“Þróunarlandið” Ísland

Ég hef fengið allskonar uppbyggileg viðbrögð við þessum síðustu færslum mínum (1 | 2 | 3) um uppbyggingu í þekkingariðnaðnum hér á landi. Sjá t.d. athugasemdirnar við síðustu færslu. Að öðrum ólöstuðum, bera þó af viðbrögð félaga míns – Stefáns Baxter, snillings og frumkvöðuls par excellance.

Ég fékk leyfi hjá honum til að birta þetta, enda á þetta brýnt erindi í umræðuna. Stebba hlotnast líka sá heiður að vera fyrsti – og etv. síðasti – gestabloggarinn á hjalli.com 🙂

Það er ástæðulaust að taka fram að ég get nánast tekið undir hvert orð hér:

Sterk staða og siðferðileg skylda lífeyrissjóða
Almennar skattaívilnanir ættu vissulega að hvetja til fjárfestinga í nýsköpun en ástandið gefur ekki tilefni til að halda að það það verði mikið af fyrirtækjum sem munu geta nýtt sér það alveg á næstunni. Það er hins vegar ljóst að lífeyrissjóðirnir eru enn sterkir, þrátt fyrir áföll, og að þeir eru ekki bara í aðstöðu til að koma að þessum málum heldur ber einnig rík siðferðileg skylda til þess. Það má leiða líkum að því að breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar, ef svo illa fer að ungt fólk flytjist umvörpum erlendis, myndi koma niður á þeim með nokkrum þunga.

Aðkoma lífeyrissjóða að fjárfestingarfélögum í nágrannalöndum okkar er þekkt og þar hefur verið farin sú leið, í þeim tilfellum sem ég þekki, að fjárfestingasjóðir sem eru einkareknir og skipaðir hæfu fólki fá með sér lífeyrissjóði sem bakhjarla og eftirlitsaðila frekar en að sjóðirnir sjálfir reyni að manna þetta. Það er mikilvægt að slík félög hafi á að skipa hæfu fagfólki sem nær, með gegnsæi og faglegum vinnubrögðum, að hefja sig yfir allan vafa um að þeir stjórnist af einhverju öðru en heilindum og meti verk að verðleikum.

Völd spilla. Því miður er það þannig að jafnvel vönduðustu menn venjast völdum og þegar það gerist er voðinn vís. Ég dreg það ekki í nokkurn efa að flestir þeirra sem hafa afvegaleiðst hafa í upphafi viljað vel og verið drifnir af einlægum vilja til að gera vel. Í þessu starfi, sem og annarstaðar, þarf því að huga að gegnsæi og hæfilega reglulegum mannabreytingum. Skuggi pólitískra áhrifa og vinargreiða má ekki falla á þetta starf.

Ungt fólk og nýsköpun
Án þess að aldur eigi að vera ráðandi í vali verkefna eða sérstakur áhrifavaldur þá tel ég ástæðu til að huga að þeirri einföldu staðreynd að þeir sem ekki eru bundnir átthagafjötrum munu frekar en aðrir fara af landi brott ef verulega harnar á dalnum. Íslensk ættjarðarást og samstaða mun fleyta okkur langt en við verðum að standa vörð um það unga samfélag sem við eigum hér. Aldurssamsetning þjóðarinnar [innskot HG: Sjá graf] er eitt af því allra mikilvægasta sem við eigum. Frjótt og spennandi umhverfi fyrir þá sem eru nú í þeim sporum sem við vorum í þegar Internetvæðingin hófst þarf að finna sérlega fyrir því að hér séu tækifæri til að vaxa bæði innan starfs og utan. (“Við” erum á fertugsaldrinum)

Hámarka jaðaráhrif
Ég tel nokkuð víst að þegar moldviðrinu lægir munum við sjá tæknimenntað fólk finna sér spennandi viðfangsefni, það er ekki nokkur vafi. Þá þarf að huga sérstaklega að verkefnum sem reiða sig einnig á stærri hópa, sem hugsanlega búa ekki yfir jafn mikilli sérþekkingu, því þau verkefni eru sérstaklega áhugaverð til hliðsjónar af því að hámarka jaðarverkanir. Gagnaöflun og -vinnsla eru dæmi um verkefni sem geta gert góða vöru enn betri og skapað umtalsverð störf. Eitt af því sem ég tel mig hafa lært á undanförnum árum er að gögn og viðskiptasambönd veita mun meiri samkeppnishæfni og hærri samkeppnisþröskuld en tæknilausnir geta gert einar og sér.

Virk aðkoma
Auðvitað eru til menn og konur hér sem kunna að sitja í virkri stjórn, stjórn sem aðstoðar við úrlausn verkefna og veitir þann stuðning og aðhald sem nýsköpunarfyrirtækjum er hollt að hafa, en það virðist því miður vera algengara að sjá óvirkar stjórnir eða “eftirlitshunda”. Ég tel mikilvægt að þeir aðilar sem hafa staðið sig sem best á því sviði hér verði fengnir í þetta uppbyggingarstarf og þá ekki síst til þess að fræða og þjálfa aðra í því að veita réttan stuðning og hæfilegt aðhald. Það er þarna sem reynsla þeirra sem eldri eru og brenndari nýtist sem best.

Viðskiptalíkön
Gæta þarf sérstaklega að því að tækifæri, sem kunna að vera hagkvæm við núverandi aðstæður, geti staðist breytingar þegar við færumst aftur nær fyrri stöðu og þurfa að búa yfir sveigjanleika til að bregðast við því. Það er einnig jákvætt að verkefni séu þannig að hægt sé að hluta þau niður í viðráðanlegar einingar, byrja smátt, fá tekjumyndun og halda síðan áfram til móts við stærri markmið. Ég held að það skipti máli fyrir ferlið í heild sinni og trúverðuleika þess að verkefni sem það fjárfestir í nái tiltölulega fljótt að standa undir sér, að hluta aða öllu leiti. Að minsta kosti er óæskilegt að fjárfesta í svo stórum verkefnum að árangur verður tormældur. Hlutverk þolinmóðs fjármagns er að sjálfsögðu mikilvægt en ég held þó að “Fail Fast” nálgun, sé hún ekki óbilgjörn og beinlínis óþolinmóð, sé réttari við þessar ástæður því það verður hlutverk annarra að vera langtímafjárfestar.

Höldum upp á mistökin ekki síður en árangurinn
Það er þekkt staðreynd að í svona starfi eru áræðnar hugmyndir sem virka ekki jafn mikilvægar og þær sem virka og án þess að gera því skóna að fallið sé markmiðið þá þarf að vera full meðvitund um það frá upphafi að fall er fararheill í þessu sem öðrum. Við slíkar aðstæður er því mikilvægt að halda því á lofti að verkefni sem skila ekki tilætluðum árangri séu ekki endanlegur dómur yfir einstaklingunum sem að því komu og að þeir og þekking þeirra verði virkjuð á öðrum vettvangi.

Koffice
Koffice er gömul hugmynd sem varð til á .com tímanum og snýr að nýtingu sameiginlegs svæðis til klaks. Nafnið segir eiginlega meira en allar lýsingar um hvað um er að ræða en frjótt umhverfi þar sem léttleikinn fær að ráða er eiginlega meira við hæfi núna en þegar smjör draup af hverju strái. Slík aðstaða er ekki bara frjó heldur er mikil samhjálp innbyggð í hana. Vinnu-, fundar- og samkomuaðstaða er það sem málið snýst um og ég held að þetta, ásamt hefðbundnari klak aðstöðu sé málið. Að nýta það tækjahaf sem nú stendur ónotað ætti að vera forgangsverkefni. Húsnæði og vilji er það eina sem þarf til.

Hugmyndir verða, að stóru leiti, að vera þeirra sem eiga að fórna sér fyrir þær
Að “stýrihópur” komi að hugmyndum er eitt, að forma þær og móta upp í hendurnar á öðrum er eitthað allt annað. Ég tel að hlutverk fjárfestingarsjóða, sem munu verða til við þessar aðstæður, eigi alls ekki að vera móta, hvað þá fullmóta, hugmyndir upp í hendurnar á öðrum til eftirfylgni. Áhugi og trú er drifkraftur nýsköpunar. Áhugi og trú á eigin hugmyndum er nánast undantekningalaust meiri áhugi á hugmyndum annarra. Slíkir aðilar þurfa því að einbeita sér að því að að veita aðstoð við að vinna úr þeim, brjóta þær upp í skynsamlegar einingar, skerpa sýn á hvernig hægt sé að vinna úr þeim og ná að slípa þær til frekar til en að móta þær frá grunni. Aðeins með því að virkja grasrótina að fullu er hægt að ná tilætluðum árangri og aðeins með því að nýta reynslu þeirra sem brenndastir eru styttum við okkur leið að þeim markmiðum.

Leitin að samlegðinni – komið í veg fyrir endurtekningar
Þó að miðstýring sé slæmt orð getur hún þjónað ákveðnum tilgangi hér, þeim að koma í veg fyrir endurtekningar/tvíverknað og ekki síður að til hámarka samlegðaráhrif. Of lítið hefur verið gert að því í íslenskri upplýsingatækni að fyrirtæki leiti leiða til að samnýta íslenskar lausnir erlendis. Síendurtekin gerð hjóla virðist oft hafa verið okkar sérsvið og samkeppni á heimamarkaði um íslenskar lausnir í bókhaldi, vefumsýslu, bíla- og fasteignasölukerfum, sem dæmi, hefur ætlað allt um koll að keyra. Nú þegar endurskipulagning stendur fyrir dyrum held ég að rétt sé að laga líka til í þessum málum og sjá til þess að jafnvel aðilar í samkeppni á heimamarkaði taki á sig rögg og samræmi aðgerðir erlendis. Þetta sama á við um þau nýju verkefni sem nú munu verða til. Tryggja þarf að þau séu ekki of samleit og leita þarf allra leið til að hámarka samlegðaráhrif þeirra.

Styðsta leiðin að markinu – Að byggja undir og í kring um fyrirtæki sem eru þegar til
Ég er viss um að allir þeir sem nú stjórna fyrirtækjum sem vinna að verkefnum sem þegar eru farin að afla tekna, sérstaklega erlendis, þyki ekki slæmt til þess að hugsa að nú losni hæfileikaríkt fólk úr álögum fjármálafyrirtæka landsins og að auðveldara verði að fá hæft starfsfólk á viðráðanlegum launum. Að sjálfsögðu mun hluti þess fólks sem nú “losnar” fara beint í að mæta sárri þörf þeirra og á þeim vettvangi mun það vinna að uppbyggingunni “innanfrá”. Þó eru alltaf einhverjir sem viljast gerast sinnar gæfu smiðir og ef þeir trúa á speki Andy Grove hjá Intel, um að best sé að stofna fyrirtæki í dalnum þar sem hann er dýpstur – þá sé öll uppsveiflan eftir, þá munu þeir ekki láta núverandi aðstæður aftra sér, þvert á móti.

Til að byggja brú á milli þess nýja og þess sem fyrir er vellti ég fyrir mér hvort ekki megi nýta hluta þessara nýju verkefna í beinum tengslum við þau gömlu. Nýjar lausnir sem gera núverandi lausnir betri eða stækka markhóp þeirra eru verkefni sem líklega þurfa stystan tíma til að ná árangri og í þeim eru samlegðaráhrifin mest. Ég geri mér reyndar ekki fyllilega grein fyrir því hversu raunhæft það er að skipuleggja hluta þeirrar vinnu sem nú fer í gang með þessum hætti en hugmyndin er með öðrum orðum sú að “nýjir” aðilar sem vilja starfa við sitt eigið geti gert það í fullri samvinnu við þá sem fyrir eru. Viðbótarvirkni og útvíkkun núverandi lausna gæti þannig verið sproti að einhverju nýju en á sama tíma notað viðskiptavild og viðskiptasambönd þeirra sem fyrir eru. Mjög einfalt dæmi um þetta gæti verið nýtt fyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun (concept, útlits etc.) og smíði þrívíddarmódela fyrir leikjaiðnaðinn en myndi byrja á því að smíða fyrir EVE (CCP).

Skjölun, prófanir og notendaþjónusta
Fyrirtæki sem myndi sérhæfa sig í tæknilegri skjölun, prófunum og þjónustu við tæknilausnir gæti eflaust nýtt starfskrafta breiðs hóps og mætt þörf sem íslensk hugbúnaðarfyrirtæki hafa mörg hver, svo ég kveði ekki of sterkt að orði, hundsað til margra ára. Því hefur verið haldið fram á gárungum að Íslendingar séu sérfræðingar í að búa til “Alpha” hugbúnað en að reynsla okkar af því að búa til fullbúnar hilluvörur sé afskaplega takmörkuð. Sameiginleg þjónusta á þessu svið er eitthvað sem mætti skoða en ég geri mér grein fyrir að umræðuefnið þykir afskaplega óspennandi og and-kúl.

Viðskiptasambönd
Það er erfitt að treysta öðrum fyrir viðskiptasamböndum sínum og erfiðast ef maður treystir því ekki að vel verði með þau farið. Fátt er verra, í því samehngi, en að nýta viðskiptasambönd sín til að koma á misheppnaðum verkefnum eða öðru sem kann að skaða sambandið til lengri eða skemmri tíma. Við núverandi aðstæður eru góð viðskiptasambönd sérstaklega mikils virði og viðskiptatækifæri sem eitt fyrirtæki getur ekki nýtt sér gæti verið sprotinn að stofnun annars á sama hátt og ónýttar markaðsleiðir eins gætu verið lífæð annarra. Það hefur að einhverju leiti verið Útflutningsráðs að huga að slíku en ég er viss um að með bættu samráði væri að hægt að nýta núverandi sambönd og söluleiðir mun betur en gert er. Þetta krefst þess þó vitanlega að allir komi fram við þessi sambönd af virðingu og skilning á því hvaða ábyrgð fylgir því að nýta viðskiptasambönd annarra.

Öflun gjaldeyristekna – Hugbúnaður sem útflutningsafurð – Ísland sem “þróunarland”
Ég gef mér í öllu þessu að við séum að beina athygli okkar að verkefnum sem eru ætluð til útflutning í einu eða öðru formi. Hugbúnaðargerð fyrir heimamarkað er blindhæð þó svo að sama hugbúnaðargerð, ætluðum til útflutnings, sem nýtir heimamarkað fyrir kjölfestu, rannsóknir og þróun sé hins vegar breiðstræti. Þarna er ábyrgð stjórnvalda og þeirra sem sjá um upplýsingatæknilega-innviði mikil. Við eigum að sjá til þess að hér sé til staðar allur sá infrastructure sem nausynlegur er til að gera Ísland að þróunarparadís í upplýsingatækni og ég er þess full viss að fullur vilji er meðal aðila tengdum þessu máli að gera Ísland að afbragðs “þróunarlandi”. Þetta mál hefur oft verið rætt og ég minnist sérstaklega umræðu um þetta 1998/1999 en nú er lag.

4 comments

 1. Fín umræða að skapast hérna…
  Bretarnir eru með batterí sem heitir NESTA.co.uk og ég tók þátt í brainstorm hjá þeim fyrr á árinu.
  Þeir eru sérstakir að því leiti að þeir hafa það eina markmið að stuðla að nýsköpun í Bretlandi með tækni, vísindum og list. Þeir fjárfesta ekki sjálfir.

  Þeir setja upp session með stórum og litlum fyrirtækjum þar sem verið er að leiða saman hugmyndir og fjármagn. Þetta hefur leitt af sér stofnun nokkura sniðugra fyrirtækja.

  Mæli með að þið lesið um markmið þeirra hérna http://www.nesta.org.uk/npru/

 2. Það þarf að koma á laggirnar einhverju apparati sem stuðlar að gerjun á fyrri stigum líka. Sérstaklega þegar kemur að vefnum. Ef við hugsum um allar þær viðskiptahugmyndir sem poppa upp hjá krökkum í menntaskóla og háskóla sem fara aldrei svo langt að leita ráðgjafar hjá nýsköpunarmiðstöð eða fara einu sinni út í neina þróun. Alla sem langar til að GERA eitthvað en hafa ekki alveg kunnáttuna eða aðstöðuna til þess.

  Myspace, facebook, Digg, flickr, youtube og svona mætti lengi telja. Allt komið frá ungum frumkvöðlum sem komu þessu af stað með litlum sem engum tilkostnaði í upphafi. Það verður að efla samfélag og samvinnu í tæknigeiranum sem snýr að vefþróun. Það þarf að koma á laggirnar nokkurs konar vefverksmiðju, sem veitir frítt domain og lágmarks hýsingu. Þar gæti starfað virkt vefsamfélag um vefþróun og þó að 99% hugmyndanna verði að engu þá er engu tapað, engin fjárfesting sem tekur því að tala um. Þetta 1% sem sýnir einhvern vöxt þarf síðan greiðan aðgang að góðri hýsingu, aðstöðu og ráðgjöf. Svona apparat yrði síðan í nánum tengslum við atvinnulífið, fyrirtæki sem starfa í vefumhverfinu myndu sjá hag í að kenna tæknina, halda áhugaverð námskeið og fá í staðinn aðgang að fólki sem gæti reynst þeim góðir starfsmenn eða samstarfsaðilar í framtíðinni.

  Þetta þarf fyrst og fremst að vera mjög virkt á netinu, þetta snýst meira um aðstoð við að gera hugmyndir að veruleika heldur en skrifborð og stóla. Þá á ég við að svona apparat þarf að geta náð til allra framhaldsskóla- og háskólanema, þeir þurfa að geta fundið svör við því hvernig sé best að koma hugmyndinni sinni á laggirnar og geta orðið sér úti um þekkingu til að byggja hana – eða komist í tengsl við einhverja sem eru færir í vefsmíð. Svo seinna meir þegar hugmyndinni vex fiskur um hrygg og kominn tími til að stofna fyrirtæki, þá vaknar þörfin fyrir aðstöðuna, styrkina og aðgang að fjárfestum.

  (Það er líka spurning hvort eitthvert af stóru vefumsjónarkerfa fyrirtækjunum gæti séð hag í að koma á laggirnar svipaðri vefverksmiðju, þar sem fólk getur notað umsjónarkerfið frítt til að smíða vef, en getur ekki flutt hann í öfluga hýsingu nema kaupa kerfið.)

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s