Framtíð og gengi krónunnar er ein af stærstu spurningunum núna í endurreisninni, enda snertir þetta mál svo að segja alla aðra þætti sem máli skipta: skuldastöðu þjóðarbúsins, stöðu heimila og fyrirtækja, efnahag bankanna, vísitölu neysluverðs og svo framvegis.
Það skiptir því ekki litlu máli að reyna að átta sig á hvaða þættir munu ráða genginu og hvað verður um krónugreyið.
Ég skrifaði reyndar pistil í þessa veru upppúr miðjum október, sem mér sýnist hafa staðist tímans tönn ágætlega og standi að miklu leiti fyrir sínu þó margt hafi skýrst síðan þá. Það eru einna helst lokaorðin – þar sem ég fullyrði að stöðugleiki fáist aðeins með tengingu við stærra myntkerfi – sem ég er ekki alveg jafn viss um og áður. Það stafar að hluta til af þeirri vantrú sem ég hef öðlast á þá peningamálastjórnun sem flestar myntir heimsins notast við, en að hluta til af því að ég hef þá trú að litlar myntir geti nýst litlum hagkerfum betur en stórar EF rétt er haldið á spilunum.
(Það er hérna sem þið eigið að hrista hausinn í vantrú og hneykslan á vitleysunni í mér og gefa mér svo séns og lesa áfram)
Ekki sama króna og króna
Það sem við höfum kallað “íslensk króna” eru í rauninni margar myntir. Íslenska krónan lýtur þeirri gengis- og peningamálastefnu sem rekin er hverju sinni. Íslenska krónan sem lagði upp laupana í október síðastliðnum var tekin upp í mars 2001 þegar Seðlabankinn tók upp svokallað verðbólgumarkmið. Hún náði því aðeins 7 og 1/2 árs aldri.
Íslenska krónan sem við búum við núna í gjaldeyrishöftunum er svo önnur mynt. Ekkert vit er að reyna að lesa eitthvað í hreyfingar á skráðu gengi þeirrar krónu frá degi til dags. Til þess að átta okkur á því sem “markaðurinn er að segja” þyrftum við að vita hver er að kaupa, hver er að selja og hversu mikið. Sérstaklega skiptir máli hversu mikið Seðlabankinn tekur þátt í þessum viðskiptum.
Fram til 2001 setti Seðlabankinn sér ákveðin vikmörk í gengi krónunnar, þar áður voru önnur viðmið og svo koll af kolli. Sennilega hefur hin “íslenska króna” sem fyrst kom fram sem sjálfstæð mynt 1918 (hafði áður verið tengd dönsku krónunni) gengið í gegnum 10-20 tímabil mismunandi peningastjórnunnar og er því í raun rétt að tala um að 10-20 mismunandi gjaldmiðlar hafi verið hér í gangi síðan þá.
Þessar mismunandi stefnur í peningastjórnun eru mannanna verk og það erum við – Íslendingar – sem ráðum því hvernig henni er stýrt á hverjum tíma. Því miður höfum við ekki borið gæfu til að detta niður á góða leið í þessum málum, en við vitum þó a.m.k. um nokkrar útfærslur sem við ætlum hér eftir að forðast!
Næsti gjaldmiðill sem tekinn verður upp á Íslandi verður nefnilega ekki Evra, heldur enn ein útgáfa af íslenskri krónu. Þarna gildir einu hvort sótt verður um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Krónuna þarf fyrr en seinna að leysa úr gjaldeyrishöftunum, við munum búa við þá stefnu í a.m.k. 5 ár (líklega mun lengur) og það skiptir gríðarlega miklu máli hvaða aðferð verður þá fyrir valinu.
Helstu markmiðin við það val eru líklega:
- Að stefnan hjálpi til við þá endurreisn sem framundan er á næstu árum.
- Að koma í veg fyrir spákaupmennsku með gjaldmiðilinn.
- Að hindra of hraðar breytingar í genginu, en jafnframt hafa sveigjanleika til að bregðast við langtíma breytingum á efnahag þjóðarinnar.
- Að uppfylla skilyrði EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns.
Vafalaust eru þessi markmið eitthvað fleiri.
Jafnvægis- og raungengi
Áður en lengra er haldið skulum við skoða tvö hugtök sem stundum koma upp í umræðunni, en fæstir vita hvað þýða í raun. Þetta eru hugtökin jafnvægisgengi og raungengi. Hvort tveggja eru tilraunir til að meta hvert “rétt gengi” gjaldmiðils er ef allt væri með felldu.
Í stuttu máli segir kenningin um raungengi að verð á samskonar vörum og þjónustu ætti alltaf að vera það sama milli landa, annars myndu einstaklingar nýta sér verðmuninn til hagnaðar. M.ö.o. ef verðlag t.d. hér á landi yrði áberandi hærra en í nágrannalöndunum myndi það þýða aukna verslun okkar erlendis (eða búferlaflutninga úr landi) og minnkandi áhuga útlendinga á að versla hér. Með sama hætti: ef verðlag hér yrði áberandi lægra þýddi það aukna verslun heima fyrir og aukinn áhuga útlendinga á verslun hér. Við höfum svo sannarlega séð þessar kenningar standast ágætlega síðustu mánuðina og jafnvel árin.
Hugtakið jafnvægisgengi virðist reyndar nokkuð á reiki og er stundum notað um raungengi eins og því er lýst hér að ofan. Sú merking sem ég á við er það gengi krónunnar sem veldur því að viðskiptajöfnuður við útlönd sé sem næst núlli. Með öðrum orðum, það gengi sem veldur því að tekjur okkar frá útlöndum séu sem næst gjöldum okkar til útlanda. Þarna spila inn í útflutningur og innflutningur, kaup og sala á þjónustu og síðast (en í okkar tilfelli alls ekki síst) fjármagnstekjur og -gjöld.
Reyndar leitast jafnvægis- og raungengi eins og þeim er lýst hér líklega við sama – eða mjög svipað – gengi til lengri tíma, en tímabundnar aðstæður geta valdið því að svo sé ekki (t.d. mikið streymi fjármagns í aðra hvora áttina, snöggar breytingar á inn- eða útflutningi o.s.frv.).
Þetta eru sem sagt mér vitanlega helstu kenningar um “rétt gengi” gjaldmiðla. Og hvert skyldi þá rétt gengi íslensku krónunnar vera? Seðlabankinn er svo vinsamlegur að mæla raungengi krónunnar. Hér má sjá þróun þess síðasta áratuginn:

Þessi mæling segir sem sagt til um það hvernig verðlag hér hefur þróast samanborið við nágrannalöndin. Eins og sjá má er raungengið í algeru sögulegu lágmarki og því full ástæða til að ætla að það ætti að styrkjast mjög verulega frá núverandi skráðu gengi. Tekið skal fram að vísitalan miðast eingöngu við verðlag eins og það var hér á landi í janúar 2000 og er því ekkert endilega “réttara” en annað. Meðaltal vísitölunnar þessi 10 ár er reyndar 99,6 – eða furðunærri upphafspunktinum.
Gengisfallið nú hefur valdið því að verðlag hér er verulega lægra en erlendis. Verðlag hér var klárlega verulega mikið hærra t.d. árið 2007. Raungengið liggur því þarna á milli, en útreikningur á “réttu raungengi” er mjög flókinn þar sem ekki er til nein samræmd neysluverðsmæling. Gefum okkur að gildið 90 færi nærri því að sýna sambærilegt verðlag hér og í helstu nágrannalöndum (þetta væri gagnlegt að reikna út á mun nákvæmari hátt).
Gamla góða gengisvísitala krónunnar væri skv. því nálægt 150 sem myndi þýða að Evran væri á 117, Dollarinn á 88 og Pundið á 130.
Það er hins vegar tvennt sem kemur í veg fyrir að jafnvægisgengið sé eins álitlegt:
- “Hræddu krónurnar” sem nefndar voru í fyrri færslu, þ.e. fjármagn sem útlendingar eiga í íslenskum krónum (t.d. jöklabréfum, öðrum krónubréfum og innistæðum) og svo að einhverju marki hræddar krónur Íslendinga sem ætla að skipta sínum fjármunum að einhverju eða jafnvel öllu leiti í erlenda mynt um leið og færi gefst vegna vantrúar sinnar á íslenskri efnahagsstjórnun.
- Afborganir og vaxtagreiðslur af erlendum skuldum Íslendinga, þar sem þær greiðslur munu augljóslega þurfa að fara fram í erlendri mynt og mynda því streymi fjármagns úr landinu. Skuldir Íslendinga hver við annan í íslenskum krónum skipta engu í þessu samhengi. (Reyndar held ég að það sé hægt að eiga miklu meira við þær og stokka þær meira upp á nýtt en verið hefur í umræðunni – en það er mál í aðra færslu). Hér er auðvitað átt við skuldastöðu þjóðarinnar í heild, þ.e. ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila við erlenda aðila – ekki bara skuldir Ríkisins, sem mest hafa verið í umræðunni og mér sýnist reyndar ætla að verða tiltölulega viðráðanlegar.
Þetta eru semsagt þau atriði sem þarf að skýra til að átta sig á því hversu langt frá raungenginu gengi krónunnar ætti að vera á næstu misserum. Hér skiptir miklu máli hversu vel tekst til í ýmiskonar samningum. Margt bendir til að styttist í land hvað varðar erlendu fjármagseigendurna. Sú lending mun væntanlega hleypa þeim mest “desperat” út á mjög lágu gengi en festa þolinmóðara fé ýmist í lengri skuldabréfum hér á landi eða jafnvel í fjárfestingum í uppbyggingu (þá vona ég að hugmyndir Guðjóns Más um endurreisnarsjóð nái eyrum þeirra sem ráða).
Sömuleiðis virðist hylla undir samninga varðandi Icesave lánið (sem n.b. hefur mér vitanlega ekki enn verið veitt og hefur skv. því enn ekki kostað okkur krónu), en enn er mörgu ósvarað um aðra þætti sem skipta máli í þessu samhengi.
Næsta króna
Nú er ég bara leikmaður í þessu öllu saman, en ég sé ekki annað en það sé til tiltölulega einföld lausn sem uppfylli öll fyrr talin markmið og sé að auki tiltölulega einföld í framkvæmd.
Næsta króna verði einfaldlega miðuð við það að halda genginu rétt fyrir neðan jafnvægisgengi á hverjum tíma. Sem sagt að tryggja að í hverjum mánuði komi örlítið meiri gjaldeyrir til landsins en fari úr landi og hjá þjóðinni safnist smám saman upp gjaldeyrisforði. Þetta getur gerst á frjálsum og opnum markaði, með inngripum Seðlabanka ef markaðurinn leitar langt út fyrir þetta jafnvægi, enda á hann alltaf að hafa efni á því þar sem forðinn er verulegur nú þegar og mun að jafnaði aukast mánaðarlega með þessum aðgerðum.
Þetta mun þýða það að gengi krónunnar verður lágt fyrst um sinn meðan mestu afborganirnar fara fram af skuldunum, en gengið mun svo smám saman stefna á raungengið sem að ofan var nefnt.
Hvaða leið sem verður farin er a.m.k. ljóst í mínum huga að það má alls ekki negla gengið við neitt, hvorki vikmörk við Evru í tenglsum við inngöngu í ESB, annan gjaldmiðil né myntkörfu nema sá nagli sé nálægt raungenginu. Þangað mun gengið nefnilega sigla á endanum, þegar okkur hefur tekist að taka til eftir fyrrum valdhafa og aðra óráðsíumenn – þá sem fæddu af sér og hina sem svo myrtu – síðustu íslensku krónu.
Saell
Áhugaverd grein eins og venjulega thegar thu tjair thig. Eins og adur tha langar mig ad benda a adra leid en thad er ad tengja kronuna vid gull. Haetta thvi ad leyfa radarmonnum, sedlabankanum og bonkum ad “prenta” pening thegar theim hentar.
Pappirspeningar sem eru vid lídi i dag hafa aldrei lifad lengi og er evran pappirspeningur alveg eins og kronan, thvi er einungis spurning hvenaer hun fellur ekki hvort.
Thvi vil eg benda enn og aftur a ad setja kronuna a gullfot, thetta getur tekid langan tima og verid erfitt, en gera erfid verkefni okkur ad betra folki?
(afsakid enga isl. stafi)
Þakka skýra og útpælda greiningu, eins og alltaf hjá þér, Hjálmar.
Það er annar grundvallarvandi sem þarf að leysa, sem þú minnist ekki á. Það er hinn leikjafræðilegi vandi sem við stöndum frammi fyrir um leið og höftin yrðu rýmkuð.
Eins og þú nefnir eru verulegar upphæðir “á lausu” í krónum, sem geymdar eru í stuttum innistæðum og auðseljanlegum ríkisbréfum og íbúðabréfum. Stærðargráðan er sirka 2.000 milljarðar króna.
Eigendur þessa fjármagns, innlendir og erlendir, vita (flestir) að það er ekki til gjaldeyrisforði, ekki einu sinni með því að nota allt AGS lánið, til að kaupa gjaldeyri og skipta öllum krónunum. Þarna kemur því upp fangaþversögn, “prisoners dilemma”, þar sem allir vita að það væri öllum fyrir bestu að vera hófsamur og fara sér hægt, en þeir fyrstu sem “svíkja” og selja krónur sínar græða samt á því. Krónan veikist svo hratt eftir því sem meiri flótti brestur í liðið, og þá kemur annað óðaverðbólguskot, verðtryggðu lánin hækka enn meir, og líka gjaldeyrislánin, fólki og fyrirtækjum til mikils skaða.
Það er m.a. vegna þessarar stöðu sem ég tel stefnu á evru vera nauðsynlega, af því að hún setur niður “akkeri”. Akkerið þýðir að það mun borga sig fyrir spákaupmenn að veðja með krónunni á tilteknu gengi, “gólfi”, þar sem flóttinn mun stöðvast. Það gerist af því að menn sjá fram á að fá evrur fyrir krónurnar eftir 3-5 ár, og reyndar að ECB hjálpi við að styðja krónuna í ERM II fyrir þann tíma einnig.
Ég mæli því með að næsta króna verði evruvæntingakróna, ég held að sá gjaldmiðill ætti þokkalega möguleika.
En það má vel vera að hægt sé að finna aðra vænlega krónu til brúks næstu árin; það þarf þá að finna lausn á fangaþversögninni í leiðinni – sem í fljótu bragði virðist þá krefjast áframhaldandi hafta. Önnur leið gæti verið að skylda lífeyrissjóði til að koma heim með erlendar eignir og skipta þeim í krónur, það gæti hjálpað ef menn vilja taka sjensinn á því.
Fín grein.
Gengi krónunnar verður um langa hríð frekar bundin væntingarvísitölu en raunverulegri verðmætasköpun. Fljótandi króna verður til skamms tíma háð því hversu hratt fjárfestar sem eiga eignir í krónum ná að losa sig – og á hvaða verði.
Til miðlungs tíma kemur gengið til með að byggja á því hversu illa þessir upphaflegu fjárfestar voru leiknir, þar sem afdrif þeirra hafa bein áhrif á viðskipti við okkur, þ.e. á sviði fjárfestinga eða lánastarfsemi.
Til lengri tíma snýst gengi krónunnar síðan um það umhverfi sem blasir við þá. Ef hrakfarir krónunnar til skemmri tíma verða miklar og tap fjárfesta, þjóðar og lánveitenda verður þeim mun meira, þá verður millileikurinn rýr, lítið fé fæst til fjárfestinga hér og lánskjör verða léleg. Það þýðir að langtímastaðan verður slæm, þar sem hún byggir á frekari fjárfestingum.
Í mínum huga er eina leiðin til að halda áfram notkun krónunnar einföld: Það þarf að skera niður alla óþarfa starfsemi og reka allar hendur á dekk til að afla gjaldeyris. Það þarf að halda vöxtum eins lágum og mögulegt er, miðað við kostnaðinn að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli, skera niður samneyslu um svona helming og miða allar aðgerðir í ríkisfjármálum (og almennt í hagkerfinu) við það hvort þær borgi sig.
Ef okkur tekst það, þá getum við hugsanlega notast við krónuna áfram og sætt okkur við að borga að meðaltali bara tvöfalda vexti á við samkeppnishagkerfin.
Hjalli þetta er virkilega áhugaverð grein hjá þér. En mig langar að skjóta inn fáeinum athugasemdum.
Það sem þú lýsir hérna í fyrri hluta greinarinnar er eitthvað sem er stundum kallað “the impossible trinity” það er að hafa allt í einu; eigin peningamálastefnu (gjaldmiðil), frjálst flæði fjármagns og fastgengisstefnu (til að vinna gegn verðbólgu sem óneitanlega myndi aukast með falli gjaldmiðilsins). Það er búið að sýna fram á það all oft að þetta eru ósamrýmanleg markmið hjá smærri hagkerfum.
Umfjöllun um “rétt” verðmat krónunnar er í sjálfu sér áhugavert. Það er að á bak við krónurnar okkar standa í dag um það bil sömu auðlindir og fyrir 10 árum síðan. Utan að ég held að orkuauðlindirnar geti verið verðmætari en áður og að hugsanlega geti sjávarfangið verið orðið verðminna ef ekki er verið að nota það á sustainable hátt. Þannig að framtíðar rekstrarhæfi landsins eru ekki verra en áður.
Lykilatriði í því að taka ákvörðun um aðild að öðrum gjaldmiðli liggur í að svara tveimur spurningum:
a) Eru hagskveiflur líkar milli íslenska og hins hagkerfisins
b) höfum við lánveitanda til þrautavara
Evrusvæðið sveiflast að nokkru leiti með okkur, en það ber að hafa í huga að ef t.d. stærstu hagkerfin eins og Þýskaland, Bretland eða Ítalía eru í uppsveiflu mun Evrópski Seðlabankinn klárlega hækka vexti, burtséð frá því þótt íslenska hagkerfið sé í niðursveiflu og þurfi mjög á lágum vöxtum að halda. Í honum myndum við þó klárlega eignast lánveitandann (að því gefnu að ekki væri um einhliða upptöku gjaldmiðilsins að ræða).
Í kaflanum um “Næstu krónu” leggurðu upp áhugaverða pælingu en mig grunar að Seðlabankinn geti illa stutt við þessa verðlagningu krónunnar. Því það er alveg klárt að ef þessi stefna er gefin út þá munu menn spekkjúlera gegn stefnunni. Það er einfaldlega staðreynd að í all flestum tilfellum þar sem menn sjá áhættu og takmarkaða getu til varna munu menn spekkjúlera.
Að því sögðu er ég sammála því að því lengur sem við getum haft “lágt verðlagða krónu” þeim mun betra því þá ætti að minnsta kosti net export frá landinu að vera sem hæstur.
Við erum að fara að vera, eins og þú bendir réttilega á, með krónu áfram. Vandamálið að að mínu mati er að það er fullt af fólki sem sér ESB sem upphaf og endi úrlausna á vandamálum okkar. Sem það er hreint ekki. Við þurfum að eiga við gerð fjárlaga þar sem skorið er niður 150Ma á næstunni, vexti sem eru að drepa heimilin og fyrirtækin, skattstofn sem er ekki að skila ríkinu ýkja miklu, Seðlabanka sem ekki getur virkað sem lánveitandi til þrautarvara, bankakerfi í molum og handónýtan gjaldmiðil.
Mín skoðun er sú að til langs tíma tel ég okkur betur borgið í ESB en utan þess, en það sem verður að gerast er alger breyting í iðnaðinum á landinu, við verðum að fara úr frumframleiðslu og yfir í úrvinnslu og þjónustu. Það er eina raunverulega leiðin sem við höfum til að draga úr hagsveiflum.
Ingi Gauti: Ég er að mörgu leyti “af sama skóla og þú” varðandi gull eða annan fót undir gjaldmiðla framtíðarinnar. Reyndar hefur gull þann ókost að það er nánast verðlaust “í sjálfu sér”, þ.e. verðmæti þess er eingöngu falið í trausti á því að það verði áfram verðmætt og því að það er tiltölulega sjalgæft og geymist vel. Ég held að olía, prótín eða önnur orka, hrávara ýmiskonar eða einhverskonar sambland af þessu séu ókjósanlegari fætur. Vandamálið við að koma gulli undir íslensku krónuna eru svo að við eigum svo að segja ekkert gull og myndum því þurfa að kaupa það allt – sem er ekki bara erfitt, heldur svo gott sem ómögulegt.
Villi: Takk. Sammála um þetta leikjafræðilega vandamál. “Evruvæntingakrónan” er ein leið til að taka á því. En jafnvel þó að stefnan sé sett á Evru, þarf samt að stýra krónunni einhvern veginn næsta tæpa áratuginn og þá svo vel að hún falli innan Maastrict-viðmiðanna. Það væri gaman að heyra hvort þú telur að þessi leið sem ég nefni gæti verið vænleg til þess.
Ég mótmæli því engan veginn að “akkerið” myndi hjálpa til, en færslan að ofan ætti a.m.k. að minna á það hvað þarf að hafa í huga þegar gengi hennar gagnvart Evru er ákveðið.
Leikjafræðivandamálið er mjög flókið úrlausnar, en á því eru samt fleiri hliðar, t.d. sú að séu ofangreindar kenningar um gengi gjaldmiðla réttar munu líka vera til staðar “leikendur” á markaðnum sem vita að á endanum fer krónan í átt að þessu jafnvægi og munu á einhverjum tímapunkti stíga inn henni til aðstoðar. Sú staðreynd að genginu yrði alltaf haldið undir viðskiptajöfnuði myndi líka gera það að verkum að Seðlabankinn / þjóðin hefði í hverjum mánuði nýjan gjaldeyri til að stíga undir krónuna. Annar punktur er sá að þær aðgerðir sem nú eru í gangi varðandi krónueigendur miða líklega að því að binda þessar upphæðir til langs, eða millilangs tíma, þannig að þær fjárhæðir sem geta farið mjög skyndilega verða langt undir þessum 2.000 milljörðum. Líklega vel innan við 20% af þessari upphæð og mun ekki einu sinni öll “vilja fara”.
Lífeyrissjóðir og Seðlabanki gætu allvel gripið þá upphæð og jafnvel grætt á því í leiðinni.
Allir ofangreindir punktar gilda líka ef krónan er “evruvæntingakróna” og eru þá líklega enn sterkari – en gætu haft áhrif á það hvar jafnvægispunkturinn er.
Tóti: Sammála nánast hverju einasta orði hjá þér, en taktu eftir samt að ég er ekki að stinga upp á hreinu floti á krónunni og það – ásamt aðgerðum sem verið er að vinna í núna með fjármagnseigendum hér – mun hafa áhrif á þær myndir sem þú dregur upp til skamms og millilangs tíma.
Á Facebook bentu svo tveir mætir menn á að í framtíðinni verði 4-10 (annar sagði 4-5 og hinn 5-10) gjaldmiðlar notaðir í heiminum. Annar þeirra bætti við að “Hugmyndafræði sérstakra myntkerfa henntar mjög vel fyrir vöruviðskipti en passar illa við heimsvædd þjónustu og hugverka viðskipti.”
Ég er sjálfur algerlega sammála því að í heimsviðskiptum verða sennilega 2-4 gjaldmiðlar ofan á næstu 1-2 áratugina. Ég held hins vegar að það verði enginn þeirra sem nú er við líði, þó einhverjir þeirra kunni að koma til með að heita sama nafni og núverandi gjaldmiðlar (með sama hætti og krónan eru margar myntir).
Það mun verða skipt um peningamálastjórnun á stóru gjaldmiðlunum líka – annað hvort í þessari kreppu – eða í næstu kreppu eftir innan við 10 ár ef mönnum text að blása lífi í blöðruna eina ferðina enn með þessari aðferðafræði.
Við þurfum að sjálfsögðu að tryggja að okkar alþjóðlegu fyrirtæki geti átt viðskipti í þeim myntum sem verða ofan á í þessum breytingum. Það þarf ekki að útiloka aðra mynt og þá kosti sem hún getur haft í innanlandsviðskiptum – eins og bent var á.
Svo er reyndar eitt sem er þess virði að spá í. Við vitum að peningamagn í umferð stjórnar verðbólguþróun. Hvað gerist þegar menn hætta að eiga við “fýsíska” peninga og einungis verður um rafrænan aur að ræða? Þegar peningaprentun er ekki lengur upphaf og endir stjórntækja seðlabanka. Hvað á að standa á bak við gjaldmiðlana þá? Og, hvernig á að stjórna þeim?
Þorsteinn Yngvi: Ég held að svarið við “impossible trinity” sé það að tillagan mín er a) ekki fastgengisstefna þar sem gengið hreyfist, en gerir það samkvæmt föstum reglum og b) þó hún leyfi frjálst flæði fjármagns þá “dempar” hún það engu að síður því að stórar fjármagnshreifingar í aðra hvora áttina verða til þess að “skaða sjálfa sig”. Með því að festa kaup á krónu ertu í raun að fella hana lítillega og með því að selja hana að styrkja hana. Þetta kann að virka öfugsnúið – en er býsna áhugavert (og hefur vafalaust einhverja vankanta, enda er ég að reyna að viðra þetta hér til frekari brýningar). Í reynd mætti Seðlabankinn hreinlega prenta krónur handa þeim sem vill kaupa þær og taka svo úr umferð krónur sem eru seldar til þess að ná að halda markmiðinu um að gengið verji viðskiptajöfnuðinn.
Rökin fyrir þessu eru þau að “allar krónur sem eru til” vísa enn á sama undirliggjandi hagkerfið. Ef fjárfestingin skilar sér hins vegar í arðbærum rekstri, þá hefur hagkerfið stækkað og fjölgun krónanna á rétt á sér. Grundvallaratriðið er það að öllum er frjálst að færa peninga, en krónurnar vísa alltaf á íslenska hagkerfið í heild sinni.
Að öðru leiti er ég mikið til sammála þér – og í þeim tilfellum sem ég er það ekki svarar ofangreint því að mestu.
Þorsteinn Yngvi #2: Peningar eru að langstærstum hluta rafrænir hvort sem er – sérstaklega á Íslandi. “Peningaprentun” er sjaldnast raunveruleg prentun og fer nú þegar fram með því að breyta rafrænum tölum. Skuldabréfið sem Ríkið lagði Seðlabankanum til í vetur var dæmi um risavaxna rafræna seðlaprentun.
Rafrænt eða pappír þarf ekki að fela í sér eðlismun í peningastjórnun.
Hjalli, punkturinn er að þetta er í raun fastgengisstefna.
Þrátt fyrir að við myndum leyfa henni að “hreyfast”. Því þú ert kominn með fastar reglur. Annað hvort um einhverja spönn eða ákveðna prósentu á einhverju tímabili. Hver sem reglan er – þá þarf Seðlabankinn að verja hana. Og það kallar á spekkjúleisjon. Alveg eins og þú bentir sjálfur á með innspýting fjármagns í íslenska hagkerfið tengt Kárahnjúkum/Reyðaráli þá myndast áhætta. Og á hana spila gjaldeyrisfjárfestarnir.
Seðlabankinn ver krónuna með gjaldeyrisforða sem er þekkt stærð og reglum sem eru þekktar stærðir, sem gefur fjárfestunum sterkari stöðu en SÍ veikari.
Við reyndum nákvæmlega þetta – þ.e. settum Seðlabankanum markmið um verðbólgu – sem þýddi í raun að hann var með fastgengismarkmið.
Hann keypti síðan upp gjaldeyri sem kom inn í landið fyrir nýprentaðar krónur en gaf út skuldabréf til að sækja þær aftur. Það gengur ekki til langs tíma – heldur lengir aðeins í hengingarólinni.
Allar krónur sem eru gefnar út umfram vöxt í landsframleiðslu hafa í prósentuvís 1:1 tengingu við verðbólgu. Þess vegna er hættan fólgin í að prenta krónur áður en vöxtur í landsframleiðslu hefur átt sér stað.
Hvað varðar rafrænu peningana – já – það er rétt hjá þér og ég í sjálfu sér átti von á þessu svari 🙂
En hvað er mikið af orsökum þess að við höldum krónunni “sálrænt” og hvað mikið með góð ökónómísk rök?
Rafrænir peningar eiga ekki að þekkja landamæri og eiga að bera sömu vexti (leiðrétt fyrir áhættu) alls staðar í heiminum. Svona gróft álitið.
Krónan getur vissulega hjálpað okkur í hagsveiflum ef SÍ getur staðið við sinn hluta af “dílnum” en ef SÍ er ekki í stuði – er hún heill djöfuldómur af kostnaði.
Vandamálið var að í raun hafa alltaf verið tvær krónur í gangi verðtryggða og óverðtryggða krónan. Tækin sem Seðlabankinn var að nota dugðu bara á óverðtrygðu krónuna og þar sem fólk gat fengið ótakmarkað verðtrygð lán út á hækkandi fasteignaverð og bílalán þá höfðu stýrivextir aldrei nein áhrif nema á fyrirtæki sem gátu þá fengið erlend lán einsog reyndar almenningur líka.
Til þess að stýrivextir geti virkað sem hagstjórnartæki verður að losna við verðtrygðu krónuna og það gerum vð bara með því að taka upp stöðugri mynt.
Ragnar: Það má jafnvel halda því fram að það hafi verið þrjár krónur í gangi: óverðtryggða krónan, verðtryggða króna Seðlabankans (með háum stýrivöxtum) og verðtryggða króna íbúðalánasjóðs (með lágum stýrivöxtum). Þessi samsuða hefur líklega síst hjálpað til við hagstjórnina.
Skemmtilegar pælingar.
Eftir að hafa skoðað aðra kosti en krónuna svo sem myntráð, einhliða upptöku, ESB og Evru (allt hefur kosti og galla) er ég að sannfærast um að sjálf sé krónan hollust hagsmunum Íslands. Við þurfum hins vegar að læra af mistökum sem við höfum gert í fortíðinni og koma með ný viðmið.
Í dag er mikið talað um stöðugleika sem markmið og það er örugglega rétt að hann væri góður. Vandinn er að ef forsendur hagkerfisins breytast (og þær gera það í síffellu) þá getur of stöðugur gjaldmiðill skapað mun verra ástand. Atvinnuleysi eða ofþenslu.
Stöðug mynt er jákvæð afleiðing af fjölbreyttu og stöðugu atvinnulífi en við eigum þar nokkuð í land. Það mun taka tíma og við verðum að stilla okkur um að grípa til lausna eins og Álvera sem auka enn frekar á einhæfni og þar með sveiflur.
Markmið í peningastjórn ættu frekar að helgast af því að halda útflutningsgreinum samkeppnishæfum, halda afgangi af viðskiptum við erlend ríki og atvinnuleysi í 3%. Takist það munum við fljótt greiða niður skuldir, skattar og vextir munu lækka.
Spákaupmennska er vandamál sem þarf að fyrirbyggja með gengisvörnum. Lágar fjárhæðir geta alltaf að verið utan slíkra varna enda skekkja þær ekki gengi gjaldmiðilsins.
Það eru stóru summurnar sem valda erfiðleikum og við eigum að hafa lögin okkar megin í að verjast þeim. Það er mætti setja lög um að færslur t.d. yfir milljarði megi ekki taka út fyrr en eftir 12 mánuði, nema þá með afföllum sem væru 30% en lækkuðu með tímanum. Spákaupmenn snúa sér þá annað.
Ef halda á krónunni leiðast menn alltaf út í höft og skrýtnar reglur á borð við þær sem Frosti nefnir. Allt slíkt er eyðileggjandi í sjálfu sér, bæði gagnvart nýrri fjárfestingu inn í landið, gagnvart lánstrausti og skuldatryggingarálögum, og gagnvart almennu fordæmi (“hvað gæti þessum geggjuðu Íslendingum dottið í hug næst?”). Það þarf að vera augljós ávinningur til þess að svona leið sé betri en evruvæntingakrónan.
Áhugaverðir punktar. Reyndar væru leiðir eins og þær sem þú leggur til Frosti enn brot á EES samningnum um frjálst flæði fjármagns og markmiðunum þar með ekki náð.
Ég minni nefnilega svo enn á að færslan að ofan snýst ekki um “ESB eða ekki”, heldur um mál sem þarf að leysa hvort sem ESB verður ofan á eður ei.
Í því ljósi er ég enn ekki sáttur við þau svör sem þú gefur – Villi – um stjórnun evruvæntingakrónunnar þangað til hún yrði evra. Hvort þú teljir að leiðin sem lýst er hér að ofan sé líkleg eða hvort þú teljir að í grundvallaratriðum eigi að beita öðrum aðferðum þar. Hvernig hefur þú séð fyrir þér að a) stjórnun krónunnar fari fram þannig að Maastrict sé uppfyllt og b) útskiptigengi krónu gagnvart Evru yrði ákveðið?
Mjög áhugavert og til merkis um það að “þjóðin” sé að ná áttum. Við erum og verðum með krónuna næstu árin og þegar upp er staðið og ef við finnum réttu leiðirnar þá er ekki loku fyrir það skotið að íslendingar muni finna leiðina fyrir smærri gjaldmiðla að lifa í sátt og samlyndi við þá stærri.
Ég er sammála athugasemdum Frosta en alls ekki sammála þeirri fullyrðingu Vilhjálms að höft og reglur séu í sjálfu sér skemmandi og eyðileggjandi. Það er alls ekki sjálfgefið og allt eins víst að hægt verði að finna réttu höftin og réttu reglurnar.
Mér finnst ekki rétt að gera því ávallt skóna að þeir stóru og sterku hafi alltaf rétt fyrir sér og að við þurfum ávallt að lúta þeirra aðferðum.
Það voru jú skortur á höftum og leikreglum og framfylgni á þeim reglum sem til voru sem gerðu okkur íslendingum (já okkur sem heild) kleyft að róa fram af í blindni.
Í samfélagi þjóðanna finnst mér miklu skipta að við finnum leiðir til þess að lifa í samfélaginu en á okkar forsendum svo framalega sem þær forsendur skaði ekki aðra.
Verð að vera ósammála því að gull hefur ekki verðgildi, það er einmitt öfugt, peningar í dag hafa ekki verðgildi einungis falið traust. Ríkið segir okkur að þetta sé peningur þó svo að þetta sé bara 5 aura pappír með mynd á. Ekki veit ég afhverju gull hefur verðgildi, eina sem ég veit er að samkvæmt sögunni hefur maðurinn í árþúsundir valið gull sem pening.
En hvað um það þá held ég að með gullfót værum við að koma inná þessi 4 markmið sem þú bendir á að ofan.
Markmið 1. Ef ríkið gæfi það út að við mundum vera komin á gullfót á eftir 5 ár, þá mundir það auka trú, leikjafræðilega
Markmið 2. Spákaupmennska er tilgangslaus þegar gjaldmiðill er tengdur við gull, það þyrfti þá að hafa áhrif á allan gullmarkað í heiminum
Markmið 3. Breytingar á genginu væri stöðugt við annað verðlag í heiminum, þegar gull fer upp fara aðrar afurðir upp sem gerir það að verkum að verðlag helst stöðugt. Að sjálfsögður eru litlar sveiflur hér og þar en almennt mjög stöðugt. Þegar gull hækkar er það vegna þess að ríki eru að prenta peninga og minnka verðgildi peninga sinna.
Markmið 4. Leysist að sjálfum sér þegar gjaldmiðilinn er komin í lag.
Einnig langar mig að bæta við 5 markmiðinu en það er að minnka verðbólguna. Verðbólgan er ekkert annað en skattur á fólkið og því ætti að berjast gegn henni. Þegar þú ert með gullfót og hættir að leyfa stjórnmálamönnum/seðlabanka/bönkum að prenta peninga þá leysist það að sjálfum sér.
Sambandi við að kaupa gullið, þá getum við keypt það á markaði eins og aðrir. Seðlabankinn á bara um 6,6 milljarða í dag skv. árskýrslunni þeirra þannig að það þyrfti að kaupa mikið, en seðlabankinn á aðrar eignir sem hægt er að selja og nýta til að kaupa gull. Það tæki einhvern tíma en þess vegna segi ég 5 ár(kannski meira).
Ég vil nú taka það fram að ég vil ekki að fólk sé að ganga með gull í vasanum, við eigum að nýta tæknina og nota plastið eða álíka en það þýðir ekki að við eigum að ignora söguna um pappírs peninga. Hvað sagði Einstein um endurtekningar, haldandi að þær gæfu aðra niðurstöðu?
Sæll,
Held að standardinn á bloggfærslum hjá þér sé orðinn “of hár”. þá meina ég að það er eins og þú viljir ekki blogga neitt nema það sé algjorlega útpæld og frábær færsla. það væri gaman ad heyra oftar frá þér, þó svo að færslan sé ekki virkilega vandaður pistill. Er nefnilega búin ad kíkja oft hérna inn í leit að áhugaverdu efni frá þér…
kveðja,
Kristín