Ég lauk nýlega við lestur bókarinnar The Information Diet eftir Clay Johnson.
Útgangspunktur bókarinnar er nokkuð snjall. Þar er upplýsingavali okkar og -neyslu – fréttalestri, bókalestri, tölvupósti, samfélagsmiðlum, sjónvarpi og neyslu á öðrum fjölmiðlum – líkt saman við fæðuval okkar og -neyslu. Þar eru að auki færð fyrir því sterk rök að upplýsingaæði okkar flestra sé engu skárra en mataræðið – og þar steðji að engu síðri vandi en offituvandinn. Á meðan venjur okkar í mataræði gera okkur feit gera venjur okkar við upplýsingainntöku okkur fáfróð og þröngsýn. Höfundurinn vill meina að þetta sé að miklu leyti ástæðan fyrir því hversu hörð stjórnmálaátökin eru, hversu óvandaður fréttaflutningur er og hversu vanþroskuð umræða um þjóðfélagsmál sé orðin.
Já, þetta á greinilega við víðar en á Íslandi!
Höfundur líkir slúðurfréttum og öðru óvönduðu léttmeti (“- MYNDIR!”) við skyndibita og sælgæti. Margir eiga erfitt með að standast þessháttar efni og það stendur hollari upplýsingaupptöku fyrir þrifum.
Samfélagsmiðlar og tölvupóstur fá líka sinn sess, en þáttur þeirra er mun flóknari og fellur í raun undir bæði hollustu og ómeti að mati höfundar.
Eftir að hafa útskýrt þessa sýn sína á upplýsingaöldina leggur höfundur af stað til að vopna okkur aðferðafræði, tólum og tækjum til að stunda heilbrigt upplýsingaæði.
Fyrst eru taldir til þeir hæfileikar sem nútímamaðurinn þarf að hafa til að takast á við upplýsingaflæði samtímans:
- Upplýsingaleit: Að vita hvar á að leita góðra upplýsinga og hvernig.
- Síun: Að þekkja góðar upplýsingar frá slæmum og hvað einkennir hvorn flokk um sig.
- Framreiðsla: Að geta komið hugsunum sínum frá sér á skiljanlegan hátt, ekki síst til að ná utan um þær sjálfur.
- Samþætting: Að geta fellt nýfengnar upplýsingar að hugmyndum sínum um heiminn og breytt þeim – já, jafnvel skipt um skoðun!
Því næst er farið í gegnum eins konar tímastjórnun við upplýsingainntöku. Hvernig komum við í veg fyrir að skyndibitinn eða Facebook “sjúgi okkur til sín” og við komum engri annarri neyslu að, eða vinnu frá okkur (mörg vinnum við jú ekki við annað en að sanka að okkur upplýsingum og koma þeim síðan frá okkur á einhvern hátt til annarra). Þarna er að finna nokkrar sniðugar hugmyndir sem hægt er að tileinka sér, en höfundur tekur þó skýrt fram að þetta sé aðeins tiltekin aðferðafræði sem hann hafi komið sér upp og hafi reynst honum vel.
Síðasti hlutinn í sjálfum “mataræðis”-hluta bókarinnar fjallar svo um heilsusamlegt “upplýsingafæði” og þetta var sá hluti bókarinnar sem mér fannst áhugaverðastur. Hér eru þau nokkrir hlutir sem hollt upplýsingafæði samanstendur af að hans mati:
- Ábyrg neysla: Taktu stjórn á upplýsinganeyslunni. Ekki horfa á sjónvarpsdagskrá, horfðu á það sem þú virkilega vilt horfa á: þætti eða bíómyndir á DVD eða í stafrænum þjónustum. Lestu efni sem mælt hefur verið með við þig af fólki sem þú virðir og treystir, ekki það sem er matreitt ofan í þig af dagskrár- eða ritstjórum annarra miðla. Þetta á líka við um tölvupóstinn. Skráðu þig af póstlistum og fástu við þann póst sem virkilega þarfnast athygli, en ekki láta hann taka athyglina frá mikilvægari verkum. Skilgreindu líka tiltekna tíma dagsins í neyslu ákveðinnar gerðar upplýsinga. Klukkutími í bóklestur fyrir svefninn. Tölvupóstur þrisvar á dag, o.s.frv. Með öðrum orðum: Fastir matmálstímar og ekkert snakk á milli mála!
Annar þáttur í þessu og ekki síður mikilvægur: Forðastu mikið unnar upplýsingar rétt eins og mikið unninn mat. Leitastu við að sækja upplýsingar beint til upprunans. Því fleiri skref sem frásögnin eða fréttin hefur verið umskrifuð og umrituð, því meiri upplýsingar hafa tapast og jafnvel rangfærslur eða misskilningur slæðst inn í. Erlendar fréttir í íslenskum miðlum eru oft skýrt dæmi um þetta, sem og fréttir í almennum fjölmiðlum af vísindum. Reynum að rekja okkur til upprunans og lesa frumheimildina frekar en túlkun eða endurtúlkun annarra á henni. Og tökum öðru með fyrirvara.
- Upplýsingar úr næsta nágrenni: Leitastu við að neyta upplýsinga um þitt næsta umhverfi í meira mæli en það sem kemur lengra að. Þetta er ekki bara hugsað landfræðilega heldur líka í efnistökum (þitt sérsvið, áhugamál eða annað). Af hverju? Jú, vegna þess að það er líklegara að þær upplýsingar skipti þig máli, geti haft áhrif á þitt daglega líf og að þú getir á einhvern hátt brugðist við eða gert eitthvað í málunum. Það er líka auðveldara að þekkja bullið eftir því sem maður þekkir viðfangsefnið betur. Hver kannast ekki við að hafa þekkt til í einhverju máli sem hefur orðið fréttamatur og séð að þar er einhverju ábótavant eða farið lauslega með staðreyndir? Það er gott að muna að allar fréttir eru þessu sama marki brenndar. Við bara vitum það ekki af því að við þekkjum ekki til þeirra. Annað efni er svo nauðsynlegt í bland, en ætti að vera stillt í hóf og því tekið með ákveðnum fyrirvara.
- Lágt auglýsingainnihald: Forðastu auglýsingar. Þær eru hannaðar til að ná athygli þinni og trufla þig við það sem þú ert að gera. Þar að auki eru þær hannaðar til að vera gildishlaðnar, en ekki til hlutlausrar upplýsingamiðlunar. Það eru ýmsar leiðir til að draga úr áreiti auglýsinga bæði á vefnum og í öðrum miðlum. Kynntu þér þær og tileinkaðu þér.
- Fjölbreytni og jafnvægi: Leitastu við að neyta fjölbreyttra upplýsinga og mismunandi sjónarmiða. Leitastu sérstaklega við að lesa skoðanir þeirra sem eru ósammála þér og reyna að sjá þeirra flöt á málinu og það frekar en að lesa skrif þeirra sem eru sammála þér. Slíkt efni gerir ekki annað en að fylla þig af, ef til vill, óverðskuldaðri sannfæringu um að þú hafir þegar rétt fyrir þér. Það er betra að brýna skoðanir sínar með rökum þeirra sem eru ósammála þér. Hver veit, kannski ert þú ekki handhafi hins heilaga sannleika eftir allt saman – og sértu það, ertu þá betur í stakk búin(n) til að svara mótrökunum.
Leitastu sömuleiðis við að kynna þér í bland gæðaumfjöllun um hluti sem þú hefur aldrei kynnst áður og fá þannig nýtt efni inn í hugmyndaheim þinn. TED – einhver?
Ég verð að segja að ég er óskaplega hrifinn af þessum pælingum og margt í þessu hljómar eins og frábær tækni til að takast á við óþægilega kunnugleg stef úr íslenskum fjölmiðla- og umræðuheimi.
Þetta er sterkasti hluti bókarinnar, en ég mæli engu að síður eindregið henni allri. Mikið af góðum pælingum og hugmyndum að því hvernig við getum bætt upplýsingaæði okkar og lyft umræðunni á hærra plan. Ekki veitir af!
Takk Hjalli, góður pistill þó að það sé skemmtileg þversögn í lok hans að “ritstýra” og mæla sérstaklega með tilteknum hluta bókarinnar hehe
Þessar vangaveltur smellpassa inn í “endurskoðun lífs míns” sem stendur yfir þessa dagana.
Hvernig sem sú ferð endar er ég þess fullviss að pistlarnir þínir verða áfram hluti þess efnis á netinu sem ég mun áfram njóta að hafa aðgang að.
Áhugavert. Ég er samt ekki sammála því að vera á móti sjónvarpi. Dagskrá RÚV undanfarið hefur verið mjög góð. Menningarþættir eins og Tónspor, Kviksjá og fleira. Fræðsluþættir á mánudagskvöldum og bíómyndir frá þokkalegum upp í góðar. Ég er ekki nógu mikið internetnörd að ég leiti og finni svona gott efni á netinu.
Anna, það er vissulega margt gott sýnt í sjónvarpinu. Það er hins vegar svolítið síðan að ég lét sjónvarpið vera í gangi allt kvöldið, en í staðinn kveiki ég á því ef ég veit af góðum þáttum.
Rétt er það að ég missi af mörgu góðu en ég missi líka af mörgu slæmu og á endanum ákvað ég að það væri betri kostur. Það þýðir t.d. að ég *þarf* að velja mér í hvað ég eyði tímanum, í staðinn fyrir að detta í að horfa á það sem er í gangi. Burtséð frá því þá er til svo mikið af virkilega góðu sjónvarpsefni að það er ekki vinnandi vegur að komast yfir það, sama þótt ég hafi RÚV í gangi allt kvöldið.
Virkilega skemmtilegt og harmonerar skemmtilega með þessum TED fyrirlestri hér: http://www.youtube.com/watch?v=mzZzf6PoyC4
Intteresting read