Nú er ég búinn að fylgjast með íslenskri pólitík frá útlöndum í bráðum 3 ár. Kemur í ljós að það er bráðhollt og gefur nýtt sjónarhorn á hlutina.
Með hverjum mánuðinum sem líður verð ég bæði reiðari og leiðari. Ísland er að mörgu leyti einstakt og frábært, en á engu að síður við nokkur mjög djúpstæð vandamál að etja. Sum í kjölfar hrunsins, önnur sem hafa verið lengur í gerjun, en hafa sannarlega ekki batnað eftir hrun. Þetta eru vandamál af því tagi sem munu ráða því hvort ungt og efnilegt fólk muni velja sér framtíðarbúsetu á Íslandi eða ekki og þar af leiðandi hafa meira um framtíð Íslands að segja en nokkuð annað. Með öðrum orðum, engin smámál!
Nú kann einhver að horfa á hagtölur og segja að á Íslandi sé allt í himnalagi. Vandinn er bara sá að innan fjármagnshafta er ekkert að marka hagtölurnar. Hagmælingar á Íslandi í dag eru svolítið eins og að ætla að taka veðrið uppi á jökli í hríðarkófi – en inni í tjaldi. Kannski kósí innandyra og mælarnir staðfesta það. Þú ert samt uppi á jökli, í hríðarbyl og engin björgunarsveit á leiðinni.
Gjaldeyrismálin eru eitt vandamálið. Fyrir ungt fólk sem hefur ekki stofnað til mikilla skuldbindinga á Íslandi, er heimurinn allur undir. Af hverju að velja að fá laun í gjaldmiðli sem hvergi er tekinn trúanlegur og takmarka lífeyris-, fjárfestinga- og sparnaðarkosti sína við þennan sama gjaldmiðil og örmarkað sem sagan sýnir að skoppar eins og korkur í stórsjó?
Gjaldeyrishöftin valda líka bólumyndun á öllum mörkuðum, ekki síst húsnæðismarkaði. Af hverju að velja að kaupa eða leigja íbúð sem er dýrari en sambærileg íbúð borgum með stærri og fleiri tækifæri og hærri laun? Hvað þá á markaði þar sem vextir eru margfaldir á við það sem býðst annars staðar?
Vandinn við höftin er sá að margar þær leiðir sem raunverulega munu létta á þeim munu hafa aðrar og jafnvel enn verri afleiðingar í för með sér: Gengisfall, sem leiðir af sér verðbólgu, sem hækkar lánin, sem veldur óstöðugleika á vinnumarkaði, sem…
Það eru til lausnir. Seðlabankinn hefur kortlagt þær fyrir löngu. Það eru ekki þær sem er verið að vinna að.
Samfélag sem ungt fólk vill búa í býður líka upp á gott skólakerfi á viðráðanlegum kjörum. Sérstaklega er mikilvægt að hafa nútímalegt háskólaumhverfi með öflugu samstarfi háskóla, atvinnulífs og fjárfesta. Slíkt ýtir undir nýsköpun sem skapar störf og áskoranir fyrir klárt og vel menntað fólk. Háskólarnir á Íslandi eru langt í frá fjármagnaðir með þeim hætti að þeir standi undir þessu.
Og svo þarf gott heilbrigðiskerfi. Það snýst bæði um tæki og aðstöðu, en umfram allt um fólk. Fólk sem hefur menntað sig erlendis og verður að finnast aðlaðandi að flytja heim. Til þess þarf að bjóða góð laun, en allt ofantalið þarf líka að vera á réttri leið.
Þetta eru allt leysanleg mál. Fyrsta skrefið er skýr framtíðarsýn. Að ákveða hvers konar samfélagi við viljum stefna að, ekki seinna á kjörtímabilinu, ekki eftir næstu kosningar, heldur til 20-30 ára.
Þegar ég horfi á stjórnmálin heima á Íslandi, þá sé ég enga framtíðarsýn, bara þras. Þras sem að mestu leyti snýst um fortíðina, dægurmál og tilraunir til að kenna hvert öðru um allt sem ekki er í lagi.
Það eru allir í pólitík og enginn í stjórnmálum.