Bankastærðfræði 101

Þann 1. apríl síðastliðinn stofnaði ég banka. Þetta er alþjóðlegt fjármálafyrirtæki og af þeim sökum var höfuðstóllinn auðvitað í erlendri mynt: 1.000 evrur í fimm brakandi 200 evra seðlum.

Sökum framtaksleysis hefur lánastarfsemin látið á sér standa og seðlarnir eru enn á náttborðinu – og nú líður að fyrsta ársfjórðungsuppgjörinu. Mér skilst að greiningardeildir bankanna bíði í ofvæni.

Ég geri auðvitað upp í krónum, enda fékk ég ekki leyfi til annars frekar en aðrar bankastofnanir – það er víst hættulegt fyrir þjóðarhaginn.

Útlitið er svona líka glæsilegt. 1.000 evrurnar sem ég keypti 1. apríl fyrir 120.340 krónur reynast nú vera 131.810 króna virði. 9,5% ávöxtun á 3 mánuðum. Það jafngildir nærri 44% ávöxtun á ársgrundvelli – og þeir segja að það sé kreppa!

Rétt áðan hringdi svo vinur minn frá Frakklandi. Hann spurði út í bankastarfsemina. Þar sem hann skilur auðvitað ekki verðmæti í íslenskum krónum umreiknaði ég hagnaðinn – 11.470 krónur – í evrur og gat stoltur sagt honum að hagnaður fjórðungsins væri 87 evrur og ef svo héldi fram sem horfði yrði ég búinn að tvöfalda höfuðstólinn á rétt um tveimur árum. Hann óskaði mér til hamingju með að vera búinn að finna mína hillu í lífinu – það væri ekki að spyrja að þessum Íslendingum þegar bankastarfsemi væri annars vegar.

Eftir að við slitum samtalinu varð mér litið á fagurlega sléttaða seðlana, sem enn eru í bréfaklemmunni sem ég fékk í Laugavegsútibúi Landsbankans. Til öryggis tók ég klemmuna af og taldi.

Hvar eru þessar 87 evrur?

8 comments

 1. Snilld, gaman að svona pælingum. Eins og ég sé þetta þá hagnaðistu auðvitað ekki um eina einustu evru, ef þú hefðir hinsvegar átt krónurnar áfram þá hefðu þær rýrnað um sem jafngildir 87evrum þannig að með viðskiptunum þá forðaðistu einfaldlega þetta tap.
  Sá sem seldi þér evrurnar er hinsvegar ekki eins lukkulegur því ef hann vill kaupa sér evrur fyrir krónurnar sem þú borgaðir honum þá fengi hann auðvitað bara tæpar 913 evrur í dag. Þannig að til að svara spurningunni um hvar þessar 87 evrur eru þá vil ég meina að það eru engar 87 evrur í spilinu, það eru bara “mínus 87” evrur og þessar mínus evrur eru (ekki) í vasanum hjá aðilanum sem seldi þér evrurnar fyrir krónur fyrsta apríl.

  Þú græddir enga evru, en græddir 11470 krónur.
  Aðilinn sem þú verslaðir við græddi ekki krónu en tapaði 87 evrum.

 2. Það er rétt greint hjá gummah að reiknidæmið er búið þegar þú ert kominn í 11 þúsundin. Það má alls ekki að halda áfram að reikna þaðan. 🙂

  Ef ég skil það sem þú ert að segja, er slík smámunasemi þó ekkert að stöðva bankana (aka. alþjóðlegu fjármálafyrirtækin) í því að telja td. gengisáhrif á gjaldeyrisforða sem hagnað eða tap. Eða jafnvel (samsæri!) reyna að fitla við gengið til þess að geta sýnt fram á hagnað eða betri stöðu.

  Tengingin er kannski ekki nógu augljós fyrir þá sem ekki fylgjast með fjálmálum. Það er auðvelt að halda að þú skiljir einfaldlega ekki gengi. Ég held nú frekar að þú skiljir gengi akkúrat betur en flestir sem lesa færsluna.

  Nema ég sé á villigötum og þú fattir bara ekki gengi?

 3. Drengir! Útlit getur verið villandi og ég er ekki eins vitlaus og ég lít út fyrir.

  Bankasagan hér að ofan er auðvitað kaldhæðið komment bæði á uppgjör bankana og það hvernig fjölmiðlar og almenningur hneykslast á hagnaði bankanna (í krónum) án þess að veita því athygli í augnablik að hagnaðurinn er margfalt minni – jafnvel tap – ef talið væri fram í hlutfalli við umsvif bankanna í öðrum gjaldmiðlum.

  Það athyglisverða er svo reyndar að ef krónan hefði verið að styrkjast á tímabilinu, hefði ég getað sagt söguna örlítið öðruvísi og líka talið ykkur trú um að ég hefði hagnast.

  Annars skilst mér að það eigi að fara að taka hluta af viðskiptafræðinni inn í Listaháskólann. “Creative accounting” er auðvitað ekkert síður listgrein en t.d. málaralist eða leikritun 😉

 4. Mjög áhugaverð pæling, en hvernig verður staða bankans þíns eftir skatta? Ber þér ekki að greiða skatta af gengishagnaðinum?

 5. Ég sá við þessu og keypti upp eignalaust eignarhaldsfélag sem á tap sem mun duga mér til skattafrádráttar næstu fimm árin 🙂

 6. Grínlaust, þá velti ég þessu reyndar fyrir mér og get ekki skilið málin þetta öðru vísi en manni beri að borga 10% skatt af hagnaðnum sem maður hefur í krónum af því einu að eiga pening í evrum. Þá fyrst er nú vitleysan orðin alger.

 7. Það á auðvitað að stinga þér inn. Þann 1. apríl var bannað skv lögum að skipta krónum yfir í evrur til að stofna fjármálafyrirtæki. Afgreiðslumaðurinn sem afgreiddi þig á einnig yfir höfði sér tveggja ára dóm.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s