Meira um kraftinn sem er að losna úr læðingi og hverng hægt er að virkja hann.
Meðan útbrunnu pólitíkusarnir, reiðu álitsgjafarnir og fátæku auðmennirnir eru að taka til eftir partíið og rífast um það hvort bankakerfið stækkaði of mikið fyrir baklandið eða baklandið fylgdi ekki nógu vel eftir bankakerfinu (hvort kom á undan eggið eða hænan?) er nauðsynlegt að ganga hratt og örugglega til verka í uppbyggingarstarfi. Stór hluti þeirra sem eru núna að missa vinnuna eru vel menntað og hæfileikaríkt fólk í þekkingarstörfum. Það þarf að skapa ný störf við þeirra hæfi til að nýta þessa þekkingu og koma í veg fyrir alvarlegan landflótta þessa fólks og annarra sem eiga að bera þjóðfélagið á komandi árum.
Hér eru nokkur sundurlaus atriði sem hægt er að framkvæma:
- Ígildi atvinnuleysisbóta til að skapa ný störf: Í stað þess að borga starfsmönnum bankanna (og öðrum sem munu missa vinnuna á næstu vikum) uppsagnarfrest og svo taki Ríkið við og borgi atvinnuleysisbætur, á að bjóða fyrirtækjum sem vilja ráða þetta fólk sömu upphæð yfir 6-12 mánaða tímabil gegnt því að þau leggi fram annað eins á móti. Við þetta eru engar nýjar skuldbindingar af hálfu ríkisins, fyrirtækin fá nýtt starfsfólk og fólkið fær vinnu strax og hærri tekjur en ella. Borðleggjandi.
- Fjárfestingarsjóðir í nýsköpun: Það þarf að setja upp og/eða efla fjárfestingasjóði (ekki styrkjasjóði) til nýsköpunar. Þessir sjóðir þurfa að vera skipaðir hæfileikaríku starfsfólki með þekkingu á fjármálum, fyrirtækjarekstri og vöruþróun (ekki pólitískt völdum embættismönnum) sem geta bæði valið úr lífvænlegustu hugmyndunum á markaðsforsendum og leiðbeint og stutt fyrirtækin í gegnum uppbygginguna. Sjóðirnir þurfa að hafa nægt fjármagn – og hugmyndunum að vera stillt upp þannig – að sjóðurinn geti tekið þátt í blábyrjun verkefna fyrir lítið fé, en fylgt þeim svo eftir (helst í samvinnu við aðra fjárfesta) ef áætlanir ganga í samræmi við það sem lagt er upp með. Leggja þarf áherslu á alþjóðlegar hugmyndir sem skapa munu gjaldeyristekjur og sjóðirnir eiga að vera reknir algerlega á markaðsforsendum. Markmiðið er að þeir ávaxti sig eins og aðrir sambærilegir sjóðir en séu ekki notaðir til að veita pólitíska fyrirgreiðslu. Þetta setur miklar kröfur á gagnsæi og ætti að vera opið okkur – skattgreiðendunum sem fjárfestum í þessu – eins mikið og unnt er.
- Skattaívilnanir til nýsköpunar: Almennt er ég á móti því að flækja skattkerfið frekar en orðið er. Í ljósi mjög sérstakra aðstæðna mætti þó setja núna upp plan – sem renni sitt skeið t.d. á 5 árum – sem veiti nýsköpunarfyrirtækjum sérstaka fyrirgreiðslu t.d. í formi niðurfellingu eða afsláttar af tekjuskatti á starfmenn þeirra. Þetta hefur gefist vel t.d. í Kanada og Ísrael til að koma af stað öflugum þekkingariðnaði.
- Aðstaða og stoðþjónusta fyrir þá sem vilja: Ríkið á núna ósköpin öll af tölvubúnaði, skrifstofuaðstöðu og öðru sem fer fyrir lítið nema því sé komið í notkun sem fyrst. Nú er tilvalið að koma upp klakstöðvum og bjóða nýjum fyrirtækjum upp á framúrskarandi aðstöðu fyrir lítið fé. Á svona stað(i) ætti líka að bjóða fyrirtækjum með stoðdeildaþjónustu, s.s. bókhald, skrifstofuvörur, tölvuþjónustu og kaffihúsarekstur 🙂 aðstöðu, enda samnýtist slík þjónusta mjög vel, sérstaklega þegar nálægðin er mikil.
Heill þér Hjálmar og Nýja Íslandi! Innilega sammála nú þarf að vinna hratt og vel.
Hjalli, þú ættir alvarlega að íhuga frama í stjórnmálum.
Það vantar klárlega menn eins og þig á þingið!
Þú fengir mitt atkvæði og fjölmörg önnur!
Líst vel á. Komdu þessu í framkvæmd, ekki láta þessar hugmyndir deyja.
Alveg sammála þessu um kraftinn sem er að leysast úr læðingi. Nú fara allir allt í einu að hugsa skapandi, hvað eigum við að gera osfrv. Um að gera að nýta það eins vel og hægt er.
Takk annars fyrir áhugaverða bloggsíðu.
Takk öll fyrir jákvæðar athugasemdir.
Snorri: Ég held að mínum kröftum sé betur varið í að reyna að búa til eitthvað af þessum störfum. Allir að gera það sem þeir eru bestir í. Annars er pólitík eitt af þeim sviðum þar sem umræddir kraftar eru að losna. Ég hef heyrt í mörgu ungu og mjög frambærilegu fólki síðustu daga sem er nú allt í einu að velta alvarlega fyrir sér þátttöku í pólitík. Nokkuð sem hefði aldrei komið til fyrir bara 3 vikum síðan.
Hreinn: Leiðin til að láta þetta gerast er að ráðamenn heyri af þessum hugmyndum. Ef þið eigið einhver “eyru” þar, þá endilega skjóta þessu að þeim.
Er algjörlega sammála.
Þetta þarf að gerast *áður* en að fólk tekur ákvörðun um að flytjast búferlum – ekki eftir.
Nú er bara málið að skrifa grein í blöðin Hjalli! Þessi skilaboð þurfa að ná fleiri eyrum!
>S
ég skal kjósa thig, thessir frednaglar virdast vera búnir ad taka stefnuna á sömu mid, thad gengur ekki, vid verdum ad byrja ad bua til seljanlega hluti sem tharfnast ekki adkaupa erlendis frá
Mjög góð grein hjá þér Hjálmar. Því miður er það svo að það hefur ekki verið hlúð nægilega vel að sprogafyrirtækjum í góðærinu. Nýsköpunarsjóður, Útflutningsráð, Byggðastofnun og Impra og hvað þetta heitir nú allt saman hafa einungis verið kaffi- og ferðaklúbbar fyrir “réttsýna” bitlingaþega. Góðar hugmyndir hafa ekki átt upp á pallborðið hjá þessum stofnunum nema starfsmennirnir hafi sjálfir getað mjólkað fé út úr hugmyndunum með einhverjum hætti. Þetta kerfi nær engri átt. Fáránlegt! Þetta kerfi okkar þarf nú að stokka upp ekki síður en bankakerfið. Því fyrr, því betra. Því meira, því betra.
Það eru mörg lítil fyrirtæki í landinu, sem þegar hafa sannað sig og eru að skapa atvinnu og afla gjaldeyris fyrir landið. Nú þarf að finna þessi fyrirtæki og styðja rækilega við bakið á þeim. Á undan þarf að fara fram þarfagreining því þarfir þessara fyrirtækja eru auðvitað misjafnar og þau eru misjafnlega langt á veg komin.
“sprotafyrirtækjum” átti að standa þarna
Takk aftur.
Júlíus: Á venjulegum tímum, að ekki sé talað um á tímum góðæris, á aðkoma Ríksins að nýsköpun að vera í algjöru lágmarki og allra síst í formi fjárfestingar. Markaðurinn sér um að velja það bitstæða og koma því í farveg. Ríkið á aðeins að tryggja rekstrarumhverfi fyrirtækjanna, s.s. skilvirkt skattakerfi, að auðvelt sé að stofna fyrirtæki o.s.frv.
Skorturinn á nýsköpun undanfarin ár hefur ekki verið vegna skorts á peningum til fjárfestinga, heldur vegna þess að bankarnir og önnur stórfyrirtæki voru búin að draga til sín allan talentinn sem í venjulegu árferði hefði verið að búa til eitthvað nýtt og spennandi. Og eðlilega, þessi fyrirtæki buðu framúrskaranddi laun í því sem virtist mjög traust umhverfi.
Það var reyndar líka vandamál að erfitt var um vik að sækja lítinn pening til góðra verka. Viðkvæðið var oft “við fjárfestum ekki fyrir minna en 500 milljónir” og fáir sem settu pening í að koma þeim á þann stað að slík fjárfesting ætti rétt á sér. Þarna er ekki við Ríkið að sakast heldur einfaldlega stórbokkahátt þeirra sem áttu fé til fjárfestinga á þessum tíma.
M.ö.o. hefur ójafnvægið í atvinnulífinu komið í veg fyrir að nú eigum við fjölbreytt og lífvænleg fyrirtæki í öðrum geirum til að grípa boltann þegar fjármálageirinn gefur eftir.
Algjörlega sammála hverju orði, Hjálmar. Veit til þess að einhver hluti þessara hugmynda er þegar kominn í eyru þeirra sem “hafa valdið” en það er um að gera að nota allar þær leiðir sem færar eru, til þess að koma svona hugmyndum og lausnum á framfæri.
Það má alltaf finna tækifæri og galdurinn felst yfirleitt í því að vera jákvæður og leita lausna. Það er mikilvægt að nú sé hugað að mögulegum lausnum og leiðum til þess að byggja upp og halda áfram – ekki sökkva í svartnættið.
Ég amk tek sjálfviljugur boltann og geri það sem ég get til að koma hugmyndum sem þessum á framfæri.
J#
Sammála hverju orði. Það skiptir líka öllu máli að benda ráðamönnum á (og koma því inn í almenningsálitið) að það sé hægt að leggja áherslu á annað en að ráðast í sem flest risaverkefni í hrávöruframleiðslu (les. ál) til að koma þjóðinni á lappirnar aftur. Ísland þarf ekki að vera háð einni hrávöru til að vera byggilegt!
Um að gera skrifa blaðagrein, það er einmitt eitt af því góða við Ísland að nánast hver sem er getur birt grein í stæðsta dagblaði landsins.
Írland hefur líka verið að gera flotta hluti með skattaívilnunum til hátæknifyrirtækja og náð þannig að lokka til sín slatta af fyrirtækjum frá Evrópu og USA.
Ég er í flestum atriðum sammála þér með aðkomu ríkisins en annar vinkill væri að auka fjárfestingar ríkis og sveitarfélaga í upplýsingatæknimálum því eins og fleiri hafa bent á þá gengur þetta ekki allt út á að reisa stíflur.
Mér finnst alveg magnað hversu stutt Íslendingar eru í raun komnir með að netvæða þessa smáþjóð. Þá er ég ekki að tala um að leggja kapla í hús, við erum flink í því. En að nýta tæknina í pappírslaus samskipti milli ríkis, fyrirtækja og einstaklinga. Þar má vel taka til hendinni.
Núna þegar við höfum líklega yfir 100 tölvara á lausu sem eru vanir bankaumhverfi væri alveg borðleggjandi að útbúa nokkurskonar RB þar sem fyrirtæki og einstaklingar gætu klárað ýmis mál í samskiptum við ríki og sveitarfélög eins og umsóknir um þjónustu eða skil á upplýsingum. Fyrir einhverjum árum las ég lokaverkefni sem fjallaði um hversu mikið mætti hagræða með netvæðingu umsóknarferilsins fyrir leikskólapláss. Það var no brainer ef þú skoðaðir tölurnar.
Ef við gætum klaufast til að útbúa rafræn skilríki á þessar 300 þúsund hræður og svo komið okkur saman um staðal til að skiptast á upplýsingum. Þá mætti hagræða all svakalega og setja peninga í sniðugri mál en að stokka umsóknareyðublöð í þríriti.
(Ég sé fyrir mér einhverskonar Íslenskan Facebook style portal þar sem fyrirtæki og stofnanir gætu sett upp lausnir með Open Social og þannig veitt öllum aðgang án vandræða)
Varðandi pólitískt pot þá er löngu tímabært að við fáum upplýsingatæknimálaráðherra á þing sem beitir sér í þessum málum. Margar siðmenntaðar þjóðir settu svoleiðis upp fyrir löngu. (Lætur Davíð enn prenta út tölvupóstinn sinn?)
Ef það eru einhverjir byrjaðir að setja saman lista fyrir nýja Ísland, þá býð ég mig hér með fram í UTMR stólinn.
Þetta er skemmtileg og frjó umræða.
Mig langar til að segja ykkur frá Hub í Bretlandi – bæði London og Bristol þar sem ég hef búið í 19 ár:
http://the-hub.net/
http://the-hub.net/places/bristol.html
Hub hugmyndin byrjaði í London. Hún byggist á því að hlúa að frjóu fólki sem getur komið og notað aðstöðu ´pay as you go´. Þarna eru skrifborð, tölfutenging, fundarsalir, bókasöfn, kaffi…
Ég hef komið nokkuð oft á Hub í Bristol og alltaf lært eitthvarð nýtt hjá því frjóa fólki sem kemur þangað til að vinna, sumir “full time” aðrir nokkra klst á viku.
Ég er sem sé að stynga upp á að þið frumkvöðlar, talið við ríkisvaldid, takið yfir einn sal þar sem bankastarfsmenn vinna ekki lengur, og setjið upp “breeding ground” fyrir nýsköpun.
Áfram Ísland!
Takk fyrir góðan pistil. Það skiptir öllu máli að halda umræðunni gangandi. Síðan http://www.nyjaisland.is var sett upp með það í huga. Hún er opin öllum og ég vona að málefnanlegar umræður skapist og okkur takist að veita ráðamönnum þjóðarinnar aðhald.