Allt er æðislegt en enginn er ánægður!

Það kann að virðast fráleitt þegar horft er á venjulegan fréttatíma, en við lifum á tímum mestu velmegunar, öryggis og friðar sem mannkynið hefur nokkurntíman upplifað. Fólk lifir lengur, minna hlutfall mannkyns líður skort og minni líkur eru á að vera myrtur af náunganum eða drepinn í stríði en nokkru sinni fyrr.

Okkar helstu vandamál felast í því að við erum svo mörg og höfum það svo gott að við verðum orðið að fara varlega til að skemma ekki plánetuna sem við búum á og taka með því tækifæri af komandi kynslóðum til að hafa það jafn gott.

Þetta eru staðreyndir. Og þarna í allra efstu þrepunum í lífsgæðastiganum á þessum mestu velmegunartímum frá upphafi erum við Íslendingar.

Já, ennþá!

Lífsgæðin á Íslandi fóru frá því að vera á flestum mælikvörðum eins og Mónakó yfir í að vera á flestum mælikvörðum eins og í Danmörku. Frá ofurallsnægtum til allsnægta – það var nú allt fallið.

Svo tipla allir á tánum og segja að það megi ekki gera lítið úr vandamálum fólksins á Íslandi. Rugl! Það á einmitt að gera lítið úr þeim.

Enginn frasi fer meira í taugarnar á mér um þessar mundir, en að Ísland sé “orðið þriðjaheimsríki”. Þeir sem segja svona hafa svo sannarlega ekki komið til slíkra ríkja. Ég hef heimsótt þau allnokkur og veit því hvað ég er að tala um.

Hefur þú notað plastpoka sem salernisaðstöðu nýlega? Drukkið úr skólpvatninu? Hjá nágrönnunum? Efast um að eiga morgunmat í fyrramálið? Ekki vitað hvort þú þyrftir að yfirgefa heimilið í nótt vegna yfirvofandi árása?

Fæstir setja frið ofarlega á lista yfir forgangsatriði í lífinu sem aldrei hafa upplifað ófrið.

Ef þú hefur þak yfir höfuðið, mat á disknum og rennandi vatn í krananum hefur þú það betra en 5 af hverjum 6 jarðarbúum. Mér er alveg sama hvað hver segir: Á Íslandi búum við svo sannarlega við þannig kerfi að enginn þarf að lifa í ótta við að missa neitt af þessu, jafnvel þó hann missi “aleiguna” eins og það er kallað. Og langflest höfum við það reyndar miklu, miklu betra.

Það versta við Hrunið er að það er orðin ásættanleg hegðun að væla og bera sig illa. Hver er ekki lengur sinnar gæfu smiður, heldur er hin voðalega ógæfa okkar allra einhverjum öðrum að kenna. Alltaf. Öll.

Svo sannarlega var hér fólk sem framdi glæpi, gerðist sekt um vanrækslu og margir eru sekir um alvarlegan dómgreindarbrest. Flest fórum við að einhverju leyti óvarlega.

Já, glæpamönnum þarf að refsa, já, margir mega skammast sín. Engar áhyggjur, það er verið að rannasaka þessi mál og fólk mun fá sína refsingu – þetta tekur allt tíma og einn af kostunum við það að búa ekki í þróunarríki er að við höfum við lög og rétt til að takast á við svona mál. Og jafnvel þó einhverjir sleppi frá dómskerfinu þá veldur það okkur ekki meiri skaða en orðinn er. Þau þurfa aftur á móti að horfast í augu við eigin samvisku og fólkið í kringum sig. Ég ímynda mér að það sé flestu þessu fólki nú þegar ansi erfitt. Margir eiga seint og illa afturkvæmt til Íslands.

Það er rík ástæða fyrir því að hefnigirni, öfund og langrækni eru ekki talin til dyggða. Það eru aftur á móti hugrekki, samkennd og jafnaðargeð.

Það er fráleitt að bera sig saman við og sakna þess sem var á árunum 2006 og 2007. Það var ekki innistæða fyrir því góðæri sem þá var og ástæðan fyrir því að sum okkar upplifðu það að ferðast um eins og kóngar í útlöndum þar sem allt var hræódýrt og önnur okkar töldu sig hafa efni á því að taka lán fyrir alltof stórum húsum, dýrum bílum og jafnvel bara til að lifa hátt var einmitt sama ástæðan og sú sem varð til þess að allt hrundi á hliðina.

“Þá” var ekki raunverulegt. “Núna” er raunverulegt og reyndar standa öll efni til þess að raunveruleikinn verði fljótlega einhvers staðar mitt á milli.

Það er allt í lagi að gráta stundum, en það er ástæða fyrir því að við venjum börnin okkar af því að suða, nöldra og væla. Heil þjóð af vælukjóum er ekki skemmtileg þjóð. Heil þjóð af fólki sem horfir til framtíðar og gerir hluti til að breyta til hins betra og byggja upp er það hins vegar.

Í Hruninu liggja tækifæri – tækifæri til að byggja upp betra samfélag en það sem var og líka betra en það sem er, en það gerist ekki með því að væla – það gerist með því að GERA.

Hættum þessu helvítis væli og förum að gera eitthvað uppbyggilegt.

Uppfært 8. desember, 2013: Þar sem NBC hefur ákveðið að loka á myndbandið hér að ofan á YouTube, þá verðið þið að fara hingað eða hingað eða hingað til að horfa á það.

67 comments

 1. Margir góðir punktar hjá þér, Hjalli. Það gleymist allt of oft að við búum enn við ein bestu lífsskilyrði í heimi, þrátt fyrir hrun. Barlómurinn virkar absúrd í samanburði við þriðja heiminn.

  Það er samt bara þannig að því miður eru margar fjölskyldur hér á landi sem vita ekki hvort að þau eigi morgunmat næsta dag, þak yfir höfuðið, eða geti haldið fjölskyldunni saman. Fólk er búið að vinna hörðum höndum að því að byggja upp og er að sjá það allt hverfa. Það er eitthvað sem er alvarlegur hlutur og mikið álag á fólk og ber að taka alvarlega, þó hér sé hvorki hungursneyð né stríð – og ekki einu sinni mikið atvinnuleysi í alþjóðlegum samanburði. En margir þekkja ekki annan heim en þann sem við búum í hér á Íslandi. Margir eru ekki að höndla það sem fylgir með tilheyrandi skilnuðum og í versta falli sjálfsvígum. Við þurfum að bera virðingu fyrir tilfinningum þessa fólks um leið og við minnum þau á hvað við höfum það samt sem áður gott hér.

  Og myndbandið er gjörsamlega brilliant 🙂

 2. Pingback: Anonymous
 3. Svo satt, þetta er það viðhorf sem ég finn hjá sumum mínum vinum, jafnvel þeim sem sitja í súpunni með sínar skuldir/eignir. “Þetta eru bara peningar” er viðkvæðið. Þetta viðhorf hef ég líka reynt að tileinka mér allt mitt líf.

  Þetta er flott grein sem ég ætla að deila! 🙂

 4. “Ef þú hefur þak yfir höfuðið, mat á disknum og rennandi vatn í krananum hefur þú það betra en 5 af hverjum 6 jarðarbúum.”

  “við lifum á tímum mestu velmegunar, öryggis og friðar sem mannkynið hefur nokkurntíman upplifað”

  Svo þegar þú segir “við”, þá áttu við okkur sem erum þessi einn af hverjum 6 eða hvað?

 5. Ég hef dvalið samtals 9 mán í Afríku. Séð þar stjórnarbyltingu, fljóttamannavandamál fyrir utan daglega fátækt, menntunarleysi, heilsuleysi og jafnvel örbyggð. Hef einnig dvalið í fyrrum lýðveldum Júgóslavíu meðan borgarastríðið var þar, umsátrið um Sarajevo og fleirri voðaverk á alla bóga.

  Svo kemur maður til Íslands. Og ég hef ekki enn séð hvernig fólki dettur í hug að líkja Íslandi saman við þriðjaheimslönd. Bara engan veginn. Og kreppa? Ég er viss um að meðal íbúi Afríku og margra Asíulanda væri alveg til í að búa við okkar kjör þó þau teljist “kreppa” á okkar mælikvarða. Myndi taka okkar kjörum fagnandi.

  Eftir að hafa horft á afleiðingar borgarastyrjalda sem og séð þau bágu kjör sem meirihluti heimsins býr við, fyrir utan ótryggt ástand eins og í löndum þar sem ófriður ríkir, finnst mér stundum við Íslendingar vera furðuleg að velta okkur upp úr vandamálum sem eru í raun bara lúxusvandamál.

  Takk fyrir stórgóða grein, Hjálmar. Það er gott að fá svona eyland af bjartsýni og baráttuhug í þeim hafsjó af bölmóð sem umkringir okkur dags daglega.

 6. Slam!

  Frábær grein, og ekki vanþörf á að hamra svolítið á þessu atriði. Í hinu stóra samhengi hlutanna – munu árin 2008-2011, þegar allt kemur til alls, skipta litlu. Lífsskilyrði hér munu áfram vera öfundsverð miðað við meirihluta heimsins og við munum geta notið þeirra rétt eins og við höfum lengi gert núna.

 7. Þetta er hárrétt hjá þér Hjálmar að Ísland er langt frá því að vera þriðja heims ríki. En samt ekki ef horft er um öxl. Afi minn fæddist í sára fátækt og fékk tveggja vikna grunnskólamenntun. Þetta er ekki svo langt síðan.

  Samanburðurinn er hinsvegar ósanngjarn sama í hvora áttina hann er notaður. Fólk hér getur ekki skilið það að hafa ekki aðgang að vatni frekar en Afríkaninn svefnlausar nætur yfir myntkörfuláni. Þjáningar annars minnka ekki áhyggjur hins.

  Af hverju er allur þessi bölmóður hérna? Gæti það verið útaf því að fólki finnist brestir í samfélagssáttmálanum? Ég er ekki á því að viðbrögð Íslendinga við efnahagshruninu hafi verið over the top, heldur þvert á móti mættu margir af helstu leikendum prísa sig sæla að búa í jafn langlundargeðgóðu samfélagi þar sem þeir geta gengið um óáreittir.

  Louis CK er snillingur!

 8. Bravó! Orð í tíma töluð, vægast sagt. Svartagallsrausið og móðursýkin er á köflum nánast bugandi. Það er enginn að blása þjóðinni kjark í brjóst og minna okkur á það góða sem við höfum; engir leiðtogar sem verðskulda þann titil og enginn að minna okkur á að það er mun fleira sem sameinar okkur en sundrar. Hvenær ætli þessu fari eiginlega að linna?

  Takk fyrir þennan pistil. Ég var nánast farinn að afskrifa þjóðarsálina.

 9. Íslendingar hafa tekið kreppunni með meira æðruleysi, þolinmæði og langlundargeði en nokkur önnur þjóð í heimi hefði gert (nema ef til vill Tíbetar). Auðvitað er fólk sem röflar í heitapottum og á netinu en ég fæ ekki betur séð en að Ísland sé eitt af fáum löndum í Evrópu þar sem engin stór verkföll hafa farið fram þrátt fyrir mikið fall í kaupmætti.

  Hér fer fólk til útlanda til að vinna eða stofnar eigin fyrirtæki þegar það missir vinnuna, fólk tekur á sig vinnuhlutfallsskerðingar til að vinnufélagar þeirra haldi vinnunni og á þessum tímum heldur Ísland áfram að mælast ein hamingjusamasta þjóð í heimi.

  Við vinnum í því að endurforma stjórnkerfið okkar þar sem það sýndi talsverða galla í hruninu og reynum að halda áherslunni á að jafna högginu af hruninu svo allir standi það af sér. Það gerist ekki síst með því að skipuleggja fólk til samvinnu og sú vinna verður ekki gerð án þess að til smá átaka komi við forréttindastéttir sem verða að taka stóran hluta höggsins ef vel á að fara. En við höfum haldið baráttunni nokkuð ofbeldislausri og sett fram hóflegar kröfur, sem við höfum alla möguleika á að ná í gegn.

  Ástæða þess að hér er gott að búa er að Íslendingar eru dugleg þjóð og seinþreitt til vandræða en henni þykir gaman að þusa soldið af og til. Þeir sem verða fyrir þrasi á internetinu geta hinsvegar engum kennt um nema sjálfum sér. Lang stærsti hluti samfélagsins er að taka þátt í byggingu betra samfélags.

 10. Þegar litið er til hinnar stjarnfræðilegu skuldasöfnunar íslenskra heimila á síðustu árum felst kraftaverkið í raun í því að ástandið skuli ekki vera miklu skelfilegra en það þó er.

  Þú hendir kannski upp samanburði á Íslandi í þessu efni við nokkur nágrannalönd?

 11. Góð og tímabær grein. Og góð athugasemdin hans Daða (September 29, 2010 at 23:30).

  Eins og hann segir “Þjáningar annars minnka ekki áhyggjur hins”. Hins vegar höfum við öll gott af því að setja hlutina í samhengi og þakka meira fyrir það sem við þó höfum, sem er ansi margt.

  Daði segir líka réttilega að mínu mati “Af hverju er allur þessi bölmóður hérna? Gæti það verið útaf því að fólki finnist brestir í samfélagssáttmálanum? Ég er ekki á því að viðbrögð Íslendinga við efnahagshruninu hafi verið over the top, heldur þvert á móti mættu margir af helstu leikendum prísa sig sæla að búa í jafn langlundargeðgóðu samfélagi.”

 12. Greinin er vel meint en ég er algjörlega ósammála. Það er verið að taka hluta þjóðarinnar í görnina og síðasta hneisan var dómur Hæstaréttar um okurvexti á bílalán og dómur héraðsdóms um sömu okurvexti á húsnæðislán. Að stofna einhvern kór um að hér sé allt í lukkunnar vel standi er ekki viðeigandi. Óréttlæti er óréttlæti og fólk hefur allan rétt á að tjá sig um það og berjast fyrir betri rétt. Það er auðvelt fyrir þá sem hafa vinnu að sussa á atvinnulausa um að hætta að væla. Það er auðvelt fyrir þá sem fá fín laun að horfa niður nef sér á fólk í biðröð eftir mat og segja “þau geta sjálfum sér um kennt”. Þetta er kallað afneitun. Grein Hjálmars er innlegg í afneitun landans. Við skulum skoða málið í mars eða svo og sjá hvar menn standa þá. Á næstu mánuðum fer í hönd kerfisbundin sundrun samfélagsins. Því hefur verið beint inn á braut sjálfseyðingar. Viðnám þess gegn arðrænandi vörgum mun lækka. Sjáið hvað er að gerast á Suðurnesjum. Fólkið grátbiður um Álver. Engu máli skiptir að orkan er ekki til fyrir álverið. Engu máli skiptir að orkan yrði nánast gefin. Engu máli skiptir að öðrum verkefnum verður rutt af borðinu fyrir álverið. Skynsemin ræður ekki för. Hungrið ræður för. Stjórnmálamenn gera málin enn verri með því að neita fólkinu um aðrar úrlausnir á atvinnuvandanum. Það er ekkert nógu gott fyrir þá. Ég vil standa með mínum gömlu sveitungum, ég vil ekki sjá þá arðrænda af fjölþjóðafyrirtæki.

 13. Mjög gott innlegg!
  Það er mér óskiljanlegt að svo margir taki þessu á þann veg að ekki megi gagnrýna eða kvarta … ég sé ekki betur en að Hjálmar sé einfaldlega að mælast til að fólk tóni niður móðursýki, bölmóð og gífuryrði þar sem velmegun hér er enn ein sú mesta í heimi og horfurnar alls ekki slæmar.
  Hafandi sagt það, þá kom Daði inn á góðan punkt hér að ofan – hamingjan er að vissu leyti afstæð – ég hef líka líka ferðast um mörg ríki þriðja heimsins og mín reynsla var sú að fólk var almennt ekkert ósáttara þar heldur en hér. Upplifun okkar miðast við eigið samfélag – ef misskipting eykst skyndilega þá eykst hætta á siðrofi í samfélaginu og slíkt ástand ýtir undir óhamingju alveg burtséð frá hagstæðum samanburði við ríki þriðja heimsins.

 14. Frábær grein, gæti ekki verið meira sammála, kominn tími til að hætta þessu væli gott fólk og byrja að leita lausna

 15. Svo má böl bæta að benda á annað verra.

  Ég man ekki eftir því að hafa upplifað mónakóstandard og ég sé ekki hvað er eðlilegt eða ásættanlegt við fjórðung eða þriðjung af danmerkurkaupmætti. Eru Íslendingar virkilega svo miklu ónýtari til vinnu en frændur okkar á meginlandinu eða getur e.t.v. verið að alþýðan hérna hafi verið rænd af mónakóliðinu?

  Það er ekkert mál að þegja og vera alsæll ef maður á til hnífs og skeiðar og hefur ekki snefil af réttlætiskennd.

 16. Frábær grein! Hef sjálfur mikið velt vöngum yfir þessu máli og jafnframt verið að leita að orðum til að útskýra þessar hugsanir mínar. Nú þarf ég þess sko ekki. Þessi grein segir allt sem segja þarf!

 17. Hér – og víðar – hafa ýmis ummæli fallið um þessa grein. Mörg efnisleg og góð og alls ekki allir sammála mér, enda var það ekki tilgangurinn. Önnur vanhugsuð og röng, eins og gengur.

  Ég hef tekið þann pól í hæðina að eltast ekki við einstakar athugasemdir í þetta sinn, heldur halda mig við þann almenna útgangspunkt sem ég ætlaði mér að koma til skila.

  Þess vegna ætla ég bara að gera tvær almennar athugasemdir:

  * Í hugum sumra virðist ekki mega benda á að þeir hafi það gott ef tekið er tillit til aðstæðna annarra í heiminum. Þetta kristallast í málsháttum eins og “Svo má böl bæta að benda á annað verra.” En er þá ekki jafn rangt að benda á að einhver hafi það betra en maður sjálfur? Eða að maður hafi einu sinni haft það betra og hafi það nú “skítt” miðað við það? Böl batnar einmitt við það að sjá annað verra: Þegar við mætum einfættum manni hættum við að kveinka okkur yfir snúnum ökkla – ekki satt? Ekki mikil reisn yfir öðru.

  * Hitt er að með þessu sé ég að halda því fram að við eigum bara öll að “halda kjafti og vera sæt”. Að inntakið sé á einhvern hátt það að við eigum bara að láta hlutina yfir okkur ganga möglunarlaust. Ekkert er fjarri sanni. Partur af því að byggja hér upp er einmitt að hér skapist hefð fyrir málefnalegri gagnrýni og aðhaldi. Við eigum að hvetja til þess – en það er stór munur á því og barlómi og væli.

 18. Frábær grein.

  Ég held að fjölmiðlar ættu að hugsa sinn gang. Þeir hafa úrslitaáhrif á svartsýnina sem ríkir í landinu og ættu að skammast sín að ala á ótta og hefnigirni meðal manna.

  Við ættum að krefjast jákvæðnikvóta uppá 50% allavega hjá RUV. Annað er fáránlegt.

 19. Sæll Hjalli og takk fyrir þessi skrif.

  Ég hef ferðast víðast hvar um Suður-Ameríku (sem ég er ekki viss um hvort kallazt 3. heimurinn, en hann er alla vega 2,5. heimurinn) og þar þótti það ekkert tiltökumál að ganga kílómetrum saman til að ná í nauðsynjar. Sums staðar var líka vatnsskortur, sem við Íslingar þurfum aldrei að kljást við.

  Skv. mínu sjónarhorni höfum við lítið ef nokkuð að kvarta yfir.

  Kveðjur, Sigurjón V.

 20. Vá hvað ég vildi hafa skrifað þetta….en ég gerði það ekki….það gerðir þú hinsvegar og ég er afar þakklát – flottflott. Móðins Lilja, sem allir vildu hafa kveðið.

 21. Kærar þakkir fyrir afar hressandi grein! Umræðurnar sem fylgdu voru mér líka gagnlegur lestur. Ég bý tímabundið í Svíþjóð og þarf því að nýta mér netheima til að hafa fingurinn á púlsi þjóðarsálar okkar.

  Ég get ekki ímyndað mér hversu erfitt það er að eiga ekki til hnífs og skeiðar og því get ég ekki gagnrýnt þá landa mína sem eru í þeim sporum. Ástæðan fyrir því að ég borða reglulega ( og alveg ágætlega) þrátt fyrir að vera einstæð móðir í langtímanámi er að ég hef aðgang að hinu upprunalega (og nú líklega lummó) stuðningsneti sem kallast stórfjölskylda. Við hjálpum hvort öðru, og smáfuglum sem finnast á leiðinni.

  Foreldrar mínir búa í einbýlishúsi á góðum stað í bænum. Húsið þeirra hefur verið fullskipað hinum ýmsu fjölskyldumeðlimum sem lent hafa í fjárhagserfiðleikum. Þegar einhver fær íbúð, virðist einhvern annan vanta samastað. Mikið er ég þakklát fyrir þá samkennd, örlæti og góðmennsku sem við öll sýnum hvert öðru. Þegar margir eru í mat þá er bara bætt vatni í súpuna og slegið upp veislu.

  Foreldrar mínir muna nefnilega (rétt svo) hvernig það var að vera bara nýlenda í eigu Dana. Þeirra gildi snúast ekki um kjánastaðla Amerískra bíómynda.

  Ég hef séð mýmörg dæmi þess að samkennd skapar hamingju. Ísland sem þjóðfélag hefir alltaf búið að þessari samkennd, vegna smæðar okkar og einangrun frá öðrum þjóðum. Því eru greinar sem þessi hér að ofan mögnuð áminning um að týna ekki samkennd okkar á kostnað barlóms. Hvað með það þótt við eignumst bara aldrei jeppann, flatskjáinn eða sumarhúsið? Bætum bara vatni í súpuna og sláum upp veislu.

  Eða, eins og gömul vísa segir sem samin var þegar Íslendingar þekktu ekki annað en erfiðleika:

  Við skulum ekki víla hót
  Það varla léttir trega
  það er þó ávalt búningsbót
  að bera sig karl (eða kven-) mannlega!

 22. Ég hef nú einmitt ekki orðið mikið vör við barlóm eða væl. Það hefur verið áberandi hvað allir virðast vera ákveðnir að halda höfði og halda áfram. Það er verið að safna fyrir fólkið í Afríku og ýmsu öðru meira að segja. En fólk er óánægt, það er allt annað en væll og ekki óeðlilegt.

 23. Meistaralega skrifað. Ekvað sem ég hef verið að reyna halda fram í þó nokkurn tíma þar sem maður hefur at heima í öðrum löndum, og útgafa “fatæktar” á íslandi er frekar mild útgafa miðað við það sem sést annar staðar. En við því segir folk bara “bull og vitleysa,” þetta er alt hræðilegt hérna.

  Svo er alt mórandi í kringluni um helgar — þvílik kreppa.

 24. Hef ferðast um heiminn og séð ALVÖRU fátækt.

  Hef einnig gagnrýnt þegar menn kvarta undan því að hafa fengið stöðumælasekt eftir að hafa lagt ólöglega þegar þeir sækja mataraðstoðina, ef fátæktin væri sönn, þá væri bíllinn ekki til staðar!

  Það eru hreinar línur að það eru aðilar á Íslandi sem hafa það mjög skítt og miðað við náungann eru þessir aðilar fátækir.

  Eina sanna fátæktin sem ég sé á Íslandi er andleg fátækt, en ég veit að ég sé ekki allt og vel má vera að einhverjir séu veraldlega fátækir. Við höfum séð dæmi um það í fjölmiðlum þegar farið er yfir fátæktina hjá fólki kemur stundum í ljós að það hefur mun hærri ráðstöfunartekjur en stór hluti af vinnandi fólki.

  Gott myndband 😉

 25. Er þá ekki helvíti góð hugmynd að hjálpa fólkinu á íslandi sem er búið að missa heimilið, sefur í bílunum sínum og þurfa að horfa á börnin sín fara svöng í rúmið dag eftir dag, eldra fólkið sem hefur ekki efni á ummönnun af því það hefur ekki efni á því þar sem ríkið tekur skatt af ellilífeyrinum… áður en það kemur að þessum pakka. “Hefur þú notað plastpoka sem salernisaðstöðu nýlega? Drukkið úr skólpvatninu? Hjá nágrönnunum? Efast um að eiga morgunmat í fyrramálið? Ekki vitað hvort þú þyrftir að yfirgefa heimilið í nótt vegna yfirvofandi árása?” ég vill ekki hugsa þá hugsun til enda. Þú ræður bara allt fólkið í vinnu hjá Datamarket, þá vonandi hættir það að væla.

  1. Það er frábær hugmynd að hjálpa þeim – enda höfum við sem betur fer ágætt félagslegt kerfi sem kemur til móts við flesta sem lenda í hvers kyns skakkaföllum. Alls ekki gallalaust og ber að gagnrýna og bæta í sífellu, en þetta er einn af kostunum við það að búa í samfélagi með trausta innviði.

   Annar af kostunum er sá að samfélagið býður upp á og fólk getur leyft sér þá áhættu sem er fólgin í því að láta reyna á tækifæri sem það þykist sjá upp á eigin spýtur, t.d. með stofnun fyrirtækja. Þannig þarf enginn að “ráða allt fólkið”, heldur verður til fjölbreytt flóra starfa sem nýtast sem flestum.

 26. mjog gott hjá þer
  sjálfur búinn að vera í svo kölluðum “3 heims löndum”
  og ja, hef drullað í poka 🙂 þar sem engin salernis aðstaða var til staðar
  og kynnst fullt af folki sem átti ekki fyrir mat

 27. Þetta er frábær greining á ástandinu. Ég er orðinn svo þreyttur á þessu að ég íhuga iðulega að flýja land eingöngu af þessum ástæðum.

  Hagsmunasamtök heimilanna fara fremst í flokki vælukjóanna. Lýðskrumararnir á þingi, einkum Lilja Mósesdóttir og Þór Saari, hvetja stöðugt vælukjóana og bera því mikla ábyrgð á ástandinu.

  Það getur þó verið að það sé ástæða til að koma fámennum hópi til hjálpar. En að menn skuli enn vera að krefjast almennra niðurfellinga lána er með ólíkindum.

  Verst er þegar aðrir þingmenn eru að taka undir svona kröfur eins og Helgi Hjörvar nýlega.

 28. málið er ekki hvað við höfum það slæmt, málið er það að við gætum haft það svo frábært.

  og það er alveg satt að þó nokkur mörg heimili hafa farið án matar, meðal annars mitt. þó nokkuð oft.

  það gæti verið paradís, hérna , fyrir alla.

  gallinn er bara sá , hve mikill verðmunur er á fólki.

  þessi gerir þetta og fær milljón, þessi gerir mun erfiðara jobb og fær hundraðkall.

  þjóðin er pýramídi, og öllu var til kastað til að bjarga toppinum á pýramídanum, en án miðjunnar og botnsins er toppurinn ekkert nema Lítill pýramídi, í raun ófær um að sjá um sig sjálfur eða afkasta neinu sem að gagni kemur fyrir pýramídann allan.

  það gætu allir haft það svo gott hérna og það vita það allir, í samanburði við það, höfum við það ferlega skítt, sumir eru að taka hreinlega allt.

  við gætum haft það svo gott, deila jafnt og átt samt nóg eftir til að fara og hjálpa þriðjaheimsríkjunum.

 29. Mikið rétt og satt.

  Íslendingar gráta gróðærið þar sem þeir fengu allt fyrir ekkert. Nú vill fólk ekki borga fyrir skuldirnar: húsin, bílana, sumarbústaðina o.s.frv.

  Flest af þessu fólki (og fyrirtækjum) sem hæst vælir hefði farið á hausinn þó hér hefi ekkert hrun orðið. Skuldastaða þess var bara þannig. Nú vill þetta sama fólk halda eignunum sem það tók að lánum án þess að borga og vill að skattborgararnir borgi fyrir þá….og auðvitað eiga þeir að halda sínum “stolnu” eignum.

  Íslendinga þjást af króniskri græðgi, frekju og eigingirni og eiga allt þetta rugl sem á þeim dynur nú fullkomlega skilið og er engin vorkunn.
  Wake the fuck up and deal with it.

 30. Þeir sem ekki segjast eiga til hnífs og skeiðar eru einfaldlega að gengisfella sjálfa sig og þá sem eiga raunverulega bágt. Það er bara bull. Það sveltur enginn á Íslandi og hefur ekki gert síðan fyrir seinni heimsstyrjöld. Þeir sem segjast gera það velja þá þann lífsstíl.

  En það að fólk væli og gráti yfir því að geta ekki lifað lengur í 2007 fake lúxus er ekkert til að hafa áhyggjur af, er bara vandamál þessa fólks og það þarf fyrr eða síðar að lenda á jörðinni…og það harkalega.

  Danir, svíar og norðmenn hafa ekki lifað langt um efni fram líkt og íslendingar og skilja hreinlega ekki hvað er að íslendingum. Sama hér.

 31. mikil thörf á thessari umrædu!!!! ég hef verid ad undra mig mikid á skrifum kunningja minna á facebook sem einn daginn tala um nýjar mactölvur, nýja odder barnavagna, utandlandsferdir og jafnvel fleiri hundur thúsund króna pottasett og thann næsta tala um fátækt og kreppu og ad madur geti nú ekkert leyft sér lengur! …held ad fólk ætti adeins ad kynna sér adstædur í ödrum löndum og endurskoda hugsunarhátt sinn….

 32. lol, mactölvur og nýja odder barnavagna.

  var nú fólk í dv um daginn sem missti allt sitt þökk því að hafa skrifað undir fyrir einhvern og þarf að lifa á 140 þús á mánuði (2 saman)

  það fólk segist ekki hafa efni á mat.

  persónulega er ég öryrki og þökk sé því að hve dýrt hefur verið að koma konunni minni til landsins, hef ég soltið stundum (það þurfti að borga flugmiða og fleira, þurfti að fara út til að giftast henni, múta embættismönnum, taka lán hér heima , því að sem öryrki taldist ég ekki nógu ríkur til að fá að eiga konu af erlendu bergi (tók lán hjá ættingjum til að hækka fjárhaginn (lol) en ég fæ 60 þús undir því sem fólk þarf að eiga til að vera gjaldgengt frá ríkinu séð (lækkaði svo launin við að giftast í þokkabót, þurfti að fá hærra lán)

  að giftast konunni minni er nokkuð sem ég sé aldrei eftir, besta kona sem ég hef kynnst, en sem dæmi.

  ef ég ætti bíl, þá reiknast mér út að ég hefði soltið jafn oft.

  og ég SKULDA EKKI KRÓNU og KAUPI ALDREI NEITT; NEMA MAT.

  veit ekki hvaða fávita þið eruð að tala um, kaupandi dýrar merkjavörur og vælandi um fátækt, en það er greinilegt að þið eruð bara í “toppliðinu” á landinu og eruð með hausinn svoldið í sandnum.

  en eftir að hafa séð síðustu svör hér, nenni ég nú ekki að taka meiri þátt í þessari umræðu..

 33. Snilldargrein Hjalli, þú verður að fara varlega á þessum tímum samt áður en slagorðið ‘Hjalli á Bessastaði’ fer að dreifast um netheima:)

 34. Það eru ekki þeir sem hafa alltaf lifað spart og þurft að borða naglasúpur í kvöldmat sem kvarta mest, heldur þeir sem lifðu hátt og hafa nú ekki lengur efni á því. Fréttafólk eltist við þessa vælukjóa því það veit ekki betur. Það er margt annað í fréttum en fólk sem tók of mikla áhættu og tapaði. Sumir þurfa að læra að efnisleg gæði færa þeim ekki hamingju og það tekur bara sinn tíma. Við hin sinnum bara okkar á meðan.

 35. “Í Hruninu liggja tækifæri – tækifæri til að byggja upp betra samfélag en það sem var og líka betra en það sem er, en það gerist ekki með því að væla – það gerist með því að GERA.” …

  sem er einmitt það sem ég vil svo gjarnan fá að gera, byggja upp á nýjan leik betra og sanngjarnara samfélag, heilbrigðara hagkerfi fyrir okkur öll – til þess að síkt geti orðið er þó nauðsynlegt að gera ákveðið uppgjör við fortíðina og láta þá sem bera ábyrgð axla hana, fara að lögum landsins og varðveita samfélagssáttmálann – öðruvísi er erfitt að halda áfram og byggja upp eitthvað betra.

 36. Hjálmar, ég ætla rétt að vona að þú eigir ekki við að það sé væl að fara fram á að lögum í landinu sé framfylgt og að stórfyrirtæki á við bankana þurfi þess líka? Ég vona líka að þú teljir það ekki vera væl að fara fram á að aðilar sem brutu lögin og hefur verið sannað – að þeir axli ábyrgðina og beri kostnaðinn sem af því hlýst?

 37. Þú verður að átta þig á því að væl er einmitt grundvallar atriði í lýðræðisríki. Ef eitthvað er ekki eins og það á að vera, á fólk að væla eins og það getur, og þegar nógu margir væla saman skilar það oftast einhvejrum breytingum.

  Ég er það ungur að ég kom ekki sérlega illa útur kreppunni, en þekki fullt af fólki sem hefur mist mikið af sýnum eignum. Ekki einhverja risa jeppa eða lúxus íbúðir . Þau tóku bara venjulegt lán eins og kerfið okkar krefur okkur um, hver á efni á íbúð án láns? Þau sitja nú hlekkjuð við lánið og komast hvor lönd né strönd og þurfa vinna það sem eftir er dælandi peningum sínum í þetta svarthol.

  Svona á þetta ekki að vera en þetta gerðist vegna kæruleysis eftirlitsaðila og stjórnvalda en þeir komu ekki í veg fyrir gervihagkerfið sem myndaðist en ekki er hægt að ætlast að meðaljóninn átti sig á öllu hagfræðiruglinu.

  Þarna er eitthvað mikið AÐ og þá VÆLIR fólk. Sem betur fer.

  Að bera sig saman við eitthvað land þar sem allt er í hönki með það fyrir stefnu að núllgilda allt sem miður hefur farið á Íslandi er vægast sagt ódýrt.

  -Bankastarfsmaður: Ég ætla taka 60 fm íbúðina þína og þú skuldar mér enn fullt af pening, þrátt fyrir að þú hafi bara tekið lán fyrir hluta af íbúðinni í upphafi.
  -Meðaljón: En, en…mér finnst það ekki sanngjarnt, svona miðað við allt= sem sagt eitthvað væl
  -Bankastarfsmaður: Veist þú hvað fólk hefur það skítt í Sómalíu? Þú hefur nú hreint vatn er þaðiggi? svona sjú sjú.

 38. Kannski benda þér á það að já, sumir hér á landi eiga ekki fyrir morgunmatnum sínum. Skammastu þín!

  1. Ok, eigum við þá ekki að GERA eitthvað í því? Hvar finnum við þetta fólk og hvað þarf að gera til að hjálpa því? Hvað leggurðu til?

   …og nei, ég skammast mín ekkert fyrir að setja hlutina í samhengi og hvetja fólk til að GERA frekar en kvarta. Þarna er t.d. vandamál sem klárlega er hægt að gera eitthvað í, ekki satt?

Leave a Reply to svenni Cancel reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s