Af einhverju öðru (en áli)

sprotarVið Hrunið 2008 losnaði býsna margt úr læðingi. Margt af því er vel þekkt og sumt hreint ekki til sóma, en eitt af því sem ekki hefur farið hátt er nýsköpunin sem spratt af stað eftir ákaflega mögur ár á þeim vettvangi í skugga bankabólu og ofþenslu þar sem fólk gat gengið að “öruggum” og vel launuðum störfum sem engin innistæða reyndist svo fyrir þegar upp var staðið.

Strax á fyrstu dögunum eftir hrunið tóku allskyns hópar hugmyndaríks fólks að spretta upp og fólk að hittast til skrafs og ráðagerða um það hvernig byggja mætti upp úr öskunni fyrirtæki og atvinnu fyrir sjálfa sig og aðra. Margir höfðu reyndar gengið með hugmyndir í maganum – jafnvel um árabil – en höfðu aldrei látið vaða. Hver hættir í öruggu og vel launuðu starfi í banka eða stórfyrirtæki til að stofna eigið fyrirtæki með þeirri áhættu og erfiðisvinnu sem því fylgir? Nú loks höfðu margir þetta tækifæri með góðu eða illu. Vinnustaðirnir þeirra urðu ýmist gjaldþrota eða voru að draga saman seglin, framtíðin virtist ekki svo björt og sumir höfðu hreinlega ekki að mörgu öðru að hverfa.

Mest áberandi varð þetta starf undir merkjum hóps sem hlaut heitið Hugmyndaráðuneytið *. Þar var lengi vel haldið úti vikulegum fundum þar sem frumkvöðlar hittust, kynntu sig og kynntust öðrum, deildu af reynslu sinni og spurðu aðra ráða. Fundina sóttu oftast á bilinu 20-200 manns og það kæmi mér ekki á óvart að samanlagt hefðu 2000-3000 einstaklingar sótt þessa fundi, margir fleiri en einn og einhverjir næstum alla fundina sem voru reglulega haldnir í meira en ár.

Meðal þeirra sem ég man eftir á þessum fundum er fólk sem tengist fyrirtækjum eins og OZ, Clara, Gogogic, DataMarket (hvar ég starfa), Mobilitus, Transmit, Meniga, Carbon Recycling International, Fafu Toys, Plain Vanilla, Belgingi / SAR Weather, Búngaló, Gogoyoko, GreenQloud, Dohop, Kinwins, Reykjavík Runway, Grapewire, Karolina Fund, Citizens Foundation, Kosmos & Kaos, Gagarín, Kerfisvirkni, Controlant, Spretti, Flaumi, Locatify, Apon, Cooori, Mindgames, Skemu / ReKode, Golf80, App Dynamic, ReMake Electric og Ými Mobile. Ég er áreiðanlega að gleyma mörgum.

Langflest þessi fyrirtæki voru annað hvort að stíga sín fyrstu skref á þessum tíma, eða hafa verið stofnuð síðan. Þá er ótalið fólk sem þarna var frá eldri og stærri fyrirtækjum sem þó stunda öll nýsköpunarstarfsemi svo sem Marorku, CCP og Hugsmiðjunni – en ég undanskil þau í því sem á eftir fer.

Gengi þessarra fyrirtækja hefur verið upp og ofan og sum þeirra eru ekki einu sinni lengur “meðal vor”. Þannig gangur nýsköpun og sprotastarfsemi fyrir sig. Það merkilega er hins vegar að gróflega telst mér til að hjá þessum fyrirtækjum starfi í dag að minnsta kosti 250 manns. Tölur um veltu og afkomu liggja ekki vel fyrir, en bara hjá þeim þessarra fyrirtækja sem ég þekki til hjá veit ég af bókaðri sölu eða fjárfestingu á þessu ári upp á meira en 3 milljarða króna, nær allt í erlendum gjaldeyri. Rétt tala er líklega nær 4 milljörðum ef ég reyni að giska í eyðurnar – og árið þó ekki hálfnað.

Ef ég væri í pólitík myndi ég svo tala um “afleidd störf” og margfeldisáhrif og kæmist vafalaust mikið hærra.

Að baki þessu liggur ekki opinber stefnumörkun. Raunar hefur áhugi af hálfu hins opinbera alla tíð verið hlutfallslega lítill á þessum málaflokki (þó endurgreiðsla rannsókna- og þróunarkostnaðar sé þar mikilvæg undantekning) og ekki ein einasta ný vatnsaflsvirkjun. Hvað þá lán með ríkisábyrgð og gengisáhættu, tengdu markaðsverði á áli!

Það er í raun réttara að segja að þessi árangur hafi náðst “þrátt fyrir” en “fyrir tilstuðlan” þess umhverfis sem boðið er upp á. Ég get sagt af eigin reynslu að gjaldeyrishöft, duttlungafullar leyfisveitingar og lagasetningar og furðuleg uppátæki íslenskra stjórnmálamanna sem rata í heimspressuna eru EKKI til að gera þessa vinnu auðveldari.

Þetta eru störf og umsvif sem hafa sprottið af sjálfu sér, drifin áfram af áhugasemi og framtaki fólksins sem stendur að baki þessum fyrirtækjum. Og þannig á það að vera!

Fyrir vinstra fólkið: Umhverfisvæn og skapandi störf sem byggð eru á hugviti og spretta úr grasrótinni.

Fyrir hægri mennina: Framtak einstaklingsins í sinni fegurstu mynd, með lágmarksafskiptum ríkisins.

Oooo, en krúttlegt. Hvar er álverið mitt?!?

– – –

* Þess má geta að Hugmyndaráðuneytið hefur undanfarið rúmt ár gengið í endurnýjun lífdaga og stendur m.a. fyrir ráðstefnunni Startup Iceland sem haldin verður í Hörpu í næstu viku.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s