Raunverulegt skatthlutfall á Íslandi

Uppfært 11. nóvember 2009: Sjá umræður um uppfært reiknilíkan.

– – –

Fyrirkomulag skattamála hefur verið dálítið í umræðunni síðustu daga og verður áreiðanlega talsvert fram yfir kosningar.

Sitt sýnist hverjum og mikið er talað um skattþrep, hátekjuskatta, hækkun persónuafsláttar og svo framvegis. Ég ákvað því að teikna einfalda mynd sem getur hjálpað talsvert við að átta sig á staðreyndunum í þessari umræðu.

Myndin hér að neðan sýnir “raunverulegt skatthlutfall” hjá meðal-Íslendingi sem fall af tekjum:

raunverulegt-skatthlutfallÞetta sýnir sem sagt það hlutfall af umsömdum mánaðarlaunum sem launþegi borgar í skatta, þ.e. tekjuskatt að viðbættu meðalútsvari, sem samkvæmt vef Ríkisskattstjóra er samanlagt 37,2%.

Við sjáum auðvitað fljótt að í raun borgar enginn alveg það hlutfall. Meira að segja sá sem er með 2 milljónir í mánaðarlaun borgar “bara” 35,09% í skatta. Ástæðan er auðvitað persónuafslátturinn, sem á yfirstandandi ári er 42.205 krónur á mánuði. Persónuafslátturinn þýðir sem sagt að raunverulegt skatthlutfall þess sem er með 200.000 krónur í mánaðarlaun er þó ekki nema 16,1%. Sá sem er með 300.000 í mánaðarlaun borgar raunverulega 23,13% af tekjum sínum í skatt og sá sem er með 500.000 krónur borgar 28,76% af tekjum sínum í skatta.

Með þessum hætti er kerfið okkar þegar þannig að þeir sem eru með hærri tekjur borga verulega hærra hlutfall af þeim í skatta. M.ö.o. tryggir persónuafslátturinn eins konar hátekjuskatt, en hefur þann kost umfram hann að mynda ekki skattþrep sem geta haft mjög neikvæð jaðaráhrif (eins og að hvetja launagreiðendur til að borga þóknanir umfram tiltekna upphæð frekar í formi einhverskonar fríðinda).

Vilji ríkið auka skatttekjur sínar er því mikið nær að breyta tekjuskatthlutfalli og persónuafslætti til að stilla af þessa kúrfu en að leggja á sérstaka hátekjuskatta.

Eins mætti skoða breytingu á neyslusköttum á borð við virðisaukaskattinn, því þar borgar sá sem er með hærri tekjur og eyðir duglega sannarlega mun meira til þjóðarbúsins (í krónum, ekki hlutfallslega) en sá sem hefur minna milli handanna. Auk þess hvetur það til sparnaðar.

Persónulega er ég mun meiri fylgismaður niðurskurðar í ríkisútgjöldum til að mæta þeim erfiðleikum sem framundan eru. Áhugasamir geta spreytt sig á því að finna útgjaldaliði sem skera mætti niður í þessari framsetningu á fjárlögunum.

39 comments

  1. Vandinn er sá að niðurskurður mun aldrei mæta útgjaldaþörfinni. Ríkið er svo gjörsamlega á hausnum. Skatttekjurnar sem koma inn næstu árin eru mjög litlar. Þannig að þeir sem vilja niðurskurð og þeir sem vilja hækka skatta hafa líklega báðir rétt fyrir sér.

    Nema við viljum skera niður menntakerfið, heilbrigðiskerfið og já allt hitt.

  2. Ég er sammála því Egill að það þurfi að eiga við hvort tveggja, tekjurnar og gjöldin. En eins og þú bendir réttilega á verður tekjuhliðin erfið næstu misserin og því meiri ástæða til að einbeita sér að útgjöldunum.

    Ég held reyndar að menn ættu að lesa nýjustu færslu Vilhjálms Þorsteinssonar og umræðuna sem henni fylgir af athygli þegar talað er um það hversu mikið við erum á hausnum. Hann er okkar gleggsti “amatör” í þessum málum og líklega betri en flestir atvinnumennirnir líka í greiningum sem þessum.

    Sjálfur er ég reyndar er ég á því að peningakerfi heimsins alls muni svo gott sem riða til falls á næstu 1-8 árum (fer eftir eðli og framkvæmd svo kallaðra “björgunaraðgerða”). Við slíkt munum við sjá ótrúlegar tilfærslur á eignum og völdum og þá kemur sér vel að hafa sterkt raunhagkerfi. En meira um það síðar 🙂

  3. Einhvernveginn finnst mér myndin þín einmitt sýna veruleg jaðaráhrif í kringum 500þús kallinn. Settu þig t.d. í aðstöðu vinnuveitanda sem stendur frammi fyrir að verðlauna starfsmann sem er með 500 þús í mánaðarlaun (og borgar þar með 28,76% skatt. Hækkun upp í 600 þús færir þessa prósentu upp í 33,5% m.v. 20% hátekjuskatt, í stað 30,17% í núverandi kerfi, eða 20 þúsundum meira af þessum 100 þús kalli. Það kalla ég veruleg jaðaráhrif og hvetur menn til að hækka launin minna og gefa frekar viðbótarorlofsdaga, niðurgreiða mat á vinnustað eða … borga undir borðið.

    Mjúka boganum sem þú ert að sækjast eftir nærðu með því að hækka bæði persónuafslátt og skattaprósentu. Það er á allan hátt betra fyrirkomulag. Þú getur samt náð tveggja milljóna manninum upp í 50% skatt ef það er það sem þú ert að sækjast eftir.

    Til þess að átta okkur á áhrifum svona skattabreytinga á tekjur ríkisins þurfum við svo að taka inn í dæmið tekjudreifinguna. Það er reyndar verðugt verkefni til að sýna enn frekar svart á hvítu hvernig þetta virkar og hvaða áhrif mismunandi breytingar myndu hafa.

    Ég bý til reiknilíkan 🙂

  4. Flott samantekt,

    Það er síðan athyglisvert að skoða hvenær einstaklingur fer að greiða hærri upphæð til ríkis en sveitarfélags. Málið er að ríkið veitir persónuafslátt en sveitarfélagið ekki og fær alltaf sínar tekjur með útsvarinu – jafnvel þó viðkomandi sé undir skattleysismörkum.

    Mörkin hafa breyst en í skýrslu VefÞjóðviljans er þessu gerð góð skil.
    “Þeir sem hafa undir 262 þúsund krónum í mánaðarlaun greiða meira í útsvar til sveitarfélaga en í tekjuskatt til ríkisins.”

    Click to access utsvar.pdf

    Hvað varðar hátekjuskattinn þá þarf að fara svo neðarlega í skalann til að það hreinlega borgi sig fyrir skattayfirvöld að reikna hann út og innheimta. Hann yrði því annaðhvort ekkert nema sýndarmennska eða veruleg kjaraskerðing fyrir stóran hluta launþega.

  5. Flokkarðu það sem “jaðaráhrif”? Ég kalla það bara bein áhrif 20% hátekjuskatts.

    Eins og ég skil hugtakið “jaðaráhrif” lýsir það frekar stærð fráviks frá beinni/samfelldri kúrfu, á hverjum punkti launaskalans.

    Jafnvel 20% hátekjuskattur (óháð því hvort tæplega 60% hámarksskattprósenta er hagkvæm eða ekki) skapar ekki stórkostlegt rof (eða hnúð) í fyrstu afleiðu skattprósentukúrfunnar.

  6. Það er rétt að taka þessa skiptingu milli ríkis og sveitafélaga líka inn í þetta líkan mitt. Mjög góð ábending.

    Ég ætla ekki að fullyrða neitt, en mig grunar að þú hafir rétt fyrir þér að hátekjuskattur skili litlu nema mörkin séu mjög neðarlega.

    Skv. Hagstofu er tekjuhæsti fjórðungur fólks þeir sem eru með 351þús krónur í mánaðarlaun og hærra (2007). Þeir sem eru yfir 500þús hljóta þá að vera vel innan við 10% og fækkar hratt eftir því sem ofar dregur. Sömuleiðis hefur þeim fækkað hratt síðustu mánuði.

    Segjum samt að 10% hafi yfir 500þús í mánaðarlaun og meðaltekjur þeirra séu 600þús krónur. Vinnuafl telur skv Hagstofu 184.100 manns yfir árið 2008. 20% hátekjuskattur myndi þá skila 20.000 * 18.400 kr á mánuði eða 368 milljónum á mánuði (4,4 milljörðum á ári) eða vel innan við 1% af tekjum ríkisins. Líklega er þetta talsvert minna.

    Það er augljóst að þetta reiknilíkan verður að fæðast!

  7. já þetta er áhugavert, er einhvernveginn hægt að nálgast tölur, sem sýna skatttekjur ríkissjóðs af slíkum aðgerðum. Það er í raun áhugaverðasti parturinn að mínu mati. Hve miklu getur ríkissjóður aflað með því að koma á hátekjuskattum.

    Ég persónulega efast um að þetta skili miklu, þeir sem eru með milljón á mánuði eru líklega ekki svo margir lengur, þó þeir hafi verið töluverður fjöldi fyrir bankahrun.

  8. Már: Með jaðaráhrifum átti ég við óæskilega hvata til að komast framhjá einhverjum þrepum í kerfinu. Það ER hnúður við 500 þúsundin og hann MUN hafa áhrif. Meginpunkturinn minn er sá að það er betra að stilla kúrfuna af með breytingum á heildarprósentu og persónuafslætti en að búa til svona þrep.

  9. Það eru ýmsir hlutir sem skoða má til að gera kerfið sanngjarnara og skilvirkara. Mér hugnast t.a.m. ekki hugmyndin um hátekjuskatt, man ennþá eftir því þegar ég hækkaði um 2% í launum einhvern tímann á síðustu öld og lækkaði talsvert í ráðstöfunartekjum af því ég skreið yfir hátekjuskattsmörkin sem þá voru.

    Hins vegar finnst mér alveg sanngjarnt að horfa á aðrar leiðir, svona hugsað til framtíðar, þar sem við segjum svona almennt að aðgöngumiðinn að því að fá að búa hér og njóta almennrar þjónustu sé að borga tekjuskatt af fyrstu milljóninni sem menn hafa í tekjur á mánuði, þótt hún sé tilkomin vegna fjármagnstekna. Þetta sé svona reiknað endurgjald og tryggi það að sveitarfélögin fái sitt útsvar og að allir borgi sitt til partísins.

    Svo er alveg hægt að skera niður ýmislegt í rekstri ríkisins. Hægt er að spara verulegar fjárhæðir í heilbrigðiskerfinu með því að skera þar niður allt sem ekki snýst um að lækna fólk af einhverjum kvillum, eins og mikla yfirbyggingu. Ég er viss um að það séu hópar manna tilbúnir til að taka að sér fyrir uþb. 20% af núverandi stjórnunarkostnaði að reka þetta bákn. Þar sparast umtalsvert.

    Eins sýnist mér að DataMarket sé alveg við það að taka að sér upplýsingahlutverk Hagstofu, Seðlabanka og annars hvers ráðuneytis : )

  10. Már: Þú ert fljótari en ég að hugsa. Uppfærða grafið þitt sýnir nákvæmlega það sem ég var að reyna að segja.

    Reiknilíkanið skal samt verða til, enda ætti það líka að geta sýnt heildaráhrif fyrir ríki og sveitarfélög. Ekki bara skattprósentu út frá einstaklingi.

  11. Það er algjört höfuðatriði í öllum svona breytingum (flækingum) á skattkerfinu að breytingin skili óumdeilanlegum tekjum umfram kostnað.

    Sér í lagi þyrfti að leggja mat á (og reikna inn í) þann kostnað sem skapast úti á vinnumarkaðnum við það að öll fyrirtæki þurfi að uppfæra hjá sér launakerfi í takt við svona kerfisbreytingar.

  12. Hjalli, ég er sammála þér að svona hátekjuskattþrep er ekki heppileg leið til að slétta kúrfuna.

    Ég er hins vegar líka sammála Reyni að rosa skattur og persónuafsláttur sé heppileg leið til að slétta úr kúrfunni.

    Tóti: það er *enginn* að leggja það til að tekið sé upp hátekjuskattprósenta sem nái til allra launa – heldur aðeins þess hluta launatékkans sem skríður yfir ákveðið mark.

    Þetta sem þú lýsir (lækkun ráðstöfunartekna við hækkun brúttótekna) er kerfi sem er ekki inni í myndinni.

  13. Ég held að galdurinn liggi í því að það þarf bara að hækka skattprósentuna lítið og persónuafsláttinn lítið (ergo, lítil breyting á núverandi kúrfu) til að það skili ríkinu verulega meiri tekjum en nú er.

    Ástæðan er sú að eðli málsins samkvæmt er langstærstur hluti fólks í kringum meðaltekjur (ég heyrði m.a.s. fréttamann á RÚV segja að “um það bil helmingur launþega hefði innan við meðaltekjur” núna í vikunni – not kidding) og það verður alltaf þangað sem þarf að sækja peninginn ef það á að hækka skatta.

    Reiknilíkan er nauðsynlegt.

  14. Hjalli, í ljósi snarhækkandi gini-stuðuls (mælikvarði á mismun miilli miðgildis og meðaltals launa) hér Íslandi á síðustu 1-2 áratugi, er ljóst að meirihluti fólks er með þó nokkuð minna en meðallaun.

    Vandinn er að flestir hægramegin á launaskalanum hafa haft tækifæri á að nýta sér lækkanir á fjármangstekjuskatti og skatti á (skúffu)fyrirtæki til að minnka þátttöku sína í rekstri velferðarkerfisins.

    Hækkun slíkra skatta (til einstaklinga) væri líklega líklegri til að skila ríkinu raunverulegri tekjuaukningu.

  15. Tóti reit:

    “Hægt er að spara verulegar fjárhæðir í heilbrigðiskerfinu með því að skera þar niður allt sem ekki snýst um að lækna fólk af einhverjum kvillum”

    Þetta er umdeilanlegt.

    Það að lækna fólk þegar það er komið með kvilla getur reynst margfalt, margfalt dýrara en að koma í veg fyrir að kvillinn nái sér á strik. Þetta er alls ekki svo einfalt. 🙂

  16. Már: Það er rétt að það er ekki sjálfgefið að helmingur fólks sé undir meðaltekjum. Helmingur fólks er undir miðgildi tekna eins og þú bendir á.

    Gini-stuðullinn er hins vegar ekki hlutfall meðaltekna og miðgildis tekna. Hann er miklu flóknari. Þorvaldur Gylfason skrifar ágætan pistil um hann hér og Wikipedia gefur svörin að venju.

    Reyndar eru tölur Þorvaldar ekki í takt við tölur frá Hagstofunni og grafið hans villandi þar sem það klípur mjög neðan af skalanum. Skv. Hagstofunni hækkaði Gini úr 24 í 26 frá 2004-2006, en það er með því allra lægsta sem gerist eins og sjá má í greinunum. Hvort Þorvaldur eða Hagstofan hefur rétt fyrir sér skal ósagt látið.

    Hins vegar er áhugavert að stilla dæminu upp eins og þú stingur upp á, þ.e. þróun meðaltekna og miðgildis og hlutfallsins þar á milli. Þessvegna teiknaði ég þessa mynd.

    Uppruni gagna: Hagstofa Íslands

    Þessar tvær tölur hafa þróast nær algerlega í takt og það merkilega er að hlutfall miðgildis af meðaltekjum hefur HÆKKAÐ sem væntanlega þýðir að hlutfall þeirra sem eru undir og yfir meðaltekjum hefur jafnast undanfarinn áratug, þó síðustu ár dragi aftur í sundur.

  17. Ég sagði ekki að Gini-stuðullinn væri einfalt hlutfall.

    Ég sagði að hann væri “mælikvarði á mismun miilli miðgildis og meðaltals launa” – sem er einfaldasta, og skiljanlegasta skýringin sem ég kann. 🙂

  18. Ég held að hann sé það ekki heldur. Hann er tilraun til að meta jöfnuð launa yfir allan skalann. 0 = alger jöfnuður, 100 = einn maður fær allar tekjurnar.

    En nú erum við komin duglega út fyrir það sem ég kann og veit.

  19. …en eins og Þorvaldur bendir á, er afskaplega misjafnt hvort menn nota nettó- eða brúttó tölur (fyrir eða eftir skatt) til að reikna Gini-stuðulinn. Mögulega eru einhverjar svoleiðis skýringar á mismuninum á tölum Þorvaldar og Hagstofunnar.

    Fróðlegt væri að fá skýringu Þorvaldar, eða einhvers annar á því hvers vegna þessi munur er.

  20. Það er ekki eins alvarlegt brainfart og að gera grundvallarmistök varðandi miðgildi og meðaltal eins og ég gerði fljótfærni hér að ofan. Slíkt er kennt í grunnskóla, en Gini er heldur sértækari 🙂

  21. Eh smá klúður hjá þér eða frekar yfirsýn er það að þú þarft líka að pæla í öðrum tekjuliðum, fjármagnstekjuskattur er til að mynda einn stærsti innkomuliðurinn hjá fólki sem er almennt með hærri tekjur. Það væri nær að taka á því að fólk sé að færa tekjur undir 10% fjármagnstekjuskatt. Þar mætti þrepaskipta þar sem að á 10 milljónafresti hækkar hlutfallið um 10% prósent.

    Annað er það að komugjöld og allskonar stimpil og vinnslugjöld opinberra stofnanna verða að falla niður. Því að þeir sem hlutfallslega í flestum tilvikum eru að sækja slíkar stofnanir eru lág og miðtekju fólk sem frekar sækir rétt sinn og aðstoð til ríkisstofnanna. Það er því óbein skattlagning á þann hóp fólks sem síst má við því.

  22. Geiri: Takk fyrir kommentið. Þetta er hreint engin yfirsjón. Ég er bara einfaldlega ekki að fjalla um þetta, heldur bara staðgreiðsluna (tekjuskatt + útsvar). Ef við ætluðum að taka þetta lengra þyrfti að taka inn – auk þeirra hluta sem þú nefnir – allskyns bætur og skattaívilnanir. Skatta fyrirtækja o.fl.

    Maður er fljótur að sjá að einn af göllum kerfisins er hversu flókið það er.

    Reiknilíkanið mun líta dagsins ljós seinna í dag.

    Hitt er annað mál að ég er tiltölulega ósammála þér um fyrirkomulag fjármagnstekjuskatts og þeirri fullyrðingu að lágtekjufólk noti nauðsynlega meira af þessum þjónustuþáttum ríkisins en þeir sem meira hafa. Aftur held ég að lausnin felist í einföldun kerfisins.

  23. Rosalega er gaman að sjá svona alvöru nördalega nálgun á þetta viðfangsefni, þ.e. að greina það í tætlur, búa til líkön og hafa tölurnar á hreinu. Þið vitið ekki hvað ég er búinn að sækja mörg flokksþing (Alþýðuflokksins í gamla daga) þar sem menn toguðust endalaust á í umræðu sem var ekki byggð á neinum gögnum eða alvöru greiningu, bara tilfinningu.

    Mér er líka í fersku minni þegar Þjóðvaki setti fram tillögur um hátekjuskattþrep á sínum tíma, sem virkaði þannig að jaðarskattur fór yfir 100% á tilteknu launabili. Það var augljóst að enginn hafði einu sinni byrjað á því að reikna tillögurnar út.

  24. Virkilega sniðugt tæki. Væri líka frábært ef maður gæti lagað til skattleysismörkin, bara svona benda á það því þú hefur örugglega ekkert betra að gera. 😉

  25. fritz: Takk.

    Skattleysismörk og persónuafsláttur eru tvær hliðar á sama peningi:

    Skattleysismörk eru þær tekjur sem þú mátt hafa áður en þú byrjar að borga skatta.

    Persónuafsláttur eru afsláttur af reiknuðum skattgreiðslum.

    42.205 krónur í persónuafslátt jafngilda því 113.454 króna skattleysismörkum þegar skattprósentan er 37,2%.

    Skattleysismörkin má reikna með því að deila persónuafslætti með skattaprósentu, þ.e.:

    42.205 / 0.372 = 113.454 (komma eitthvað smá)

    Vona að þetta hjálpi.

  26. Meginástæðan fyrir þessu er útsvarið sem rennur til sveitafélagsis. Samkvæmt vef Sambands Sveitafélaga nam útsvar rúmum 101 milljarði króna fyrir árið 2007.

    Útsvarið er þeirrar náttúru að sveitafélögin fá útsvarsprósentuna alltaf greidda af launum skattgreiðanda og kemur sú greiðsla frá ríkinu til sveitarfélagsins ef persónuafslátturinn gerir það að verkum að staðgreiðslan hrekkur ekki fyrir því.

    Ríkið fer því ekki að hafa tekjur af skattgreiðanda fyrr en “eiginlegt skattahlutfall” viðkomandi er komið yfir útsvarsprósentuna (13,1%) eða í kringum 175 þús króna mánaðarlaun.

    Annað sem veldur skekkju (í aðra hvora áttina) eru áhrif sjómannaafsláttar, hlutastarfsmanna og annars sem talið er upp í athugasemdum með módelinu. Einnig er rétt að hafa í huga að þó tekjudreifingin sé fyrir 2007, er vinnuaflið frá 2008, enda erum við að reyna að komast sem næst þeim áhrifum sem breytingar gætu haft fyrir árið 2009, án þess að fara að giska á hluti eins og breytingu á tekjudreifingu eða vinnuafli vegna “ástandsins”.

  27. P.S. Breytingar á módelinu ættu eftir sem áður að endurspegla nokkuð vel áhrif á tekjur ríkisins, þar sem hækkun (eða lækkun) heildarstaðgreiðslu rennur óskipt þangað, svo lengi sem útsvarsprósentunni er ekki breytt.

    Það væri etv. áhugavert að birta einhvern veginn í módelinu skiptingu þessarra tekna milli ríkis og sveitafélaga.

  28. Af þessum pósti (og fleirum) að dæma er ég endanlega kominn á þá skoðun að það ætti hreinlega að skikka nörda landsins til þess að taka við stjórninni á meðan við vinnum okkur útúr þessu.

    J#

  29. Sælir.

    Virkilega flott framtak – þetta hefur tilfinnanlega vantað í kverúlantaumræður um skatta.

    Ein viðbót sem gæti bætt við upplýsingagildið: Þar sem flest löndin í kringum okkur hafa margþrepaskattkerfi (3-4 þrep) þá væri athyglisvert ef hægt væri að setja það inn í reiknivélina líka (í rauninni bara hatekjuskattur #2). Er ekkert að mæla með þeirri leið, en held að það myndi auka upplýsingagildið engu að síður.

    Enn og aftur – frábært framtak.

    Bkv.
    Agnar

Leave a reply to Tóti Cancel reply