100 dagar – tilraun í “opnu aðhaldi”

sjs-jsÞann 11. maí kynnti ný ríkisstjórn stjórnarsáttmála sinn og samhliða honum aðgerðaáætlun yfir verkefni sem hún hyggðist ljúka á fyrstu 100 dögum stjórnarsetunnar. Að flestu leyti eru svona vinnubrögð til fyrirmyndar: gagnsemi “to-do” lista er margsönnuð og þarna voru að auki sett fram mælanleg og nokkuð skýr markmið fyrir fyrstu skref nýrrar stjórnar.

Ég ákvað því að gera smá tilraun með áhrifamátt netsins og “opins aðhalds” við ríkisstjórnina og setti samdægurs upp einfalda vefsíðu þar sem atriðin á voru listuð og dagarnir taldir niður. Síðan þá hef ég merkt við atriði eftir því sem þau hafa verið kláruð og ég hef orðið þess var. Þannig er hægt að fylgjast með því hver staðan í þessum aðgerðum er á hverjum tíma.

Þetta hefur verið mjög áhugaverð tilraun. Alls hafa hátt í 20þús manns skoðað listann og ég hef fengið fjöldan allan af tölvupóstskeytum um atriði sem er lokið, álitaefni og aðrar ábendingar. Þessi skeyti hafa spannað allt litrófið bæði í pólitík og samfélagsstöðu. Þannig veit ég fyrir víst að fylgst er með þessum lista af þingmönnum, aðstoðarmönnum ráðherra, stjórnarandstæðingum og fólki sem hefur (greinilega) afar heitar skoðanir á þjóðfélagsmálum.

Tvívegis hefur stjórnin svo sent frá sér tilkynningar um það hvernig þeim miði í að vinna niður þennan aðgerðalista. Sú fyrri (sem reyndar var frétt á RÚV, en nokkuð örugglega byggð á tilkynningu frá forsætisráðuneytinu) birtist þann 30. maí síðastliðinn. Þar sagði að 10 atriðum af 48 væri lokið. Þá hafði ég aðeins merkt við 4 atriði á listanum og þetta kom mér því nokkuð á óvart. Ég lagðist yfir listann og leitaði heimilda um þessi 10 atriði. Viðmiðunin var sú að til að atriði teldist lokið væri hægt að finna á helstu fréttamiðlum eða vefmiðlum stjórnarráðsins staðfestingu á því að atriðinu væri sannanlega lokið. Niðurstaðan var sú að í 4 tilfellum af þessum 10 fann ég engar heimildir – aðrar en frétt RÚV – um að svo væri í raun og veru.

Síðari tilkynningin barst nú á föstudaginn. Þar segir að 21 atriði af 48 sé lokið. Ég fór yfir þennan lista með sama hætti og komst að því að mér höfðu sannanlega yfirsést nokkur atriði sem lokið hefur verið við eða tilkynnt um síðustu daga. Hins vegar get ég alls ekki kvittað undir 21 atriði. Mín niðurstaða er sú að 15 atriðum sé lokið.

Viðmiðunin er – sem fyrr sagði – að hægt sé að finna staðfestingu á því að verkefnunum sé lokið, en sömuleiðis virðist stjórnin túlka “aðgerðir” nokkuð duglega sér í hag. Hér er útlistun á þeim atriðum sem orkuðu tvímælis í mínum huga, þar á meðal þeim 6 þar sem ég er ósammála túlkuninni í tilkynningu stjórnarinnar:

 • Liður númer 5 í tilkynningu ráðuneytisins segir að ríkisstjórnin hafi “Stóraukið samráð við hagsmunasamtök á vinnumarkaði þar sem skipst hefur verið á skoðunum um ríkisfjármál, atvinnumál og stöðugleikasáttmála.” Þetta atriði er ekki á hinum upphaflega lista. Þar er aftur á móti #31: “Samráðsvettvangur ríkisstjórnar, sveitarfélaga, landbúnaðarins og aðila vinnumarkaðarins settur á fót.” Er þetta sami punkturinn? Eru fulltrúar sveitarfélaga og landbúnaðarins með í þessu “stóraukna samráði”? Vísar þetta til viðræðna um stöðugleikasáttmálann svokallaða?
  Niðurstaða: Ég gef þessu – þar til þessi orðalagsbreyting hefur verið útskýrð.
   
 • Atriði númer 6 í tilkynningunni segir að stjórnin hafi “Hafið vinnu við gerð yfirlits um stöðu og þróun lykilstærða í samfélaginu til að skilgreina vanda samtímans og framtíðarvalkosti í mikilvægum málaflokkum.” Þetta samsvarar atriði #47 á upphaflega listanum. Ég gat ekki fundið neinar heimildir aðrar en fréttatilkynningar stjórnvalda um að þessu atriði væri lokið. Hvað er verið að gera? Hver er að gera það? Hvar getum við fylgst með þessari vinnu?
  Niðurstaða: Ekki merkt við.
   
 • Atriði númer 14 í tilkynningu ráðuneytisins segir að stjórnin hafi “Skipað starfshóp til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða með þátttöku allra stjórnmálaflokka á Alþingi og fjölmargra hagsmunasamtaka.” Þetta samsvarar punkti #7 í upphaflega listanum sem hljóðar einfaldlega svo: “Endurskoðun hafin á fiskveiðistjórnunarkerfinu.” Besta heimild sem ég fann um aðgerðir tengdar þessu atriði var tilkynning sjávarútvegsráðuneytisins frá 5. júní. Þar segir að “Jón Bjarnason [hafi] ákveðið að skipa starfshóp um endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar” og að “eftirtöldum aðilum verið boðið að tilnefna fulltrúa í starfshópinn…”. Ég get ekki fallist á það að þetta þýði að endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins sé hafin. Starfshópurinn hefur eftir því sem næst verður komist ekki einu sinni verið skipaður og þar með engin vinna hafin.
  Niðurstaða: Ekki merkt við.
   
 • Atriði númer 15 í tilkynningunni segir að stjórnvöld hafi “Lagt fram náttúruverndaráætlun til ársins 2013 til þess að stuðla að traustri verndun íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd á Íslandi.” Þetta samsvarar atriði #39 á upphaflega listanum: “Náttúruverndaráætlun til ársins 2013 lögð fram á Alþingi.” Reyndin er sú að þessi áætlun var lögð fram í desember 2008 og ef marka má feril málsins á vef Alþingis hefur ekkert verið hreyft við þessu máli á yfirstandandi þingi og þar með ekki á starfstíma núverandi ríkisstjórnar. Það er líklega rétt að merkja við þetta atriði, en erfitt fyrir starfandi ríkisstjórn að eigna sér heiðurinn af því.
  Niðurstaða: Merkt sem lokið, en um leið útskrifað sem ódýrasta aðgerð stjórnarinnar á listanum – henni var lokið áður en stjórnin tók til starfa 🙂
   
 • Atriði númer 17 í tilkynningunni: “[Ríkisstjórnin hefur] hafið vinnu við endurskoðun upplýsingalaga til að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að opinberum upplýsingum.” samsvarar atriði #22 á upphaflega listanum: “Endurskoðun hafin á upplýsingalögum í því augnamiði að auka aðgengi almennings og fjölmiðla að upplýsingum stjórnarráðsins.” Samkvæmt þessari frétt forsætisráðuneytisins frá 22. maí, sýnist mér að um þetta gildi hið sama og um atriði 14. Í frétt ráðuneytisins felst ekkert nýtt. “Ákvörðun” ríkisstjórnarinnar þann 19. maí var að gera það sem hún var þegar búin að segjast ætla að gera í 100 daga áætluninni. Nefndin hefur – skv. því sem næst verður komist – ekki verið skipuð og því ekki hægt að segja að vinna við endurskoðun þessarra laga sé hafin.
  Niðurstaða: Ekki merkt við.
   
 • Atriði númer 18 í tilkynningunni segir að stjórnin hafi “Hafið vinnu við mótun menningarstefnu til framtíðar í samráði við listamenn.” Þetta samsvarar atriði #42 á upphaflega listanum. Í menntamálaráðuneytinu hefur verið starfrækt svokölluð Skrifstofa menningarmála að minnsta kosti frá árinu 2004. Meðal hlutverka hennar er að “[undirbúa] mótun menningarstefnu, [hafa] umsjón með framkvæmd hennar og annast almenna stjórnsýslu á sviði menningarmála.” Það væri því býsna ódýrt að telja það til afreka nýju ríkisstjórnarinnar. Um það að þessi vinna hafi breyst eða hún tekin til endurskoðunar í tíma nýrrar stjórnar get ég engar heimildir fundið á vefjum stjórnarráðsins eða fréttamiðlum og því ómögulegt að sannreyna að eitthvað hafi verið gert í þessu máli.
  Niðurstaða: Ekki merkt við fyrr en skýrt hefur verið hver munurinn er á áformum stjórnarinnar og þeirri vinnu sem þegar var í gangi. Ef sá munur er ekki til staðar má merkja við þetta atriði, en þá lendir það í harðri samkeppni við náttúruverndaráætlunina um ódýrasta bragðið á listanum.
   
 • Atriði 21 í tilkynningunni segir að stjórnin hafi “Tekið ákvörðun um eigendastefnu og eignarhald bankanna í ríkisstjórn.” Þetta samsvarar atriði #3 í upphaflega listanum. Þetta er gott að heyra – stórtíðindi reyndar – en ómögulegt að sannreyna fyrr en þessi ákvörðun hefur verið gefin út og birt almenningi. Ég get því ekki merkt við þennan lið – en ólíklegt að það fari framhjá manni þegar ákvörðunin sem sagt er að liggi fyrir verður kynnt!
  Niðurstaða: Ekki merkt við.

Okkur ríkisstjórninni ber s.s. ekki alveg saman um framgang hennar. Að hluta til er um túlkunaratriði að ræða, í einhverjum tilfellum segist stjórnin vera búin með atriði sem hún hefur/getur ekki sagt okkur frá og í einhverjum tilfellum er líklega bara um skort á upplýsingagjöf stjórnarinnar – eða leitarhæfileikum mínum að ræða.

Tilraunin heldur augljóslega áfram næstu 65 dagana og ég er nokkuð viss um að það á fleira áhugavert eftir að koma út úr henni. Ábendingar, hugmyndir og gagnrýni velkomin.

9 comments

 1. Ef ríkisstjórnin er að blekkja okkur er það alvarlegt mál.
  Við eigum að krefjast þess að þau segi sannleikann um stöðu mála en veifi ekki út og suður að þau séu að “gera eitthvað”.

 2. Þetta hefur því miður aðeins verið fréttatilkynningastjórn.Telur að verkum ljúki við það eitt að senda út fréttatilkynningu.Sýnir kannski hvað umbúðastjórnmál eru áberandi.

 3. Hvað varðar atriði númer 18 hef ég staðfestar upplýsingar um að sú vinna er hafin. Fundur hafi verið með fulltrúum einhverjum frá Bandalagi íslenskra listamanna og erindi hafi borist til félaga innan þess um að setja fram hugmyndir. Mér finnst þú ættir að óska eftir því við hvert ráðuneyti að það birti upplýsingar um þetta á vefsíðum sínum. Þannig þyrfti ekki að vera með neinar miklar vangaveltur. Heldur bara hægt að krossa við. Þú getur krossað við 18 leyfi ég mér að fullyrða.

 4. Margrét og Einar: Við skulum bíða með stórar ályktanir – sérstakleglega alvarlegar ásakanir. Eins og ég geri ráð fyrir í niðurlaginu, þá á ég von á að þessi munur eigi sér ýmsar skýringar og sumum atriðunum sé jafnvel lokið, þó mér hafi ekki tekist að finna sönnun þess.

  María: Gott að heyra. Endilega sendu mér – eða settu hér inn – eitthvað því til staðfestingar ef það er í hendi. Ef ekki, þá bíður þetta ómerkt eftir frekari upplýsingum.

  Það sem fer eiginlega mest í taugarnar á mér við þetta er að allir fjölmiðlarnir virðast hafa gleypt tilkynninguna athugasemdalaust og dreift þeirri – alls ekki óumdeilanlegu – “staðreynd” að 21 atriði á listanum sé lokið. Maður hefði haldið að fjölmiðlar hefðu fengið ákveðna áminningu um vönduð vinnubrögð síðustu misserin!

 5. Gott framtak. Að nenna þessu er merkilegt og frábært hjá þér. Takk fyrir það!
  Takk einnig að sína okkur það dugleysi sem þessi ríkisstjórn er að verða þekkt fyrir. Ekkert að marka orð þeirra og senn fela þau sig bakvið “sumarfrí”…

 6. Mér hefur réttilega verið bent á að atriði númer 20 á upphaflega listanum: “Frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur lagt fram á Alþingi.” sé ekki lokið.

  Í tilkynningu Ríkisstjórnarinnar segir “19. Lagt fram og samþykkt i ríkisstjórn frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur til þess að tryggja þjóðinni síðasta orðið í meiriháttar málum.” Þetta er satt og rétt, en einfaldlega ekki það sama og til stóð skv. upphaflega listanum. Að samþykkja eitthvað í Ríkisstjórn er ekki það sama og að leggja það fram á Alþingi.

  Á þessum lista má sjá að málið er ekki komið fram á þinginu.

  Loknum atriðum hefur því FÆKKAÐ í 14.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s