Fjárlagafrumvarpið í myndum

Fjárlagafrumvarp ársins 2009 var kynnt í dag. Frumvarpið sjálft er doðrantur sem fáir hafa undir höndum. Hægt er að lesa sig í gegnum frumvarpið á Fjárlagavef Fjármálaráðuneytisins, en það er ekki beinlínis aðgengilegt og ekki auðvelt að átta sig á stóru samhengi hlutanna.

DataMarket brást skjótt við og vann gögnin á meðfærilegara form. Útkoman er vefsvæði þar sem hægt er að sjá með þægilegum hætti í hvað stjórnvöld ætla að nota peningana okkar á komandi ári.

Á forsíðunni er yfirlit yfir ráðuneytin, raðað eftir útgjaldaröð. Með því að smella á súluna fyrir eitthvert ráðuneytið birtist skipting útgjalda þess og svo koll af kolli. Gögnin ná reyndar bara 3 þrep niður og oft langar mann að komast dýpra, en fjárlagafrumvarpið nær einfaldlega ekki lengra. Næsta þrep eru rekstraráætlanir einstakra stofnana og þær eru ekki fáanlegar að svo komnu máli.

Ég fullyrði að aldrei hefur verið jafnauðvelt að túlka, rýna og gagnrýna fjárlagafrumvarp á Íslandi eins og með þessu einfalda tóli. Ég bendi á að ef þið viljið efna til umræðu um einstök ráðuneyti eða rekstrarliði, þá á hvert þeirra sér sína slóð, sem hægt er að tengja beint á í bloggi eða senda tengil í tölvupósti eða á MSN.

Hér eru – sem dæmi – áætluð útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs á komandi ári.

Skemmtið ykkur!

– – –

P.S. Þeir sem hafa áhuga á að komast í sjálf gögnin á einhverju formi sem leyfir frekari úrvinnslu (t.d. í Excel) eru hvattir til að setja sig í samband.

7 comments

  1. Frábært framtak! Aðgengilegt og lítur vel út.

    Í næstu útgáfu væri gott að hafa kost á skýringatexta sem segðu manni hvað hvað er, þ.e.a.s. hvað er til dæmis “Landhelgissjóður Íslands”, hvaða nýframkæmdir eru hjá Landspítala, hver er munurinn á súlunum tveimur sem heita “fasteignir forsætisráðuneytis” og svo framvegis?

    Það er virkilega forvitnilegt að skoða þetta svona. Takk fyrir þetta.

  2. Takk fyrir.

    Ég hefði haft þessa skýringartexta með, ef þeir væru aðgengilegir á einhvern hátt tengdir þessum liðum. Svo er því miður ekki í frágangi Fjármálaráðuneytisins. Það næsta sem hægt er að komast er að lesa sig í gegnum greinargerðir einstakra ráðuneyta á fjárlagavefnum

    Sumum af þeim spurningum sem þú ert að velta upp og mörgum svipuðum verður þó ekki svarað nema að fara ofan í áætlanir einstakra stofnanna, sem einfaldlega eru ekki aðgengilegar.

    Hvort tveggja væri þarft verk. Hver veit nema þetta verði þróað eitthvað lengra, eftir því sem aðstæður leyfa. Eins væri gaman að koma einhverskonar leitarmöguleika á þetta.

    Annars ætti krafan auðvitað umfram allt að vera að Ríkið seti þetta fram á viðunandi hátt. Ég er meira en tilbúinn að hjálpa 😉

  3. athyglisvert að skoða þetta. sá að um 35 milljarðar eiga að fara til Landssp. Heyrði hins vegar svona útundan mér að það væri verið að fækka hjúkrunarsviðum á landsspítala , úr 12 í 5, og skera niður sviðsstjóra á deildum úr 3 í 1 og svo framvegis. Get hins vegar ekki staðfest þetta og veit ekki í raun, en ef svo er hvernig á þá maður að skilja svona tölur, mtt að fjárlagafrumvarpið hækkar um 19% frá því í fyrra og ekki er opinberlega verið að skera niður. Hvert fara þá peningarnir? Kannski er ég að misskilja þetta allt.

Leave a comment