Tugmilljarða misræmi í Icesave skjölum

Ég bið ykkur um að lesa eftirfarandi færslu mjög vandlega og með gagnrýnum huga áður en þið dragið nokkrar ályktanir, eða hefjið upphrópanir út frá því sem hér kemur fram. Þetta er afar viðkvæmt efni, óvíst að ég hafi rétt fyrir mér og góðar líkur á að það sem hér kemur fram eigi sér eðlilegar skýringar sem hafi engin áhrif þegar allt kemur til alls. Sem sagt: Anda rólega

Uppfært 20. ágúst, 2009 kl. 18:20: Skýring hefur fengist á fyrra atriðinu sem nefnt er í færslunni. Sjá athugasemd #7 í athugasemdakerfinu.

Uppfært 21. ágúst 2009 kl 18:30: Skýring hefur nú einnig fengist á síðara atriðinu. Sjá athugasemd #8 í athugasemdakerfinu.

Ég er kreppuklámhundur. Að hluta til hef ég afsökun. Það að liggja yfir gögnum er vinnan mín – meira að segja það að liggja yfir Icesave-gögnum.

Ég er þess vegna búinn að skoða fleiri tölur og velta mér meira uppúr því hvernig þessir hlutir hanga saman en mér er hollt. Við það hafa vaknað nokkrar spurningar, sem ég hef – þrátt fyrir margvíslegar tilraunir – ekki getað fengið viðhlýtandi skýringu á. Hér að neðan má sjá tvö þessara atriða. Bæði þessi atriði eru í besta falli einfaldur misskilningur minn eða saklaus mistök þeirra sem í hlut eiga, en í versta falli tugmilljarða yfirsjónir við meðferð málsins. Ég ætla að gera ráð fyrir því fyrrnefnda þar til annað kemur í ljós.

1. 150 milljón evra misræmi í Icesave skjölum

Í lánasamningnum við Hollendinga er eftirfarandi klausa (í íslenskri þýðingu af Ísland.is):

2.1.2 Fjárhæð endurgreiðslunnar nemur 1.329.242.850 evrum (einum milljarði þrjú hundruð tuttugu og níu milljónum tvö hundruð fjörtíu og tvö þúsund átta hundruð og fimmtíu evrum).

Í skjali sem hefur gengið manna á milli um dreifingu innistæðufjárhæða á Icesave reikningunum er hins vegar þetta yfirlit:

icesave-distribution

Ég sé þetta skjal ekki í þeim gögnum sem lögð hafa verið fram á vef Alþingis með málinu, en það á uppruna sinn í Landsbankanum, virðist tekið saman í lok mars á þessu ári og á að sýna stöðuna þann 8. október 2008, daginn eftir að Landsbankinn var tekinn yfir.

Talan sem ég hef dregið rauðan kassa utan um eru heildarinnistæður á Icesave í Hollandi undir 20.887 evra markinu. Hún ætti sem sagt að samsvara lánsfjárhæðinni, en eins og sjá má er hún þarna 1.180.611.896 eða u.þ.b. 150 milljónum evra lægri en lánsfjárhæðin. Allar tölur aðrar, s.s. heildarinnistæður og fjöldi innlánseigenda stemma við önnur gögn sem fram hafa komið. Í samningnum við Hollendinga er enginn fyrirvari er gerður við þessa upphæð og því um endanlega fjárhæð að ræða.

Ég hef enga ástæðu til að efast um uppruna skjalsins sem um ræðir. Það er auðvitað hugsanlegt að seinna hafi komið í ljós einhver skekkja og nýtt skjal verið útbúið, en það er allavegana þess virði að fá skýringar á þessum mun. 150 milljón evrur eru jú u.þ.b. 27,5 milljarðar króna á gengi dagsins og það 27,5 milljarðar sem við þurfum að borga til baka og borga vexti af næstu árin.

Í tilfelli bresku reikningana eru samsvarandi fjárhæðir 2.350.000.000 og 2.239.478.713 pund. Þar munar sem sagt ca. 110 milljón pundum. Samningurinn við Breta er hins vegar að þessu leyti aðeins annars eðlis. Þar kemur fram að um lánalínu sé að ræða, upphæðin sé hámark og að endanleg upphæð verði að líkindum lægri og ráðist af útgreiðslum breska ríkisins og breska innlánstryggingasjóðsins. Að auki er í Excel-skjalinu reiknað með að 20.887 evra lágmarkstryggingin samsvari 16.500 pundum, en í samningnum er miðað við annað gengi og þar samsvarar hún 16.873 pundum sem skýrir hluta þessa mismunar. Ég hef því ekki áhyggjur af breska samningnum að þessu leyti.

2. Misræmi í endurheimtuferlum á eignum Landsbanka
Einu gögnin sem hafa – mér vitanlega – verið gerð opinber um áætlaðan endurheimtuferil á eignum LÍ, eru í fylgiskjali 2 með skriflegri umsögn SÍ um Icesave (bls. 18). Þar er þessi tafla:

icesave-si-fylgiskjal2

Þarna eru höfuðstóll og greiðslur gefnar upp í GBP, EUR og svo (væntanlega) reiknað samanlagt yfir í ISK. Gengisforsendurnar fyrir hvorn gjaldmiðil eru svo gefnar í öftustu 2 dálkunum.

Aftur hef ég samt dregið rauðan kassa utan um nokkrar tölur. Ég fór nefnilega að vinna með þessar talnaraðir og þá kom í ljós að fyrstu 7 árin kemur formúlan ((Greiðslur í GBP * Gengi GBP) + (Greiðslur í EUR * Gengi EUR)) ekki heim og saman við Greiðslur í ISK.

Tökum 2009 sem dæmi. Þar er sagt að greiðslur í krónum séu 66.112 milljónir (rúmir 66 milljarðar). Greiðslur í pundum eru hins vegar 220 milljónir og í evrum 125 milljónir. Miðað við gengisforsendurnar í öftustu tveim dálkunum lítur formúlan þá svona út ((220 * 177,46) + (125 * 158,18)) = 58.814 milljónir (tæpir 59 milljarðar). Þarna munar s.s. einum 7 milljörðum. Þessi skekkja er gegnum gangandi í þessum dálki allt til ársins 2015 að því ári meðtöldu, þ.e. á þeim tíma sem eignir Landsbankans eiga að vera að koma til lækkunar á höfuðstólnum.

Samtals munar á þessum 7 árum rétt rúmum 79 milljörðum á reiknaðri fjárhæð og þeirri sem fram kemur í töflunni, þannig að spurningin er: Hvor talan er rétt?

Ég vona að minnsta kosti að enginn sé að taka stórar ákvarðanir útfrá þessum tölum nema viðkomandi viti hverju má treysta í þessu og hvort möguleiki sé á að rangar eða misvísandi tölur liggi nokkur staðar sem forsendur útreikninga t.d. á greiðslubyrði vegna samningsins.

– – –

Eins og ég sagði í upphafi færslunnar: Vonandi á þetta sér hvort tveggja góðar og gildar skýringar og ég vil ekki valda stormi í vatnsglasi með þessum vangaveltum. Mér líður bara ekki vel með skekkjur upp á meira en 100 milljarða í gögnum sem liggja til grundvallar einu af stærstu málum í sögu þjóðarinnar.

Með öðrum orðum: Ekki rjúka upp til handa og fóta og halda að ég hafi rétt fyrir mér með þetta og að afleiðingarnar séu með einhverjum hætti tjón eða hugsanlegt tjón af þeim stærðargráðum sem hér um ræðir. Fyrst skulum við sjá hvort það er ekki einhver þarna úti sem getur bent mér á mistúlkun í ofangreindum atriðum, eða komið með ný gögn eða haldbærar skýringar á þessum skekkjum.

9 comments

 1. Er ekki eðlilega skýringin sú að mismunurinn sé þóknun til einhverra duglegra einstaklinga fyrir að koma samningunum á?

 2. Excel-skjalið sem þú vísar til (efra skjalið) er í Icesave gögnunum sem lögð voru fyrir fjárlaganefnd. Það er í lélegu skanni inni í einni PDF skránni, ég er með þetta útprentað fyrir framan mig as we speak. Ég get fundið þetta ef þú vilt, en aðalatriðið er að þessar tölur voru lagðar svona fyrir fjárlaganefnd.

 3. Ok, ég fór einmitt í gegnum þau skjöl sem mér þóttu líklegust og sá það ekki. Væri fínt að fá tengil á það. En ég skil þig s.s. rétt að skjalið var lagt fyrir nefndina eins og það er í skjáskotinu mínu hér að ofan?

  S.s. munurinn er enn óútskýrður?

 4. Þú segir: “Talan sem ég hef dregið rauðan kassa utan um eru heildarinnistæður á Icesave í Hollandi undir 20.887 evra markinu.”
  En ég held að talan sem þú dregur rauðan kassa utan um sé heildar summa allra innistæða á Icesave í Hollandi, ekki bara þeirra sem eru undir 20.887 EUR.
  Ég get samt ekki séð af þessu excel skjali hvernig endurgreiðslutalan 1.329.242.850 er til komin, miðað við þetta skjal sem þú leggur fram er endurgreiðslutalan þá 150 milljón evrum hærri en ALLAR innistæðurnar í Hollandi! Getur verið að þetta sé heildarendurgreiðslan með vöxtunum ef við greiðum eins og greiðsluáætlunin gerir ráð fyrir?

 5. SIJ: Ég tel engar líkur á að svo sé. Það væri þá í öllu falli full ástæða til að upplýsa um það ef svo væri!

  jens: Þetta er ekki málið. Heildarinnistæðurnar eru í fyrsta dálkinum og eru 1.674.285.671 EUR. Það kemur heim og saman við önnur gögn, t.d. skýringar við samningana á Ísland.is. Talan í rauðmerkta reitnum eru:
  Allar innistæður í efsta flokknum (674.018.598) + fjöldi reikninga í hinum flokkunum tveim ((13.968+10.286) * 20.887).

  Eða: 674.018.598 + (24.254 * 20.887) = 1.180.611.896

 6. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum er Excel-skjalið sem minnst er á í fyrri liðnum (og var lagt fram sem gögn í málinu skv. því sem fram kemur hjá Vilhjálmi hér að ofan) vitlaust.

  Upphæðin í samningnum er því líklega byggð á réttari gögnum – og er það vel.

  Þá eigum við bara eftir að fá botn í lið númer 2.

 7. Eftirfarandi skýring barst mér frá Seðlabankanum:

  – – –

  Icesave-skuldbindingarnar eru í pundum og evrum og áætlanir um endurheimtur sömu leiðis.

  Upphaflega voru tölurnar umreiknaðar í íslenskar krónur með gengi punds og evru 4. júní, daginn fyrir undirritun samningsins. Þegar kom að því að áætla stærðir út frá þjóðhagsspá Seðlabankans þá var eðlilegt að nota gengisforsendurnar í þeirri spá (maí-spáin). Þú hefur rekið augun í að í töflunni í fylgiskjali 2 hefur ratað umreikningur yfir í íslenskar krónur með genginu 4. júní fyrir árin 2009-2015.

  Ef samræmis væri gætt og notað gengið í töflunni væru tölurnar um greiðslur í kr.:

  2009 58785
  2010 60354
  2011 41547
  2012 47059
  2013 122125
  2014 26072
  2015 94272

  Þessi mistök hafa engin áhrif á aðra útreikninga í minnisblaðinu.

  – – –

  Þá höfum við það.

 8. Frábært, takk fyrir bæði spurninguna og skýringarnar. Seðlabankinn fær líka fyrir mitt leyti dágóðan plús í kladdann fyrir að senda þér svar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s