Þetta átti upphaflega bara að vera svar við bloggfærslu Sveins vinar míns Tryggvasonar um málið, en það stóð hvort eð er til að gera úr þessum pælingum bloggfærslu… 🙂
Ég mætti. Fyrirlesturinn var þrælgóður, enda þaulæft “performance”. Það gáfust 20-30 mínútur í spurningar svo vandinn var ekki að Gore gæfi ekki færi á sér, spurningarnar sem hann fékk voru bara svo lélegar og algerlega lausar við krítík. Í stað þess að velja fólk af handahófi til spurninga hefði verið miklu betra fyrirkomulag að senda inn spurningar fyrirfram (eða á staðnum í SMS) og velja svo úr þær bestu. Þetta er svo verðmætur tími að það var synd að hann færi í mismunandi útgáfur af “þú ert frábær og ég er sammála þér” dulbúið í spurningaformi.
Ég hefði t.d. haft gaman af að sjá Gore svara spurningunni um það hvort Íslendingar eigi að axla ábyrgð í losunarmálum heimsins með því að taka til okkar álver og framleiða þar með “aðeins” 1.6 tonn af CO2 fyrir hvert tonn af áli á móti ca. 20 tonnum eins og raunin er í flestum öðrum álverum heimsins (þó að miðað við þessi hlutföll megi vissulega ennþá tala um “koltvísýringsverksmiðjur” með ál sem aukaafurð). Það hefði verið fróðlegt að sjá upplitið á salnum ef svarið hefði verið á þann veg sem ég býst við.
Heilt yfir eru samt nokkrar óumdeildar staðreyndir í þessum málum:
- Magn CO2 í andrúmsloftinu er langt yfir því sem það hefur verið í nokkur hundruð árþúsund og það er að megninu til vegna brennslu mannsins á kolefnaeldsneyti
- Hitinn á jörðinni hefur hækkað um 0,5°C á síðustu 100 árum
- Í vísindasögunni er sjaldgæft að sjá jafnmikla samstöðu vísindasamfélagsins um nokkurn hlut eins og það að maðurinn eigi þátt í þessari hitaaukningu. Þetta er sami vísindaprósessinn og færði okkur nútíma læknavísindi, iðnbyltinguna og Pepsi Maxið þannig að við skulum fara varlega í að vantreysta honum. Það er hins vegar enn deilt um það hversu stór þessi hlutur er, hversu mikil hitaukningin muni verða og hvaða afleiðingar hún muni hafa.
Ég hef áður bent á að þetta er ekki stóra vandamálið sem þarf að leysa. Vandamálið sem þarf að leysa er fátæktin í heiminum, þannig að það verði ekki bara við – ríku þjóðirnar – sem geta tekist á við mögulegar afleiðingar af loftslagsbreytingum (af mannavöldum eða ekki) heldur líka hinar. Það er ekkert stórmál að takast á við fólksflutninga, jafnvel tugmilljóna manna, í breytingum sem verða á áratugum með þægilegum fyrirvara EF það er nægilegt fjármagn á viðkomandi svæðum til að takast á við þá.
Ég minni á að á síðustu 50 árum höfum við “tekið við” meira en 3 milljörðum nýrra jarðarbúa á sama tíma og meðallífsskilyrði hafa snarbatnað – og það var ekki einu sinni skipulagt.
Þú hefur rétt fyrir þér, en þú hugsar of stórt eins og Gore. Þú sérð samt fyrir þér hvernig hefði verið betra að koma skilaboðum til Gore og vonaðist til að fá þá skýrari svör. Ég efast um að skýrari svör fáist frá stjórnmálamönnum, eða fyrrverandi stjórnmálamönnum.
Að finna lausnina gegn fátækt í heiminum er líka of stórt hugsað. En hugsanlega væri hægt að byrja að nálgast einhvern jöfnuð ef fólk byrjaði að treysta því að “einhverjir” mjólkuðu ekki afrakstur vinnu þess. Til þess að það gerist þurfa “einhverjir” að hætta að trúa á snöggan auðveldan gróða og sjá fyrir sér… heilan heim.
Sennilega frýs helvíti og pálmar vaxa á Íslandi áður en það gerist.
Þarna er ég reyndar ósammála þér. Í fyrsta lagi held ég að það sé ekki óvinnandi vegur að því sem næst útrýma fátækt í heiminum og hins vegar hef ég sterka trú á að það gerist einmitt ekki nema með því að virkja gróðavonina.
Sjá fyrri pælingar mínar: Fordómar og frjáls viðskipti (lexía frá Afríku)
Hernando de Soto heldur því einmitt fram með trúverðugum hætti að það sem einna helst viðheldur fátækt og misskiptingu í heiminum sé ónóg umhyggja fyrir eignarréttinum.
Myndirðu annars kalla gull- og demantsnámur grjótnámur með gull og demanta sem aukaafurð? : ) Hlutföllin hljóta að vera miklu meira sláandi þar en í álverksmiðju.
Svo má náttúrulega ekki gleyma því að þessi 1,6 tonn af koltvísýringi hverfa bara eitthvert út í buskann (!) á meðan tonnið af áli nýtist í að smíða flugvélar og bíla … sem síðan, hm, gefa frá sér meiri koltvísýring …
… en það stendur nú allt til bóta.
Rökin með eignarréttinn halda fullkomlega. Meðan hann er ekki skýr er t.d. ekki hægt að veðsetja eignir til að leysa úr læðingi verðmæti og hvetja þannig vöxt.
Reyndar er líklega margt annað að þar sem eignarréttur er ekki almennilega virtur.
Þetta með koltvísýringsverksmiðjuna er auðvitað kaldhæðni, aðallega ætluð til að benda á þessa áhugaverðu staðreynd. Aukaafurðirnar af gull- og demantaframleiðslu eru miklu sýnilegari eins og þú bendir sjálfur á og eins er ég ekki viss um að allir hafi heyrt þessar tölur þó þeir hafi miklar skoðanir á þeim.
Ég get ekki beðið eftir Teslunni. Það á eftir að gera mikið fyrir málstaðinn þegar það koma fram bílar eins og þessi sem nota “alternative energy” og geta um leið verið stöðutákn. Þá verður loksins svalara að eiga umhverfsvænan bíl (burtséð frá umhverfisvænkunni) en t.d. Hummer og þegar fyrirmyndirnar fara að haga sér þannig er stutt í “tipping point” í átt frá kolefniseldsneyti.
Annars mun olíu- og bensínverð heilt á litið bara halda áfram að hækka næstu árin og áratugina, þannig að þetta er vandamál sem á endanum leysir sig sjálft. Líklega mætti þó bæta svolitlum koltvísýringsskatti á til að verðleggja vandamálið og flýta þar með þróuninni.
Þrælgóðar pælingar, Hjalli. Ég er að vinna að svari á stærð við Símaskrána til að geta “match’að” þig 🙂 Greinilega hugsandi fólk sem les bloggið þitt. Alveg sammála Gulla og de Soto um nauðsyn þess að eignaréttur sé virtur.
Annars er komin alveg splúnkuný froða frá Gore inná Jútjúb (http://youtube.com/watch?v=a4JKxfzvcM8).
En af hverju erum við að ræða þetta? – the debate is over! 😉
Takk fyrir að senda mér skilaboð um að þú hefðir svarað athugasemd minni. Ég vil ekki strauja heiminn og gera alla jafna með valdi.
Ég vil eins og þú að þeir sem standa sig vel fái það verðlaunað. En spurningin er hversu há verðlaunin eiga að vera og sérstaklega á kostnað hverra.
Ekkert er ókeypis, vestræni heimurinn er í vandræðum núna vegna þess að spekúlérandi snillingar spiluðu með afrakstur vinnu almennings og kunnu sér ekki hóf.
Eða hvernig skilur þú stöðu fjármálamarkaðarins?
Ég horfi aðallega á venjulegt fólk sem skuldar ca. 60-80% í íbúðinni sinni, ég þori varla að hugsa til þeirra sem skuldbreyttu þegar bankarnir buðu lægstu vexti sem þekkst höfðu á Íslandi! (Fáránlega háir vextir miðað við Þýskaland td á sama tíma). Vextirnir á Íslandi eiga eftir að mjólka síðasta dropann úr millistéttinni, þannig að framvegis verður bara til lág- og hástétt.
Þarna erum við lögð af stað í allt aðra umræðu sem væri alveg gaman að taka líka, en ég held þessu hér við loftslagsmálin.
Heilt yfir held ég að það sé einföldun að halda því fram að núverandi efnahagsástand sé alfarið einhverri “hástétt” eða “spekúlerandi snillingum” að kenna. Hér á vesturlöndum erum við flest okkar eigin gæfu smiðir og margir – háir sem lágir – sem hafa farið afar óvarlega í sínum efnahagsmálum, hvort sem þau snúa að því að stýra heilum ríkissjóði eða kaupa sér nýjan bíl.
En, nóg um það hér 🙂