Íslenskar rafbækur – bókaútgefendur í tómu rugli

Mynd: The Unquiet LibraryÓfáir Facebook-notendur í mínum kunningjahópi hafa lýst vandræðum við lestur á rafbókum sem þeir hafa keypt eða fengið að gjöf um jólin. Hér er frásögn eins þeirra:

Ég hef átt lesbretti í meira en ár og bæði sótt mér fríar íslenskar rafbækur og keypt bækur á epub-formi hér í Svíþjóð án vandamála. Taldi mig lesa mér sæmilega til á vef Forlagsins áður en ég keypti rafbók hjá þeim. Tókst ekki að setja upp á tölvuna hjá mér lesforrit (ADE) sem þeir benda á og hringdi því í forlagið, sagði frá þessum vanda og spurði jafnframt á hvaða formati bækurnar frá þeim væru. Var sagt að þær væru á epub-formi og ég taldi mér því óhætt að kaupa. Annað kom í ljós, fékk bara tengil sem ekkert forrit getur notað nema þetta ADE sem tölvan mín tekur ekki við. Fékk loforð um endurgreiðslu eftir að hafa náð símleiðis í Forlagið. Vonast til að það standi og þar var svarað í síma á laugardegi svo Forlagið fær smáplús 🙂

Þvínæst fór ég á vef Eymundsson þar sem stóð skýrum stöfum að bækurnar væru epub og bara tekið greinilega fram að þær væru ekki leshæfar í Kindle. Svo ég tók sjensinn og keypti bókina sem ég ætlaði mér. Allt fór á sama veg nema nú náði ég ekki einu sinni símasambandi við Eymundsson þótt þeir gefi upp símanúmer til að leita aðstoðar hjá. [Makinn] náði svo að setja ADE upp á tölvuna sína og tókst eftir talsverða fyrirhöfn að ná leshæfu eintaki inn á lesbrettið sitt en ekki á mitt, þar sem þó eru epub-bækur fyrir. Nú hef ég komist að því að þessir kónar eru með svokallaða DRM-afritunarvörn á söluvöru sinni til þess að valda fólki vandræðum – þykjast vera að koma í veg fyrir ólöglega fjölföldun. Skv. þeim upplýsingum gætum við verið búin að eyða 3 af 5 lesmöguleikum bókarinnar sem ég keypti þannig að ef ég fæ mér nýja tölvu og nýtt lesbretti sem tekst að ráða við þennan ófögnuð eru lesmöguleikar bókarinnar búnir. Í þetta vesen allt fór stór hluti gærkvöldsins, með takmörkuðum árnangri svo mér finnst full ástæða til að vara fólk við þessum viðskiptaháttum. Ég taldi mig fara varlega en það dugði ekki til.

(Áhugavert væri ef aðrir lýstu reynslu sinni, góðri eða slæmri af íslenskum rafbókakaupum í athugasemdum hér neðan við pistilinn)

Þar sem ég reyndi hástöfum að vara suma forsvarsmenn bókaútgefenda við einmitt þessu á sínum tíma varð ég sorgmæddari fyrir hönd íslenskra bókaunnenda með hverri svona frásögninni sem ég las. Rangar ákvarðanir bókaútgefenda við val á tæknilausnum eru að valda íslenskum neytendum og þeim sjálfum stórkostlegum skaða.

Forsagan er sú að í lok síðasta árs sammæltust íslenskir bókaútgefendur um að nota tiltekna afritunarvörn á íslenskar rafbækur. Þetta er lausn frá fyrirtækinu Adobe og þarf að setja upp sérstakan hugbúnað í hverju tæki sem lesa skal slíka bók í. Slíkur hugbúnaður er fáanlegur fyrir margar gerðir stýrikerfa, hvort heldur er fyrir spjaldtölvur, hefðbundnar tölvur eða lesbretti (e-Readers). Mikilvægar undantekningar eru þó Kindle lesbrettin frá Amazon – sem reyndar vill svo til að eru vinsælustu lesbretti veraldar – og Linux stýrikerfið. Uppsetning á umræddum hugbúnaði – eins og flestum hugbúnaði – vill líka vefjast fyrir notendum sem ekki eru þeim mun tölvuvanari.

Þar að auki eru ýmsar takmarkanir á því hvernig “eigandi” bókarinnar má nota hana eins og fram kemur í tilvitnuninni hér að ofan. Án þess að fara í smáatriðum út í þær takmarkanir leyfi ég mér að fullyrða að þær takmarkanir koma í veg fyrir að hægt sé að tala um “eiganda” með sama hætti og eiganda bókar í pappírsformi. Ég heiti hreinlega verðlaunum þeim sem mun vandræðalaust geta lesið íslenska rafbók sem keypt er í dag á sínu helsta lestæki eftir 20 ár (meðan eintökin mín tvö af “Tár, bros og takkaskór” sitja uppi í hillu tilbúin til aflestrar hvenær sem er).

Hins vegar er sáraeinfalt að gefa út rafbækur án afritunarvarnar sem lesa má beint á öllum þessum tækjum og stýrikerfum án nokkurra takmarkana á notkun bókareigandans á sínu eintaki og í flestum tilfellum án þess að til komi nokkur sérstakur hugbúnaður. Sú útgáfa væri þá jafnframt á sniði sem hægt er að fullyrða að unnt verði að lesa í stýrikerfum og með tækni fyrirsjáanlegrar framtíðar, einfaldlega vegna þess hve útbreidd notkun hennar er.

Það fyrsta sem okkur var sagt um þessa afritunarvörn var reyndar hversu óskaplega mikill kostnaður hlytist af henni fyrir bókaútgefendur, en ástæðan fyrir því að henni skal beitt er ótti útgefenda við það að Íslendingar leggist að öðrum kosti í mikinn bókastuld og ólögleg afrit muni valda hruni í bóksölu.

Við þessu eru tvenn einföld mótrök:

  1. Fólk sem á annað borð kaupir bækur er heiðarlegt og stelur ekki efni, allra síst íslensku efni og alls ekki til gjafa, en stór hluti íslenskrar bóksölu er einmitt til gjafa.
  2. Umrædd DRM vörn stoppar engan sem ætlar að afrita efnið. Vopnaður Google og meðal-tölvukunnáttu tekur það innan við 20 mínútur.

Hér er semsagt verið að leggja í “afar mikinn kostnað” (svo notuð séu orð formanns samninganefndar rithöfunda) til þess að flækja málin fyrir heiðarlegum kaupendum og þjófkenna þá um leið, en án þess að ná minnsta árangri í átt að því markmiði að hindra afritun. Hver er þá tilgangurinn? Að halda sölu rafbóka “agnarögn” af bóksölunni?

Sjálfur er ég mikill bókaunnandi og virkur kaupandi pappírsbóka og erlendra rafbóka. Með fullri virðingu fyrir bókaútgefendum og þeirra hag fyrir brjósti engu síður en okkur neytendanna segi ég því: Þið að gera alvarleg mistök og gætuð valdið óbætanlegum skaða á íslenskri bókaútgáfu ef ekki er skipt um kúrs þegar í stað.

Nútíminn – þar sem hlutfall rafbóka er allt að fjórðungur allrar bóksölu á þessu ári, og vex hratt – mun nefnilega koma til Íslands, án íslenskra bókaútgefenda ef ekki vill betur til.

Uppfært 28. desember kl 12:55: Rétt er að minnast á lofsvert framtak Emma.is sem gefur út fjölda bókatitla án afritunarvarnar. Það breytir þó því miður ekki þeirri staðreynd að meginþorri íslenskra bókatitla – og allir þeir vinsælustu – eru aðeins fáanlegir með þessari hamlandi afritunarvörn.

20 comments

  1. Forvitnilegt og enn forvitnilegra að fyrir neðan þessa gagnmerku grein sé auglýsing fyrir ilivid, eitt versta scam sem finna má á netinu nú um stundir. Skamm Hjalli!

    1. Ég hef því miður enga stjórn á því hvaða auglýsingar birtast hér á vefnum. Birting auglýsinganna er gjaldið sem ég greiði fyrir frían aðgang að bloggkerfinu hjá WordPress.com. Gæti losnað við þær fyrir $30 á ári, en hef ekki séð tilgang með því, en leiðinlegt er ef þarna er verið að birta einhvern óþverra. Takk fyrir ábendinguna.

  2. Er í biðstöðu með að kaupa mér þær bækur sem mig langar að lesa íslenskar. Vil bara fá þær á rafrænu formi. Kindill eða tölva, sama hvort. Er harðákveðin í að spara pappírinn eins og kostur er. Nenni ekki að pæla í þessum flóknu hlutum, kaupi lesefni frá Amazon á meðan. Eru íslenskir útgefendur heimskir? Gera þeir sér ekki grein fyrir því að þeir missa lesendur framtíðarinnar? Unga fólkið lætur ekki segja sér að kaupa pappír.

  3. Góðan dag, Hjalli!

    Þrátt fyrir að þessi grein sem um margt ágæt, þá felst í henni einn afar stór galli. Hann er sá, að þú setur alla bókaútgefendur undir sama hatt. Því fer fjarri að allir bókaútgefendur hafi sammælst um að notast við Adobe DRM, við hjá Rúnatý höfum aldrei tekið þátt í slíku samráði og munum aldrei gera, enda er það ekki lesendum eða notendum rafbóka til heilla. Við tengjum það við þá ákvörðun Forlagsins að stofna Rafbókalagerinn ásamt Snara.is, en allar rafbækur sem fara þangað inn eru aðeins settar inn í ePub formi með afritunarvörn og tilheyrandi kostnaði, sem síðan er velt yfir á notendur. Ýmis forlög hafa síðan fylgt fordæmi Forlagsins og ýmsar rafbókasölur tekið upp á því að selja aðeins titla í þannig formi, t.d. Ebækur.is, Forlagid.is og Eymundsson.is.

    Hins vegar er hægt að nálgast titla sem eru ýmist án afritunarvarnar eða með svokallaðri félagslegri afritunarvörn. Emma.is býður upp á hið fyrra en Skinna.is hið síðara. Þar er hægt að fá fjölmarga ágæta titla, m.a. margar bækur sem fást með afritunarvörn annars staðar. Við hvetjum lesendur rafbóka til að beina viðskiptum sínum þangað og versla við þær útgáfur sem setja hagsmuni neytenda, gott aðgengi og eðlilega verðlagningu, fram fyrir afritunarvarnir, sem hefta not og nýtingu þeirra sem kaupa bækurnar.

    Fh. Rúnatýs,
    Þorsteinn Mar

    1. Sæll Þorsteinn Mar,

      Gaman að heyra að þið nálgist þetta með nútímalegari hætti en stóru útgefendurnir. Gaman væri að fá tengil á vef eða annað þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um þetta og þá titla sem eru í boði hjá ykkur.

      Ég veit reyndar að Emma.is gefur líka út rafbækur án afritunarvarnar og hef uppfært færsluna með ábendingu um það. Það breytir þó ekki því að meginþorri íslenskra bókatitla – og allir þeir vinsælustu – eru aðeins fáanlegir með þessari hamlandi afritunarvörn.

      En framtak ykkar og þeirra er lofsvert.

      Einnig hef ég heyrt að Skinna selji einhverja af vinsælli titlunum án afritunarvarnar, en hef ekki fundið nánari upplýsingar um það. Gaman væri ef einhver gæti frætt okkur nánar um það.

  4. Ég reyndi að kaupa Hobbitann hjá ebaekur.is og eftir mikið vesen þá fattaði ég að þessi helvítis læsing er á þessari skrá og lesbrettið mitt er einmitt svo gamalt að það neitar að sýna mér bókina. Ég er búin að reyna á android spjaldtölvu en lenti í þvílíkri endavitleysu með þetta ADE og ég er ekki ennþá búin að geta opnað bókina.

  5. Ég les mikið og nota mest Kindle til þess. Ég veit að þið segið við mig að fá mér ný gleraugu þegar ég segi að mér finnst letrið orðið leiðinlega smátt í pocket bókum sem eru nú þær helstu sem ég kaupi. Málið er líka að ég vill spara pappír, búinn að fylla einhver herbergi af bókum, einnig finnst mér miklu þægilegra að nota Kyndilinn minn, hann er léttar og ég get tekið hann með mér með fjölda bóka innanborðs. Það sem mér langar bara að benda á að á meðan ég get ekki keypt mér bækur á íslensku í kyndilinn minn, þá les ég þær á ensku og kaupi erlendis. Það er ekkert flóknara en það. Bókaútgefendur eru hræddir við afritun og réttilega, en mér langar að benda á eitt. Ég er í stórum vinahóp og ég hef heyrt margar skemmtilegar staðhæfingar eins og t.d. “Í minni fjölskyldu er sama bókin er aldrei keypt af fleirri en einum og síðan lánum við hana hvor öðrum” “Ég er alltaf með nokkrar bækur í láni úr bókasafninu, dettur ekki í hug að kaupa vasabrotsbók á 2.500-3.000” Ég gæti sagt margar slíkar sögur af dreyfingu bóka í gamla forminu. En á meðan þær eru ekki til á Kindle, þá fær því miður íslenskur bókasali ekki krónu frá mér og ég æfi mig í ensku. Sorry bókasali og íslenskt mál.

  6. Þetta svar barst frá framkvæmdastjóra Forlagsins á opnum þræði um sama mál á Facebook-veggnum mínum:

    “Þar sem flestu þessu hefur nú verið svarað áður þá ætla ég ekki að endurtaka það allt saman en vil þó hnykkja á eftirfarandi:

    1. Útgefendur, svo ég viti, hafa aldrei haldið því fram að DRM væri kostnaðarsamt og DRM væri einhver sérstakur þáttur í verðlagningu. Þetta var og er einhver misskilningur hjá Aðalsteini Ásbergi. Vissulega fylgir þessu kostnaður, en hann er enginn í hlufalli við annan útgáfukostnað, s.s. ritstjórn og markaðssetningu.

    2. Amazon notast við DRM. Amazon vinnur markvisst að því að sjá til þess að útgefendur og/eða aðrir bóksalar geti ekki selt inn á sín tæki (Kindle), s.s. með því að bjóða ekki upp á lesstuðning við ePub-skráarsniðið. Ég myndi glaður selja rafbækur Forlagsins inni á vef Amazon ef mér byðist það. Afhverju er þessum “fjandskap” ekki beint að Amazon sjálfu, sem að ekki vill bjóða uppá þennan skráarstuðning fremur en að útgefendum?

    3. Það er alveg rétt hjá þér Hjálmar að ég veit ekki hvernig verður með notkun þessara skráa/rafbóka eftir 20 ár. Ég á við sama vandamál reyndar að stríða með nánast allan hugbúnað og/eða skrár sem ég notaði og keypti(!) fyrir 20 árum síðan.

    Og að lokum þá vil ég taka fram að ég er auðvitað hundsvekktur með stöðu mála eins og hún er núna og geri mér fulla grein fyrir takmörkununum sem felast m.a. í því að geta ekki selt með “eðlilegum” hætti inn á Amazon Kindle. Glaður vildi ég geta selt bækur mínar hjá Amazon.

    Ég upplifi ástandið núna ekki ósvipað því og var í kringum 1980 þegar að framleiðendur myndbandstækja voru að bítast um formött (VHS, Beta, V2000). En ég er handviss um að þetta mun leysast fljótt og að eigendur (allra) tækja geti með auðveldum hætti keypt allar þær rafbækur sem þeir vilja án vandkvæða.”

    1. Hann virðist ekki vera að ná þessu. Þetta snýst ekki um að tiltekin tæki geti ekki lesið bækurnar, heldur að seljandi bókanna sé vísvitandi að takmarka eðlilega notkun viðskiptavinarins á bókunum með afritunarvörnunum.

      Sama þótt hugsanlega verði ekki verði hægt að lesa ePub skrár eftir 20 ár, þá verður hægt að flytja núverandi ePub skrár yfir í það sem tekur við. Þó aðeins ef þær eru ekki læstar með afritunarvörnum.

      Samanburðurinn við hugbúnað er líka fáránlegur því hann er skirfaður og seldur sértaklega til að verða keyrður í tilteknum umhverfum. Viðskipatvinir fá upplýsingar um hvaða umhverfi (td. stýrykerfi og vélbúnað) hugbúnaðurinn keyrir á. Fá kaupendur rafbóka sem eru ekki þess eðlis að virka bara í tilteknu umhverfi greinargóðar upplýsingar um það hvernig seljandinn er búinn að takmarka notkunarmöguleika bókarinnar og hvaða afleiðingar það hefur?

      Og hvaða skrár voru þetta sem hann keypti fyrir 20 árum en getur ekki notað í dag? Voru þær byggðar á opnu skráarsniði eins og ePub er?

    2. Þetta er sama svar og maður sér annars staðar frá Forlaginu. Málið er að sú útgáfa og þá viðkomandi framkvæmdastjóri getur glaður gefið út fyrir Kindle, við gerum það og það er engum vandkvæðum bundið.

  7. Ég var mikið í kringum “jólabóka flóðið” í ár og umgegst þar með mikið af fulltrúum bóka útgefenda. Þar sem að ég er mikið að hugsa um að fá mér rafbók þá áhvað ég að leita álits hjá þeim og spyrja þá hvort þeir mældu með. Þ.e.a.s Kyndill ( Kindle) rafbók eða “eBook” sem er verið að selja fyrir íslensku rafbækurnar. Það kom mér nokkuð á óvart að þeir voru allir sammála um að það værir betri og sniðugr fjárfesting að kaupa kindle. til marks þá talaði ég við fulltrúa JPV,Máls og menningar, Sögur útgáfa, Forlagið. Fanst mér það segja nokkuð mikið að þeir mældu allir með kindle frekar en hitt.

  8. Takk fyrir góða umfjöllun sem kemur m.a. inn á afar mikilvægan þátt þessarar umræðu; takmarkanir sem verið er að setja á eignaréttinn. Það hefur tíðkast, frá örófi, að vörur eru seldar án hafta. Vörur, nánast undantekningalaust aðrar en land/fasteignir, hafa ætíð verið seldar án þess að takmarkanir á fullu eignarhaldi og nýtingu væru til staðar. Skilyrðalaust eignarhald er viðtekin venja og eitthvað sem allir ganga útfrá í kaupum sínum á vöru. Höfundaréttur innleiddi á sínum tíma takmörkun sem fólst í því að tímabundið var kaupanda meinað að fjölfalda hinn keypta hlut í hagnaðarskyni. Um þá takmörkun voru sett sérstök lög og þau höfð tímabundin. Að þessu fráskildu hafa engar takmarkanir á notkun/meðhöndlun bóka tíðkast né verið bundnar í lög. Þær má endurselja, lána, brenna eða hvað svo sem eigandanum þóknast að gera við eign sína. Nú bregður hins vegar svo við að í viðskiptum með rafræna vöru taka seljendur sig til að takmarka notkunarmöguleika kaupenda, gjarnan án þess að upplýsa kaupanda um þessar takmarkanir og oftast án þess að lækka verð í samræmi við þær takmarkanir á notkun sem af leiða. Spyrja má hvort skilgreina megi þessi viðskipti sem leigu en ekki sölu. Það sem þetta leiðir af sér er óformleg endurskilgreining á eignarétti, þar sem neytandinn sættir sig við skerðingarnar og efast ekki um réttmæti þessara viðskiptahátta. Með tímanum verður þetta viðtekið og almenningur áttar sig ekki á þeirri réttindaskerðingu sem orðið hefur.

  9. Það er með öllu fráleitt að kalla það sölu á rafbók, ef kaupandinn má bara lesa hana 5 sinnum og fátt annað gera við hana. Það er ekki sala heldur rafrænt útlán.

    Enginn bannar mér að lána, gefa eða selja aðra löglega keypta hluti mína. Ég á Kyndil en hef lagt hann til hliðar, þar sem verð vörunnar versus notkunarmöguleikar eru ekki í neinu samræmi. Á meðan les ég pappír.

    Ef ég á að fá að láni rafbækur (rafkaupa) með þessum ströngu kvöðum, þá þarf verðið að fara niður í þriðjung af því sem það er núna.

  10. Verðlagningin á nýjum íslenskum rafbókum hefur hingað til stoppað mig af, fælingarmátturinn alveg ótrúlega mikill.

    Erlendar bækur les ég nú orðið varla nema á Kindle og hef aldrei lesið meira, fullkomlega vandræðalaust og flest er á mjög góðu verði. Kosturinn við að hlaða ólíklegustu bókum niður hvenær sem hentar er ótrúlega mikið meiri en sá að panta bók eða gera sér ferð eftir henni. Ef eitthvað er þá fer ég meira í bókabúðir nú en áður en ég fór að nýta mér lesbrettin (og símann minn og tölvuna … ). Og versla síst minna.

    Bækur eru aftur orðnar afþreying sem er jafn auðvelt að nálgast og tónlist, tölvuleiki eða alls konar myndefni. Bókin á í samkeppni við svo margt annað sem er á boðstólum og þetta ,,attitjút” útgefenda er ekki til að laða okkur að bókum.

    Það er greinilegt að margir stærstu íslensku bóksalarnir og bókaútgefendurnir eru á góðri leið með að skrifa sig út úr þessum samskiptum við lesendur, bæði með verðlagningu og tortryggni í garð bókaunnenda. Það er mjög pirrandi.

    Mætti kannski læra af reynslu útgefenda tónlistar, en sú útgáfa blómstrar sem aldrei fyrr, ekki þrátt fyrir, heldur vegna þeirra fjölbreyttu möguleika sem við höfum á niðurhali á tónlist.

  11. Það er skiljanlegt að fólk sé pirrað á þessum örðuleikum við að lesa rafbækur sem það hefur keypt en til eru fleiri möguleikar. Ég held að aðgengi að rafbókum á bókasöfnum muni batna í næstu framtíð. Norræna húsið lánar nú þegar út rafbækur á Norðurlandamálum og almenningsbókasöfn eru að kanna möguleika á að lána út bækur á erlendum málum með samningum við útgefendur. Íslensk rafbókaútgáfa er á byrjunarreit og miklu skemmra komin en víða annarsstaðar. Vonandi gefst íslenskum bókasöfnum tækifæri til að semja við rétthafa um útlán á nýjum íslenskum rafbókum án afritunarvarna. Rafbókavefurinn er líka með opið aðgengi að ýmsum íslenskum bókum sem komnar eru úr höfundarétti og sama má segja um fleiri vefi bæði íslenska og erlenda t.d. Gutenberg og Internet Archive.

  12. Þar sem bókavefurinn eBækur er nefndur í þessari ágætu umfjöllun er okkur ljúft og skylt að koma skoðunum okkar á framfæri.

    eBækur selur bækur á nokkrum tegunda skráa, bæði með DRM vörnum og án þeirra. Má þar nefna ePub, M4B (hljóðbækur) og PDF snið. Það er ákvörðun útgefenda hvernig þeir selja sitt stafræna efni til smásöluaðila á borð við okkur. Ef útgefendur vilja selja bækur sýnar á Mobi formi tökum við því fagnandi þar sem margir notendur eiga Kindle lesara sem lesa bara það snið. En gleymum ekki að Amazon framleiðir og selur Kindle lesbrettin fyrst og fremst til að selja bækur á læstu Mobi sniði og hafa ákveðið að hafa sitt kerfi lokað utanaðkomandi aðilum líkt og Egill frá Forlaginu hefur bent á.

    Eins og fyrr segir er það í höndum útgefenda að ákveða hvað formi þeir vilja selja bækur sínar á og hvort þær séu varðar eða ekki. Í dag hafa flestir útgefendur á íslandi og erlendis ákveðið að gefa efni sitt út með DRM vörnum. Til að auðvelda notendum okkar lestur læstra bóka (DRM varið) bjóðum við upp á lesforrit (APP), sem virkar í öll helstu tæki sem fólk notar til lesturs nú til dags (iPad, iPhone og Android), og er hægt að nálgast þessi forrit á http://www.ebækur.is .

    Það er okkar skoðun að til lengri tíma sé DRM vörnin ekki vænleg til árangurs og að best sé að finna aðrar leiðir. Það gefur sitthvað uppi um afstöðu okkar til afritunarvarna að eBækur tilheyra sama fyrirtæki og Tónlist.is, sem voru með þeim fyrstu til að afnema afritunarvarnir af tónlistinni á sínum tíma. Það er okkar reynsla að notkun eykst til muna þegar slíkar varnir eru teknar af.

    En eins og komið er inn á í umfjöllun hér þá er rafbókamarkaðurinn á íslandi mög ungur og á eftir að þróast mikið á næstu misserum og þroskast. Við trúum því að útgefendur og smásöluaðilar muni í góðu samráði við neytendur finna lausnir á þessum málum innan tíðar, þannig að hægt verði að njóta lesturs rafbóka án fyrirhafnar.

    f.h. eBækur
    Engilbert Hafsteinsson

  13. Sæll, Engilbert.

    Flott að þið hjá ebókum takið þátt í umræðunni og ég er ánægður að sjá, að þið séuð að berjast fyrir afnámi afritunarvarna. Eins vil ég hrósa ykkur fyrir þá stefnu ykkar að stækka rafbókamarkaðinn, það er vel.

    Það er tvennt í svari þínu sem er einfaldlega rangt. Í fyrsta lagi hefur Amazon ekki lokað kerfi sínu fyrir utanaðkomandi aðilum, heldur hafa þeir einmitt gefið út að hver sem er megi selja efni fyrir Kindle, þá í mobi eða prc formi. Það sem þeir hafa hins vegar ákveðið er, að taka ekki inn örmarkaði á borð við Ísland í Kindle store. Þannig höfum við útgefendur ekki getað selt efni á íslensku hjá þeim. Það sem stendur í vegi fyrir nokkrum útgáfum að gefa út fyrir Kindle er að geta afritunarvarið rafbækur. Í mínum huga er reginmunur á því að segja, að ekki sé hægt að gefa út fyrir Kindle vegna þess að Amazon vilji það ekki og að segja, að stærstu útgáfur landsins vilji ekki gefa út óafritunarvarnar rafbækur. Seinni skýringunni er beint gegn notendum og það er slæmt út á við, því er einfaldara að grípa til þess að kenna Amazon um, sem hefur ekkert til sakar unnið annað en að hafa ekki áhuga á að selja rafbækur á íslensku. Mig langar að leggja til við ykkur, að þið venjið ykkur af því að þylja upp þessa möntru í hvert sinn sem einhver spyr um Kindle (t.d. á Facebook síðu ykkar), því hún er ykkur ekki til sóma. Segið sannleikann og hann er sá, að þetta er pólitísk ákvörðun þessara fáu útgáfna og hún snýst um afritunarvarnir, ekki um Amazon eða Kindle.

    Hitt sem er rangt hjá þér, er að flestar útgáfur hafi ákveðið að gefa eingöngu út afritunarvarin ePub skjöl. Ekki tekur langan tíma að komast að raun um að þetta er ekki rétt, fjölmargar íslenskar útgáfur gefa út fyrir Kindle og selja titla, sem í sumum tilfellum fást hjá ykkur á afritunarvörðu ePub sniði, fyrir Kindle og jafnvel án afritunarvarnar. Að Rúnatý undanskildum eru þetta t.d. Urður bókafélag, Bókabeitan, Salka, Ugla, Sögur útgáfa, Draumsýn og Uppheimar. Þú ættir kannski að skoða úrvalið á Emma.is og Skinna.is, þar blasir þetta við manni.

    Þannig verð ég að viðurkenna, að mér finnst áhugi ykkar á því að gefa út fyrir allar gerðir lesbretta og tryggja þannig sem best aðgengi, vera í orði frekar en á borði.

    fh. Rúnatýs,
    Þorsteinn Mar

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s