Fyrirtæki sem heita FS#

Það stökk á mig eins og líklega fleiri þegar fyrirtækið FS7 (félag Finns Ingólfssonar sem hagnaðist á viðskiptum með Icelandair) komst í hámæli hve mjög nafn félagsins minnti á FS37 (seinna Stím) og FS38 (fyrirtæki í tengslum við Pálma Haraldsson og Fons sem lánaði FS37 peninga – sama frétt).

Gagnanördið ég brá mér því á Fyrirtækjaskrá á vef Ríkisskattstjóra og fletti upp öðrum félögum sem bera sambærileg nöfn (mynstrið “FS#”). Hér er niðurstaðan:

FS3 ehf 540706-0500   Ártorgi 1 550 Sauðárkrókur
FS6 ehf 640806-1170 Kringlunni 4-12 103 Reykjavík
FS7 ehf 640806-1250 Suðurlandsbraut 18   103 Reykjavík
FS10 ehf 601206-1290 Smáratorgi 3 201 Kópavogur
FS10 Holding ehf   620607-1850 Smáratorgi 3 201 Kópavogur
FS11 ehf 601206-1370 Heiðarhjalla 43 200 Kópavogur
FS13 ehf 601206-1530 Fellsmúla 11 108 Reykjavík
FS19 ehf 500407-0500 Vindheimum 116 Reykjavík
FS25 ehf 610607-1010 Hlyngerði 3 108 Reykjavík
FS28 ehf 450707-1120 Hesthömrum 18 112 Reykjavík
FS38 ehf 661007-2220 Suðurgötu 22 101 Reykjavík
FS45 ehf 591108-1070 Fiskislóð 45 101 Reykjavík
FS50 ehf 611207-3520 Síðumúla 2 108 Reykjavík
FS53 ehf 611207-3440 Tjarnargötu 4 101 Reykjavík
FS58 ehf 420408-1020 Þverholti 2 270 Mosfellsbær
FS61 ehf 630508-0880 Borgartúni 27 105 Reykjavík

Nú er ekkert í þessum lista sem segir að þau eigi eitthvað sameiginlegt annað en nafnið. Þó vekur athygli mína að fyrirtækin eru stofnuð í tímaröð. Aðeins tvö fyrirtæki brjóta þá reglu: FS10 Holding ehf, sem líklega er stofnað í tengslum við FS10 síðar og FS45, sem er til heimilis að Fiskislóð 45 og því nafnið líklega tilviljun.

Lausleg könnun leiddi í ljós að aðrar tveggja stafa samsetningar fylgt eftir með tölustöfum eru alls ekki algengar. Þetta vekur nokkrar spurningar:

  • Fyrir hvað stendur FS?
  • Ef þetta er sería, hvað varð þá um hin FS fyrirtækin? (við vitum að FS37 varð Stím)
  • Á þetta sér einhverjar sárameinlausar skýringar eins og að Fyrirtækjaskrá úthluti FS# raðnúmerum ef heiti fyrirtækis kemur ekki frá stofnendum?

Er einhvers staðar blaðamaður að leita að áhugaverðu verkefni?

Mikið væri annars gaman ef Fyrirtækjaskrá myndi opna betur á sínar opinberu upplýsingar til að einfalda allskyns athuganir sem þessar. Ég er viss um að margt áhugavert er hægt að finna bara útfrá nöfnum, stofnendum, samþykktum, stofnsamningum og ársskýrslum sem fyrirtækjum ber að skila inn, án þess að brjóta eðlilega leynd yfir þessum upplýsingum. Sjá nánar um Opin Gögn.

5 comments

  1. Þetta er afar áhugaverð færsla Hjalli.

    Margt skemmtilegt sem kemur í ljós þegar kennitölur og heimilisföng þessara félaga eru skoðuð. Til að mynda eru nokkur félaganna stofnuð sömu daga, t.d.:
    FS6 og FS7
    FS11 og FS13
    FS50 og FS53

    Ef maður athugar hvaða önnur fyrirtæki eru skráð á sömu heimilisföng og þessi FS félög, er auðvelt að gera sér í hugarlund hverjir eiga viðkomandi félag.

    Ef við byrjum á öfugum enda og skoðum t.d. FS61, sem er með heimilisfang í Borgartúni 27, og deilir því með mörgum félögum á borð við KPMG ehf, KPMG lausnir ehf, og KPMG FS ehf. Starfsemi þessa KPMG FS ehf félags er skv. ÍSAT “64.20.0 – starfsemi eignarhaldsfélaga”. Áhugaverð tilviljun, en það er einnig ÍSAT númer flestra FS félaganna sem nefnd eru að ofan? Sum hafa aðra starfsemi skráða, svo sem kaup og sala eigin fasteigna, eða leiga atvinnuhúsnæðis. Annað áhugavert við Borgartún 27 er sá aragrúi AB xxx fyrirtækja sem þar eru skráð til húsa. Flest þeirra virðast einnig hafa ÍSAT númer 64.20.0 sem aðalstarfsemi.

    Í sumum tilfellum eru afskaplega mörg fyrirtæki skráð með sama heimilisfang, t.d. FS58 sem er skráð í Þverholti 2 (270 Mos.) deilir því heimilisfangi með afar mörgum öðrum fyrirtækjum og fannst mér ómögulegt að koma með “gáfulega” ágiskun á hvert foreldri þess væri, þar til ég skoðaði FS50, sem er skráð að Síðumúla 2 (108 Rvk) en þar eru aðeins 2 önnur fyrirtæki skráð, Ferðaþjónusta Bænda, og SM Fjárfestingar ehf, SM var kunnuglegt, því í Þverholti 2 (FS58) var fyrirtæki sem hét SM kvótaþing ehf. Einhver tengsl, hver veit?

    Svo við hoppum efst í listann og skoðum FS3, þá deilir það, eins og FS61, heimilisfangi sínu með níu fyrirtækjum sem heita AB [númer] ehf. Einnig er þar að finna tvö fjárfestingafélög, EST og Fell, Íslenskar sjávarafurðir ehf og Kaupfélag Skagfirðinga svf.

    Flest AB fyrirtækjanna, hafa svipuð ÍSAT númer of FS systkini sín, starfsemi eignarhaldsfélaga, eða kaup og sala fasteigna.

    Nú er stærstur meirihluti þessara fyrirtækja líklega eignarhaldsfélög starfrækt til þess að hólfa niður rekstur og einfalda bókhald, og algjörlega saklaus, en það er hætt við því að þegar upp kemst um hin og þessi FSxx leynifélög sem hafa átt hlut í því að halda uppi óeðlilega háu gengi hlutabréfa eigenda sinna að fólk vilji vita hvað liggur að baki þessara fyrirtækja.

    100% sammála þér Hjalli að nú væri gaman (og mögulega gott fyrir þjóðfélagið) að hafa greiðara aðgengi að gögnum fyrirtækjaskrár, og ég er viss um að flestir eigendur ofangreindra fyrirtækja hafi heldur ekkert að fela.

  2. Ég hitti mann í gær sem gat útskýrt þessi seríunöfn. FS félögin eru fyrirtæki sem KPMG á á lager til að selja viðskiptavinum sínum þegar mikið liggur við. Þannig sleppa þeir við nokkurra daga skráningarferli hjá Fyrirtækjaskrá og geta hlaupið af stað með nýtt fyrirtæki, þess vegna um helgi. Yfirleitt er nöfnun breytt á sama tíma. Ekkert ólöglegt við þetta, en nýtist þó líka til að fela eignarhald, a.m.k. um tíma.

    Mbl.is er með umfjöllun um enn eitt FS félagið í morgun eins og Stefán bendir á hér að ofan.

    Önnur endurskoðunarfyrirtæki og lögfræðistofur gefa út svipaðar seríur. Þannig á Logos lager af félögum sem heita ELL # (sjá t.d. um kaup ELL 182 á hlut Exista í Bakkavör). Ekki veit ég hver stendur fyrir AB seríunni sem er nefnd hér að ofan, en ég er búinn að rekast líka á seríuna KK# og þær eru vafalaust miklu fleiri.

    S.s. ekkert athugavert við þetta í sjálfu sér, en vel mögulegt að mörg þessi félaga hafi átt í “áhugaverðum” viðskiptum, eins og dæmin virðast sanna.

  3. Þú ert kominn með í fyrstu og þriðju athugasemd alla þá vitneskju sem ég ætlaði að bæta við. En þetta hefur einmitt verið til þægindaauka fyrir ýmsa sem hafa staðið í ýmsum viðskiptum og mun vafalaust halda áfram óháð þessu þó mér þyki ljóst að það muni vera tekið skýrar á þessum málum til að tryggja að upplýsingar verði nær ljósinu… eða hvað?
    En skemmtilegar pælingar

Leave a Reply to hjalli Cancel reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s