Af gjaldeyrishöftum, dægurþrasi og sandkassapólitík

Árni Páll Árnason hefur verið að birta yfirvegaðar og skynsamlegar greinar um skaðsemi og leiðir til afnáms gjaldeyrishaftanna undanfarna daga. (Sjá: 1, 2, 3). Þetta er mikilvægasta mál íslensks samtíma. Miklu mikilvægara en flestir gera sér grein fyrir, enda getum við meðalfólkið enn keypt okkar bíla, farið í okkar frí erlendis einu sinni ári og keypt flest alla innflutta vöru. Það mun hins vegar breytast smám saman eins og Árni Páll bendir réttilega á í síðustu greininni.

Það sem er ekki síður hrollvekjandi er að meðan hinir þrír hlutar fjórfrelsisins eru enn óskertir, þá er hætt við að fleira og fleira ungt fólk átti sig á því að möguleikar þeirra eru takmarkaðari en jafnaldra þeirra í nágrannalöndunum. Innan hafta eru ekki sömu möguleikar til að nýta sér tækifæri á markaði, ekki sömu möguleikar til nýsköpunar og ekki sömu möguleikar til fjármögnunar eins og utan þeirra. Og þá gerist eitt af tvennu: Framtakssamasta fólkið flytur af landi brott eða stjórnmálamenn fara að fá hugmyndir um að setja höft á fleira en bara gjaldeyrinn.

“Ókosturinn” við þetta mikilvæga mál er að áhrifin felast í hægfara hnignun frekar en skyndilegu áfalli. Og þá er auðveldara að tala um hundinn Lúkas eða annað dægurþras sem upp kemur í “dellu dagsins”. Málum sem allir hafa skoðun á í 24 tíma en engu skila til framtíðar. Fjölmiðlarnir nærast á slíkum málum, enda ódýrt efni í framleiðslu með mikinn lestur og hægt að endurtaka sama leikinn dag eftir dag. Þeir hafa hins vegar engan hvata til að gera stórum málum skil á hlutlausan hátt með allri þeirri vinnu, rannsóknum og vandvirkni sem til þarf.

Það þarf að vinna hratt að lausnum á gjaldeyrismálunum og þar þarf að snúa við öllum steinum. Upptaka Evru með inngöngu í ESB er eins og Árni Páll og fleiri hafa bent á líklega viðnámsminnsta leiðin, en alls ekki án fórna og þess vegna umdeild – svo mjög að hún gæti verið ófær. Auk þess þarf að skoða fyrir alvöru hvort möguleiki sé á því að taka upp Kanadadollar með aðkomu Kanadamanna (eða Norska krónu með aðkomu Norðmanna). Loks þarf að stilla upp sviðsmyndum af því hvernig hægt væri að blása lífi í krónuna eina ferðina enn og hvaða peningamálastefnu ætti þá að nota til að stýra henni.

Að halda – og halda fram – að aðeins ein leið sé fær og skella sjálfkrafa skollaeyrum við öllum hugmyndum um annað er barnaskapur. Möguleikarnir eru fjölmargir. Viðfangsefnið er að finna þann sem hefur fæsta galla.

Það þarf að fá bestu hagfræðinga og peningamálamenn samtímans til að vega og meta þessa kosti í opnu ferli þar sem jafnframt er lögð áhersla á að útskýra stöðuna, leiðirnar og kosti og galla hverrar um sig á einfaldan og skiljanlegan hátt fyrir almenningi. Jafnframt þarf að tryggja að öllum spurningum og ábendingum sem upp koma sé svarað skýrt og skilmerkilega og þær metnar inn í leiðirnar eftir því sem við á áður en ákvörðun er tekin.

Allt þetta væri gerlegt ef ekki væri fyrir það að svona ferli þyrfti að vera þverpólitískt þar sem þingmennirnir – fulltrúar okkar á Alþingi – þyrftu að átta sig á því að þeir eru SAMAN í liði, að þeirra hlutverk er að vinna SAMANSAMEIGINLEGUM hagsmunum allra landsmanna og í SÁTT um ferlið þó tekist sé á um leiðirnar. Slíkt er nær ómögulegt að sjá fyrir sér og verður reyndar erfiðara og erfiðara eftir því sem Alþingi sekkur dýpra í forarpytti skotgrafanna.

Það er þess vegna ekki hægt að takast á við þennan vanda frekar en svo margan annan vegna þess að sandkassaleikur pólitíkurinnar stendur í veginum. Þar liggur hið raunverulega úrlausnarefni, en engin lausn í sjónmáli.

12 comments

 1. Tek heilshugar undir með þér Hjalli, en lausnin virðist langt undan. Þeir sem ala sterkast á sundrungu í dag og gagnrýni á sitjandi stjórn mælast á sama tíma með yfirburða fylgi í íslenskri pólitík, sem virðist benda til þess að þetta sé það sem fólk vill í “samræðu-hefðinni”.

  Við erum æði mörg hérna úti sem skilgreinumst eflaust nánast eins í pólitík, en erum dreifð á fjölda staða. Hvort sem við erum kölluð hægri krati, húmanískur kapítalisti, social demókrati, markaðs- og félagshyggjufólk eða annað í þeim dúr, erum við í raun 90% sammála um leiðir. Ferleg synd að við skulum ekki vera sammála um að vera samferða þangað 😦

 2. “Gera eitthvað vegna haftanna? Ertu crazy? Ef eitthvað verður gert til að afnema höftin þá fer allt til fjandans og fjölskyldur þessa lands verða gjaldþrota!” – Þetta eru svörin þegar ég reyni að ræða þessi mál við stjórnmálamenn. Vonandi er Árni Páll búinn að átta sig á því að með svona umræðu náum við ekki að vinna okkur út úr höftunum. Stærsta vandamálið við höftin er þekkingaleysi þeirra aðila sem eiga að vera að vinna okkur úr þeim. Margir þingmenn hafa viðurkennt að hafa ekki lesið umsagnir eða sjálf lögin um gjaldeyrishöftin, meira að segja þeir sem greiddu þeim atkvæði sitt. Það er vandamálið. Vonandi mun aukin umræða neyða þingmenn til að kynna sér um hvað gjaldeyrishöftin snúast í raun og veru.

 3. Sæll.
  Þessi grein er ágæt. Þó gott dæmi um það sem þú ert að gagnrýna.
  Heilmikill sannleikur, en svo má böl bæta og benda á eitthvað annað.
  Minntu mig á að kjósa þig ekki aftur.

   1. Hugsa að hann hafi ruglast á þér og framsóknarmanninum Hjálmari Gíslasyni! 🙂

   2. Þarna varð mér á í messunni og tengdi þig við annann Hjalla. Bið þig afsökunar á því. Nafni þinn mætti samt eiga þessa setningu. 🙂
    Hitt stendur þó og var tilefni mitt að svara þessari grein að stundum verður orðagjálfrið að fallegur rými en rýrt að innihaldi. Bestu kveðjur Hjalli.

 4. Hvað með hugmyndir Guðmundar Franklíns um að taka upp íslenskan Ríkisdal og aðgreina gjaldmiðil okkar þannig með skýrum hætti frá aflandskrónunum. Þá væri engin þörf fyrir gjaldeyrishöft önnur en þau sem hvíldu á aflandskrónunum. Aflandskrónueigendum væri boðið að skila þeim inn innan þriggja mánaða fyrir tíund af Ríkisdal og næstu þrjá mánuði þar á eftir fyrir helming af tíund þar til ekki yrði hægt að skipta aflandskrónunum í Ríkisdali hálfu ári síðar.

  1. Heyrði reyndar hugmyndina upphaflega hjá Lilju Mósesdóttur – hún talar ítrekað um skiptigengisleiðina og íslenska nýkrónu.

   Hún skrifar einmitt grein um málefnið aftur í dag í Fréttablaðið, þar sem að hún fjallar um harðindaleið, skuldsetningarleið eða skiptigengisleið út úr vandanum. Í greininni kristallast í raun það sem Hjalli er að fjalla um hérna, það er að það eru ýmsar leiðir færar sem koma að sjálfsögðu mismikið niður á mismunandi hópum, en leiðir eru til. Það næst hins vegar ekki samsstaða um neina eina og eðlilega, þar sem að allir eru að verja tiltekna hópa og hagsmuni.

   Önnur leið sem að ég hef tekið þátt í áður er þá að reyna að skapa samstöðu um nýjan hóp og tala fyrir tiltekinni lausn (nýtt framboð) en það hefur oftar en ekki gefist illa. Nú er hins vegar mögulegt að virðist á mælingum að Lilja og hennar hópur eigi góða möguleika og ég er enn spenntur að sjá hvort að Dögun fái sæmilega mælingu. Samstaða og Dögun eru þó aftur skýrt dæmi um hópa sem eru nánast alfarið sammála en greinir á um einfalda hluti að virðist og leiðtogalöngun skyggir á um leið. Ótti við kverúlanta virðist svo hafa haldið Bjartri Framtíð Guðmundar og Heiðu frá því að geta starfað með hinum tveimur nýju framboðunum, sem og væntanlega “nett” löngun til að eiga og ráða.

   Lausnin er þó áfram sú sama að mínu mati og hefur verið augljósa lausnin undanfarin ár. Það er að berjast áfram og reyna annað hvort að taka hópeflið inn í einhvern núverandi flokka og gera netta hallarbyltingu eða enn og aftur að setjast niður og byrja að byggja nýjan hóp til framtíðar.

 5. Þessi hægfara hnignun vegna gjaldeyrishaftanna minnir mig á þá þá reglu í franskri matargerð að passa sig á því að hita vatnið hægt og rólega þegar þú sýður froskalappir. Ef vatnið er of heitt þegar þú setur froskana út í þá átta þeir sig á hættunni og stökkva uppúr.

   1. Það er gott að þessi myndlíking er röng, froskanna vegna og manna sem búa á Íslandi. Vonandi förum við núna að gera tilraunir til þess að losna við höftin áður en fólk og fyrirtæki fara úr pottinum.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s