enda eru þetta einhver frjósömustu svæði jarðarinnar. Vöxtur þjóðarframleiðslu í báðum löndunum hefur verið á bilinu 4-9% á ári síðasta áratuginn. Þarna eru víða miklar auðlindir í jörðu og gríðarleg tækifæri í aukinni ferðaþjónustu. Ekki spillir heldur fyrir að í Úganda (líkt og í Kenía og Tansaníu) er enska opinbert tungumál (franska í Rúanda). Þetta eru með öðrum orðum lönd mikilla tækifæra.

Nú er erfitt að halda því fram að maður hafi djúpa innsýn í þjóðlíf þessara landa eftir tveggja vikna túristaferð. Grunurinn sem að mér læddist var samt sá að það sem stendur í vegi fyrir því að þessar þjóðir virkilega blómstri sé tvennt:

  • trú fólksins á það að stöðugleikinn sé kominn til að vera
  • vilji og áhugi ríkari þjóðanna til að eiga í viðskiptum við þessi lönd

Fyrst um stöðugleikann: Fólk á þessum svæðum er búið að ganga í gegnum svo miklar hörmungar eftir nýlendutímann, illa skipulagt brotthvarf nýlenduherranna og loks valdtöku geðsjúklinga sem nýttu sér upplausnina í kjölfarið að það telur (með réttu eða röngu) að friðurinn sé bara tímabundinn. Það kemur alltaf stríð á endanum! Þetta veldur því að eðlilegt hagkerfi nær ekki að myndast. Þegar stríðið skellur á er til lítils að eiga peninga og hafa sérhæft sig sem smiður eða rafvirki. Þá er betra að eiga bara sitt hús, sína geit og sína landspildu og vera þannig sjálfum sér nógur um allar nauðsynjar.

Hvað viðskiptin varðar er boltinn hjá okkur – ríka fólkinu. Fordómar (í bókstaflegri merkingu þess orðs – við dæmum áður en við reynum að afla okkur meiri upplýsinga) loka augum okkar fyrir tækifærunum sem felast í viðskiptum við þessi ríki. Áðurnefnd hörmungamynd sem dregin er upp af svæðinu veldur þessu. Það þurfa fleiri að heimsækja þessi lönd (sem eru viðskipti eitt og sér), sjá hvernig þetta er í raun og veru og koma á tengslum. Með tengslum koma viðskipti og með viðskiptum erum við byrjuð að fæða virðiskeðjur sem teygja sig um allt hagkerfið: Gefðu einhverjum pening og hann getur stungið honum í vasann, kauptu eitthvað af honum og hann þarf sjálfur að kaupa eitthvað af öðrum til að búa til vöruna. Þessi lönd þurfa viðskipti – ekki ölmusu.

Með viðskiptunum kemur síðan öryggið, því að um leið og Vesturlönd eiga nægra hagsmuna að gæta, munu þau sannarlega gæta þessara sömu hagsmuna með kjafti og klóm. Snilldarlegasta bragðið sem notað var til að tryggja friðinn í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina var að auka frelsi í viðskiptum á milli Evrópulanda – þannig varð það hagur allra að halda friðinn þar sem það einfaldlega kostaði of mikið að fara í stríð við helstu viðskiptalöndin. Á sama hátt munu hagsmunir í Afríku tryggja það að erjur innan eða milli landa verða ekki liðnar á sama hátt og hingað til hefur verið.

Frelsi í viðskiptum og fræðsla á báða bóga er það sem þarf.

One comment

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s