Peningar vs. raunveruleg verðmæti

Í hamaganginum undanfarna daga hafa sótt að mér allskyns heimspekilegar pælingar. Sumar þeirra snúast um eðli peninga og hversu mikið peningar eigi skylt við raunveruleg verðmæti. Þarna er ég ekki að tala um mjúku hliðina – að raunveruleg verðmæti felist í ást, kærleika og hamingju (slíkt er einfaldlega á öðrum kvarða) – heldur hefðbundin veraldleg verðmæti. Getur verið að tengingin þarna á milli hafi glatast einhversstaðar í hagsögunni?

Bara núna síðustu tvær vikur hafa íslenskir fjárfestar og eignamenn víst tapað eignum af stærðargráðunni 500 1.000 milljarðar bara í markaðsvirði bankanna þriggja. Manni skilst að allmörg hundruð milljarðar til viðbótar séu tapaðir eða muni tapast á næstu dögum og vikum. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr þessum atburðum eða þeim afleiðingum sem þær þeir munu hafa í för með sér – sem eiga eftir að verða gríðarlegar. En eitthvað segir mér þó að ef “raunveruleg” verðmæti af þessari stærðargráðu hefðu tapast væri það mun alvarlegra mál.

Setjum þessar tölur í samhengi. Ef við gefum okkur að íbúðarhúsnæði meðalheimilis á landinu kosti 20-25 milljónir, þá samsvarar 1.000 milljarða króna tap því að 40-50 þúsund heimili hefðu eyðilagst fullkomlega, t.d. í jarðskjálfta! Fjöldi heimila á landinu er rétt um 110 þúsund, þannig að þetta væru um 40% íslenskra heimila.

Við getum sett þetta í annað samhengi og horft á útflutningsverðmæti fiskaflans okkar. Það var á síðasta ári tæplega 128 milljarðar króna. Þannig að 1.000 milljarðar samsvara 8 ára útflutningsverðmæti á fiski!

Ég held að við getum verið sammála um að íbúðarhúsnæði og fiskur eru “raunveruleg” verðmæti.

Ímyndum okkur svo að á fimmtudaginn hefðum við vaknað upp við þær fréttir að meira en þriðjungur íslensks íbúðarhúsnæðis væri ónýtur eða að allur fiskur væri horfinn af Íslandsmiðum næstu 8 árin. Er hrun bankanna sambærilegt? Eða getur kannski verið að eitthvað af þessum 1.000 milljörðum séu ekki og hafi aldrei verið “raunveruleg” verðmæti? Að það hafi ekki verið hægt að rekja öll þessi verðmæti niður eftir hagkerfinu á “fast”, þ.e. til vinnuframlags, orku, auðlinda eða annarra óumdeilanlega raunverulegra verðmæta?

Á mælikvarða raunverulegra verðmæta höfum við ef til vill varla tapað neinu. Bankakerfið, líkt og mörg önnur stoðþjónusta er vissulega mikilvægur þáttur í því að halda raunverulegri verðmætasköpun gangandi. Því gangverki er mikilvægt að koma af stað aftur, en við eigum næstum því, ef ekki alveg jafnmikið af raunverulegum verðmætum núna eins og við áttum fyrir 2 vikum síðan. Verst ef það þarf að nota eitthvað af þessum raunverulegum verðmætum til að borga fyrir skuldirnar sem urðu til við að kaupa allar þessar óraunverulegu eignir.

Ég trúi enn einart á markaðshagkerfið, en mér sýnist á öllu að það þurfi að spóla ansi duglega til baka og vinda ofan af allri flækjunni sem er búið að spinna ofan á grunngildi hagfræðinnar, gildin sem virðast minna á það á ca. 10 ára fresti – og í þetta sinna af óvenju miklum krafti – að eru ófrávíkjanleg. Það sem skiptir máli er að skapa eitthvað, framleiða og búa til – nokkuð sem hefur þótt allt að því hallærislegt undanfarin ár.

Vinnuframlag, orka og aðrar auðlindir – þetta eru raunverulegu verðmætin. Öll önnur starfsemi – þar með talin bankastarfsemi – snýst svo um að þessi verðmæti nýtist sem best, séu unnin sem hagkvæmast og skili sem mestu til þeirra sem að verðmætasköpuninni standa.

Þegar þetta er orðið klárt geta peningar kannski aftur orðið mælikvarði á raunveruleg verðmæti.

P.S. Þessar pælingar eru aðeins heimspekilegar vangaveltur enda er ég í besta falli amatör í hagfræði. Ef þið viljið lesa eitthvað um þessi mál frá fólki sem veit í alvöru um hvað það er að tala, þá bendi ég annars vegar á Villa Þorsteins sem skrifar þessa dagana bestu greiningarnar á stöðunni og atburðunum öllum hér heima og hins vegar á greinina The End of Prosperity? í TIME magazine (ekki missa af samhangandi 10 skrefa útlistun Time á því hvernig þetta allt byrjaði og hvert það gæti leitt).

5 comments

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s