Íslenskt nýsköpunarumhverfi, gjaldeyrishöft og þróunarstarf

sprotiTil að sprotafyrirtæki vaxi úr grasi og verði alvöru fyrirtæki þurfa ótal ótrúlega ólíklegir hlutir að ganga upp: Teymið, markaðsþörfin, vöruþróunin, fjármögnunin, markaðssetningin, salan, vöxturinn og loks uppskeran – nokkurnveginn í þessari röð.

Íslendingar, rétt eins og aðrir, fá þá grillu í höfuðið að láta á þetta reyna. Ég myndi meira að segja ganga svo langt – og held að það sé ekki bara þjóðremba – að segja að á sviði hátækni séum við nokkuð lunkin í fyrstu þremur skrefunum: Við eigum hæfileikaríkt fólk (hráefni í teymi) með puttann á púlsinum í því sem er að gerast (auga fyrir markaðþörf og tækifærum) sem getur búið til tæknilausnir á pari við það besta sem þekkist (vöruþróun).

That’s it!

Þar með er það líka upp talið. Tækifæri til fjármögnunar á Íslandi eru afar takmörkuð, þekking á alþjóðlegri markaðssetningu og sölu er af mjög skornum skammti, hæfileikafólkið er of fátt til að standa undir miklum vexti og fyrirtækin eða fjármálamarkaðirnir sem á endanum kaupa sprotana eru ekki á Íslandi.

Það er ekkert óeðlilegt við það. Á Íslandi búa 0,3 milljónir manna. Ekki mikið fleiri en búa í Corpus Christi í Texas (já, það er borg).

Fyrirtæki sem ætla að ná árangri á sérhæfðum sviðum verða að leita út fyrir landsteinana. Þar eru viðskiptavinirnir, fjárfestarnir og tækifærin. Fyrsta spurningin sem ég spyr unga íslenska frumkvöðla þegar ég hitti þá er: “Hvert ykkar ætlar að flytja til útlanda og hvenær?”. Það er nauðsynlegt skref í uppbyggingunni. Ég hef litla sem enga trú á árangri ef einhver stofnendanna gerir það ekki – að minnsta kosti tímabundið.

Það getur meira að segja verið að fyrirtæki þurfi að flytja höfuðstöðvar sínar erlendis til að ná markmiðum sínum. Í því er alls ekki fólginn nokkurs konar “flótti” eða “föðurlandssvik”. Nákvæmlega það sama er uppi á teningnum hjá fyrirtækjum sem stofnuð eru í Corpus Christi. Þau þurfa að leita þangað sem viðskiptavini, fjárfesta og vaxtartækifæri er að finna. Sá sem ætlaði að byggja upp tæknifyrirtæki og ná árangri með því að einblína á markaðinn í Corpus Christi myndi líklega ekki ná sérlega langt!

Rétta umhverfið skiptir öllu

Lönd og borgir í heiminum keppast við að laða til sín sprotafyrirtæki og hugverkamenn. Ástæðan er einföld. Þó að fæst slík fyrirtæki gangi upp, þá er ekki nokkur angi atvinnulífsins sem heilt yfir vex jafn hratt og skapar jafnmörg hálaunastörf og einmitt þessi. Með því að búa sprotafyrirtækjum gott umhverfi geta byggðalög, landsvæði og jafnvel heilu efnahagssvæðin notið góðs af slíkum uppgangi.

Það er magnað að sjá og upplifa hvað jafnvel borgir eins og New York og Boston-svæðið – sem sumir myndu halda að hefðu nægt aðdráttarafl í sjálfu sér – leggja mikið á sig til að búa nýsköpun og hugverkaiðnaði gott umhverfi (Dæmi: NY, BOS), kynna kosti þess og sverma fyrir fyrirtækjum að setja upp starfsemi sína þar.

Stærsti kostur þess að vera hugverkamaður eða þekkingarfyrirtæki er að það sem til þarf er mjög alþjóðlegt og færanlegt. Það felur sömuleiðis í sér hættu á því að þau samfélög sem ekki hlúa að umhverfi slíkrar starfsemi missi af tækifærunum sem felast í þeirra mannauði.

Til að Ísland geti notið góðs af svona tækifærum þarf að bjóða sprotafyrirtækjum með íslenskar rætur upp á umhverfi sem hvetur þau til halda tengslum við Ísland og vaxa þar, en gerir þeim jafnframt kleift að byggja upp og flytja þá hluta starfsemi sinnar erlendis sem þarf til að styðja við og rækta íslensku starfsemina.

Tvö atriði þurfa þar sérstaka athygli:

  • Áhrif gjaldeyrishafta á uppbyggingu erlendrar starfsemi íslenskra fyrirtækja, fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum tækifærum og ekki síst á það hvar frumkvöðlar og hugverkafólk framtíðar kýs að búa og byggja upp sín fyrirtæki.
  • Áframhaldandi stuðningur við rannsóknir og þróunarstarf. Þetta á við starfsemi Tækniþróunarsjóðs, en þó sérstaklega lög um skattaafslátt vegna rannsókna og þróunarstarfs sem er sennilega stærsta einstaka framfaraskref sem tekið hefur verið til eflingar á íslenska sprotaumhverfinu.

Vonandi verður skilningur á þessu þar sem við á í umróti komandi mánaða.

P.S. Nei, DataMarket er ekki á leið úr landi

DataMarket – fyrirtæki sem ég rek í samstarfi við aðra – byggir nú upp sölu- og markaðsstarf sitt í Bandaríkjunum og mun sennilega á einhverjum tímapunkti flytja hingað höfuðstöðvar sínar. Þróunarstarf, rekstur og þjónusta við viðskiptavini verður áfram rekin á Íslandi þar sem þegar vinnur óviðjafnanlegur hópur forritara, hönnuða og gagnanörda. Sú starfsemi mun einungis vaxa eftir því sem betur gengur á viðskiptahliðinni hér hjá okkur sem stödd erum Bandaríkjamegin.

One comment

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s