Svona verður Næsta Ísland

new-futureEin birtingarmynd kraftsins sem hefur verið leystur úr læðingi síðustu vikur er sú að almenn umræða er hætt að snúast um efnistökin í Séð og Heyrt og farin að snúast um stóru málin – málin sem skipta máli:

Hvernig viljum við hafa Næsta Ísland? Hvernig vinnum við okkur útúr núverandi ástandi? Hvernig á að stjórna landinu? Og hver á að gera það?

Ég hef tekið þátt í ótal samræðum um öll þessi mál síðustu vikur og tók af því tilefni saman nokkra áhugaverða punkta sem ég get sagt með nokkurri vissu að ég vilji sjá einkenna Næsta Ísland:

  • Besta mögulega umhverfi til nýsköpunar. Í slíku umhverfi byggist upp fjölbreytt atvinnulíf og útflutningstekjur okkar munu ekki standa lengur á aðeins 3-4 stoðum, heldur 10-20. Í þessu umhverfi felst m.a. einfalt og hagstætt skattkerfi, einföld fyrirtækjalöggjöf, öflugt stuðningskerfi, hvatar til áhættufjárfestinga o.fl. Sjá nánar í færslunni Af hverju nýsköpun? og á nyskopun.org.
  • Gjaldmiðill sem hefur verðgildi víðar en á Íslandi. Þetta er aðeins hægt með upptöku annars gjaldmiðils eða með því að setja traustan fót – s.s. gull – undir krónuna (sem NB er varla mögulegt úr þessu). Hugmyndir um einhliða upptöku Evru eru áhugaverðar, en líklega snúnari en gefið hefur verið í skyn. Fleytingu krónunnar með baklandi í stóru erlendu láni þarf að fylgja skýr áætlun um það hvernig gjaldeyrismálum verði háttað í framtíðinni. Slík áætlun gæti t.d. falið í sér að stefnt sé að upptöku annars gjaldmiðils innan 5 ára og hvernig gengi við þau skipti verði ákvarðað. Ég hef áður sett fram spádóm um gengi krónunnar eftir fleytingu, og hér er spádómur frá mér fróðari manni um málið.
  • Fagfólk í stöður ráðherra og helstu embættismanna. Þetta mætti t.a.m. gera á eftirfarandi hátt: Auglýst yrði eftir umsækjendum í stöðurnar. Nefndir fagfólks í hverju málefni (t.d. leiðtogar fyrirtækja og stofnana í viðkomandi greinum) myndu meta hæfi umsækjendanna og ef fleiri en einn er talinn jafnhæfastur eða -hæfust til verksins, kýs Alþingi milli þeirra. Alþingi, sem vinnuveitandi þeirra, getur svo sett viðkomandi af þyki hann eða hún ekki hafa staðið sig. Með þessu fæst líka nokkuð heilbrigður aðskilnaður alþingis og ríkisstjórnar. Á móti mætti fækka Alþingismönnum um 20.
  • Öll lög hafi “síðasta söludag”. Tryggt sé að öll lög komi til endurskoðunar ekki sjaldnar en á 10 ára fresti. Til athugunar sé hvort þau eigi enn rétt á sér eða megi að öðrum kosti bæta m.t.t. breyttra tíma. Svona má m.a. tryggja að löggjöfin taki tillit til tækninýjunga, breytinga í alþjóðaumhverfi o.s.frv.
  • Settur sé óháður verkefnastjóri yfir Alþingi. Verkefnastjórinn setur niður dagskrá ársins gróflega í upphafi árs og raðar svo nákvæmri dagskrá innan viku og dags. Enginn starfsmaður (les: alþingismaður) fær að fara heim fyrr en vinnu er lokið. Séu markmið ekki að nást, er það hins óháða verkefnisstjóra að meta mikilvægi og forgangsraða málum. Þingmenn eða flokkar mættu jafnvel fá fastan fjölda “mikilvægispunkta” sem þeir mega dreifa á sín mál yfir árið til að hafa áhrif á það hvaða mál eru tekin fyrir.
  • Landið allt eitt kjördæmi, ekkert lágmarksfylgi og röðun á kjörseðli. Kjördæmaskipanin tryggir jafnt vægi atkvæða og dregur úr kjördæmapoti (sem þá myndi líklega fá heitið “svæðapot”). Forgangsröðun á kjörseðli í stað þess að aðeins einum flokki sé greitt atkvæði (sjá t.d. löggjöf um þingkosningar í Ástralíu), hindrar öfgaöfl í að komast að, en afnám lágmarksfylgis tryggir á sama tíma að “litlar raddir” fá málsvara á þingi ef kjósendum þykir næg ástæða til.
  • Stóraukið gegnsæi í fjármálakerfinu. Skráning skulda- eða hlutabréfa á markað setji kröfur um fullkomið gagnsæi á rauntímaupplýsingum úr bókhaldi viðkomandi fyrirtækja. Þetta skapar þeim markað til að sækja sér fé, en gefur fjármagnseigendunum – í krafti hópsins – kleift að fylgjast grannt með stöðu fyrirtækjanna. Sama myndi gilda um sjóði, s.s. peningamarkaðssjóði, lífeyrissjóði eða aðra gjörninga sem mynda “strúktúra” ofan á markaðinn. Árs- og ársfjórðungsuppgjör eru úrelt fyrirbæri – rauntímaupplýsingagjöf er krafa nútímans. Ég hef áður skrifað um þetta í færslunni Framtíð viðskipta: Opið bókhald og fullkomið gegnsæi.
  • Stóraukið gegnsæi í fjármálum hins opinbera. Opið kerfi þar sem hver sem er getur skoðað, ekki bara samantekna liði í fjárlögum og rekstri, heldur kafað alveg niður í hverja einustu færslu hins opinbera og meðfylgjandi skýringar. Þetta tryggir frábært aðhald og dregur úr pólitískri fyrirgreiðslu af almannafé. Framsetningin á þessu gæti verið “glorified” útgáfa af framsetningu DataMarket á Fjárlagafrumvarpinu – þar sem hægt væri að kafa dýpra, sjá nánara niðurbrot, skoða fjármál einstakra stofnana og skýringar með öllu saman.
  • Öll samskipti við hið opinbera geti farið fram rafrænt. Þetta yrði ekki bara í formi vefsíðu, eins og við eigum t.d. að venjast með skattframtalið, heldur eiga bókhaldskerfi og önnur kerfi að geta tengst með sjálfvirkum hætti – með tímanum mætti jafnvel krefjast þess. Sjá bloggfærslu um “The Government API” sem ég skrifaði í fyrra. Þetta eykur skilvirkni, minnkar tvíverknað, fækkar villum og gerir – tvinnað saman við gagnsæiskröfurnar hér á undan – hverskyns undanskot afar erfið.
  • Skynsemi við ráðstöfun takmarkaðra auðlinda. Orkan, fiskurinn, andrúmsloftið og náttúran eru takmarkaðar, verðmætar auðlindir. Þær er rétt að nýta, en af skynsemi. Við hverja ráðstöfun á þessum gæðum, þarf að vega og meta ávinning á móti ókostum. Orkumálin eru þarna hvað umdeildust. Það er jafn vitlaust að vilja ekkert virkja framar eins og það er að vilja virkja allt sem virkjanlegt er. Okkar hagur er að sem mest fáist fyrir orkuna og ekki sé fórnað meiri hagsmunum fyrir minni. Þannig er augljóslega betra að fá marga meðalstóra kaupendur að orku – s.s. rannsóknagróðurhús, vélabú eða álþynnuverksmiðjur – en fáa stóra. Virðisauki samhliða orkusölunni er lykilatriði. Með tilliti til áherslu á fjölbreytni í atvinnulífi eru fleiri álver orðin hættuleg – eggin, körfurnar og allt það. Umfram allt þarf orkusala að fara fram á opnum markaði þar sem verð eru opinber og jafnræði gildir við tilboðsgerð.
  • Afnám hverskyns hindrana á vöruflutningum. Tollar, innflutningsgjöld og niðurgreiðslur ákveðinna framleiðslugreina búa til ójafnvægi sem býr til undarlega hvata og kemur í veg fyrir að við nýtum með besta hætti vinnuafl, landrými, fjármagn og verkvit í heiminum. Grænmetisrækt á Íslandi er því aðeins góð hugmynd að lágt orkuverð hér vegi upp kostnað við gróðurhús og mæti samt flutningskostnaði erlendis frá. Landbúnaður hér ætti að vera takmarkaður við þær greinar sem standast samkeppni við innfluttar vörur í gæðum og verði, eða eiga erindi á alþjóðamarkaði í samkeppni við erlendar vörur þar. Ég efast um að verksmiðjuframleiðsla á borð við svína- og kjúklingarækt geri það, en íslenskt kindakjöt er aftur á móti villibráð og þarf að koma á markað sem sem slíkri: munaðarvara í samkeppni við franska gæsalifur, rússneskan kavíar og lapplenskt hreindýrakjöt. Tollar og gjöld á vörur á borð við raftæki og neysluvörur eru hrein tímaskekkja.
  • Afnám hindrana á fjármagnsflutninga og eignarhald. Eignarhald einkaaðila ætti aldrei að takmarka við ákveðið þjóðerni. Viljum við (íslenska þjóðin) halda yfirráðum yfir ákveðnum auðlindum, eiga þær að vera í eigu ríksins, en nýtingarréttinn má leigja eða selja á opnum markaði. Með þessum hætti fáum við hingað erlent fjármagn í þær framkvæmdir eða verkefni sem okkur gætu reynst ofviða, aukum líkurnar á áhættufjármagni í greinum eins og orku eða sjávarútvegi og aukum samkeppni um þessar auðlindir sem leiðir af sér hærri tekjur til þjóðarbúsins.

Ég geri mér grein fyrir að margt af ofantöldu þarf að nálgast af varfærni. Sumt mun taka allmörg ár að færa til betri vegar og í mörgum tilfellum verður þörf á sérstökum aðgerðum til að gera umbreytinguna sem sársaukalausasta.

Ég tek öllum góðum rökum gegn þessum hugmyndum og áskil mér fullan rétt til að skipta um skoðun í ljósi slíkra, en tel þó að ofangreint standist allharða rökræðu.

27 comments

  1. Flott, gott og blessað allt saman. Ég hnýt samt aðeins um kosningakerfið, í Ástralíu er kosið í einmenningskjördæmum sem þýðir að einfalt er að kjósa einstaklinga í stað flokka. Ég sé ekki alveg einfalda leið til að yfirfæra það á Ísland, sérstaklega ef hér væri aðeins eitt kjördæmi.

  2. Sæll Hjálmar

    Þakka þér fyrir góða grein, frábært að lesa eitthvað uppbyggjandi til tilbreytingar.

    Myndi kjósa strax í dag þann aðila sem með þessi atriði á sinni stefnuskrá. Þessu þarf að koma á framfæri sem víðast. Ertu ekki örugglega að því?

    Baráttukveðjur

  3. Þar sem ég veit að mikið af skynsömu fólki stoppar hér við þá vill ég bera fram spurningu.

    Eru til einhver fordæmi um hvað gerist í bankakreppu þar sem meginþorri allra skulda er vertryggður?

    Það er augljóst að verðtrygging er “feedback loop” inn í verðbólgu og það hversu hátt hlutfall lána hér eru verðtryggð gerir okkur sérstaklega viðkvæm.

    Ef einhver getur bent mér á fordæmi væri það mjög athyglisvert.

    Jarl

  4. Skera niður alþingismenn um helming eða hafa þetta sem viðurkennda helgarvinnu. Þetta lið þarf ekki að vinna nema 7-8 mánuði ársins og er meira og minna fjarverandi þann tíma hvort sem er. Sumir eru meira að segja með aðra vinnu sem aðalstarf. Svo má auðvitað ekki gleyma borgarfulltrúanum sem getur leyft sér að vera í námi í Skotlandi og mæta á vinnustaðinn sinn sirka hálfsmánaðarlega. Er þetta fólk að skila jafn miklum verðmætum til samfélagsins og er verið að borga því fyrir?

  5. Athyglisvert og gott innlegg. Hefði viljað sjá samvinnu við t.d. nóvemberáskorunina sem er á sömu nótum. Verðum að sjá til þess að það verði ein stór borgaraleg fylking sem verður nógu öflug til að koma á alvöru breytingum í þjóðfélaginu. Reynum að varast að dreifa kröftunum sem á endanum hættir til þess að ekkert gerist. Við verðum að vinna saman og virkja gott fólk til góðra verka. Ætla að benda á þessa síðu á heimasíðu nóvemberfylkingarinnar og vonast til að þú verðir við áskorun minni um að tala við þau. Með samvinnu mun okkur takast að endurreisa gott þjóðfélag á Íslandi, ekki öðruvísi.

  6. Jarl, þar sem Ísland er mér vitandi eina landið í heiminum sem með sérstaka verðtryggingu þá held ég óhætt að fullyrða að engin fordæmi til staðar.

    En eins og þú segir þá er verðtrygging með “feedback loop” inn í verðbólguna og því sennilega óhætt að álykta að mun gera ástandið hér enn verra en ella (eins og sé ekki nógu slæmt fyrir :-o). Verðtryggingin er það sem er að (mun) fara með heimilin og fyrirtækin í landinu, ekki háir stýrivextir.

    Mæli eindregið með greininni hans Ingólfs hjá Spara.is, hana má meðal annars nálgast á bloggsíðu Bryndísar Ísfoldar Hlöðversdóttur, á Eyjunni. Birt fyrr í dag (10. nóvember) undir heitinu AFNÁM VERÐTRYGGINGAR. Eina sem vantaði á annars frábæran lista Hjalla hér að ofan 🙂

  7. Ég fagna þessu frábæra framtaki og góðri samantekt. Eitt helsta baráttumál okkar hlítur einmitt að vera að stórauka allt gegnsæi í stjórnkerfinu svo mögulegt sé að veit stjórnmálamönnum nauðsynlegt aðhald.

  8. Góðar pæling hjá þér Bjarki. Ég hef sjálfur spáð í þetta og hef ákveðna lausn í huga. Ég er alveg á því að sameina eigi öll kjördæmin í eitt og sleppa 5% reglunni, því miðað við 63 þingmenn er aðeins um 1,6% atkvæða að baki hverjum þeirra.
    Sjálfur er ég í háskólanámi í tölvunarfræði og er tæknilega þenkjandi eftir því. Þess vegna sé ég fyrir mér að rafrænar kosningar séu það sem koma skal. Ég ímynda mér að þær séu bæði hagkvæmari (ekki þarf að telja atkvæði langt fram á nótt, tölvan getur birt niðurstöðum og leið og kjörstaðir loka) og gefi mögulega á sveigjanlegra kosningakerfi.
    Þegar hver maður stígur inn í kjörklefann blasir við honum snertiskjár með tómum lista upp á 63 þingsæti. Í staðinn fyrir að setja aðeins kross við ákveðinn flokk er hægt að raða saman fólki úr mismunandi flokkum eins og manni sýnist og einnig er hægt að velja fólk í einstaklingsframboði. Þeir sem ekki nenna að spá of mikið draga bara flokkinn sinn yfir á kjörlistann og ýta á “Kjósa”. Hinir geta hent út þeim flokksmönnum sem ekkert vit er í og valið fólk af öðrum flokkum í staðinn.

  9. Takk fyrir góða umræðu. Nokkur komment…

    Bjarki, og Baldur (um kosningakerfi): Sammála um kosti þess að finna leiðir til að kjósa einstaklinga. Þar til nýlega hefði ég líklega í slíkri kosningu kosið a.m.k. einn úr hverjum núverandi stjórmálaflokka, nema kannski Frjálslyndum. Held að röðunin og sameining í eitt kjördæmi væru stór framfaraskref og gott að gera a.m.k. ráð fyrir því að fólk geti hópað sér saman um einhver mál, þar sem einstaklingur er jú bara – jah – einir. Þá myndast spurningar um varamenn, hvað á að gera við einstaklinga með miklu meira en nóg fylgi á bakvið sig, o.s.frv.

    Áskorunin við bæði röðun, einstaklingakjör og rafrænar kosningar er að gera kerfin nógu einföld og skiljanleg að það bitni ekki á þeim sem eiga erfitt með að tileinka sér slíka hluti.

    Ég bendi líka á áhugaverða færslu Jarls um þessi mál frá því í gær.

    Jarl og ASE: Ég held – líkt og ASE – að verðtryggingin sé séríslenskt fyrirbæri – a.m.k. í nútímanum. Það væri gaman ef dæmi finndust um annað og hvernig þetta kerfi gafst í þeim tilfellum. Svo er ekki nóg með að við höfum haft minnsta fljótandi gjaldmiðil í heimi, heldur höfum við eiginlega haft þrjá gjaldmiðla:

    Krónuna
    Verðtryggðu krónuna til innlána (stýrt af Seðlabankanum)
    Verðtryggðu krónuna til útlána (stýrt af Íbúðalánasjóði)

    Hagstjórn þeirra tveggja síðastnefndu hefur svo hálfpartinn stangast á, sem er ekki til að einfalda málið.

    Maria: Mér hefur litist vel á það sem sett er fram í Nóvemberáskoruninni. Ég held að það þurfi að skýra markmið og mögulegar frágangssakir í Evrópuviðræðum, en það er útfærsluatriði. Sömuleiðis þarf að bæta við uppbyggingarröddum. Burtséð frá Evrópusambandinu, Seðlabankastjórn og rannsókn þess sem gerðist þarf að fara af krafti í að byggja upp. Það er a.m.k. jafn mikilvægt að sinna því.

  10. Margar góðar hugmyndir. Bendi á að við eigum fullt af hæfu fólki sem getur tekið að sér að ráða í stöður ráðherra og embættismanna. Margir sem hafa lokið meistaranámi í mannauðsstjórnun og jafnvel doktorsnámi og hafa áralanga reynslu af ráðningum. Eigum að virkja þetta fólk núna, ekki veitir af.

  11. M.t.t. nýsköpunar, sprotafyrirtækja og netsins, ætti þá ekki að tala um “Ísland 2.0” í stað “Næsta Íslands” 😉

  12. Um kosningakerfið: Sjálfur er ég nörd og myndi alveg fíla kerfi eins og Baldur er að hugsa um í botn. Ég gæti hamast á snertiskjá um góða stund og sent frá mér mjög ítarlegan kjörseðil sniðinn að mínum löngunum. Gallinn er bara að það er mjög margt fólk sem myndi ekki fíla þetta jafnvel og við nördarnir. Margt eldra fólk er t.d. haldið óyfirstíganlegri tæknifóbíu. Þetta er gerlegt en það verður þá að tryggja að notandaviðmótið sé þannig að 5 ára barn geti áttað sig á því hvað er að gerast og það þarf að bjóða fólki upp á að setja einfaldlega X við sinn gamla flokk ef það endilega vill.

    Ég myndi leggja til að meðfram því að Ísland er sameinað í eitt kjördæmi væri tekin upp skörun kjörtímabila, þ.e. kosið væri um 1/3 þingsæta í einu. Það væri þá hægt að kjósa á tveggja ára fresti um 21 þingsæti en kjörtímabilið væri lengt í 6 ár (regla um hámarksfjölda tímabila sem þingmaður getur setið kæmi líka til greina). Með því yrðu einstaklingskosningar mun viðráðanlegri en ef velja á 63 þingmenn í einu.

  13. Já, að sjálfsögðu. Ég er orðinn svo vanur því að allur hugbúnaður sem ég nota sé opinn og frjáls að ég geng bara út frá því sem vísum hlut að lausnin yrði einnig þannig 🙂
    Forsætisráðuneytið hefur nú myndað sér stefnu í þessum málum og á frjáls og opinn hugbúnaður að fá sömu möguleika og annar lokaðri þegar kaupa á hugbúnað fyrir hið opinbera, þannig að ekkert ætti að standa í vegi fyrir því að hafa kerfið opið og frjálst.
    Sjá http://www.forsaetisraduneyti.is/upplysingasamfelagid/Frettaannall/nr/2878

  14. Varðandi kosningakerfi, þá eru sum kerfi sanngjarnari en önnur. Jafnframt eru sum kerfi sem virðast skynsamleg við fyrstu sýn, þrælgölluð við vissar aðstæður. Stærðfræðin bak við kosningakerfi er merkilega flókin.

    Hér er áhugaverð síða sem ber myndrænt saman nokkur kosningakerfi: http://zesty.ca/voting/sim/

    Þú segir að forgangsraða eigi flokka á seðilinn, en það vill svo til að það eru margar leiðir til að útfæra það. Þú vísar á Ástralska kerfið, sem öðru nafni er kallað IRV. Síðan að ofan sýnir m.a. hvernig IRV hefur óvænta, alvarlega galla. Kannski viltu mæla með einhverju betra? 🙂

  15. Bjarni: Kosningakerfi eru mjög flókin fyrirbæri. Ég vísaði í Ástralska kerfið sem dæmi um kerfi með röðun, en ekki endilega sem kerfið sem ætti að taka upp. Ástralska kerfið er reyndar aðeins frábrugðið því IRV kerfi sem lýst er á síðunni sem þú bendir á, en hefur án efa sína galla.

    Meginatriðið er að hver kjósandi geti sagt skoðun sína á meira en einn “binary” hátt, til að nálgast niðurstöðu sem sem flestir geti sætt sig við. Ég hef einfaldlega ekki sökkt mér nógu djúpt í kosningakerfafræðin til að mynda mér skoðun á því hvert þeirra hugnast mér best.

    Eitt skilyrði slíks kerfis er að það sé auðskilið, sem fækkar kostunum verulega!

  16. Jarl og ASE:

    Verðtrygging er alls ekki séríslenskt fyrirbæri enda fundið upp í Þýskalandi eftir síðara stríð. Hinsvegar er vægi verðtryggingar séríslenskt að því er umfang varðar en einnig af því að hið opinbera skuldar nánast ekki neitt verðtryggt. Í BNA er ríkið útgefandi að TIPS Treasury Inflation Protected Securities og hefur því mikla hagsmuni af að mæla verðbólgu lága með margvíslegum brögðum. Hér á landi eru það hinsvegar fasteignakaupendur sem skulda verðtryggt. Verðtrygging hér er því miður mæld af samviskusömustu starfsmönnum hins opinbera sem ekkert láta fara fram hjá sér nema verðlækkanir og gæði þess sem mælt er, þ.e. engin teljandi gæðaleiðrétting á sér stað. Ísrael er eina landið þar sem vægi verðtryggingar var svipað og hér og uppskar landið mikla erfiðleika í kjölfarið. Öfugt við okkur þá beittu þeir EKKI “ekki gera neitt” stefnunni hans Geirs.

    Hjalli:
    Mér líst ekki sérlega vel á “sérfræðinga” hugmyndina. Sér-fræði, eins og nafnið gefur til kynna er fræði um eitthvað sértækt. Ákvarðanataka byggir á að vega og meta samhengi hlutana. Eins og við höfum rætt þá er Hagfræði ekki raunvísindi heldur nær félagsfræði. Peningamálastjórnun þarf að byggjast á hyggjuviti og raunsæi, nokkuð sem algerlega hefur vantað hér á landi.

    “að öll lög komi til endurskoðunar á 10 ára fresti” er vitaskuld ekki raunhæft. Á að endurskoða að bannað sé að fara yfir á rauðu ljósi ? Miklu nær er að fækka lögum, stofnunum og samkeppnisrekstri hins opinbera, lækka skatta sem án efa myndi hvetja fólk til að veðja á afrakstur eigin verka.

    Algerlega sammála að krónan er búin að vera. Til áherslubreytingar vil ég þó benda á að sú ákvörðun að leggja niður krónu þarf ekki endilega að snúst um eiginlega upptöku Evru. Ef króna er lögð niður er sjálfgefið að hver og einn getur í raun tekið upp hvaða mynt sem er. Fjölmynntasamfélagið fæðist sjálfkrafa enda allir fjölmynnta-innviðir til staðar.

  17. Villi: Mjög góð viðbót. Samhliða mætti beita hugmyndakerfi á borð við SalesForce Ideas (sjá t.d. hér hjá Starbucks

    Arnar: “Sérfræðingurinn” sem er best hæfur til að stjórna fjármálaráðuneytinu er ekki endilega fjármálasérfræðingur, heldur í þeim efnum sem valnefndin myndi telja að best nýttust slíkum málum, þ.m.t. kannski félagsfræði eða sálfræði. Efast samt um að dýralækningar yrðu á þeim lista 😉

    Sé ekki hversvegna það er ekki raunhæft að endurskoða öll lög á 10 ára fresti. Flest lög yrðu auðvitað bara samþykkt áfram og það tæki enga stund að ákveða. Með þessu móti er hins vegar tryggt að það væri rennt yfir þau með niðurfellingu (les: fækkun) eða breytingar í huga. Við endurskoðun á lögum um rauð ljós, væri t.d. sjálfsagt að skoða hvort taka mætti hægri beygju á rauðu ljósi – sem enginn er líklegur til að beita sér sterlega fyrir, en væri þó mjög líklega jákvæð breyting. Sem sagt, nýtískulegari og færri lög – við erum sammála 🙂

    Sammála því að það á að skoða fleiri kosti en Evruna, þó hún væri án nokkurs efa betri en krónan og hún liggi á margan hátt beinast við. Reyndar nefndi ég Evruna ekkert sem helsta kost – bara einhvern gjaldmiðil sem er litið á sem verðmæti erlendis. Ég myndi reyndar fara varlega í dollarann…

  18. Flott færsla sem ég get tekið heilshugar undir. Góð hugmynd að nýta gæða, öryggis og verkefnisstjórnunartækni sem notuð er hjá næstu öllum fyrirtækjum í dag, 10 ára reglan um lögin væri sniðug, en það þýddi að hefðarreglan í lögum félli sjálfsagt úr gildi, og að sjálfsögðu þarf að endurhugsa tollalög og kosningakerfi.

    Spurning um að stofna UT-flokkinn?

  19. Margt gott sem kemur fram hérna, og margt sem mig langar að kommenta á en ég ætla að láta nægja að kommenta á tvö atriði. Annað er atriði varðandi landbúnað sem mér hefur stundum fundist fara lítið fyrir.
    Landbúnaður er meira en bara framleiðsla, landbúnaður er í raun hluti af þjóðaröryggi. Ef hér hefði allt verið tollalaust og allir styrkir felldir niður í góðærinu þá hefðu ódýrar erlendar (styrktar) landbúnaðarvörur flætt yfir allt, og ræktun á ansi mörgu hefði ekki lengur verið samkeppnishæf og hefði lagst af. Ef þetta hefði verið módelið þá værum við ennþá verr stödd í dag en raun ber vitni – einn af ljósu punktunum núna er jú að við eigum góðan landbúnað og þurfum ekki að flytja allan mat inn – hann veitir okkur meira að segja útflutningstekjur.
    Þetta kemur svolítið inn á leikjafræðina. Tollar og styrkir eru varnarmúrar. Segjum að þú hafir tvær borgir sem standa við fljót. Önnur ákveður að byggja varnargarða gegn flóðum hin borgin ákveður að gera það ekki og nýtur þessvegna aukinnar hagsældar vegna þess að hún sparaði sér þannig kostnað sem er óhjákvæmilega fólginn í varnagörðunum. En þegar áin flæðir yfir bakka sína þá er öll hagsældin töpuð og meira til hjá borginni sem fannst of dýrt að hafa varnargarð.
    Spurningar sem vakna eru samt, hvað ef það kemur aldrei flóð? Og hvað ef aukin hagsæld í seinni borginni dugir seinna meir fyrir byggingu varnargarðanna?
    Ef við horfum á Ísland þá höfum við trekk í trekk orðið fyrir áföllum (flóðin koma reglulega) og bankakreppan kemur í kjölfar aukinnar hagsældar sem við nutum eftir að við lofuðum bönkunum að starfa í umhverfi án nokkurra varnargarða – það vill nefnilega gleymast að byggja varnargarðana þegar allt gengur vel, varnargarðarnir eru yfirleitt byggðir eftir að áföllin dynja yfir.

    Og svo er hitt atriðið um kosningakerfið, mín skoðun er að hér eigi að vera eitt kjördæmi, einstaklingar séu kosnir á þing og atkvæði þeirra á þingi endurspegli kjörfylgi þeirra. Þetta lítur mjög hættulega út í fyrstu, sumir sjá fyrir sér þing með 1000 þingmönnum og aðrir sjá fyrir sér þing þar sem einn maður gæti verið alráður. Það er þó hægt að lágmarka slíka áhættu með einföldum aðgerðum eins og að hafa hámarksvægi einstaklinga 49% (nema menn vilji lofa þjóðinni að velja sér einvald – kannski ekkert vitlausara heldur en að lofa henni að velja sér flokk sem ræður öllu á þingi og einn maður ræður öllu innan flokksins). Til að koma í veg fyrir 1000 manna þing er auðvitað best hin mjög svo augljósa leið að hámarka fjölda þeirra, þeir 50 einstaklingar með mesta fylgið ná kjöri. Það þýðir að þegar nokkrir óvenju fylgismiklir aðilar eru á þingi þá fjölgar röddum þeirra sem bera minna vægi í þjóðfélaginu. Laun þingmanna mættu einnig endurspegla fylgi þeirra að einhverju leiti.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s