Undanfarna daga hafa verið ræddar í fjölmiðlum hugmyndir um að skrá í Kauphöllina fyrirtæki sem bankarnir hafa tekið yfir og koma þeim þannig í almenningseigu.
Í grunninn held ég að þetta sé góð hugmynd. Að mörgu leiti betri en beint söluferli í umsjón bankanna sjálfra og án alls efa betra en það handstýrða og ógagnsæja ferli sem virðist vera í gangi með önnur.
Hins vegar þarf Kauphöllin að taka verulega til í sínum ranni ef hún á að verða vettvangur þessara viðskipta. Ég er ekki einu sinni viss um að Kauphöllin í þeirri mynd sem hún hefur verið starfrækt eigi sér viðreisnar von. Ástæðan? Jú, Kauphöllin er ein þeirra stofnana sem gerbrást í aðdraganda Hrunsins og þarf að líta í eigin barm, viðurkenna mistök sína og ábyrgð og breyta starfsháttum og reglum áður en hún er tilbúin til að taka þátt í endurreisnarstarfinu.
Byrjum á smá bakgrunnsupplýsingum…
Um hlutafélög
Hlutafélög eru stórmerkilegar stofnanir. Þau gera fólki úr ólíkum áttum kleift að taka saman höndum um verkefni sem hver og einn hefði verið ófær um einn og sér. Sumir geta lagt mikið til þeirrar hugmyndar eða þess verks sem fyrir höndum er og aðrir minna, en ramminn á að tryggja að allir sitji við sama borð og njóti ávaxtanna – og taki á sig áhættuna – í hlutfalli við það sem þeir leggja til.
Að auki takmarkar hlutafélagaformið ábyrgð hluthafanna við það fé sem þeir leggja félaginu til og þannig geta menn lagt verkefni lið, án þess að eiga á hættu að tapa öðru en því sem þeir hafa eyrnamerkt verkefninu. Þetta er líka mikilvægt, því fáir myndu leggja áhættusömu verkefni lið ef það gæti sjálfkrafa stofnað öllum eigum þeirra í hættu. Þetta á líka að öllu jöfnu að þýða það að hlutafélag fái aldrei að stofna til skuldbindinga umfram það sem hlutaféð, rekstur fyrirtækisins og eignir þess geti staðið undir.
Hlutafélög verða þannig til þess að margvísleg verkefni geta orðið að veruleika, sem annars yrðu ekki og ýta þannig undir nýsköpun, skapa störf og auka – þegar vel tekst til – lífsgæði okkar og samfélag. Gunnhugmyndin á bakvið hlutafélagaformið er því besta mál.
Hlutabréfamarkaðir eru að sama skapi mikilvægir. Virk viðskipti með hlutabréf í félagi mynda verð á þeim og meta þannig í raun í sífellu stöðu og framtíðarhorfur fyrirtækisins. Þetta gerir fólki sem lagt hefur verkefni til fé kleift að losa fjármuni á sanngjörnu verði á hverjum tíma og njóta þannig ávaxtanna – eða taka á sig það tap – sem orðið hefur yfir það tímabil sem viðkomandi hlutur var í þeirra eigu. Þetta minnkar enn frekar tregðu fólks við að leggja fé í hlutafélag. Ekki þarf að bíða þar til verkefninu er lokið, eða fyrirtækið fer að borga arð til að geta losað um það fé sem lagt var inn.
Það má því segja að hlutafélög og góður hlutabréfamarkaður sé forsenda fyrir kröftugu atvinnulífi, nýsköpun og uppbyggingu.
Íslenska Kauphöllin var aftur á móti ekki góður hlutabréfamarkaður – og Kofinn sem eftir stendur verður aldrei góð Höll nema til komi grundvallarbreytingar á starfsemi hennar.
Upplýsingagjöf
Lykillinn að ofangreindum kostum hlutafélaga og hlutabréfamarkaða er öflug upplýsingagjöf. Því betri upplýsingar sem kaupendur og eigendur hluta í félaginu hafa um stöðu þess á hverjum tíma, því betri aðstöðu eru þeir í til að meta áhættu og möguleika félagsins. Það er því algert lykilatriði að allir hafi jafnan og eins mikinn aðgang að upplýsingum eins og hægt er – annars skapast ójafnvægi og óvissa um þá þætti sem þurfa að liggja til grundvallar við verðmat hlutanna.
Þetta er líka reynt að tryggja með hlutafélagalögunum og starfsreglum hlutabréfamarkaða. Þeir sem hafa meiri upplýsingar um starfsemina en aðrir, s.s. stjórnendur, stjórnarmenn og í sumum tilvikum aðrir starfsmenn fyrirtækjanna, kallast innherjar – og um viðskipti þeirra með hluti gilda aðrar reglur en um almenna fjárfesta. Öllum öðrum á að tryggja jafnan og öruggan aðgang að upplýsingum. Í tilfelli kauphalla er þetta gert með reglum um birtingu ársreikninga, ársfjórðungsuppgjöra og þess á milli sérstakra tilkynninga ef ástæða er til.
Hrunið kom upp um algera brotalöm í þessari upplýsingagjöf í íslensku Kauphöllinni. Það vantaði svo sem sjaldnast upp á það að umræddum skjölum væri skilað (þó þess séu dæmi, einkum eftir Hrun), en þau sögðu bara ekki alla söguna. Reyndar má segja að þau hafi oft sagt bara einhverja allt aðra sögu – sögu af einhverjum félögum sem aldrei voru til nema í hugum eigendanna og þeirra sem sáu um “upplýsinga”-gjöfina:
- Flókið net krosseignatengsla kom í veg fyrir að eignarhald á félögunum væri ljóst;
- Stórlega ýktar “óefnislegar eignir” og “viðskiptavild” (sem reyndar eru hvort tveggja hugtök sem eiga fullan rétt á sér ef rétt er með farið) komu í veg fyrir að nokkuð væri hæft í efnahagsreikningum fyrirtækjanna;
- Sýndarviðskipti – oft með lánum frá félögunum sjálfum – héldu uppi falsaðri eftirspurn eftir bréfum og þar með verði þeirra; og
- Tap af óvarlegum viðskiptum var falið með því að selja “eitraðar eignir” inn í nýstofnuð dótturfélög sem áttu svo jafnvel ekkert annað.
- Endurskoðendur félaganna kvittuðu upp á allt saman með glöðu geði og léðu þessum upplýsingum þar með trúverðugleika.
Þessi listi gæti hæglega verið lengri og lengist reyndar sífellt eftir því sem fleiri kurl koma til grafar.
Allt þetta átti sér stað í Kauphöllinni – þeirri sem nú ætlar að taka þátt í endurreisninni. Þeim til varnar má reyndar segja að það sama hefur að einhverju leiti átt sér stað í kauphöllum úti um allan heim, en það þýðir ekki að við eigum bara að endurvekja sama kerfið. Það partý er búið og ef það verður aftur veisla, verður hún á allt öðrum forsendum, með öðrum boðslista og mun hófstilltari skemmtiatriðum.
Við eigum ekki að sætta okkur við óbreytt fyrirkomulag. Ef við ætlum að virkja kosti hlutafélagaformsins aftur til fulls þarf nýja hugsun og nýjar reglur.
Annan október í fyrra, þegar hamfarirnar voru varla byrjaðar, skrifaði ég þessa færslu sem stendur jafnvel enn frekar fyrir sínu nú en þá. Ég held ég noti bara eftirfarandi klausu úr henni til að lýsa því hvert ég er að fara:
Lög um upplýsingagjöf í kauphallarviðskiptum eiga sér meira en aldarlanga sögu og tilgangur þeirra er að markaðsaðilar sitji við sama borð með bestu fáanlegu upplýsingar á hverjum tíma. Á þeim tíma sem lögin eru mótuð, hefur ársfjórðungsleg birting á rekstrartölum líklega verið ansi stíf krafa – jaðrað við það að vera rauntíma upplýsingagjöf með þeirra tíma tækni. Í dag er þessu öðruvísi farið. Það er ekkert sem stoppar kauphallir í að setja kröfur um rauntímaaðgengi að hverju sem þeir kjósa. Já – jafnvel inn í bókhald fyrirtækjanna, sjóðsstreymi þeirra, útistandandi kröfur og eignastöðu.
Þannig gæti fjárfestir, hvort sem hann er að fjárfesta í hlutabréfum, skuldabréfum, eða einhverjum sjóðum, grafið sig niður í minnstu smáatriði fjárfestingar sinnar. Svolítið eins og DataMarket og fjárlögin, nema bara á miklu stærri skala og með miklu meiri nákvæmni.
Ef svona hefði verið, hefðu margir verið búnir að benda á samsetninguna í Sjóði 9 og hversu mikið hékk þar á fáum, tengdum aðilum. Það hefði líka verið búið að grafa í alla undirmálsvafningana og gagnrýna þá. Hrunið stafar af miklu leiti af því að fáir, ef nokkur, hafði tækin til að sjá í gegnum flækjuna sem búið var að spinna í allskyns fjármálagjörningum.
Ég held að þegar þessum hamförum á fjármálamörkuðum lýkur og menn fara að endurskoða leikreglurnar, sé eitthvað á þessa leið líklegt til að verða ofan á. Ekkert annað en fullkomið gegnsæi á öll tiltæk gögn getur aukið tiltrú almennings á þessum mörkuðum aftur.
Warren Buffet fjárfestir aldrei í neinu sem hann skilur ekki. Með rauntímaaðgang í undirliggjandi vef fjármála- og bókhaldskerfa myndu allir hafa tólin til að skilja það sem að baki fjárfestingum þeirra og hópnum sem heild treystandi til að veita markaðsaðilum aðhald með því að rýna í þessar tölur með og beita allskyns greiningar- og birtingartólum til að koma auga á veilurnar í kerfinu.
– – –
Aðrar færslur frá mér (og DataMarket) um tengd málefni:
er eitthvað sem kemur í veg fyrir að “óháðir/nýjir” aðilar stofni nýja kauphöll á íslandi?
Mjög góð pæling. Að hluta gæti þetta snúist um nýja og betri reikningsskilastaðla sem fyrirtæki í Nýju Kauphöllinni skuldbindu sig til að fylgja. Að hluta gæti verið um að ræða sívirka upplýsingagjöf (real-time) þar sem fyrirtækin gerðu lykilupplýsingar úr rekstri sjáanlegar á vef sínum (og Nýju Kauphallarinar) um leið og þær verða til, a.m.k. mánaðarlega og helst jafnóðum.
En það skiptir líka máli varðandi þá reikningsskilastaðla sem fyrir hendi eru í dag, að auka læsi á þá. Fjárfestar (og fjölmiðlafólk) á að vera mjög gagnrýnið á óefnislegar eignir og viðskiptavild í reikningum og líta á það sem rautt viðvörunarljós ef þessir hlutar efnahagsreikningsins nema stórum hluta af eigin fé. Fyrirtækin hafa tilhneigingu til að blása upp þessa liði svo lengi sem markaðurinn lætur þau komast upp með það.
Góður pistill. Ég myndi reyndar líka vilja að nýjum hlutafélagalögum fylgdi kvöð um að raunverulegir eigendur allra hlutaðeigandi félaga séu skýrir, þannig að hlutafélög séu ekki í eigu annarra félaga sem engar upplýsingar fást um
Góður pistill og þörf umræða.
Til að gæta sanngirni, er varla hægt að kenna Kauphöllinni um ef stjórnendum skráðra hlutafélaga tekst að blekkja markaðinn með röngum upplýsingum. Þar er líklega frekar við endurskoðendur og Fjármálaeftirlit að sakast.
Í lögum um Kauphallir og skráningu er farið fram á talsvert mikla upplýsingagjöf til markaðar, ákvæði um meðferð innherjaupplýsinga, flöggun etc og stjórnendur/stjórnir bera fulla ábyrgð skv. þeim lögum. Hér voru þau lög þverbrotin eins og annarstaðar.
Í raun eru þessar kröfur það stífar að aðeins fá íslensk fyrirtæki munu sjá sér fært að uppfylla þau. Enda eru flest íslensk fyrirtæki frekar smá og hafa ekki efni á að framfylgja upplýsingaskyldum skráðra fyrirtækja. Því miður. Ég hef áhyggjur af þessu, því við þurfum að hafa fleiri fyrirtæki á markaði svo almenningur geti eignast annað sparifé en bara bankareikninga.
Svo er líklega sjónarmið að ef aðeins skráð hlutafélög eru skylduð til að upplýsa í rauntíma og með gagnsæjum hætti, þá geti það gagnast óskráðum keppinautum – og þar með latt félög í samkeppni til skráningar.
Pétur Blöndal alþingismaður hefur talað fyrir löggjöf um gagnsæ hlutafélög. Félög sem myndu fara eftir þeim lögum myndu þykja ákjósanlegri en önnur til viðskipta og fjárfestinga. Það er athyglisverð hugmynd.
Nú að lokum má velta því fyrir sér hvort það sé nokkuð vit í því að gæðastimpla sum félög sem “skráð”, eins og gert er með Kauphallarlögum og lögum um skráð félög. Líklega væri bara betra að segja sem minnst um gæðin, leggja áherslu á að fjárfestar treysti engu og kanni málið sjálfir. Fjárfestar myndu þá líklega fremur kaupa í félögum sem væru gagnsæ og opin.
Ef neytendur ákveða að beina viðskiptum sínum frekar til félaga sem eru gagnsæ þá munu félög keppa í því eins og öðru. Það væri allavega gulrót.
Þó það sé ekki hægt að kenna Kauphöllinni um hvernig þetta var á sínum tíma, er það samt vandamál hennar (eða annarra sem vilja verða vettvangur virkra hlutabréfaviðskipta) ef fólk treystir ekki upplýsingunum frá félögunum sem þar koma fram. Kauphöllin ætti því að eiga frumkvæði að því að taka til í þessu með reglum og eftirfylgni umfram það sem hingað til hefur tíðkast.