5 ástæður fyrir því að ég fjárfesti í Kjarnanum

Kjarninn-logoEins fram hefur komið í fréttum tók lítill hópur höndum saman nýlega og lagði Kjarnanum til aukið hlutafé. Ég var ákveðin driffjöður í því ferli og er sérstaklega stoltur af því að geta lagt mín lóð á þessar vogarskálar.

Það er greinilegt að Kjarninn á sér dyggan aðdáendahóp, sem hefur kannski komið einna best fram í því að ég held að fleiri hafi óskað mér til hamingju með fjárfestinguna í Kjarnanum, en söluna á DataMarket sem tilkynnt var um á svipuðum tíma!

Fyrir þau ykkar sem ekki þekkið til Kjarnans, þá er besta leiðin til að kynnast honum í gegnum daglega fréttabréfið, eina fréttabréfið sem ég fæ í tölvupósthólfið mitt daglega og hlakka til að lesa (ok, ég skrökva því reyndar – fréttabréfið frá Quartz er líka frábært). En endilega skráið ykkur fyrir fréttabréfi Kjarnans og prófið.

En það hafa líka margir spurt mig hver hvatinn að fjárfestingunni sé. Það hafa ekki margir – ef nokkur – orðið ríkur á rekstri fjölmiðils á Íslandi, og oftar en ekki hafa menn blandað sér í fjölmiðlarekstur í hreinu hagsmunapoti, hvort heldur er pólitísku eða viðskiptalegu.

Mér finnst þess vegna alveg tilvalið að rekja þær 5 ástæður sem liggja að baki minni fjárfestingu í Kjarnanum.

    1. Framúrskarandi fjölmiðill: Fyrst og fremst finnst mér Kjarninn einfaldlega hafa borið höfuð og herðar yfir aðra miðla þegar kemur að fréttaflutningi og fréttaskýringum af efnahagsmálum, viðskiptum og stjórnmálum á Íslandi frá því að hann kom fram á sjónarsviðið. Kjarninn hefur skrifað af dýpt og þekkingu um flókin viðfangsefni sem varða Íslendinga miklu. Þeir hafa jafnframt safnað að sér kraftmiklum hópi pistlahöfunda sem margir hverjir hafa hrist upp í landanum.

    Þýðir það að ég sé sammála öllu sem birst hefur í Kjarnanum? Alls ekki.

    Þýðir það að ég hafi ekki séð mistök eða að mér finnst undarlega vinkla á málefni í Kjarnanum? Hreint ekki.

    En þýðir það að ég muni nú, sem stjórnarformaður, skipta mér af því um hvað er skrifað og hvernig. Uuuu, nei.

    Ég satt að segja vona að ég haldi áfram að sjá þar hluti sem ég er ósammála, sem stuða mig og koma jafnvel óþægilega við mína hagsmuni. Maður lærir ekkert af því að umgangast eingögngu fólk sem maður er sammála.

    2. Sjálfstæðir blaðamenn: Það sem fær mig til að treysta því að eignarhald og hagsmunatengsl muni ekki hafa áhrif á ritstjórnarstefnu Kjarnans er það að sennilega hafa engir blaðamenn á Íslandi sýnt sjálfstæði sitt með jafn afgerandi hætti og þeir Þórður Snær og Magnús Halldórsson gerðu í aðdraganda stofnunar Kjarnans. Einhverjir munu sjálfsagt vilja draga í efa að hagsmunir eigenda og/eða auglýsenda muni ekki skipta máli hér. Gagnrýnendur munu leita færa þar, en ég óttast að þeir muni ekki finna margt til að festa hendur á. Kjarninn er ekki skoðanalaus fjölmiðill, en hann dregur ekki vagn neins stjórnmálaflokks eða viðskiptablokkar.

    3. Áhugi á viðfangsefninu: Ég er alger fjölmiðlafíkill og hef alltaf haft gaman af þjóðmálaumræðu. Ég hef sagt við þá Kjarna-menn ítrekað í þessu ferli að ef ég væri nú að stofna (mitt fimmta) nýsköpunarfyrirtæki, þá væri það á sviði fjölmiðlunar. Það er gríðarlega mikil gerjun á þessum vettvangi um þessar mundir og rótgrónir fjölmiðlar leita nánast örvæntingarfullir að nýjum viðskiptamódelum þar sem þau gömlu stráfalla. Á sama tíma hefur þörfin fyrir djúpa og greinandi fjölmiðlun sennilega sjaldan verið meiri – og miklir hagsmunir í húfi, bæði fyrir almenning og atvinnulífið. Allt þetta öskrar “tækifæri” í mín eyru. Það er gaman að fá að dýfa litlu tánni í þessa þróun, þó maður sé upptekinn við annað dags daglega.

    4. Fyrirsjáanlegar breytingar á auglýsingamarkaði: Ofantalið er gott og blessað, en það eru líka viðskiptaástæður fyrir áhuga mínum á þessum markaði og þessum miðli. Íslenski auglýsingamarkaðurinn er ótrúlega gamaldags. Eitt af því sem er gamaldags við hann er reyndar hversu litlar upplýsingar eru til um hann, en gróflega áætlað er stærð hans eitthvað yfir 10 milljarðar króna á ári. Þar af fara um 35% í prentauglýsingar, en rétt rúmlega 10% í auglýsingar á stafrænum miðlum (vef og farsíma). Sambærileg hlutföll eru 12% og 32% á Bandaríkjamarkaði, og stafræni hlutinn vex hratt. Ég er sannfærður um að íslenski markaðurinn mun færast hratt í átt að svipuðu jafnvægi og sá bandaríski. Ein helsta ástæðan fyrir því að þessi breyting hefur verið svona hæg á Íslandi er að allir stóru vefmiðlarnir eiga hagsmuna að gæta annað hvort í prenti, í ljósvakamiðlum, eða bæði. Og af hverju ættu þeir að slátra mjólkurkúnni meðan hún enn gefur.

    Þess vegna er “digitally native” miðill eins og Kjarninn, með breiðan en nokkuð skýrt skilgreindan markhóp, í lykilstöðu til að grípa skerf af þessari tilfærslu þegar hún verður. Þetta eru líklega meira en 2 milljarðar króna árlega sem munu leita í nýjan farveg. Þeir munu ekki allir fara úr prentmiðlunum í stafræna íslenska miðla. Dágóður hluti mun fara til Google og Facebook í formi auglýsinga, eða í ráðningar á fólki sem sér um markaðssetningu á samfélagsmiðlum og “content marketing” á vefjum fyrirtækjanna sjálfra, en þarna er samt mikið sóknarfæri fyrir öflugan miðil og Kjarninn ætlar sér stóra hluti þegar þessi tilfærsla verður. Þar ætlum við líka að leiða ákveðnar breytingar því framtíð auglýsinga á vefnum liggur ekki í vefborðum og Modernus-vefmælingum þó þannig fari mestöll markaðssetning á vefnum fram á Íslandi í dag. Meira um það síðar!

    5. Öflugur hópur: Umfram allt er það þó hópurinn sem að baki Kjarnanum stendur sem fær mig til að trúa á framtíð fyrirtækisins og fjölmiðilsins. Þessi hópur hefur náð miklum árangri á stuttum tíma og þó þar hafi verið lítið á milli handanna til að byggja á hafa þeir engu að síður náð að byggja upp miðil og vörumerki sem fólk treystir, stóran og dyggan lesendahóp og áhrif langt umfram það sem ætla mætti af svona litlum og ungum fjölmiðli.

Þess vegna er okkur alvara með Kjarnann, og þess vegna fjárfesti ég í honum.

2 comments

  1. Merkilegt að vilja fjárfesta í miðli sem er notaður af ritstjóranum (Þórði Snæ) til grímulauss áróðurs og rangfærslna. Hann fullyrðir að skuldaleiðrétting verðtryggðra lána gagnist aðeins 28% þjóðarinnar. Hvernig heldur þú að hann fái það út þegar sannanlega nái það til 90 þús einstaklinga. Jú hann gefur sér að þessum 90 þús einstaklingum sem sóttu um og fá leiðréttingu fylgi engin börn heldur setur alla aðra Íslendinga í hópinn sem ekki nýtur leiðréttingar. Svo deilir hann fjölda Íslendinga (320 þús) í fjölda þeirra sem munu fá leiðréttingu (90 þús) og viti menn ! Hann fær út 0,28125 eða rúmlega 28%. Það er reisn yfir svona málflutningi eða hitt þó heldur. Verði þér að góðu Hjálmar.

    1. Þakka áhugann, ábendinguna og góðar kveðjur.

      Talan er ekki röng, en má deila um samhengið eins og þú bendir á. Þetta er málefnaleg gagnrýni sem þú ættir að koma á framfæri við ritstjórn, en ég skipti mér ekki að henni eins og fram kemur hér að ofan.

      Sé þetta það versta sem þú getur fundið að Kjarnanum, þá erum við sennilega bara á nokkuð góðri leið.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s