Lítil fyrirtæki, lykill stórra framfara – þrjár ástæður

Setningarerindi sem ég flutti á Smáþingi nú í dag:

Komiði sæl…

Það er mér sannur heiður að fá að setja þetta Smáþing, enda er efnið brýnt og mér sérstaklega hugleikið.

Sa-litla-Island-orange-400x160pix-2_943295987Einhverra hluta vegna er það þannig að við Íslendingar virðumst hrífast af stórum lausnum; einhverju einu stóru sem á að breyta öllu. Þetta hefur síst af öllu breyst eftir að við reyndum það síðasta sem átti að breyta öllu – alþjóðlega bankastarfsemi. Til að bjarga okkur úr klandrinu sem það kom okkur í einblína margir á eina stóra lausn:

  • Taka einhliða upp annan gjaldmiðil
  • Finna olíu
  • Skipta um stjórnarskrá
  • Leggja sæstreng til Evrópu
  • Endurgreiða fólki verðbólguna
  • Byggja tvö risaálver í einu
  • Þjónusta gullæði á Grænlandi
  • o.s.frv.

Margt eru þetta auðvitað ágæt verkefni sem gaman væri að sjá verða að veruleika í hæfilegum skömmtum og umfram allt á sínum eigin forsendum.

Hin raunverulega lausn liggur hins vegar ekki í einhverju einu stóru. Hin raunverulega lausn er miklu nærtækari. Hin raunverulega lausn er sennilega líka miklu leiðinlegari. Hin raunverulega lausn er að einhverju leyti hér í þessum fundarsal.

Það er kominn tími til að hlúa að hinu smáa, hina fjölbreytta og hinu marga. Velgengni atvinnu- og efnahagslífsins er fyrst og fremst fólgin í því að tryggja litlum fyrirtækjum brautargengi. Að skapa litlum fyrirtækjum almennt, hagfellt umhverfi sem leyfir framtakssömu fólki að spreyta sig á þeim sviðum þar sem það hefur þekkingu, kraft og hugmyndir og sjá hvað verður úr því.

Og ég segi þetta ekki bara út í bláinn. Lítil fyrirtæki eru raunverulegur lykill að stórum og merkilegum hlutum.

Fyrir það fyrsta eru lítil og meðalstór fyrirtæki stærsti vinnustaður landsins. Upp undir helmingur launafólks vinnur hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, eða líklega á milli 80 og 90 þúsund manns. Hjá litlum fyrirtækjum verða líka til flest störf. Þessari tölfræði er reyndar nokkuð ábótavant á Íslandi, en sé tekið mið af því sem gerist í löndunum í kringum okkur má gera ráð fyrir að um 2/3 hlutar nýrra starfa skapist hjá þessum hópi fyrirtækja.

Þess vegna eru lítil fyrirtæki svo mikilvæg.

Í annan stað skapa lítil fyrirtæki fjölbreytni. Margar þeirra þjóða sem best vegnar í heiminum eru þær sem eiga hvað erfiðast með að svara spurningunni: Hverjir eru ykkar helstu atvinnuvegir? Íslendingar eiga ekki erfitt með það: Ál, fiskur og túrismi. Stundum er jafnvel talað í hálfgerðum hæðnistón um “eitthvað annað”. En leiðin til að standast áföll í einstökum greinum er einmitt sú að tryggja fjölbreytni í samsetningu atinnulífsins; að gera LÍKA eitthvað annað. Ekki á kostnað stóru greinanna, heldur samhliða þeim.

Þess vegna eru lítil fyrirtæki svo mikilvæg.

Í þriðja lagi verða lítil fyrirtæki stundum stór. Það þurfa ekki öll lítil fyrirtæki að stefna að því að verða stór, en fólk virðist oft gleyma að í 100 fjögurra manna fyrirtækjum eru jafn mörg störf og í einu 400 manna fyrirtæki. Munurinn er sá að upp úr 100 fjögurra manna fyrirtæki spretta tíu 60 manna fyrirtæki og mögulega ein “stórstjarna” með mörg hundruð stafsmenn. Í réttu umhverfi fá þær framkvæmdir sem eru á einhvern hátt ófullkomnar – sem reynslan sýnir að eru stærstur hluti þeirra – að deyja drottni sínum, en réttu hugmyndirnar fá að vaxa og dafna og verða að verða að stórum og kraftmiklum fyrirtækjum af eigin rammleik.

Fyrirtæki sem byggt er upp þannig stendur á miklu traustari grunni en fyrirtæki sem er handsnúið í gang í krafti stjórnvalda.

Þess vegna eru lítil fyrirtæki svo mikilvæg.

Ráðherra … og aðrir ráðamenn.

Það er náttúrulega ýmsilegt sem þarf að laga hérna – og það er ekki bara bank í ofnunum eins og sagt var í óborganlegu Fóstbræðra-sketsji um árið. Hér væri freistandi að nefna til sögunnar gjaldeyrishöft og skort á fjármögnunarkostum. En ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér.

Umfram allt þurfa frumkvöðlar og framtakssamt fólk nefnilega að gera hlutina sjálft. Við uppbyggingu á nær hverju fyrirtæki koma ítrekað upp augnablik þar sem kringumstæður og einstakar ákvarðanir skilja milli feigs og ófeigs. Einstigið á milli þess að slá í gegn og að fara í hundana getur verið býsna mjótt. Ég þekki það … og hef fallið útaf því, báðum megin. Umhverfið sem stjórnvöld skapa er sjaldnast það sem ríður baggamuninn.

Ef við erum ósátt við aðstæður sem stjórnvöld skapa er sjálfsagt að útskýra í hverju það felst og vinna með þeim að því að breyta og bæta, en spurningin sem fólkið á Litla Íslandi þarf samt umfram allt að spyrja sig er ekki: Hvað get ég gert fyrir tilstuðlan stjórnvalda? Heldur: hvað get ég gert óháð þeim?

Ég segi Smáþing hér með sett. Gangi ykkur vel í dag.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s