Opin gögn og gagnsæi – yfirlýsing stjórnvalda

transparencyFyrir nokkrum vikum skrifaði ég færslu á bloggsíðu DataMarket um það sem kalla mætti “vægðarlaust gagnsæi“. Færslan gengur í stuttu máli út á það að leiðin til að endurreisa traust á Íslandi – jafnt inn á við sem út á við – felist í gagnsæi og heiðarleika á áður óþekktu stigi – að sýna svo ekki verður um villst að það sé ekkert að fela.

Færslan er skrifuð á ensku og hefur vakið dálitla athygli. Hún leiddi m.a. af sér viðtal í veftímaritinu Frontier Economy þar sem farið er dýpra í saumana á sumum þeim hugmyndum sem þar voru settar fram.

Ég hef líka skrifað og beitt mér fyrir opnum gögnum í töluverðan tíma. Opin gögn snúast í stuttu máli um það að öll gögn sem safnað er eða útbúin hjá opinberum aðilum eigi að vera opin og aðgengileg öllum, án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars, t.d. af persónuverndar- eða öryggissjónarmiðum. Á vefnum opingogn.net má nálgast drög að íslenskri þýðingu skilgreiningar á opnum gögnum.

Í raun má segja að opin gögn og vægðarlaust gagnsæi séu tvær hliðar á sama málinu:

  • Opin gögn snúast um meðferð gagna í umsjá hins opinbera.
  • Vægðarlaust gagnsæi snýst hins um það hvort e.t.v. sé ástæða til að safna eða framreiða einhver gögn til viðbótar við það sem þegar er í þeim tilgangi sérstaklega að upplýsa um framvindu eða stöðu mála.

obama-kundraUm þessar mundir gengur yfir heiminn vitundarvakning varðandi mikilvægi opinna gagna og þá sérstaklega “formfastra gagna” (e. structured data). Mest áberandi er þessi vakning í Bandaríkjunum, en þegar á fyrstu dögum í embætti gaf Obama út skýr fyrirmæli um það að opinberar stofnanir skyldu sem allra fyrst gera gagnasöfn sín aðgengileg almenningi á vefnum, án hindrana. Hann réð jafnframt í fyrsta skipti til starfa upplýsingatæknistjóra (CIO) við stjórnina – sá heitir Vivek Kundra og hefur lyft grettistaki á stuttum tíma. Helsta birtingarmynd þess er vefsvæðið Data.gov, þar sem nú má nálgast yfir 100 þúsund gagnasöfn frá hundruðum opinberra stofnanna. Þessi gögn hafa svo bæði fjölmiðlar, fyrirtæki og áhugasamir einstaklingar notað við afar áhugaverð verkefni sem opna ný tækifæri, auka skilning á flóknum þáttum samfélagsins og veita hinu opinbera aðhald.

berners-leeÍ Bretlandi hafa báðir stóru flokkarnir markað skýra stefnu í þessa veru. Stjórnin hefur þar að auki fengið til liðs við sig engan annan en Tim Berners-Lee. Berners-Lee hefur verið kallaður “faðir vefsins” og er vel að þeim titli kominn enda bjó hann til HTML staðalinn sem allar vefsíður og þar með vefurinn allur byggir á. Berners-Lee hefur í seinni tíð verið ötull talsmaður opinna gagna og hefur sennilega betri skilning á því en flestir hversu verðmætt opið aðgengi og samtengingar gagna úr ólíkum áttum getur verið.

roslingAð lokum má nefna sænska prófessorinn Hans Rosling, sem hefur með líflegri framsetningu gagna vakið marga – ekki síst alþjóðastofnanir á borð við Sameinuðu Þjóðirnar, OECD og jafnvel Evrópusambandið – til umhugsunar og góðra verka í því að gera sín gögn aðgengilegari en verið hefur.

Fáir hafa þó meiri þörf fyrir að meðtaka þessa hugmyndafræði en einmitt trausti rúnir Íslendingar. Ég veit fyrir víst að víða er vilji og sums staðar skilningur fyrir þessum málum, en mörg nýleg dæmi sýna mikilvægi þess að ná almennum vilja, skilningi og aðgerðum á þessu máli til þess að við getum byggt hér upp heiðarlegt samfélag trausts og samstöðu.

Í ríkjandi kerfi er litið svo á að öll gögn séu trúnaðarmál nema sérstök ástæða sé til að opna þau. Þessum hugsanahætti þarf að snúa við. Gögn opinberra aðila eiga hér eftir að vera opin nema sérstök ástæða sé til að vefja þau trúnaði.

Ég gerði mér því að leik að skrifa drög að örstuttri yfirlýsingu sem ég legg hér með til að ríkisstjórnin (og reyndar aðrir opinberir aðilar, s.s. sveitarfélög) geri að sinni og fylgi svo eftir með aðgerðum:

Öll gögn í umsjón opinberra aðila skulu hér eftir vera opin og aðgengileg almenningi án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars. Skilgreindar verða skýrar viðmiðunarreglur um hvað teljast ástæður til hindrana með tilliti til persónuverndar, öryggissjónarmiða og annara ríkari hagsmuna. Undantekningar skulu vera vel rökstuddar og skal ekki hindra aðgang meira en til að mæta þeim rökum.

Allar stofnanir hins opinbera skulu þegar í stað birta skrá yfir þau gögn og gagnasöfn sem þær ráða yfir og gera gögn þeirra aðgengileg á því formi sem þau eru nú á. Jafnframt skal skrá gagnasöfn sem ekki er opnaður aðgangur að, tilgreina efnistök þeirra, ástæður fyrir hindrunum á aðgengi og hvenær þeim hindrunum verði aflétt. Til lengri tíma skal leitast við að gera gögnin aðgengileg á stöðluðu, tölvutæku formi sem tekur tillit til allra þátta sem kveðið er á um í skilgreiningu opinna gagna.

Stofnanir skulu einnig gera úttekt á því hvort starfsemi þeirra gefi ástæðu til að safna sérstaklega gögnum umfram það sem þegar er gert í þeim tilgangi að auka gagnsæi á starfsemi sína eða á samfélagið almennt.

Það er ekki flókið að gefa þessa yfirlýsingu, ekki dýrt að fylgja henni eftir og reyndar að miklu leiti þegar kveðið á um þessa hluti í upplýsingalögum og annari stefnumörkun sem þegar hefur átt sér stað. Núna er bara ríkari ástæða en nokkru sinni til að láta verkin tala og endurbyggja þannig traustið sem tapaðist.

29 comments

  1. Flott ábending, sem ég styð heils hugar.

    Ennfremur hefur mér flogið í hug vegna alls laumuspilsins með IceSave samningana hvort ekki væri sterkur leikur ef Íslenska ríkisstjórnin gæfi jafnframt út opinbera yfirlýsingu um að öll gögn, skjöl og staðreyndir IceSave málsins varði allan almenning. Þau verði því samstundis gerð opinber og gefin út á aðgengilegan hátt, t.d. á Wiki sniði. Sama gildi um öll ókomin samskipti í málinu, þau verði gefin út opinberlega um leið og þau berast.

    Þetta gæti stoppað sandkassaleikinn milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu, sem nú virðist vera aðalmálið, auk þess sem Bretar og Hollendingar myndu fá ákveðið aðhald gegn frekjugangi ef þeir vita að allt sem frá þeim kemur verði birt opinberlega.

  2. Jón Jósef, Baldvin, Kristín Hildur: Þakka ykkur. Leiðin til að þetta verði að veruleika er auðvitað að reyna að bera út fagnaðarerindið sem víðast.

    Ágúst Úlfar: Eftir laumuspilið í upphafi, fannst mér stjórnvöld standa sig ágætlega í að koma gögnum Icesave málsins á framfæri, bæði á Ísland.is og eins á vef Alþingis, en svo virðist allt fallið í fyrra far núna með hinar “óformlegu hugmyndir vegna fyrirvaranna”. Ég hefði haldið að menn hefðu lært af reynslunni og kostum þess að hafa þetta uppi á borðinu (lendingin varð verulega mikið ásættanlegri fyrir vikið).

    Þetta snýst um sömu hugarfarsbreytingu og nefnd er í pistlinum: Að leyna aðeins því sem sérstök rök finnast til að leyna.

  3. Frábær hugmynd, hvet þig til að halda þessu á lofti endalaust, þá gæti þetta orðið að veruleika fyrir rest!

  4. Góð grein! Í Noregi hafa íbúar aðgang að flestu því sem skráð er um þá í gegnum vefgátt svipaða og Ísland.is. T.d. hvaða bílar eru skráðir á sig og margt fleira… Mættum gjarnan taka svipað kerfi upp…

  5. Hið slæma þrífst í skjóli myrkurs / leyndar. Verum upplýst. Allt gegnsætt hlýtur að vera ófrávíkjanleg krafa.
    Góð grein.

  6. Heyr, heyr. Ég vona að við eigum eftir að sjá slíka yfirlýsingu sem víðast. Samband íslenskra sveitarfélaga ætti nú að skella inn tengli yfir á þessa færsluna sína á síðunni sinni 🙂

  7. Hér er norska gáttin góða: http://www.norway.no/minside/

    Þar segir varðandi meginhlutverk síðunnar:

    MyPage is an online one-stop public service centre that allows you to:

    * use online public services
    * submit public service application forms and data
    * access your personal data stored in public registers

    Sem sagt: Access your personal data stored in public registers

  8. Gott mál Hjalli. Ég er búinn að vera að tala um þetta á vettvangi Ungra Jafnaðarmanna um nokkurt skeið. Almennt á fólk mjög erfitt með að ná utan um þetta konsept. Fólk á bágt með að trúa því að þetta sé hægt. Jafnvel þótt dæmin séu mörg og áberandi.
    Ég hef kallað þetta stefnu um upplýsingafrelsi sem var kannski ekki eins lýsandi og opin gögn. Mér líst vel á yfirlýsinguna og mun sannarlega nota hana málinu til framdráttar.

  9. Í Noregi er líka hægt að fletta upp hverjum sem er, hvenær sem er, á netinu og sjá hvað hann er með í laun og hvað hann borgar í skatt (http://www.skattelister.no/).

    Held að þetta sé mjög sniðugt, þá er mun auðveldara að koma upp um skattsvik.

  10. Sverrir: Besta mál, ég er tilbúinn til að koma á fund eða kaffispjall með hverjum sem er, hvenær sem er til að útskýra hugmyndafræðina og berja kjark í fólk 🙂

    Kristín Hildur: Þetta er einmitt dæmi um gögn sem spurning er hvoru megin við línuna eiga að lenda, þ.e. hvort persónuverndarhagsmunir trompi almannahagsmuni í þessu tilfelli. Þetta myndi skýrast með umræddri stefnuyfirlýsingu og viðmiðum.

  11. Fannst viðeigandi að bæta þessari tilvitnun við þráðinn:

    “Opinberar athafnir sem ekki þola dagsljós og opinbera umræðu eiga ekki að eiga sér stað, opinberar ákvarðanir sem eru teknar í skjóli nætur og þarf að hylja sjónum almennings á ekki að taka.” – Immanuel Kant

  12. Gamla símaskráin var gefin út, en svo var til götuskrá sem var röðuð eftir götum og götunúmeri. Hún var harðlokuð og aðeins afhent útvöldum aðilum af því hana mátti misnota.

    Í dag er bifreiðaskráin lokuð almenningi einhverra hluta vegna þótt bílaumboðin og bílasölur geti keypt aðgang að henni. Samt eru bifreiðagjöldin meðal annars til að kosta rekstur hennar, hélt ég.

    Oft hefði ég viljað fletta upp í skránni, til að hringja í ökumann sem er ljóslaus eða leggur í veg fyrir innkeyrsluna mína.

    Það má spyrja sig hvort réttur almennings til gagna nái líka yfir “greitt og gott aðgengi”, ekki bara “eitthvað aðgengi gegn gjaldi”.

    1. Sll Kri,

      Takk fyrir athugasemdina. g setti inn svohljandi svar:

      Kri: Ef lest skilgreininguna opnum ggnum, muntu sj a au snast um algerlega hindranalaust agengi, ekki “bara eitthva agengi”.

      a er svo mis-rttltanlegt a opna hluti. tilfelli bifreiaskrarinnar eru a vntanlega persnuverndarsjnarmi sem stangast vi hagsmunina af v a hafa agengi opi. A a s t.d. ekki hgt a fletta upp nmerinu “flottu ljshru gellunni Focusnum” ea aan af sur setja saman leitarforrit sem leyfir r a vinna allar stlkur aldrinum 24-30 ra sem keyra um blum sem kosta meira en 3 m.kr. og eru einhleypar – sem g held a vi getum veri sammla um a s ekki skilegt, eftirspurnin vri vafalaust fyrir hendi.

      Flest ggn eru samt hafin yfir allan svona vafa og hafa enga skrskotun til persnuverndar, ryggissjnarmia ea annars. Hva au varar mli a vera sraeinfalt.

      Sj: https://hjalli.com/2009/09/20/opin-gogn-og-gagnsaei/#comment-1856

      -h

      P.S. g hef reyndar ga reynslu af v a hringja Umferarstofu og ef a ekki virkar lgregluna til a f upplsingar um bla sem lagt er lglega fyrir aftan minn svo handahfskennt dmi s teki

  13. Kári: Ef þú lest skilgreininguna á opnum gögnum, þá muntu sjá að þau snúast um algerlega hindranalaust aðgengi, ekki “bara eitthvað aðgengi”.

    Það er svo mis-réttlætanlegt að opna á hluti. Í tilfelli bifreiðaskráarinnar eru það væntanlega persónuverndarsjónarmið sem stangast á við hagsmunina af því að hafa aðgengið opið. Að það sé t.d. ekki hægt að fletta upp númerinu á “flottu ljóshærðu gellunni á Focusnum” eða þaðan af síður setja saman leitarforrit sem leyfir þér að vinna allar stúlkur á aldrinum 24-30 ára sem keyra um á bílum sem kosta meira en 3 m.kr. og eru einhleypar – sem ég held að við getum verið sammála um að sé ekki æskilegt, þó eftirspurnin væri vafalaust fyrir hendi.

    Flest gögn eru samt hafin yfir allan svona vafa og hafa enga skírskotun til persónuverndar, öryggissjónarmiða eða annars. Hvað þau varðar á málið að vera sáraeinfalt.

  14. Held líka að það tengist öryggisatriði, einhverntímann sátu þjófar við Rauðavatn og tóku niður númerið hjá bílum sem voru vel hlaðnir (greinilega á ferðalagi úr bænum) með númerinu gátu þeir komist að heimilisfangi. Vitandi að enginn var heima var auðvelt að brjótast inn….

Leave a comment