Hræðsla er sterk tilfinning. Hún hefur þróast með okkur af góðri ástæðu. Þegar kemur að því að bregðast við hugsanlegum hættum lifðu þeir forfeður okkar af sem hlupu oftar en ekki í skjól – líka þegar óttinn var ástæðulaus. Óttinn ýtir líka á okkur að bregðast hratt við og þá á þann veg sem fyrst kemur upp í hugann. Rökhugsun víkur þegar óttinn hefur tekið völdin.
Svona hugleysi hentaði hægfara, bragðgóðri bráð á gresjum Afríku vel. Það hentaði í raun ágætlega allt fram á síðustu aldir. Hinir huglausu réðu etv. ekki miklu í miðöldum, en þeir voru síður brytjaðir í spað þegar valdastéttirnar tókust á.
Heimurinn hefur hins vegar gerbreyst, ekki síst á þeim áratugum sem liðnir eru frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Öfugt við það sem halda mætti þegar fylgst er með fréttum hefur heimurinn sífellt orðið öruggari. Í dag er það svo að flest okkar sem erum svo heppin að búa í ríkari hluta heimsins getum ferðast um nánast alla jörðina, ótrúlega örugg fyrir stríðum, ofbeldi og sjúkdómum. Þökk sé annars vegar samfélagsþróun sem í auknum mæli kann að meta öryggi, stöðugleika, lög og reglu og hins vegar vísindum og verkfræði sem hafa fært okkur þekkingu til smíða farartæki og bjóða náttúröflunum byrginn í stóru sem smáu.
Þetta er algert einsdæmi í veraldarsögunni, og í raun alveg ótrúlegt afrek mannsandans.
Samt erum við flest skíthrædd við heiminn. Ekki bara við útlönd og ferðalög, heldur allt sem ýtir á óþægindarammann: Samskipti við ókunnuga, mannfjölda, möguleikann á að missa vinnuna, óvenjulegan mat og í rauninni flest það sem ekki tilheyrir daglegri rútínu okkar.
Og á þetta óöryggi okkar er óspart spilað. Við erum minnt á ógnvænlega atburði (árásirnar 11. september, Hrunið), sagt að óþekkt og oftast nafnlaus hætta steðji að okkur þannig að svipaðir atburðir gætu endurtekið sig (ISIS, erlendir hrægammasjóðir) og að viðbrögð við hættunni séu ekki á okkar færi. Þannig færum við og sættum við okkur við að færa meira vald og peninga til stjórnvalda, fyrirtækja og stofnana (aðgangur að persónuupplýsingum, handstýring hagkerfisins). Það er merkileg “tilviljun” hvað þeir sem við afhendum völdin eru oft þeir sömu og fluttu okkur skilaboðin til að byrja með.
Ekki svo að skilja að hryðjuverkaógn sé ekki til, nú eða harðir fjármálamenn sem einskis svífast í viðskiptum við lasburða hagkerfi. Hugrekki er dyggð, en fífldirfska ekki. En við hverri ógn þarf að bregðast í hlutfalli við hina raunverulegu, en ekki uppskrúfuðu áhættu. Ekki glepjast af sölumönnum óttans, það sem fyrir þeim vakir gengur oftast þvert á hagsmuni okkar hinna.
Staðreyndin er sú að stærstu ógnirnar sem að okkur steðja eru ósköp vel þekktar. Svo vel að þær eru allt að því leiðinlegar. Hjartasjúkdómar, krabbamein og umferðarslys. Ef við borðum sæmilega, hreyfum okkur, keyrum varlega, spennum beltin, högum okkur skikkanlega gagnvart náttúrunni og náunganum og HÆTTUM AÐ VERA SVONA HRÆDD VIÐ ALLT eru yfirgnæfandi líkur á að við lifum stórgóðu lífi vel fram á níræðisaldurinn.
Og þegar þar að kemur sakar ekki að hafa stigið nokkrum sinnum út fyrir þægindarammann og áttað sig á að útsýnið er hreint ekki svo slæmt þaðan. Heimurinn er of stór, og lífið of merkilegt til að verja því gagnrýnislítið, lafhræddur við nýjust ógnina sem haldið er að okkur.
Mèr finnst þù ekki vera ađ hugsa um börnin…