Jæja, þá er komið að því. Fyrsti áfangi nýja fyrirtækisins – DataMarket – lítur dagsins ljós í dag.
Eins og líklega hefur mátt lesa á milli línanna (og af nafninu) snýst DataMarket um að koma upp markaði fyrir kaup og sölu á gögnum. Þarna er einkum átt við tölfræði og töflugögn hverskonar, eða það sem upp á ensku hefur verið kallað “structured data”.
Undir þessa skilgreiningu falla m.a. hagtölur, markaðsrannsóknir, gengisupplýsingar og önnur fjármálagögn, veðurupplýsingar, íþróttaúrslit, sjónvarpsdagskrár, bílategundir, þróun í meðalþyngd ástralskra karlmanna og svo framvegis. Í raun hver þau gögn sem eðlilegt væri að setja fram sem töflu.
Gögn af þessu tagi koma víða við sögu í fyrirtækjarekstri, stjórnsýslu og í raun á svo að segja öllum sviðum mannlífsins. Það kemur mér því sífellt á óvart hversu erfitt er að finna góð gögn, fá þau afhent á hentugu sniði, að ekki sé talað um hverskonar samkeyrslu eða myndræna framsetningu.
DataMarket ætlar sér að takast á við þessi vandamál.
Í þessum fyrsta fasa kynnum við “þjónustufyrirtækið DataMarket”. Frá og með deginum í dag bjóðum við fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum upp á gagnaöflunarþjónustu. Við sjáum sem sagt um að finna þau gögn sem leitað er að, göngum frá leyfismálum, samkeyrum gögn úr ólíkum áttum og vörpum gögnunum á það snið sem viðskiptavinurinn óskar. Að auki tökum við að okkur að útbúa myndræna og/eða gagnvirka framsetningu á hvers kyns gögnum – það sem við kjósum að kalla gagnagræjur.
Þetta er að miklu leyti gert til að fá betri tilfinningu fyrir markaðnum. Átta okkur á því hvar þörfin er mest, hvers konar verkefni skjóta upp kollinum og hvar mögulega viðskiptavini okkar svíður helst þegar kemur að gagnamálum. Þessa reynslu munum við svo nota til að forgangsraða við frekari uppbyggingu DataMarket.
Markmiðið er að DataMarket verði með tímanum öflugur markaður sem leiði saman kaupendur og seljendur gagna í þægilegu sjálfsafgreiðslukerfi. Mikil vinna er óunnin þar til sú sýn verður að veruleika. Fyrstu skrefin í þá átt verða þó stigin fljótlega á næsta ári. Þú munum við opna vísi að slíkum markaði sem þó mun hafa mjög afmörkuð efnistök.
Með þessum litlu skrefum vonumst við til að geta byggt fyrirtækið upp á skynsamlegan hátt með endurgjöf sem beini okkur rétta braut í átt að lagtímamarkmiðinu.
Allar ábendingar, hugmyndir og umkvartanir eru velkomin, hvort heldur er í athugasemdum hér á blogginu, eða í tölvupósti.
Til lukku með áfangann!
Til lukku með þetta og það að vera farinn að “vinna” aftur 🙂
heyrðu congratz. Ég er búinn að bíða svolítið lengi eftir að sjá hvað þú ætlaðir þér eiginlega að fara að gera.
Til hamingju með þetta Hjalli minn.
Heyrðu mig vantar tölulegar upplýsingar um vinningsmöguleika í Texas Holdem Poker, metið útfrá fyrstu 2 spilum á hönd með tilliti til 2 – 8 spilara.
Gott væri að fá litað áhætturit sem hægt væri að láta tattovera á innanverð augnlokin.
Vantar ykkur ekki einmit fyrstu verkefni? 😉
Til hamingju!
Til hamingju með fyrirtækið. Hélt að þú ætlaðir aldrei að hætta að tala og fara að vinna.. hehehe..
Til hamingju!
Takk allir.
Daði: Þetta er fáanlegt nánast nákvæmlega eins og þú biður um það hér: http://wizardofodds.com/holdem.
Ég get þó ekki bjargað þér hvað varðar tattóveringuna – er ekki bara spurning um að labba með þetta á einhverja stofuna? 😉