Orka – lykill alls

Þetta er fyrsta færslan í röð hugleiðinga um orku- og auðlindamál sem ég er að grúska í um þessar mundir.

– –

Án orku gerist ekkert. Öll heimsins auðævi myndu ekki skila neinu ef ekki væri hægt að knýja eitthvað, færa eitthvað úr stað, byggja eitthvað, fara eitthvert. Með öðrum orðum: framkvæma einhverja vinnu. Reyndar er hægt að rekja allan kostnað, allt sem við kaupum til þess að einhver, einhversstaðar notaði orku, til dæmis til að breyta einhverju í eitthvað annað, eða færa eitthvað úr stað. Þetta er býsna áhugaverður punktur sem gefur t.d. hugmyndum um gjaldmiðla á “orkufæti” mjög aukna vigt. Við komum kannski aftur að því síðar.

Hvaðan kemur orkan?

Við höfum öll heyrt þetta: Öll orka á jörðinni kemur frá sólinni. Undantekningarnar eru (eiginlega) bara tvær: Kjarnorka og jarðhiti. Að auki má reyndar rekja sjávarfallaorku meira til áhrifa tunglsins en sólarinnar. Ekkert af þessu skiptir sem stendur verulegu máli í orkumálum heimsbygðarinnar. Kjarnorka er reyndar notuð til að framleiða um 13,6% af raforku heimsins, en jarðhitaorka kemst varla á blað í raforkubúskap heimsins. Hvað þá sjávarfallaorkan. Alla aðra orkugjafa sem við notum má rekja til sólarinnar: lífmassa (eldivið og annað lífrænt eldsneyti), jarðefnaeldsneyti (olía, gas og kol), vatnsorku, vindorku og augljóslega sólarorku. Þessa orku notkum við svo til að knýja öll okkar tæki og tól, hita húsin okkar, elda matinn og svo framvegis.

Miklu af orkunni sem við framleiðum er breytt í rafmagn, enda er rafmagnið þægilegur og fjölhæfur flutnings- og umbreytingarmiðill fyrir orku. Rafmagn er hins vegar mjög erfitt að geyma, nema þá í mjög litlu magni og því þarf að framleiða það jafnóðum og þess er neytt. Þetta gerir það að verkum að orkugjafar eru mjög mishentugir til að framleiða raforku. Þannig getum við t.d. geymt kolaorku (sem kol) eða vatnsfallsorku (sem vatn í lóni), en ekki vindorku eða sjávarfallaorku, sem þarf að grípa þegar hún gefst. Raforku er líka erfitt að flytja um langan veg þar sem orkutap er verulegt þegar flytja þarf orkuna um lengri veg. Raforkan er því ekki aðeins tímabundin, heldur er hún líka staðbundin og þar komum við reyndar að mjög mikilvægum punkti.

Staðbundin orka vs. færanleg

Það er gríðarlega mikið til af orkugjöfum sem hægt væri að virkja með einum eða öðrum hætti. Vindorka og sjávarfallaorka er nánast ótakmörkuð, svo ekki sé talað um sólarorkuna. Það væri t.d. hægt að framleiða alla þá orku sem heimsbyggðin notar í dag með tiltölulega “litlum” bletti af sólarspeglum (rétt um 366þús km2) ef við hefðum tæknina til að flytja og nýta þá orku hvar sem er í heiminum. Svipaða sögu er að segja um aðra orkugjafa. Ókosturinn er bara sá að flestar þessar stóru orkulindir eru fjarri mannabyggðum. Staðir þar sem er stöðugt sólskin eða endalaust hvassviðri eru almennt slæmir til búsetu. Þess vegna er stundum talað um “strandaða” orku. Nóg af henni, en hún er á afviknum stað sem gerir hana illnýtanlega. Það sama er reyndar að segja um stærstu uppsprettur jarðefnaeldsneytis. Flest stærstu olíu-, gas- og kolasvæði heims eru í eyðimörkum, frumskógum eða heimskautasvæðum og fjarri þéttustu byggðum jarðarinnar. Gas er til í gríðarlegu magni, en er erfitt að flytja. Það er því hálf-strandað líka, þó það sé flutt í verulegu magni eftir leiðslum í Evrópu, í N-Ameríku og í Asíu. Reyndar er gas víða brennt þar sem það kemur upp, t.d. við olíuvinnslu þar sem ekki eru tök á að virkja það eða leggja leiðslur að (þess má reyndar geta að þessi bruni er illskárri en að láta gasið fara óbrunnið út í andrúmsloftið með tilliti til mengunar og losunar gróðurhúsalofttegunda).

Kol eru til í enn meira magni – miklu meira en við gætum klárað í fyrirsjánlegri framtíð. Þau má flytja – en “orkuþéttnin” í þeim er ekki mjög mikil, þ.e. úr hverju tonni af kolum fæst miklu minni orka en úr sama magni af t.d. olíu. Það er því óhagkvæmt að flytja kol um langan veg, þó það sé gert í miklum mæli t.d. innan einstakra landa.

Olían er einstök

Allt þetta gerir það að verkum að olían er algerlega einstök. Fljótandi formið gerir hana meðfærilega og orkuþéttnin gerir það að verkum að það er hagkvæmt að sigla henni yfir hálfan hnöttinn og brenna hana þar. Orkuþéttnin gerir það líka að verkum að hún er nánast eini orkugjafinn sem er nothæfur til að knýja farartæki. Undantekningin er í lestarflutningum þar sem menn hafa notað raforku með góðum árangri og nú hillir loks undir það að rafbílar geti orðið samkeppnishæfir við bíla sem knúnir eru með olíu. En þar koma þó inn önnur atriði sem við munum skoða betur í málma- og jarðefnafærslunni. Engar raunhæfar tillögur eru þó á borðinu um staðgengil fyrir olíuna í flugi. Það er aðeins lífefnaeldsneyti (t.d. etanól framleitt úr sykurreyr) sem stenst olíu að einhverju leiti snúning, en það eru margvíslegar hömlur á stórkostlegri framleiðslu á slíku eldsneyti.

Olía er mikilvægasti orkugjafi veraldarinnar og það er lítið útlit fyrir að það sé að breytast í bráð. En það stórt vandamál við olíuna: Hún er að klárast!

Þetta þarf reyndar svolítilla skýringa við. Það er ekki alveg rétt að olían sé að klárast. Það verður hins vegar alltaf erfiðara og erfiðara að vinna hana. Auðunnin olía í heiminum er að klárast. Þess vegna sækja olíufyrirtækin sífellt á erfiðari svæði við olíuvinnslu. Við fengum rækilega áminningu um það þegar sprenging varð undir borpallinum Deepwater Horizon fyrr á þessu ári. Borholan sú er 400 kílómetra frá landi, á 1,2 kílómetra dýpi og þaðan nær hún nærri 11 kílómetra niður í jarðskorpuna. Samtals borað í gegnum 12 kílómetra af efni úti á ballarhafi og til hvers? Jú – til að komast í olíulind sem samsvarar notkun heimsbyggðarinnar á olíu í innan við einn sólarhring! (Macondo borholan var talin geta gefið af sér um 50 milljón tunnur af olíu, heimsnotkun er í kringum 84 milljónir tunna á dag)! Það er hellingur til af svona olíu, en það er líka töluvert fyrir haft. Enn meiri olíu má svo finna í olíusandi og jafnvel olíugrjóti sem finnst t.d. í miklu magni í Kanada, Bandaríkjunum og allvíða í S-Ameríku. Slík vinnsla er gríðarlega orkufrek. Til að vinna þrjú tonn af olíu úr tiltölulega aðgengilegum Kanadískum olíusandi þarf að brenna eitt tonn af olíu. Og smám saman versnar þetta hlutfall.

Það eru líka alvarleg vandamál við þann hluta olíubirgðanna sem þó er auðunninn, en þau eru af allt öðrum toga. Pólitísk. Sádí-Arabía, Íran, Írak, Sameinuðu-Arabísku furstadæmin, Kúvæt, Venesúela, Rússland, Líbýa og Nígería eru ekki endilega lönd sem eru þekkt fyrir pólitískan stöðugleika. Þetta eru þau lönd (í réttri röð) sem ráða yfir stærstum hluta olíubirgða heimsins – reyndar að frátöldu Kanada sem vermir annað sæti listans á eftir Sádunum. Olíunni fylgja auðæfi, auðæfum fylgja völd, völdum fylgir spilling og það er erfitt að sjá fyrir sér hvað hinir háu herrar í þessum löndum munu taka sér fyrir hendur. Eins er áhugavert að velta fyrir sér hvað gerist þegar ríki sér fram á að olían þeirra sé að verða uppurin. Hvenær ákveðurðu að hætta að flytja út og geyma “restina” til eigin nota? Eða til að selja enn dýrar í framtíðinni? Slíkt hefur þegar gerst í Dúbaí, þar sem furstarnir sáu fram á að geta gert meiri og varanlegari verðmæti með því að nota olíuna sjálfir, en með þvi að flytja hana út. Þeir drógu því stórlega úr útflutningi og lögðu áherslu á að nota orkuna í uppbygingu heima fyrir og að auka fjölbreitni í efnahagslífinu. Hvað ef Venesúela kemst að sömu niðurstöðu? Eða Sádí-Arabía? Þá fyrst verður Bandaríski flotinn nú kallaður út!

Og hvað svo?

Allt þetta ber að sama brunni. Langflestum spám ber saman um það að hámarki olíuframleiðslu í heiminum verði náð á næstu 20-30 árum og muni þá fara að dragast saman. Hafi engin stórkostleg ný tækni komið fram á þeim tíma sem geri kleift að nota orku frá öðrum orkugjöfum til flutninga, er ljóst að olíuverð mun þar eftir (og líklega mun fyrr) bara stefna í eina átt – upp. Þetta gildir sömuleiðis um allt sem þarfnast flutninga, sem í tilfelli Íslands er ansi stór hluti af öllu því sem við neytum og notum: allt kemur þetta til með að verða dýrara með hækkandi olíuverði.

Þegar horft er á svartsýnar spár er samt alltaf gott að muna eftir hestaskítskrísunni 1894. Lærdómurinn sem draga má af henni er auðvitað sá að hversu nákvæmlega sem spár eru framreiknaðar, þá verða alltaf óvæntir atburðir sem kollvarpa þeim. Í tilfelli hestaskítsins hætti hann að aukast þegar bílar komu í stað hestvagna.

En jafnvel þó slíkt gerist í tilfelli olíunnar og ný tækni komi fram á þessum tíma sem gæti mætt þessu vandamáli, þá þarf að byggja upp framleiðslugetu, flutningsnet og aðra innviði til að mæta þessari tilfærslu í orkuframleiðslu og -notkun. Þetta er gríðarlegt verkefni, líklega stærsta fjárfestingaverkefni sögunar – og við vitum ekki einu sinni enn þá í hverju á að fjárfesta.

Að ekki sé talað um þann pólitíska óróa sem myndast þegar valdahlutföllin raskast, á hvaða veg svo sem það nú verður. Aðgangur og yfirráð yfir olíuauðlindum skýra ótrúlegustu hluti í sögu 20. aldar, þ.á.m. herfræði og fall Þýskalands í seinni heimstyrjöldinni, afskipti Vesturlanda af málum í miðausturlöndum, hið sérkennilega samband Bandaríkjanna og Sádí-Arabíu og nú síðast kapphlaup og deilur um yfirráð yfir Norðurheimskautssvæðinu. Aðgangur og yfirráð yfir orkuauðlindum munu líklega líka skýra flesta stærstu atburði í sögu 21. aldarinnar.

Þetta verður rússíbani, höldum okkur fast…

5 comments

  1. Fín grein, hlakka til að lesa fleiri pælingar þínar um orkumál. Mikilvægt að horfa á stóru línurnar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s