Þessa dagana er mikið talað um nýsköpun og hvernig hún sé lykillinn að því að byggja hér upp fjölbreytt og kraftmikið atvinnulíf eftir hrun bankanna. Sjálfur hef ég beitt mér töluvert í þessa veru með skrifum og grasrótarvinnu (1 | 2 | 3 | 4 | 5).
En af hverju nýsköpun? Er nýsköpun ekki bara næsta bóla sem mun svo enda á að springa framan í okkur með jafn háum hvelli og síldin 68, fiskeldið á níunda áratugnum, dotcom-bólan um aldamótin eða bankabólan 2008?
Svarið við þessu er sáraeinfalt og blákalt: Nei
Ástæðan: Með öflugri nýsköpun (sjá skilgreiningu) stuðlum við að fjölbreytileika. Í stað þess að gera eitthvað eitt – eins og okkur hættir augljóslega til að gera – gerum við margt og með því að gera nógu margt og nógu ólíkt, verðum við ekki lengur háð áföllum eða hörmungum sem dynja yfir einstakar greinar. Áfram erum við jú háð hagkerfi heimsins – það fær enginn flúið – en þar stöndum við einfaldlega ótrúlega vel að vígi með gjöful fiskimið, ódýra og umhverfisvæna orkugjafa og góða grunninnviði svo sem í fjarskipta- og samgöngukerfum.
Í staðinn fyrir eina stóra bólu sem springur með hvelli þegar á hana er stungið, verður atvinnulíf sem byggir á fjölbreyttri nýsköpun meira eins og bóluplast: hver lítil bóla getur sprungið án þess að allar hinar missi loft í leiðinni.
Þetta er mikilvægt að hafa í huga bæði til skemmri tíma og lengri. Það er freistandi að leita stórra skyndilausna, en hið rétta er að leita leiða til að skapa það umhverfi sem best getur gripið bæði stór og smá tækifæri.
Fólk virðist oft gleyma að í 100 fjögurra manna fyrirtækjum eru jafn mörg störf og í einu 400 manna fyrirtæki. Munurinn er sá að 100 fjögurra manna fyrirtæki verða svo að tíu 50 manna fyrirtækjum og mögulega að einni “súperstjörnu” með mörg hundruð stafsmenn.
Í réttu umhverfi fá réttu hugmyndirnar að vaxa og dafna og verða að verða að stórum og kraftmiklum fyrirtækjum og þær sem á einhvern hátt eru ófullkomnar (9 af hverjum 10) deyja drottni sínum. Reynslan af mistökunum og þekkingin sem byggð var upp hjá þeim sem ekki “meika það” skilar sér hins vegar aftur inn í umhverfið og eykur líkurnar á því að næstu tilraunir beri árangur.
Ekkert af ofansögðu útilokar aðra kosti, s.s. orkufrekan iðnað á borð við álver – satt best að segja fellur slíkt í mörgum tilfellum undir nýsköpun að hluta eða heild. Hins vegar þarf að vega og meta hvert tækifæri á móti þremur þáttum:
- Þeim takmörkuðu auðlindum sem fyrir hendi eru, s.s.: orku, vatni, ósnortinni náttúru, mannafla o.s.frv.
- Verðmætunum sem fást á móti nýtingu þessarra auðlinda.
- Fjölbreytileika í heildarsamsetningu atvinnulífsins. Þetta er punkturinn frægi með eggin og körfurnar – og við erum vonandi búin að læra af reynslunni í þeim efnum.
Það getur vel verið að orkufrekur iðnaður skori á einhverjum tíma hæst á þessu prófi. Hann gerði það nánast örugglega á sínum tíma, þegar ákvörðun var tekin um að reisa álverið í Straumsvík. En það er engan veginn augljóst núna.
Hvað þarf þá að gera?
Til að svara einmitt þessari spurningu, hefur verið opnaður vettvangurinn Nýsköpun.org.
Markmið þessa vettvangs er að stuðla að því að á Íslandi verði besta hugsanlega umhverfi til nýsköpunar. Vefurinn er ekki settur fram í nafni neinnar stofnunar eða samtaka, heldur sem opinn vettvangur sem allir sem hafa áhuga á að þetta markmið verði að veruleika geta hjálpað til við að byggja upp. Samhliða þessu hefur líka verið sett upp samnefnt tengslanet á vefnum LinkedIn. LinkedIn er líklega öflugasta viðskiptatenglanet sem völ er á – eiginlega eins konar Facebook fyrir viðskiptasambönd, til að setja það í samhengi fyrir þau ykkar sem ekki þekkja til.
Ef þið hafið áhuga á að leggja ykkar af mörkum, er fátt einfaldara.
Líst þrælvel á þetta framtak. Of mikill mannskapur dregur úr framleiðni þar sem þeir fara að flækjast um fyrir hvorum öðrum; of lítill mannskapur gerir aftur á móti að verkum að ekki er hægt að koma hlutum almennilega frá sér.
Ein leið að framkvæma þetta er öflugt samstarf nýsköpunarfyrirtækja þar sem hvert getur sérhæft sig í því sem það gerir best. Séu IT fyrirtæki skoðuð sem deildir, sést hversu sterkur kjarninn er. Ég er aktívt að reyna að koma á öflugu samstarfi þvert á IT geirann svo hægt sé að koma þessu öllu af stað og sé að þú ert að gera hið sama.
Hárrétt athugað – framleiðni sem fall af stærð hópa er einmitt mjög merkilegt fyrirbæri.
Ítreka að þetta er ekki í mínu nafni þó ég hafi átt þátt í að koma þessu af stað – og einnig að þessu er ekki beint sérstaklega að upplýsingatækni, heldur einmitt að sem fjölbreyttastri nýsköpun í anda færslunnar.
Stærsta vandamálið er að við erum að brenna inni á tíma.
Hjalli, þú ert bara lattesötrandi, 101 hangandi, ullarpeysu ígangandi artífarti – úr öllum tengslum við hinn raunverulega raunveruleika.
djók.
Mér hefur alltaf fundist mjög sérstakt hvernig Möltu hefur tekist að ná meirihluta veðmálaskatttekna Evrópu til sín. Malta var og er land sem hafði ekkert nema fisk og ferðamenn, hljómar kunnuglega.
Þeir ákváðu að fara í EU en samt taka það aðeins lengra. Eyjan litla er núna með betri skatta á veðbanka en hinir. Malta tók skatta af hagnaði en ekki veltu eins og hin löndin gerðu og því fóru allir þangað.
Núna eru allar vefsíður sem EU búar veðja á skráðar í Möltu. Það sést ekki á síðunni en það er þannig.
Þegar breti veðjar á Liverpool leikinn þá fær Malta skammt af því.
Þetta er nýsköpun 🙂